Færslur: 2011 Október

30.10.2011 07:35

Össur veit auðvitað betur


765. Paul Krugman sem er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, var einn þeirra sem mættu á ráðstefnuna í Hörpunni sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og íslensk stjórnvöld stóðu fyrir í sameiningu. Þar sagði hann að sveigjanleiki krónunnar hefði hj´alpað mikið við að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Hann varaði mjög við upptöku evrunnar og sagði að Ísland myndi standa mun betur að vígi án hennar.Þessa skemmtilega útfærðu mynd fann ég inni á bloggsíðu núverandi Innanríkisráðherra, en hann setti hana þar inn áður en hann tók sæti núverandi ríkisstjórn sem sótti um inngöngu í Evrópusambandið.

Össur Skarphéðinsson sem er líffræðingur að mennt með fiskeldi sem sérgrein, er ósammála nóbelsverðlaunahafanum og telur sig vita betur þegar hagfræði er annars vegar.Svo má bæta því við að Martin Wolf er aðalhagfræðingur breska stórblaðsins Financial Times og þykir býsna góður í sínu fagi. Hann segir að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið enda munum við ekki hafa nokkur áhrif þar.

Martin Wolf segir okkur að Evrópuþjóðirnar muni ásælast íslenskar auðlindir hér eftir sem hingað til og við gætum alveg eins gengið beint í Þýskaland.

-

Athyglisvert.


29.10.2011 14:19

Haustlitir


764. Áður en ég yfirgaf Siglufjörð fyrr í októbermánuði sem nú er senn á enda, fór ég í svolítinn leiðangur þar sem ég leitaði haustlitanna. En það er ekkert endilega sjálfgefið að fallega haustliti sé helst að finna þar sem gróður er mikill. Að því komst ég þegar ég leit við í skógræktinni og ég sá ekki ástæðu til myndatöku á þeim slóðum. Þar vantar alveg rauða litinn og hreint ótrúlega lítið er af þeim gula miðað við gróðurmagnið. 
Væri nokkuð slæm hugmynd að gróðursetja eitthvað af runnum, t.d. á nokkrum völdum áningarstöðum, beinlínis með haustlitina í huga. Eitthvað segir mér að ferðum fjarðarbúa myndi fjölga í þennan nyrsta skóg landsins við slíkt.
25.10.2011 16:33

Smáfjallið Keilir


763. Það máltæki er þekkt sem segir að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Líklega á það ágætlega við um fyrirætlanir mínar síðan um mitt ár 2007, þar sem smáfjallið Keilir stendur þá fyrir þúfuna og ég fyrir hlassið.
Það var í júnímánuði það fræga ár 2007 að Gámaþjónustugönguhópurinn lagði upp í þeim tilgangi að ganga á Keili, og ekkert bennti til annars en sú ætlun myndi ganga eftir, bæði vel og greiðlega.
Hún gerði það líka framan af, eða allt þar til við vorum komin upp í miðjar hlíðarnar. Þá fór skyndilega að hvessa og eftir ótrúlega stutta stund var komið hífandi rok. Ég tók samt nokkrar myndir, en þær reyndust allar vera mismunandi mikið hreyfðar þegar að var gáð og eins og sést hér.
Hífandi rok er þó sennilega full lítið sagt, því veðrið var alveg stjörnuvitlaust og engan vegin stætt. Við komumst eiginlega hvorki upp né niður fjallsöxlina sem er þó varla nokkur öxl, heldur miklu frekar eins og svolítið brot í skriðuna.
Húfan hans Magnúsar var löngu fokin út í veður og vind og hann barðist við að fjúka ekki sömu leið. Svo er ég ekki frá því að ég hafi heyrt í fjúkandi hraunmolum eða möl, svei mér þá.
Þegar lægði aðeins milli hviða, létum við okkur gossa fram af "axlarbrotinu" og niður skriðuna. Þar sem fjallið er ekki hátt, tók ekki langan tíma að komast niður að rótum þess, en þar var hins vegar hæglætis veður. - Skrýtið.
Síðan þessi ferð var farin hef ég margsinnis hugsað mér að ljúka við hafið verk, haska mér af stað, klára málið og komast á toppinn. Það er nú ekki eins og sé verið að plana ferð á Hvannadalshnjúk. En það hefur nú samt alltaf orðið eitthvað til þess að gera fyrirætlanir mínar um að komast upp á Keili í góðu veðri og taka fullt af myndum, að engu. Nánast í hverjum einasta mánuði síðastliðin fjögur ár, hafa hugsanir um alveg bráðaðkallandi og löngu tímabæra Keilisferð verið að dúkka upp einhvers staðar í undirmeðvitundinni.  Í gær mánudaginn 24. okt. virtist tækifærið svo hreinlega hafa fæðst með dagrenningunni. Um hádegisbilið var ég ákveðinn í að drífa mig af stað, en stundu síðar var ég ekki alveg eins viss. Auðvitað er margt sem þarf að gera, sem er meira aðkallandi en eitthvað rölt út um víðan völl. En veðrið var svo flott og það spáði rigningu mestalla vikuna. Það var ekki fyrr en um þrjúleytið sem ég loksins tók af skarið, ók af stað og staðnæmdist ekki fyrr en á bílastæðinu upp við Höskuldarvelli.
Ég staldraði aðeins við og virti fyrir mér hraunið, mosann og fjallahringinn. Ótrúlega flott allt saman í haustlitunum og glampandi sóskininu. Ég smellti af nokkrum myndum í átt að þéttbýlinu og Esjunni, Akrafjallinu og Skarðheiðinni.
Ég gekk af stað milli hraunbreiðunnar og misfellunnar í landslaginu sem er eins og langur varnargarður, hannaður til að stöðva hraunrennsli. Hinum megin og sunnan við hana (misfelluna) eru hinir rennisléttu og grösugu Höskuldarvellir og enn sunnar Trölladyngja. Þangað ætla ég líka einhvern tíma að fara.
Ég gekk áfram og var nú kominn alveg suður fyrir Keili. Mig minnti að einhvers staðar hérna ætti að sjást hvar gengið er upp á hraunið í átt að fjallinu, en vegna þess hve sólin var orðin lágt á lofti, var erfiðara að átta sig á umhverfinu. Skuggarnir voru orðnir ótrúlega langir og mjög dökkir, og sinan svo undarlega rauðleit.
Það vakti athygli mina hve mikið var af rjúpu á þessu svæði, og ég sem hélt að hún væri orðin með allra sjaldgæfustu fuglum. Alla vega hefur umræðan um verulega takmörkun á veiðum frá því sem áður var, bent til slíks. En þar sem ég var nú kominn nokkuð vestur fyrir fjallið þótti mér sýnt að ég hefði gengið fram hjá slóðanum yfir hraunið. Það var því um fátt annað að ræða en að demba sér yfir það þaðan sem ég var staddur og það slóðalaust. Að öðrum kosti myndi ég líklega ekki enda göngu mina fyrr en í Grindavík.
Ekki verður sagt að ég hafi farið stystu eða greiðfærustu leið að settu marki, en þetta hafðist nú allt saman. Reyndar var klukkan orðin heldur mikið og krókurinn hafði ekki farið vel með tímaáætlunina. En gat ég snúð við þegar stóð við rætur fjallsins? Nei, það var auðvitað alveg af og frá, þó það hefði eflaust verið það skynsamlegasta í stöðunni vegna orðinna tafa. Það var greinilega farið að rökkva, en þetta var nú ekki svo hátt. Klifrið upp er aðeins 250 metrar á hæðina, þó toppurinn sé að vísu 379 m yfir sjávarmáli. Ég lagði af stað upp skriðuna að sunnanverðu og dró ekkert af mér. Ég vissi að þetta var kapphlaup við klukkuna og í leiðinni birtuna. Fyrir mér er það nefnilega til lítils að klifra upp á fjall ef ekki er hægt að taka myndir. Ég var næstum því sprunginn af mæði þegar ég stóð á toppnum og smellti af í áttina að Keflavík. 
En stundin hafði gengið mér úr greipum og birtan með. Það var alveg sama hvaða stillingu ég prófaði, allar myndir urðu beinlínis vondar eins og sjá má. Ég hefði líklega getað náð einhverju vitrænu í flöguna ef ég hefði haft þrífótinn meðferðis og tekið myndir á tíma, en slíku var ekki að heilsa því hann var heima og meira að segja geymdur á bak við hurð. Það dimmdi hratt og ég sem átti eftir að ganga til baka yfir flatlendið, hraunið, eftir lægðinni milli hraunsins og misfellunar og að stæðinu. Það var því ekki um annað að ræða en drífa sig af stað niður. Ég renndi mér fótskriðu langleiðina niður á jafnsléttu og skokkaði síðan af stað. Leiðin að hrauninu var vörðuð og ég sá alltaf næstu vörðu bera við himin, því þær voru staðsettar þar sem landið var aðeins hærra en næsta umhverfi. Alveg frábær pæling þessar vörður.
Ég var nú kominn að hrauninu og sá í skini tungls og stjarna að slóðin var aðeins dekkri en nánasta umhverfi. Ég gaf mér þá tíma til að staldra við og smella lokamyndinni af Keili þar sem hann bar eins og kolsvarta og risavaxna hundaþúfu við dökkbláan himininn sem var með appelsínugulan kraga. Síðan fetaði ég mig áfram eftir slóðinni. Ég skal viðurkenna að mér fannst ekkert sérlega notalegt að sjá svört göt ofan í hraunið. Þar undir gat bæði verið pínulítið holrúm upp á fáeina sentímetra, en líka eitthvað miklu stærra. Þetta gekk nú samt allt saman bærilega til að byrja með, en á endanum týndi ég auðvitað slóðinni. Eftir það var farið mjög hægt yfir og stafirnir mikið notaðir til að kanna hvar best væri að drepa niður fæti. Hraunið er reyndar úfnara næst misfellunni en á móti kom að það var stutt eftir. Ég var mjög feginn þegar ég var skrönglaðist niður af hraunbrúninni og sá móta fyrir kindaslóðinni sem ég gat síðan fylgt alveg niður að bílastæði. Það var komið kolniðamyrkur og ég gekk næstum því á bílinn þegar ég kom að honum. Yfirleitt er talið hæfilegt að gefa sér 2-3 tíma til Keilisferðar, en ég var að þessu sinni heila 5 tíma. Það er þó ekki allt, því enn er tilgangnum ekki náð. Það á eftir að taka næstum allar myndirnar. Er ekki annars sagt að allt sé þegar þrennt er?


22.10.2011 05:26

Fyrsti bíllinn


762. Fyrir fáeinum dögum rakst ég á Sillu Gunnars og Huldu Kobbelt niður við mínikringluna Fjörð hér í Hafnarfirði. Við tókum auðvitað tal saman eins og "burtfloginna" er siður, og ræddum bæði nútímann hér syðra og fortíðina á heimaslóðum. Silla upplýsi mig um að hún ætti einhvers staðar í fórum sínum mynd af fyrsta hljómsveitarbílnum okkar strákanna í Frum, og ég spurði þá hvort ekki væri möguleiki að fá að skanna heimildina. Hún sagði það sjálfsagt mál, ef hún rækist á hana. Það var svo í vikunni að ég fékk bréf í póstkassann af gömlu gerðinni, þ.e. ekki með glugga eins og flest bréf eru orðin nú til dags, heldur frímerki, gamaldags stimpli og utan á það var handskrifað nafn mitt og heimilisfang. Ég varð bæði hissa og spenntur, því svona póstur er orðinn afar fátíður svo ekki sé meira sagt og enn er ekki kominn tími jólakorta. Upp úr umslaginu kom umrædd mynd af gamla rúgbrauðinu sem ég keypti af Ingimar Láka forðum daga. Þetta var bæði mikil og góð sending fyrir utan hvað heimildin var kærkomin. Bestu þakkir Silla.

 

Sögu bílsins kann ég að einhverju leyti, en hún er líklega frekar óhefðbundin a.m.k. á köflum. Seint á sjöunda áratugnum átti kaupfélagið Wolksvagen rúgbrauð sem Toni notaði til að sendast með vörur til viðskiptavina þess, auk þess sem það var nýtt í ýmis konar snatt eins og gengur. Með árunum fór gripurinn að lýjast og lokum var hann seldur fyrir slikk og fjárfest í Land Rover jeppa sem tók við hlutverki hans. Kaupandinn var stórmúsíkantinn Gerhard Schmidt og menn veltu eitthvað fyrir sér hvað sá góði maður hyggðist gera með þennan útkeyrða bíl. Aðspurður svaraði Gerhard fáu um það, en varð yfirleitt svolítið íbygginn á svipinn og eyddi gjarnan talinu. Sumarið eftir fór hann í frí til Þýskalans og tók bílinn með sér. Að einhverjum vikum liðnum kom hann aftur til landsins ásamt bílnum sem nú virtist heldur betur hafa fengið andlitslyftinu. Ýmsir urðu til þess að dást að vinnu þýsku bílasmiðanna, því allt ryð var horfið og bíllinn virtist vera eins og nýsprautaður, en þó ekki alveg. Einhverjir gáfu það í skyn að eitthvað væri nú undarlegt við þessar endurbætur og veltu upp þeim möguleika að þetta væri bara alls ekki sami bíllinn. Ég skal ekkert fullyrða neitt um það, en það kvisaðist út að einhverjir eftirmálar hefðu orðið vegna meints "bílainnflutnings" að hálfu tollyfirvalda. Einhverju sinni þegar ég mætti í píanótíma til meistarans, áræddi ég að spyrja hann út í bílamálin, en fór þó mjög varlega í það. Gerhard hló svolítið vandræðalega og sagði þetta ekki hafa verið eins góðan bisness og til hefði staðið, en spurði síðan í beinu framhaldi; "hvað ætluðum við svo að spila í dag".

 

Gerhard átti bílinn ekki mjög lengi og seldi hann Ingimar bakara. Ingimar átti hann í tvö eða þrjú ár, en auglýsti hann til sölu þegar hann hætti að baka á Hvanneyrarbrautinni. Það var þá sem ég keypti hann, því við ungpoppararnir vorum farnir að spila svolítið á alvöruböllum og vantaði því hljómsveitarbíl. Það mun hafa verið um vorið eða snemmsumars árið 1972, en þá var ég ennþá aðeins sextán ára. Við Guðni Sveins gítarleikarinn í bandinu vorum á þessum tíma nágrannar og gríðarlega miklir mátar, sem við erum reyndar enn þó minna fari fyrir því. Hann sem er fæddur í janúar var þá kominn með bílpróf, en ég mátti bíða til næsta árs þar sem ég er ekki fæddur fyrr en í nóvember, og á þessum tíma var ekki boðið upp á að taka bílpróf á Siglufirði nema yfir hásumarið. Það var því ákveðið að ég keypti bílinn, en Guðni yrði ökumaðurinn þar til ég gæti tekið við því embætti. Ég tók því út fermingapeningana mína, fékk svolitla viðbótaraðstoð frá afa ög ömmu og keypti bílinn. Kaupverðið var kr. 150.000 eða hundraðogfimmtíuþúsundkall. Sumarið og haustið var vægast sagt skemmtilegur tími, það var víða farið og margt brallað. Um veturinn kláraðist hins vegar vélin sem var öllu verra mál. Það virtist því um fátt annað að ræða en fjárfesta í svokölluðum skiptimótor frá Heklu sem var stórmál fyrir síblanka stráka sem "slepptu aldrei helgi" á þessum tíma. En í þessum vandræðum mínum barst mér hjálp úr óvæntri átt. Reynir Gunnarsson sem þá var nýfluttur í bæinn og vann með mér í frystihúsinu við Vetrarbrautina, bauðst til að aðstoða mig við að gera við vélina. Ég þáði það auðvitað, við tókum vélina úr bílnum og bárum hana inn í Sjálfstæðishúsið sem hljómsveitin var þá með á leigu. Hún var sett upp á gamalt aflóga eldhúsborð og skrúfuð þar í sundur. Ég fékk í kjölfarið lista yfir þá varahluti sem Reynir taldi vanta til koma henni aftur í gang, sem ég keypti og fannst ég sleppa vel miðað við verðið á skiptimótornum. Eftir tvær eða þrjár vikur var búið að skrúfa all saman aftur og viti menn, vélin fór í gang og meira að segja svínvirkaði. Ég tók gleði mína á ný og ég tók líka hið langþráða bílpróf um svipað leyti. Það var auðvitað rúntað sem aldrei fyrr og nánast hver einasta króna fór nú í bensín í staðinn fyrir bús. Einhverja nóttina var farið í kappakstur úti á Strönd við þá félaga Ásbjörn Blöndal og Magga Viðars sem voru á Cortinu sem mér fannst sprækari en góðu hófi gegndi. Leikurinn barst niður í bæ og endaði með því að bílarnir skullu saman niður við Ráðhústorg. Eftir það var illmögulegt að opna hurðina bílstjóramegin, en það varð bara að hafa það. Gamla rúgbrauðið var þegar þarna var komið sögu, orðið ákaflega þreytulegt að sjá. Til að flikka aðeins upp á útlitið fékk ég þá "bráðsnjöllu" hugmynd að mála það gult og svart. Ég keypti einn lítir af svörtu vinnuvélalakki og annan af gulu ásamt rándýrum lakkpensli, og byrjaði að mála. Ég lauk strax við svörtu röndina fyrir neðan gluggana ásamt öllu öðru því sem átti að verða svart, en gula málningin kláraðist fljótt. Á myndinni hér að ofan er sú hlið sem snýr að ljósmyndaranum ennþá ljósblá, en hinum megin var hún orðin vinnuvélagul. Ég hafði hugsað mér að halda málningarvinnunni  áfram þegar ég ætti pening fyrir meira lakki, en raunin varð sú að það var aldrei málað meira. Um haustið 1973 fór vélin öðru sinni, og voru þar með endalok fyrsta bílsins sem ég eignaðist ráðin.


16.10.2011 14:11

Stóri slagurinn og eldsvoðinn á Hótel Höfn761. Úrklippuna hér að ofan fann ég í Lesbók Morgunblaðsins frá 23. ágúst 1959. Ég minnist þess að í mínu ungdæmi heyrði ég oft talað um "stóra slaginn" á Höfninni, en það var ekki fyrr en löngu síðar að ég gerði mér grein fyrir því hve mikið gekk þarna á. Ég minnist þess líka að hafa á árum áður heyrt mér talsvert eldri menn hafa haft þau orð um ýmsar fréttir sem birtust af þessum atburði, að ekki væri alltaf allt sagt. Stundum væri reynt að fegra þátt lögreglunnar og því jafnvel haldið fram að gasnotkunin hefði hreint ekki verið eins nauðsynleg og ýmsir vildu vera láta. Einn lögregluþjónanna ellefu hefði einfaldlega "panikað" og það hefði ekki verið fyrr en eftir að sá annars ágæti maður hleypti af fyrsta táragasskotinu, að allt varð endanlega vitlaust. Það var jafnvel gengið svo langt að halda því blákalt fram að ef hann hefði ekki gert það, þá myndi tjónið ekki hafa orðið mikið meira en þessi eina rúða sem var ástða þess að lögregla var kölluð til. En það er nú stundum svo margt sagt og yfirleitt mest eftir á.

 

Á árunum upp úr 1970 vann ég í frystihúsi S.R. við Vetrarbraut, en þar var kaffistofan fyrir mér eins og risastór gluggi til fortíðar. Þar heyrði ég margar krassandi og stórskemmtilegar sögur og menn skiptust á skoðunum, stundum ekki alveg hávaðalaust. Þarna voru margir og miklir snillingar saman komnir, bræðurnir Bjössi og Jón Frímannssynir, Siggi frá Dalabæ, Hallur Garibalda, Sigurjón Sigtryggs, Jóhannes Hjálmars, Jóhannes Jóseps, Friðrik Márusson, Hafsteinn Hólm, Kári Sumarliða og Ingimar Láka svo einhverjir séu nefndir. Ég man eftir að a.m.k. einu sinni var "stóri slagurinn" tekinn fyrir á Kaffistofunni og menn skiptust í nokkuð afgerandi hópa þegar rætt var um hver hinn raunverulegi sökudólgur var.

 

Á síldarævintýrinu 2010 átti Gunnar Smári alveg frábært viðtal við Ragnar Pál listmálara og gítarleikara um "stóra slaginn" á Höfninni. Ragnar mundi þetta allt saman greinilega mjög vel og sagði bæði frá aðdragandanum og því sem á eftir gekk. Eitt af því sem kom einkar vel fram í frásögn hans var, hve eyðileggingin var gríðarleg og að almennt var talið að langan tíma myndi taka að gera húsið nothæft á ný. Reyndar var það skoðun flestra nema "Palla á Höfninni" sem var hinn bjartsýnasti að venju og taldi lítið mál að klára þetta fyrir næstu helgi. "Þetta er ekkert mál" sagði hann og flest allir iðnaðarmenn í bænum unnu á staðnum alla vikuna frá því eldsnemma á morgnana og langt fram á nótt. Næstu helgi mun svo hafa verið haldinn dansleikur í nýuppgerðri Hótel Höfn.

Þessi "heimildamynd" birtist í Alþýðublaðinu þ. 28. júlí og þar fer vissulega ekkert á milli mála að þarna hefur gengið mikið á. Dansleikurinn hófst um kvöldið laugardaginn 25. júlí og ekkert bennti til annars en þetta yrði bara venjulegur en að vísu óvenju fjölsóttur dansleikur. Ölvun mun þó hafa verið í meira lagi, eða kannski fannst mönnum það bara vegna fjöldans, en lætin munu svo hafa svo hafa byrjað þegar nokkuð var komið fram yfir miðnættið og hinn skráði dagur "stóra slagsins" er því 26. júlí.

Í næst, næsta húsi og örlítið sunnar í Lækjargötunni var staðið á bak við gluggatjöldin í myrkvuðum herbergjunum og fylgst náið með atburðarrásinni. Til gamans má svo geta þess að þá sömu nótt meðan slegist var úti á götunni og nánast undir húsveggnum, fæddist Erla Gull inni í því sama húsi. Fimmtudaginn 23. júlí 1959 fyrir birtist þessi auglýsing í Mogganum. Ég hafði aðeins heyrt talað um Palla á Höfninni sem þann mann sem rak hótelið og engan annan. Hann var í mínu minni sá sem var alltaf nefndur um leið og hótelið og hótelið alltaf í sömu setningu og hann. En hver var þá þessi Guðrún Matthíasdóttir sem var að auglýsa heitt og kalt vatn á öllum herbergjum og hið vinsæla kalda borð. Það er oft haft á orði að sjaldan falli eplið langt frá eikinni og það á ágætlega við um Palla og dóttir hans Birgittu, en Bigga Páls rekur í dag Hótel Hvanneyri eins og bæjarbúar vita. Ég spurði hana hver Guðrún Matthíasdóttir væri og hún vissi auðvitað allt um það. Guðrún var ekkja Gísla fyrrum hótelhaldara sem lést árið áður í eldsvoða ásamt syni sínum. Ég sem hélt alltaf að Palli á Höfninni hefði verið eigandi hótelsins, sennilega hve nafn hans var alltaf nátengt því og rekstri þess, var nú leiddur í allan sannleika um að svo hafði ekki verið. Eftir að Gísli lést á svo sviplegan hátt sem raunin varð árinu fyrir "stóra slaginn", rak Palli hótelið fyrir Guðrúnu í hartnær áratug, eða þar til Steinar Jónasson keypti það.
Að morgni dags miðvikudaginn 19. mars 1958, kom upp mikill eldur á miðhæð hótelsins sem magnaðist mjög fljótt. Eftirfarandi frásögn birtist í Alþýðublaðinu strax daginn eftir.


"FEÐGAR BÍÐA BANA Í ELDSVOÐA Á SIGLUFIRÐI.

Tvær efstu hæðirnar af Hótel Höfn brunnu til ösku í gærmorgun. Sex ára drengur brann inni, en faðir hans lést af brunasárum sem hann hlaut við að reyna að bjarga drengnum.

Stórbruni varð á Siglufirði í gærmorgun, þegar tvær efri hæðir á Hótel Höfn brunnu til ösku. Eigandi hótelsins, Gísli Stefánsson, og sonur hans, sex ára gamall, fórust í eldsvoðanum. Kona Gísla og tvö börn þeirra sluppu út með naumindum.

Hótel Höfn var þriggja hæða forskalað timburhús. Var nýbúið að byggja við það og standsetja neðstu hæðina. Hótelstjórinn, Gisli Stefánsson, bjó á miðhæðinni ásamt fjölskyldu sinni, konu og fjórum börnum. Einnig bjó einn maður á efstu hæð hússins. Eldsins varð vart um kl. 8 í gærmorgun og magnaðist hann mjög fljótt. Elzti sonur hjónanna, 13 ára gamall, var nýfarinn í skóla, eða um 15 mínútum fyrir átta, og þá bar ekki á öðru en að allt væri með felldu, en kl. 8 var húsið alelda. Kona Gísla komst út um aðaldyrnar við illan leik og rétt á eftir var yngsta barni hjónanna, 5 ára, bjargað út um aðaldyr. Skömmu síðar tókst öðru barni, 11 ára gamalli stúlku, að komast út um glugga á austurhlið hússins með naumindum.


FLEYGÐI SÉR ÚT UM GLUGGA

Gísli mun hafa snúið við til svefnherbergisins til að ná í son sinn Stefán, sem varð 6 ára daginn áður. Þar hefur eldurinn gosið á móti honum og mun hann aldrei hafa náð til drengsins, sem fórst í eldinum. Meðan þessu fór fram varð húsið alelda. Urðu þeir, sem unnu að slökkvistarifinu, varir við að Gísli braut glugga á annarri hæð og kastaði sér út. Var hann þá all mikið brunninn og hafði skorizt mikið af glerbrotum. Var hann þegar fluttur í sjúkrahús, lézt hann þar skömmu seinna.


ALELDA Á 5-10 MÍNÚTUM

Þrátt fyrir að slökkviliðið kom á vettvang og hóf slökkvistarf örskömmu eftir að eldsins varð vart, fékk það ekki við neitt ráðið, því húsið varð alelda á 5-10 mínútum. Tókst með naumindum að verja næstu hús, þrátt fyrir að veðurvar mjög gott þegar þetta gerðist. Sem fyrr segir var Hótel Höfn forskalað timiburhús, en á milli fyrstu og annarrar hæðar var steingólf, sem eldurinn komst ekki í gegn um. Eldsupptök eru ókunn, en rannsókn stendur yfir."
Þetta var hörmulegur atburður, mikil sorg ríkti í bænum og fánar voru hvarvetna dregnir í hálfa stöng. Gisli sem var vinsæll maður og vel látinn, fæddist að Smyrlabergi í Húnavatnssýslu, missti föður sinn mjög ungur og þurfti snemma að sjá sér farborða. Hann var enn á unglingsaldri þegar hann hóf störf hjá Ríkisskipum, en eftir að hafa starfað þar um nokkurra ára skeið lærði hann til þjóns á Hótel Borg. Árið 1943 flyst hann til Siglufjarðar ásamt konu sinni og tók þá við rekstri að Hótel Hvanneyri. Einhverjum árum síðar kaupar hann Hótel Höfn sem hafði þar til hann eignaðist það, heitið Hótel Siglunes. Seljandinn var Hinrik Thorarensen sem mun hafa byggt það. Gísli rak eftir það bæði hótelin eða allt þar til þessi hræðilegi atburður átti sér stað.


16.10.2011 13:41

frigid760. Ég rakst á þetta skemmtilega "súlurit" á síðunni http://frigid.123.is/ sem er líklega ein af allra mest heimsóttu síðum sem hýstar eru á 123.is. Eins og gengur er hún meira sumra en annarra, greinilega margra en alls ekki allra, því á henni er öðru fremur fjallað um tískustrauma, flottar sveiglínur og eilífðargelgjur.
-
"Við erum eins og dýr búð. Ekki skoða okkur ef þú hefur ekki efni á því." er það fyrsta sem birtist þegar síðan opnast og þau orð eru kannski eins og svolítill forsmekkur af öðru því efni og efnistökum sem þarna er að finna...


14.10.2011 21:19

"Rangur misskilningur" eða bara til að pirra


759. Mér brá svolítið í brún þegar ég sá nafn mitt notað í auglýsingu sem birtist í formi fréttar á sksiglo.is í dag. Vart er hægt að skilja hið ritaða orð á annan veg en að ég hefði einhverja aðkomu að auglýstum tónleikum í Kópavogi, en svo er alls ekki. Framsetning pistilsins er mjög villandi, ástæða þess er mér illskiljanleg, innihaldið virkar allt eins og frekar vafasamur hálfsannleikur og í henni á ég hvorki heima né vil vera. Ég hafði samband við Guðmund Skarphéðinsson vefstjóra, kvartaði yfir færslunni og óskaði eftir að fá að birta athugasemd við hana, en ekkert hefur þó gerst á þeim bæ enn sem komið er. Ég átta mig ekki alveg á hvort hér er á ferðinni hugsunarleysi, eða hvort verið að stríða mér svolítið. Sé svo, þá hefur það kannski tekist ágætlega.

Slóðin á fréttina er http://siglo.is/is/news/af_litlum_neista_verdur_oft_mikid_bal/

Hið rétta er að Halli Gunni hefur nú vikið fyrir Grími Sigurðssyni og ég fyrir Gunnari Gunnarssyni þar sem ekki samdist um launamálin. Og fyrir þá sem ekki vita, þá var umræddur Gunnar um tíma tengdasonur Ingólfs í Höfn þó það sé allt annað mál.

Forsaga málsins er sú að í Bátahúsinu var gert upp samkvæmt hlutaskiptareglu þar sem Þuríður hafði einn og hálfan hlut fyrir sitt framlag og við vorum fyllilega sáttir við það. Þegar spilað var í Salnum í júní s.l., fór hún fram á hækkun og var þá með tvo hluti og við strákarnir sættum okkur líka alveg við það. En þegar það var fyrirséð að uppselt yrði á septembertónleikana í Salnum, varð ég meira en lítið hissa þegar ég fékk tölvupóst þar sem söngkonan bauð okkur strákunum að spila undir hjá sér fyrir fjörutíuþúsundkall á mann. Rökin voru m.a. eftirfarandi:

"Ég hef borið töluverðan kostnað af tónleikunum okkar og þrátt fyrir að fatnaður nýtist e-ð áfram hefði ég ekki gert þau innkaup ef ekki hefðu komið til tónleikarnir, og flest fötin eru af þeim toga að þau nýtast mér aðeins á sviði. Til að gefa ykkur einhverja mynd af beinum útlögðum kostnaði, þá er hann þessi:

Fatnaður og skór v. Græni hatturinn:    48.000

Kjóll og tilh.v. Bátahúsið:                            37.000

Slá, buxur, skór v. Salurinn                         57.000

Hár; litun, blástur v. Salurinn                    14.000

Förðun v. Salurinn                                          10.000

Texti v. skrifa f. tónleikanna                      10.000

Upp í málverk, Jóhann                                 30.000  

Alls                                                                      206.000

Að auki var töluverð vinna við tölvuna s.s e-mail sendingar á vini og ýmsa póstlista, Events o.fl. á Facebook, Viðtöl í útvarpi og blöðum, textaleit, höfundaleit og heimildaöflun vegna kynninga haf tekið sinn tíma fyrir utan það sem við höfum unnið sameiginlega fyrir og við æfingar. Nú á að taka upp lagið MINNINGAR til að nota í auglýsingaskyni og eitthvað mun það kosta. 150.000 hefur verið nefnt."

Mér þótti undarlegt að við strákarnir ættum nú að fara að klæða prinsessuna, og auk þess að fjármagna upptöku sem síðan yrði alfarið hennar eign. Mér þótti líka fullmikil launalækkun að fara úr 90 og ofan í 40 þúsund fyrir giggið. Ég afþakkaði því boðið og sagði mig frá viðfangsefninu. Félagar mínir létu þetta þó yfir sig ganga mér til mikillar furðu, þrátt fyrir að þeir hafi náð að semja um smávægilega slökun á kröfum söngkonunnar. En ég taldi málinu lokið hvað mig varðaði, vonaði að þau lok yrðu hávaðalaus og hafði á þeim tímapunkti fyrir mitt leyti ekkert meira um það að segja. Ég varð því aftur og enn meira hissa að heyra Þuríði senda mér létt skot í viðtali á rás 2. þar sem hún sagði að nú yrðu síðustu tónleikar toppaðir og nefndi í framhaldinu til sögunnar nýjan hljómborðsleikara. Mér fannst þessi sending hreinn óþarfi og er líka svolítið hissa á hvað mínir fyrrum félagar eiga auðvelt með að kyngja stoltinu fyrir sitt leyti. Skýringin hlýtur að vera í samræmi við það sem Birgir skrifar í fésbókarfærslu á dögunum, en þar kvaðst hann vera tilbúinn til að gera allt fyrir frægðina nema kannski að koma nakinn fram.


14.10.2011 11:45

Trúarrit og helgisögur

                    

758. Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum Siglfirðingnum að nýjasta fréttablað félagsins okkar er komið út, stærra, meira, innihaldsríkara og skemmtilegra en nokkru sinni fyrr og er þá ekki nema örgrunnt í árinni tekið. Allt yfirborð boðskapsins sem þar er að finna, er að upplagi flosmjúkt og innblásið af rómantík liðins tíma, en undirtónninn í senn súrssætur og rammur rétt eins og sú taug sem aldrei mun slitna. Enda mun hún auðvitað ekki gera það, því jarðvegurinn nyrðra var og er bæði svo góður og næringarríkur að þar er næga rótfestu að finna. Meðan blaðið er lesið er lítill vandi að lygna aftur augunum, líða yfir í annan heim og láta sér hverfa allt veraldarvafstur nútímans. Sjá fyrir sér ótölulegan fjölda skrautlega karaktera sem margir hverjir eru því miður farnir úr hinum sýnilega heimi. Sumir höfðu á vendipunkti lífs síns ratað til Klondike norðursins með lítið handa í millum annað en áræðni, gott upplag og óbilandi bjartsýni, en aðrir lituðu hvunndaginn í litla firðinum björtum og skærum litum og juku á fjölbreytileikann í mannlífsflórunni. Í blaðinu eru einnig ófáar sögur af þeim sem yfirgáfu æskuslóðirnar með trega í sinni og af illri nauðsyn, lögðu upp með nesti og nýja skó rétt eins og karlssynirnir í ævintýrunum forðum, fundu sínar prinsessur í fjarlægum löndum og sigruðu heiminn í leiðinni. Að minnsta kosti það væna sneið af honum að hún dugði mönnum vel alla þeirra hunds og kattar tíð, og allt var þetta ekki síst að þakka upprunavottorðinu sem ávalt var haft með í farteskinu.

Það er fjarri mér að gagnrýna fortíðarþrána og allar þær góðu minningar sveitunga minna sem í blaðinu er að finna. Enda er ég hvort eð er fullkomlega vanhæfur til slíks vegna þess hve málið er mér skylt, auk þess sem ég er yfirlýstur fylgismaður þess að hampa heimaslóðunum hvernær sem tækifæri gefst ásamt öllu því sem þeim tengjast.

En það var haft eftir einum af mætari mönnum sem býr nyrðra, að eftir lesturinn hefði honum það ferið fullkomlega ljóst að þarna væri komið það trúar og helgirit Siglfirðinga sem væri vel til þess fallið að vera þeirra leiðarstjarna til framtíðar. Annar er sagður hafa tekið undir þá skoðun og taldi rétt að finna ritinu stað uppi í hillu milli Biblíunnar og sálmabókarinnar.

En hvað sem slíkum vangaveltum líður og að öllu gríni slepptu, þá verður ekki annað sagt en að vel hafi tekist til og við höldum áfram að vera stolt af uppruna okkar.


06.10.2011 15:00

Næst síðasta ferð ársins á Sigló757. Núna á eftir verður lagt af stað norður í heimahagana í næst síðasta skipti þetta árið og er þá aðeins eftir svokölluð jólaferð. Siglufjarðarfjöllin kvöddu með hvítum kolli í síðasta mánuði og viðbúið er að þau taki á móti mér með svipuðum hausttilbrigðum og litasamsetningu. Á laugardaginn er svo humyndin að leggja land undir dekk og skreppa inn á Dalvík, en þar heldur Lilja yngsta systir Sóleyjar ömmu upp á níræðisafmælið sitt. En þar sem engin nettenging er lengur fyrir hendi nyrðra, er ég þar með kominn í vikulangt bloggfrí.


Lilja frænka mín í síld á Sigló á fimmta tug síðustu aldar.

Í síðustu ferð var staldrað við í Hjaltadalnum og rennt upp á Heljardalsheiði í leit að aðalbláberjum en uppskeran var rýrari en orð fá lýst. Í staðin "veiddust" nokkrar myndir í kísilflöguna og sjá má svolítið sýnishorn hér að neðan.

04.10.2011 06:53

Bubbi á Sigló


756. Bubbi Mortens sótti Siglufjörð heim á dögunum og skrifar ákaflega fallega um heimsóknina á pressan.is, enda er engin ástæða til annars. Bærinn er eins og þeir vita sem til þekkja gullfallegur og Bubbi fékk ágætar móttökur.

Hann skrifar: "Mikið var ég glaður þegar ég gekk inn í salinn og sá að það var húsfyllir."

Að sjálfsögðu var hann glaður, húsfyllir þýðir nefnilega fullt af peningum. Hvaða kapítalisti yrði yrði ekki kátur með slíkt?
Hann talar um að það hafi verið öskrandi rigning og rok, en svo bætir hann við: ".ég er ekki frá því að bærinn hafi fríkkað". 

Vá maður, hver sér það ekki og það jafnvel í hvaða veðri sem er?

En kannski man hann ekkert sérstaklega vel hvernig bærinn leit út þegar hann kom síðast.

Mín fyrstu og einu kynni af Bubba komu til haustið 1981, þegar hann ásamt nýstofnaðri hljómsveit sinni Utangarðsmönnum spilaði á Höfninni. Ég var einn af þeim sárafáu sem mættu á ballið og fannst bandið sem slíkt býsna athyglisvert og fílaði það vel. En mér var hins vegar ekki boðið í eftirpartýið, líklega af því að ég var strákur.

Á þessum tíma var ég að feta mín allra fyrstu spor í vídeóbransanum. En þá var myndefnið hlutfallslega mun dýrara í innkaupum en síðar varð og titlafjöldinn ekki orðinn upp á nema u.þ.b. 60 spólur. Snemma kvölds fyrir ballið var bankað upp á hjá mér og fyrir utan stóðu fjórir piltar sem spurðu hvort ég gæti ekki leigt þeim nokkrar myndir. Jú, það var auðvitað auðsótt og eftir svolitlar vangaveltur höfðu þeir valið sér fjórar myndir. Ég spurði þá þann sem virtist fara fyrir hópnum hvaða nafn ég ætti að skrifa fyrir leigunni. Hann kunni því greinilega ekki vel að ég skyldi ekki vera með það á hreinu og svaraði stuttaralega að það væri Bubbi Mortens. Daginn eftir var myndunum ekki skilað og ekki heldur daginn þar á eftir. Ég hafði þá samband við hótelið og spurðist fyrir um hvort eitthvað hefði hugsanlega verið skilið eftir sem tilheyrði mér, en ekkert slíkt fannst þrátt fyrir talsverða leit. Þeim á hótelinu þótti þetta miður og flettu upp á símanúmeri leigjandans í bókinni þar sem pantanirnar voru skráðar ásamt tilheyrandi upplýsingum. Næstu dagana á eftir var reynt að ná í pilt og það hafðist á endanum. Jú hann kannaðist vel við að hafa leigt einhverjar myndir þarna og hann hefði farið með þær suður. Þegar spurt var um hvenær og hvernig hann ætlaði að skila þeim auk þess að greiða eitthvað yrir aukadagana, varð fátt um svör. Hann upplýsti í staðinn að hann væri í ágætu sambandi við Steinar Berg og hefði lofað honum að líta eftir ólöglegu myndefni þar sem hann ætti leið um. Honum var þá bent á að myndirnar sem hann hefði undir höndum hefðu ekkert með umboð Steinars Berg að gera, en hann kvaðst svo sem ekkert vita um það og lauk símtalinu einhliða. Áfram var hringt næstu daga og vikur, og þó árangurinn yrði enginn var ljóst að hann var fljótlega búinn að fá meira en hundleið á nöldrinu. Það var svo eitt sinn þegar mín fyrrverandi átti leið suður, að hún heimsótti hann á tónleika á Hótel Borg og rukkaði sjálfan trúbadorinn um myndirnar. Þar gafst hann upp á "frekjunni" í þessu norðanfólki og afhenti góssið.


  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 212
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344571
Samtals gestir: 38293
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 14:23:16
clockhere

Tenglar

Eldra efni