Færslur: 2011 Mars

28.03.2011 03:01

Oh mamy blue.

701. Það var fyrir heilum fjórum áratugum síðan þegar hljómsveitin Frum var starfandi á Siglufirði, að nýtt lag varð vinsælt með slíkum ólíkindahraða að fáheyrt er. Það heyrðist fyrst í "Lögum unga fólksins" á þriðjudagskvöldi og áður en vikan var öll, var lagið á hvers manns vörum og sinni. Á þessum tíma spilaði hljómsveitin gríðarlega mikið í Allanum á Akureyri. Oftast aðra hverja helgi yfir sumarið og eitthvað á veturnar líka. Hún var eiginlega talsvert stærra númer þar í bæ en á sínum heimaslóðum. Eins og þeirra var gjarnan siður sem gerðu út á poppmarkaðinn, var setið yfir umræddum útvarpsþætti með kassettutæki ef þar kæmi eitthvað nýtilegt fram. Vísifingur og langa töng hægri handar voru þá tilbúnar á rec og play takkanum ef eitthvað yrði kynnt til sögunnar sem vænlegt þætti til notkunar. Þannig gerðist það einmitt að ofursmellurinn "Oh mamy blue" rataði inn á bandið, en það var upphaflega flutt af bresku hljómsveitinni Pop Tops en síðar gefið út af SG-hljómplötum með Mjöll Hólm. Það var auðvitað æft í einum hvínandi hvelli, því leiðin lá þá einmitt í Allann á Akureyri helgina á eftir. En það sem gerðist þegar við spiluðum lagið verður vart með orðum lýst. Salurinn hreinlega ærðist og þó einkum og sér í lagi yngri hluti kvenþjóðarinnar. Því verður ekki neitað að lagið féll afar vel að raddöndum söngvarans Guðmundar Ingólfssonar sem þá var rétt kominn yfir tvítugt. Við urðum svo auðvitað að endurtaka það sex, átta eða tíu sinnum um kvöldið og ég er ekki frá því að einhverjar ungmeyjar hafi fellt ofurlítið aðdáunartár við brún hljómsveitarpallsins og fótskör meistarans. Eftir að ballið var búið hófst þessi venjubundna rútína sem flestir popparar þekkja svo vel, það var farið að aftengja hljóðfærin, pakka niður og gera okkur klára til heimferðar. Að þessu sinni vorum við einum færri en vanalega, því eftir að við vorum búnir að pakka, gera upp og koma hljóðfærunum út í bíl, var söngstjarnan enn að gefa ungum táningsstúlkum eiginhandaráritanir. Þennan dag öfundaði ég Gumma Ingólfs af kvenhylli sinni.

28.03.2011 02:54

Sukkið í síldarbænum


(Ljósmynd úr safni Gunnars Bíldal)

700. Fyrir nokkrum vikum átti ég leið fram hjá hinu stórskemmtilega "Magasíni" Góða hirðinum og þar sem ég var á óvenju lítilli hraðferð, datt mér í hug að kíkja þar við. Eins og svo oft gerist þegar ég lít þarna inn, er ég fljótlega kominn að bókahillunum sem undantekningalítið þýðir að ég fer ekki tómhentur út. Þannig varð það einnig að þessu sinni, því mjög fljótlega rakst ég á bókina "Svartur sjór af síld" eftir Birgir Sigurðsson. Það er vægt til orða tekið að hún hafi síðan átt vísan stað á náttborðinu svo og öðrum þeim stöðum þar sem gjarnan er gripið til lesefnis, því hún grípur þann lesanda heljartökum sem hefur á annað borð áhuga á umfjöllunarefninu. ¨Svartur sjór af síld¨ er frábært lesefni, vel skrifuð, orðtak afar líflegt en þó er hún laus við óþarfa skrúðmælgi. Hún er mikill og góður pakki þar sem blandast saman skemmtun og fróðleikur í hárréttum hlutföllum. En hún er laus við þá einsleitni sem stundum er einkennandi fyrir upprifjun margra þeirra sem lifað hafa ævintýrið mikla og sjá það í rómantískri blámóðu fjarskans. Tíminn fer nefnilega stundum þannig höndum um minningar okkar mannanna, að hann mýkir útlínur misfellanna svo þær verða jafnvel ljúfsárar í mistri fjarlægðarinnar og vekja upp eftirsjá ekkert síður en hinar betri stundir.
Það hefur þó löngum farið miklu minna fyrir neikvæðu umfjölluninni þegar horft er til baka, en hún var þó til staðar og einnig að skoðanir fólksins í landinu voru síður en svo á eina lund gagnvart silfri hafsins og vinnslu þess. Birgir sleppir ekki þeim þætti málsins og það verður að segjast að oft rekur lesandann (þ.e. mig) í rogastans, því hinar dekkri hliðar eru bæði fleiri og allt öðruvísi en ég hafði gert mér í hugarlund. Þar hefur lengst af ekki verið talið mikið mál að vera vitur eftir á og það á líklega mjög vel við þegar sagan eða söguhlutar síldaráranna eru skoðaðir. Hvar átti skynsemin, réttsýnin og framsýnin heima og hvar ekki?
Hér að neðan eru nokkrar að mér finnst magnaðar tilvitnanir í þessa ágætu bók:

Hvernig voru svo viðhorf manna til þessa atvinnuvegar sem hóf menn ýmist til æðstu fullnægðar gróðahvatar eða hratt þeim í hyldýpi niðurlægingar, eignamissis og vonleysis? Hvað sögðu bændur sem voru í samkeppni um vinnuafl og fjármagn við þennan atvinnuveg? Hvað sögðu vammlausar sálir til sveita og sjávar um frjálsræðislífið í síldarverstöðinni?
-
Tíminn spyr 24 ágúst 1920: "Hvað er síldveiðin?" Svarar síðan spurningunni: "Hún er einhver farsældarminnsti atvinnuvegur sem rekinn er á Íslandi. Hún er rekin eingöngu í ca. tvo mánuði, einmitt um hábjargræðistímann. Hún tekur þá karla og konur hundruðum saman frá aðalatvinnuvegum landsins landbúnaðinum og þorskveiðunum. Þeim sem afkoma þjóðarinnar er undir komin, þeim sem veita atvinnu allt árið. Hún er hið glæfralegasta fjárhættuspil. Hún hefur komið af stað óheilbrigðri og óeðlilegri keppni um að ráða verkafólk til stórtjóns fyrir aðra atvinnuvegi landsmanna. Hún er sá atvinnuvegur þar sem hyggindi og atorka mega sín lítils en langmest er undir heppni komið. Hún ræður verðlagi á vinnu. Hún getur verið og hefur í mörgum tilfellum verið siðspillandi atvinnuvegur. Hún er sá atvinnuvegur sem gerir hinum ábyggilegu atvinnuvegum stórkostlega erfitt fyrir."
-
Magnús Guðmundsson fjármálaráðherra: "Síldveiðarnar eru versti keppinautur bænda. Þeir kvarta um vöntun á vinnukrafti um sláttinn, hver getur reiknað út það böl, sem af því getur leitt og hefur leitt?"
-
Pétur Ottesen: "Enginn skaði hefði það verið fyrir þjóðina, þótt hún (síldarútgerðin) hefði aldei verið rekin."
-
Bændur höfðu lengi haft horn í síðu síldveiðanna. Og það var von. Alveg frá því fyrir aldamót, þegar landnótaveiðin var stunduð í Eyjafirði, einu búsældarlegasta héraði landsins fyrr og síðar, höfðu þeir mátt horfa á sídina svelgja til sín vinnukraftinn, svo þeir áttu í erfiðleikum með að ná heyjum sínum fyrir vinnufólkseklu. Andúð bændastéttarinnar á þessum "óþjóðholla" atvinnuvegi átti sér þó enn dýpri rætur. Það hrikti í máttastoðum þessarar stéttar sem hafði til skamms tíma ráðið lögum og lofum í atvinnulífi þjóðarinnar og löngum verið lofuð í ræðu og riti sem kjölfesta þjóðarinnar, burðarás þjóðlegrar menningar. þar með losnaði um þau tök sem bændastéttin hafð haft á verkafólki frá alda öðli í skjóli laga og hefða sem renndu traustum stoðum undir óskorað bændaveldi sem skammtaði vinnuhjúum laun og kjör að geðþótta.
-
Pétur Ottesen þingmaður vefur illyrðum um síldarfólk inn í andúð sína á þessum atvinnuvegi. Í þingræðu talar hann um "spjöll sem orðið hafa á hugsanahætti fólksins. fyrir áhrif útlendrar ómenningar." Hann kallar síldarfólkið "landshornalýð" og "ruslaralýð."
-
Illræmdastur allra staða verður Siglufjörður. Kitlandi andúðarhrollur fer um bókstafsmenn dyggðanna þegar þeir horfa norður og niður í þetta díki forboðinna lifnaðarhátta þar sem spillingin vellur og kraumar í fúlum grúti, umvafin viðurstyggilegri brækju og allir hafa peninga eins og skít. Síldarstúlkan er hóra, sjómaðurinn slagsmálahundur og dryggjusvoli, útfgerðarmaðurinn svikafullur braskari, Siglfirðingar siðlaus lýður.
-
Siglufjörður er svínastía,
Satan þar býr og árar hans.
Ómenni þangað ótal flýja,
úr ýmsum héruðum þessa lands.
Lygi og svik þar lifa flott,
úr lýðnum sanngirni víkur brott.

Þar er Hallgrímur þjófagreppur,
Þorsteinn svikari Pétursbur.
Bæjarfógeti lögbrjótsleppur,
læknishálfbjáni gæðaþur.
Kaupmannasveit á kostum rýr,
kvenvargafans og yxna kýr.

Fram yfir dimmar humrahallir,
háreistar mæna bryggjurnar.
Kring um þær híma hringaþallir,
helkaldar margar næturnar.
Þó brimaldan hvæsi og bylji regn,
bíða þær eftir norskun þegn.

Sjái þær báta leggja að landi,
laumast þær fram á bryggjusporð.
Leystar frá öllu lífsins grandi,
og láta af munni nokkur orð.
Feta svo upp í fúlan krók,
fletta upp pilsi og niður brók.

Svona er lífið á Siglufirði,
sýna þar fáir gestrisni.
Fjandinn með eiturormabyrði,
uppbyggir þar nýtt Helvíti.
Allflestir lifa ýtar þar,
öðrum og sér til bölvunar."

Greinilegt er að sumum er heitt í hamsi og ekki nein síldarrómantík efst í huga.
En svo mörg voru þau orð að sinni og reyndar voru þau miklu fleiri.

26.03.2011 23:49

Ingveldur Eiríks


 

699. Mér barst athugasemd við mynd á 123.is. Skilaboðin sem fylgdu voru eftirfarandi... Sæll vertu hver teiknaði þessa mynd? - Kveðja Ingveldur Eiriks.

Þegar ég vildi svara fyrirspurninni áttaði ég mig á að ekkert netfang fylgdi svo ég gat ekki sent svarið til hennar Ingveldar. Ef hún skyldi rekast hingað inn ef það hins vegar eftirfarandi: Sá sem teiknaði myndina heitir Skúli Elíasson og hún er utan á vegg gamla sláturhússins á Þingeyri. Þess má einnig geta svona í leiðinni að sá hinn sami Skúli "alltmúlígtmann" byggði m.a. víkingaskipið Dýrfirðing.

En því má svo bæta við að ég er núna nýkominn suður í stutt "helgarleyfi" og í beinu framhaldi u.þ.b. að verða nýfarinn aftur norður á Sigló. Ástæðan fyrir ferðinni er sú að verið var að skíra afabarn no. 5 og auðvitað má ekki missa af slíkum stórviðburði. Það er svo farið að styttast í áfangalok nyrðra, sennilega aðeins rúm vika í afhendingu íbúðar og þá verður væntanlega andað með nefinu í einhvern tíma.

05.03.2011 17:33

Endurbætur á Suðurgötu

698. Þegar þessi færsla birtist verð ég búinn að dvelja á Sigló í einhverja daga og jafnvel farið að styttast í suðurferð. Þar er ég ekki í netsambandi, en á það stundum til að skrifa einn og einn "stubb" fyrirfram sem ég virkja svo ef ég kemst í tölvu nyrðra.Hér að neðan er svolítið sýnishorn af því sem þar hefur verið að gerast. Það er gaman að sjá hlutina breytast til batnaðar en myndirnar eru allar teknar inni í sama rýminu.

Nú er lokaspretturinn eftir í eldhúsinu og reyndar í fleiri herbergjum, og eins gott að "láta ekki deigan síga" því afhending á að fara fram þ. 1. apríl. nk.

04.03.2011 08:34

Gerfihreyfingar á fasteignamarkaði


698. Ég átti leið á fasteignasölu á dögunum og hitti þar fyrir ágætan kunningja sem þar starfar. Ég spurði frétta af gangi mála á markaðinum, en hann bar sig ekkert sérlega vel og sagði hann jafn steindauðan og botnfrosinn eins og hann hefði verið síðustu tvö árin. Þetta fannst mér í ósamræmi við fréttaflutning af fjölda þinglýstra kaupsamninga og viðtal við formann félags fasteignasala sem sagði í sjónvarpsviðtali á dögunum eitthvað á þá leið að heldur væri nú að hýrna yfir. Kunninginn sagði þetta tóma þvælu og kjaftæði, fjöldi þinglýstra samninga stafaði af því að bankarnir væru að leysa til sín eignir eða kaupa þær á uppborðum. Þegar slíkt gerðist, þyrfti auðvitað að þinglýsa eigninni á hinn nýja eiganda og þar með væri komin skráð sala. Svo væri líka verið að færa eignir á milli kennitalna, oftast innan fjölskyldna og það væri líka skráð sem sala af sömu ástæðu. Að vísu hefði nauðsynleg skjalagerð vegna slíkra gjörninga skapað svolitla vinnu og komið í veg fyrir algjört hrun í stofninum.

Hann vildi sem sagt meina að tegundin "fasteignasalar" væri í útrýmingarhættu.

En svo bætti hann því við að það væru að vísu tvær fasteignasölur sem hefðu meira en nóg að gera við að verðmeta fyrir bankana.

Bara tvær? Ég hváði og vildi fá frekari útskýringar.

Jú, það væri þessi 110% regla og afskriftir bankanna á því sem þá stæði út af.

Það er auðvitað mikið hagsmunamál fyrir bankana að matið sé sem hæst því þá þarf minna að afskrifa. Tvær fasteignasölur náðu fljótlega bróðurpartinum af þessum viðskiptum því þær mátu allar eignir á yfirverði.

Mig langaði auðvitað til að vita hvaða fasteignasölur það væru.

"Eignamiðlunin og Fasteignamarkaðurinn en ekki nefna mig á nafn" sagði viðmælandi minn.

02.03.2011 18:18

Egill og Kiljan á Sigló

                                     

697. Miðvikudaginn 23. febrúar s.l. var ég staddur á Siglufirði. Reyndar hafði ég skotist í svolítinn matarbita, en tafist í símanum eftir hádegið þennan dag og klukkan var farin að halla í tvö. Að símtalinu loknu skynja ég á einhvern hátt sem ég kann þó ekki að skýra, að eitthvað er ekki alveg með sama brag og flesta aðra daga. Raddir sem bárust utan af götunni hljómuðu ókunnugar og hrynjandinn virtist svolítið nýstárlegur. Ég gægðist út um stofugluggann og sá að tilfinningin fyrir hinu óvenjulega átti við rök að styðjast. Á gangstéttinni hinum megin við götuna stóð Örlygur Kristfinnsson (sameign okkar Siglfirðinga) og hjá honum aðkomumaður sem mér fannst að ég ætti kannast eitthvað við. Sá aðkomni talaði mikið og hratt, pataði til beggja átta og það var eins og hann væri að gefa einhverjar skipanir.
"Mikið asskoti minnir hann mig á Egil í Silfrinu" hugsaði ég með mér. Svo áttaði
ég mig á að þetta var sá hinn sami Egill og þá sá ég líka tökuliðið sem stóð álengdar og mundaði kamerurnar. Eðlislæg forvitni mín varð til þess að ég opnaði gluggann upp á hálfa gátt og stakk hausnum út. Þá sá ég að ein myndavélin lyftist og ég veifaði inn í linsuna þegar ég vissi að hún beindist að mér. Myndatökustelpan brosti þá svolítið skökku brosi út í annað munnvikið, lét vélina síga aftur og veifaði á móti. Kannski var hún að stríða mér svolítið eða fæla mig úr glugganum til að geta myndað húsið án óæskilegra og ófrýnilegra andlita í glugga. Ég vissi að klipparinn sæi til þess að öll röskun á hinu slétta og
fellda yrði fjarlægð, lagði við hlustir og áttaði mig fljótlega á hvað var í bígerð.
Það var greinilega verið að taka upp efni fyrir Kiljuna og Örlygur var að fara yfir síðasta kaflann úr bóki sinni "Svipmyndir frá Siglufirði." Hann var að segja frá lífshlaupi Aage Schiöth meðan myndavélarnar beindust ýmist að honum eða
húsinu sem Schiöth byggði meðan ríkidæmi hans var sem mest. Húsinu MÍNU sem ég var á þessari stundu enn stoltari af en áður, þar sem ég var kominn bæði með höfuð og herðar út um gluggann. Ég hlustaði á Örlyg enda frásögn sína á því að segja frá hinum dapurlegu æfilokum apótekarans sem hafði vissulega lifað bæði hátt og lágt ef þannig mætti orða hlutina. Ég horfði síðan á eftir Ölla, Agli og öllu myndakrúinu rölta niður eftir götunni og halda áfram yfirferð sinni, enda er gnótt verðugra viðfangsefna  að finna í gamla Sildarbænum.

Viku síðar eða miðvikudaginn 2. mars var svo fyrsti hlutinn úr Siglufjarðarleiðangri Egils á skjánum, en það var jafnframt ljóst að þeir þeir hlutar eiga eftir að verða fleiri.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 315
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344674
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:48:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni