Færslur: 2013 Febrúar

19.02.2013 09:55

Spurningakeppnir fyrr og nú



859. Þessa stórskemmtilegu uppsetningu má sjá á vefnum siglfirdingur.is. Hér er vissulega stórt spurt, en svarið fæst þó ekki fyrr en með vorinu. Eins og fram kemur stendur fyrir dyrum að halda spurningakeppni átthagafélaga sem rekja rætur sínar til margra og merkra staða víðs vegar um landið og án nokkurs vafa verður hún hin skemmtilegasta. Félögin sem taka þátt í keppninni eru: Árnesingafélagið, Átthagafélag Héraðsmanna, Átthagafélag Sléttuhrepps, Átthagafélag Strandamanna, Barðstrendingafélagið, Breiðfirðingafélagið, Dýrfirðingafélagið, Félag Djúpmanna, Húnvetningafélagið, Norðfirðingafélagið, Siglfirðingafélagið, Skaftfellingafélagið, Stokkseyringafélagið, Súgfirðingafélagið, Vestfirðingafélagið og Önfirðingafélagið. Keppnin sem verður haldin í Breiðfirðingabúð, hefst 28. febrúar og lýkur á síðasta vetrardag. 

-

En spurningin sem borin er fram getur þó varla talist út í hött þegar að er gáð og litið til fortíðar, því fordæmi eru fyrir því að Siglfirðingar hafi í raun stimplað sig inn sem mestu gáfumenn landsins. Það gerðist veturinn 1964-65 í geysivinsælum útvarpsþáttum sem útvarpað var á sunnudagskvöldum og nefndust "Kaupstaðirnir keppa". Birgir Ísleifur Gunnarsson og Guðni Þórðarson stjórnuðu þáttunum og leikarinn góðkunni Gunnar Eyjólfsson var kynnir. Keppnin var útsláttarkeppni og kepptu kaupstaðirnir þeirri röð sem hér segir:

18. nóv. 1964 Hafnarfjörður og Kópavogur.

29. nóv. 1964  Neskaupstaður og Seyðisfjörður.

13. des. 1964 Keflavík og Vestmannaeyjar. 

03. jan . 1965 Húsavík og Siglufjörður.

17. jan. 1965 Akranes og ísafjörður.

31. jan. 1965 Akureyri og Reykjavík.

14. febr. 1965 Hafnarfjörður og Neskaupstaður.

28. febr. 1965 Ísafjörður og Vestmannaeyjar.

14. mars 1965 Akureyri og Siglufjörður.

28. mars. 1965 : Hafnarfjörður og Vestmannaeyjar.

11. apríl. 1965 Sauðárkrókur og  Siglufjörður.

-

Þann 2. maí 1965 kl. 20.45 var svo komið að úrslitakeppninni milli Hafnfirðinga sem sigrað höfðu lið Vestmannaeyja og Siglfirðinga sem borið höfðu Sauðkræklinga ofurliði. Þar höfðu Siglfirðingar betur og sá sem þetta ritar gleymir ekki hinni rafmögnuðu spennu sem ríkti meðal bæjarbúa, enda orðinn næstum tíu ára og eyrun límdust hreinlega við útvarpið þegar þættinum var útvarpað.


Hið magnaða sigurlið Siglfirðinga: Frá vinstri eru Pétur Gautur Kristjánsson fulltrúi sýslumanns, Benedikt Sigurðsson kennari og Hlöðver Sigurðsson skólastjóri. Sérstaka athygli vekur auðvitað pípa Péturs sem hann skildi nánast aldrei við sig, en á þessum tíma þótti ekkert tiltökumál að reykt væri nánast hvar sem var. Í aðdraganda keppninnar er sagt að maður nokkur hafa átt erindi við Pétur á heimili hans. Hann fannst hvergi í fyrstu, en að lokum uppgötvaðist verustaður hans með þeim hætti að reykur sást liðast upp fyrir brúnina á risastórum bókastafla sem hann var á bak við. Mun þá Pétur hafa verið að undirbúa sig fyrir keppnina.

(Ljósmynd Steingrímur)


Í kjölfarið fylltust bæjarbúar auðvitað stolti yfir hinum frábæra árangri sinna manna og liðsmennirnir sem staðið höfðu sig svo vel, voru auðvitað ekkert annað en hetjur í augum þeirra sem heima sátu og hlustuðu spenntir á viðureignina. Þegar þarna var komið sögu hafði Benedikt kennt mér heila þrjá vetur í Barnaskóla Siglufjarðar og ég hafði alla tíð litið mjög upp til hans sem kennara, en eftir þetta breyttist hann í huga mér í eins konar hálfguð og vitsmunaveru sem var af einhverju allt öðru kalíberi en venjulegt gat talist. Auðvitað voru hinir keppendurnir settir í sama flokk, en Benedikt var sá eini þeirra sem ég þekkti vorið 1965. Það átti svo eftir að breytast í 12 ára bekknum þegar Hlöðver kenndi okkur krökkunum og við bárum svolítið óttablandna virðingu annars vegar fyrir honum sem skólastjóra og hins vegar fyrir gáfumanninum úr sigurliðinu.

-

Mogginn sagði svo frá þ. 14. maí 1965

Á SUNNUDAGSKVÖLD, 2. maí, lauk vinsælasta skemmtiþætti vetrarins: "Kaupstaðirnir keppa". Sigruðu þá Siglfirðingar Hafnfirðinga og urðu þar með sigurvegarar í þessari keppni og hljóta í verðlaun ókeypis flugfar til og frá Höfn, svo og uppihald þar í nokkra daga. Þessi kaupstaðakeppni er ein snjallasta hugdetta, sem þeir hafa fengið árum saman, útvarpsmenn. Hún hefur áreíðanlega glætt áhuga á útvarpinu vítt og breitt um landið, einkum meðal yngra fólks. Má þó segja, að efnið hæfði öllum aldursflokkum, sem útvarpsefni.

Ingvar Gí

-

Þjóðviljinn sagði líka frá úrslitunum sem var auðvitað ekkert undarlegt, því það má jafnvel halda því fram með ágætum rökum að hann hafi á vissan hátt átt sína fulltrúa í sigurliðinu.


                              

                              

Þjóðviljinn gerir þarna Pétur Gaut að Siglfirðingi í umsögn sinni eins og fram kemur í úrklippunni hér að ofan og auðvitað vildum við eiga hann eftir hina frábæru frammistöðu. Væntanlega hafa því fáir gert einhverja athugasemd við "eyrnamarkið". Hann var þó fæddur Seyðfirðingur, en ólst upp í Stykkishólmi og Hafnarfirði. Árin hans á Siglufirði voru ekki mjög mörg, því hann var þar fulltrúi sýslumanns á árunum 1961-1966 en flytur eftir það til Vestmannaeyja.

-

Gera má ráð fyrir að ekki hafi margir hlustað á fréttir, veðurfregnir og íþróttaspjall Sigurðar Sigurðssonar sem voru næstu liðir útvarpsins þetta kvöld, því sigurvíman hefur eflaust verið nokkra stund að renna af mönnum. En Siglfirðingar höfðu þó ekki yfirgefið þennan eina ljósvakamiðil landsins þetta kvöld, því dagskránni lauk með danslögum sem Heiðar Ástvaldsson valdi.

14.02.2013 01:57

Í minningu vagns 310


858. Það rata ekki allar fréttir "í fréttirnar", það hef ég upplifað og sannreynt nokkrum sinnum um dagana og þessi uppákoma er greinilega og svo sannarlega ein af þeim. Sennilega hafa allir fréttaöflunarmennirnir verið steinsofandi  kl. 06.20 þegar atburðurinn átti sér stað.

Í morgunsárið fórum við "strætókallarnir" í Kópavogi af stað laust upp úr kl. 06, komum okkur fyrir á sínum byrjunarreit að vanda og hófum síðan akstur saamkvæmt skipuriti. Ég ók þetta morgunsárið frá Hamraborg kl. 06.36 áleiðis í Mjódd um Vatnsenda. Á leiðinni heyrði ég í talstöðinni að eitthvað hefði greinilega farið úrskeiðis hjá einhverjum og þegar ég ók inn á Lindarveg eftir að hafa farið fram hjá Smáralindinni blasti við það sem má sjá á myndinni hér að ofan.

Eldur í strætó er eins langt frá því að vera nokkurt grin og hugsast getur og ég velti því strax fyrir mér hvort einhver slys hefðu orðið á fólki, - en vonaði auðvitað að svo væri ekki.

"Þetta er sennilega vagn sem hefur verið á leið 2" hugsaði ég og ók áfram upp Hlíðardalsveg.

Þegar ég var kominn upp á það sem ég kalla "hálendi Kópavogs" (Lindir, Salir, Kórar, Þing og Hvörf) fór mig þó að gruna eitt og annað. Ég ók öðrum vagni morgunsins sem fylltist von bráðar og eiginlega mun fyrr en venjulega eða grunsamlega fljótt. Margir kvörtuðu yfir að næsti vagn á undan mér (þ.e. fyrsti morgunvagninn) hlyti annað hvort að hafa verið á undan tímanum eða hreinlega ekki mætt. Sumir voru greinilega frekar súrir, reiðir og fúlir, enda hugsanlega orðnir of seinir til vinnu eða annarra tímasettra verka. Mér leist hins vegar ekki á málið í heild sinni þegar þarna var komið sögu og kallaði á Þjónustuver sem vissi ekkert um brunann. Ég hafði því samband niður á Kynnisferðir þar sem ég fékk að vita að kviknað hefði í vagni 310 (sem er einn af oss) og væri hann sennilega mjög illa farinn eða jafnvel ónýtur þar sem slökkviliðsmenn hefðu nánast klippt afturendann af honum til að komast að upptökum eldsins, þrátt fyrir að bílstjórinn (gamall kunningi úr videóbransanum frá því í denn) hefði farið langt með að slökkva hann áður en "liðið" mætti á staðinn.

Ég reyndi að segja þeim sem gagnrýndu hina "lélegu" þjónustu Strætó frá því hvað hafði gerst þarna um morguninn, en flestir horfðu á mig með fyrirlitlegu og vorkunarblöndnu augnaráði fullu af vanrtú og fannst afsökunin um strætisvagninn sem brann vera með lélegustu, aumkunnarverðustu og dapurlegustu afsökunum ever eða þannig...

Það var jú ekkert um þetta mál í fréttunum - og svo gerðist þetta á sjálfan ÖSKUDAGINN...


  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 151
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 302948
Samtals gestir: 32753
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 03:13:19
clockhere

Tenglar

Eldra efni