Færslur: 2010 September
30.09.2010 21:31
Hinar margvíslegu matarvenjur okkar Íslendinga og ýmis afbrigði þeirra
655. Ég hef séð (og vitað) fólk borða kleinur með lifrarkæfu, rækjusalat með hangikjöti, fiskibollur, niðursoðnar perur og bakaðar baunir (allt hitað saman í potti), cornflakes með kanilsykri og heitri mjólk, hafragraut með kanilsykri og smjöri o.fl.
En þetta er í fyrsta skipti sem ég sé hnausþykkt lag af mysing notað sem undirlag fyrir enn þykkra lag af eldsterkri chilisultu.
Og þetta er EKKI GRÍN.
30.09.2010 06:23
"Rifrildið" á Njarðarplaninu
654. Þó nokkrar vikur séu liðnar síðan hluti af Njarðarplaninu var rifið og umfjöllun um framkvæmdina flokkist tæpast sem fréttir lengur, langar mig samt að skjóta þessum myndum hér inn ásamt nokkrum línum.
Þeir bræður Óli og Pétur sem hafa árum saman haft aðstöðu í skúrnum, eru horfnir á braut með sitt hafurtask og stóra gula tækið með ógnvænlega krumluna er tilbúið til að hefja niðurrifið.
Á þessu plani voru á árum áður saltað í þúsundir tunna af síld, sumar eftir sumar. Þarna var silfri hafsins umbreytt í dýrmætan gjaldeyri sem gerði þjóðina frjálsa og skapaði velsæld í landinu.
En um svipað leyti og einum kafla í sögunni lýkur, er annar að hefjast. Það er á vissan hátt athyglisverð tímasetning að þegar gamli tíminn er að kveðja smátt og smátt, er sá nýji að taka undir sig stórt stökk inn í samfélagið í nyrsta kaupstað landsins. Þau rök hafa oft verið notuð af okkur Siglfirðingum þegar landinn hefur gagnrýnt gerð Héðinsfjarðarganga vegna kostnaðarins, höfum við gjarnan bent á að það sé fyrir löngu búin að leggja inn fyrir þeim.
Árið 1963 voru 23 síldarplön starfrækt á Siglufirði og nam heildarsöltun 68.608 tunnum. Nöf var hæst með 8100 tunnur, Pólstjarnan h.f. með 7286 tunnur,
Haraldarstöð h.f. með 5665 tunnur, Njörður h.f. með 4905 tunnur,
O. Hinriksson með 4792 tunnur, Hafliði h.f. með 3951 tunnur,
síldarsöltun ísfirðinga með 3760 tunnur, Jón Gíslason og Ásmundur s.f. með 3546 tunnur, fsafold s.f. með 3493 tunnur, Kaupfélag Siglfirðinga með 2850 tunnur og Hrímnir h.f. með 2849 tunnur. Aðrir voru með minna.
Séu fleiri ár skoðuð meðan síldarævintýrið stóð yfir er Njörður yfirleitt vel fyrir ofan miðju í magni saltaðrar síldar.
Tækjamaðurinn hefur vakið athygli og aðdáun margra bæjarbúa fyrir undraverða lagni sína við að rífa húsin nánast spýtu fyrir spýtu og flokka bæði timbur og járn í hauga eða jafnvel ofan í gáma. Það er svo auðvitað ekkert verra að hann er af Siglfirsku bergi brotinn þar sem afi hans var Laugi Gosa.
Það er engu líkara en gömlu snurparastefnin gægist upp úr jarðveginum, en um leið aftur úr fortíðinni til að forvitnast um hvað sé að gerast á gamla síldarplaninu þeirra. Þar sem áður fyrr allt iðaði af lífi og söltunarstúlkurnar í olíusvuntunum kölluðu eftir meiri síld, meira salti og tómri tunnu.
Kiddi G. var einn af þeim fjölmörgu sem stöldruðu við og fylgdust með því sem fram fór af miklum áhuga.
En hér var látið staðar numið og er það vel. Gömlu bryggjustaurarnir sem gægjast upp úr lygnum haffletinum ríma vel við söguna um ævintýrið mikla, minningar þeirra sem upplifðu og lögðu gjörfa hönd á saltan og hreistraðan plóg aldarinnar sem leið, svo ekki sé talað um glæsilegan bakgrunninn sem nýlega hefur gengið í endurnýjun lífdaga.
Snyrtimennin Þór Jóhanns og Sigurjón Páls hreinsuðu svo fjöruna eftir að stórvirka vinnuvélin hafði lokið sínum verkþætti.
(Ljósmynd Sigurjón Jóhannsson)
Þessi mynd er líklega u.þ.b. hálfrar aldar gömul og rétt vinstra megin við miðju hennar má sjá skúrinn sem verið var að rífa. Njörður er þó ekki allur því að fyrir utan staurana sem eftir standa, er skemman undir bökkunum enn í notkun og verður væntanlega áfram. Hún er nú hluti af þeirri byggingu Síldarminjasafnsins sem hýsir bræðsluverksmiðjuna og kenndur er við Gránu.
29.09.2010 09:44
Nýtt hlutverk
653. Þar sem ég átti leið um á ónefndum stað, rakst ég á þetta aflagða ökutæki sem var búið að fá alveg nýtt hlutverk. Hver segir svo að það sé ekki líf eftir þetta líf?
En þar með er ég lagður af stað norður á Sigló að kíkja á Héðinsfjarðargöngin sem verða vigð um komandi helgi.
(Til hamingu Ísland.......)
29.09.2010 09:30
Og Roma sagði Portúgölum stríð á hendur.
652. Þessi grein um Portúgala en þó alls ekki Portúgala varð á vegi mínum þegar ég var að gramsa í gömlum blöðum á dögunum, eða nánar tiltekið í Alþýðublaðinu frá 24. ágúst 1965. Mér fannst gaman að lesa hana og e.t.v. finnst það fleirum. Þess vegna læt ég hana flakka...
27.09.2010 23:03
Nokkur kveðjuorð til Önnu frænku minnar
Anna (lengst til vinstri) á Siglufirði um 1950, næst faðir hennar Gunnlaugur, þá Jóhanna systir hennar og Sóley amma mín. Myndin er tekin í garðinum að Hverfisgötu 11. Litla stúlkan er sennilega Margrét dóttir Jóhönnu, en hún býr á Akureyri og er gift er gift Kristni Hólm frá Siglufirði. Í baksýn sést Ingibjörg Jónsdóttir frá Sauðaneskoti sem var býli skammt utan við Dalvík, en hún bjó lengst af á Hávegi 11b Siglufirði. Og eins og einnig sést, þá er Aðventistakirkjan þarna á "sínum stað" þ.e. númer 10 við Hverfisgötu.
651. Í dag þ. 27. sept. var Anna frænka mín til grafar borin. Hún var eitthundrað ára og þrjátíu og sjö dögum betur. Anna Laufey Gunnlaugsdóttir fæddist þ. 12. ágúst 1910 að Ytri-Másstöðum í Skíðadal. Hún var dóttir Gunnlaugs Daníelssonar frá Tjarnargarðshorni í Svarfaðardal og Steinunnar Sigtryggsdóttur frá Klaufabrekkum einnig í Svarfaðardal. Anna var systir ömmu Sóleyjar sem bjó á Siglufirði og fóstraði þann sem þetta skrifar frá fæðingu og þar til hann taldi sig tilbúinn til að takast á við veraldarvafstrið.
Anna missti móður sína út berklum þegar hún er aðeins á þrettánda ári, heimilið leystist upp í kjölfarið og fer hún þá í fóstur til systur sinnar Guðrúnar Gunnlaugsdóttur sem þá bjá á Ytra-Hóli í Eyjafirði. Eftir það býr hún á Akureyri, var í kaupavinnu í Þingeyjasýslu, í síld á Siglufirði en flytur til Reykjavíkur 25 ára gömul og bjó þar alla tíð síðan. Anna og sambýlismaður hennar til allmargra ára, Kristján Elíasson, hófu búskap á Bárugötu, fluttu eftir það á Ránargötu en síðan Tjarnargötu 10A hér í Reykjavík þar sem hún bjó allt þar til hún flutti í þjónustuíbúð við Lindargötu. Síðustu árin dvaldi hún svo á hjúkrunarheimili við Sóltún. Eins og sést á þessari upptalningu var hún mikil miðbæjarkona þrátt fyrir að rætur hennar lægju langt inn til dala. Sagt er að heimili hennar hafi stundum verið eins og umferðarmiðstöð. Fólk kom í kaffi og spjall og á Þorláksmessu var hangikjöt á borðum fyrir gesti og gangandi. Hún var vinsæl kona, hlý og skemmtileg, barngóð og kærleiksrík.
Kristján og Anna ráku prjónastofu í mörg ár. Þar vann kona að nafni Ester sem kenndi henni að kúnststoppa. Þegar þau Kristján slitu samvistum eftir margra ára búskap, kom sú kunnátta henni vel. Anna var að öllum líkindum og lengi vel ein af fáum Íslendingum sem kunnu þá list að kúnststoppa, en sú handavinna felur í sér að gera við fatnað á þann máta að varla má greina viðgerðina á flíkinni. Stundum hér á árum átti ég til að staldra ögn við á Tjarnargötunni, og var þá ekki óalgengt að það væri bankað upp á jafnvel alloft, ýmist til að koma með föt í viðgerð eða sækja flíkur sem litu út eins og nýjar.
Anna átti fjögur börn og þar af þrjú með Kristjáni. Elst er Steinunn sem varð einmitt áttræð daginn sem hún fylgdi móður sinni til grafar.
Þá Elías, en hann hefur lengst af starfað sem bílstjóri.
Yngri eru svo Hörður og Kolbrún, en þau eru bæði látin.
Ævi Önnu Gunnlaugsdóttur var síður en svo neinn dans á rósum, en ég ætla þó ekki að fara að tíunda þá atburði eða uppákomur sem gjarnan skilja eftir sig ör á sálu þeirra sem fyrir verða og gróa seint eða aldrei. Henni var í blóð borin Svarfdælska þrjóskan sem hefur eflaust mótað bæði viðmót og skaphöfn . Hún sigraðist á mótlætinu, yfirsté erfiðleikana, sætti sig við kröpp kjör á stundum og segja má að hún hafi með sínu lagi komið standandi niður úr heljarstökki lífshlaupsins. Hún lá aldrei á skoðunum sínum og talaði alltaf hreint út. Ef henni fannst ég eða þú vera í ljótum skóm sagði hún einfaldlega; "þetta eru nú ljótu skórnir sem þú ert í."
Þegar ég heimsótti hana í fyrsta skipti varð mér það á í einhverjum ærslagangi að rekast á lítið stofuforð sem á stóð pottablóm. Á borðinu var glerplata og þegar blómið valt á hliðina myndaðist sprunga í glerinu. Þetta var árið 1963. Það var svo árið 2002 að ég heimsótti hana á Lindargötuna. Hún benti mér á borðið með sprungnu glerplötuna og spurði mig hvort ég myndi eftir þessu, en bætti svo við; "þú ert orðinn miklu stilltari núna."
Um svipað leyti heimsótti móðir mín hana eitt sinn sem oftar, en Anna var niðursokkin í að fylgjast með dagskrá á Spænskri sjónvarpsstöð og mátti lítið vera að sinna gestinum. Mamma spurði þá forviða hvort hún kynni eitthvað í spænsku.
"Nei, nei" svaraði Anna,. "stelpurnar eru bara í svo rosalega flottum kjólum og sérðu bara hvað strákarnir eru svakalega sætir?" Þá var Anna á 92. aldursári.
Á hundrað ára afmælinu heimsótti blaðamaður Morgunblaðsins hana og vildi fá viðtal af tilefni þessara merku tímamóta. Eftir svolítið spjall fannst Önnu blaðamaður vera helst til forvitinn um hennar hagi og skammaði fyrir hnýsnina. Það hafðist þó með lagni og prýðir ágæt umfjöllun heila síðu Morgunblaðsins þ. 12. ágúst sl.
En Anna átti sér líka sína glaðværu hlið, því söngur og dans var hennar yndi. Hún var m.a. þeirrar skoðunar að konur ættu ekki að ganga í buxum því það væri ekki mjög dömulegt, enda átti hún sjálf marga fallega kjóla og lögulega hatta.
Sr. Örn Bárður Jónsson sagði eftirfarandi í minningarorðum sínum:
"Hún var Reykjavíkurmær, konan við Tjörnina, sem spásseraði um miðbæinn eins og hefðarfrú og fór gjarnan á Borgina á sunnudögum til að dansa gömlu dansana. Það fer því vel á því að syngja hér á eftir lagið, Fröken Reykjavík...
Hún var alltaf að breyta til heima hjá sér. Ef sonurinn, barnabörnin eða vinir komu í heimsókn voru þau oftar en ekki fengin til að flytja til húsgögnin í stofunni. Hring eftir hring snerist allt í stofunni hjá henni. Og auðvitað fór allt á sama stað af og til."
Svo var sunginn "sálmurinn" um fröken Reykjavík eftir þá bræður Jónas og Jón Múla. Þetta var alveg akkúrat hún Anna frænka mín...
26.09.2010 03:50
Sigló ág-sept.
650. Í síðustu Siglufjarðarferð sem spannaði heilan mánuð, átti ég margar ferðirnar niður á gámasvæðið. Ofan á pressunni sá ég þetta gamla "kennslutæki" sem ég mundi vel eftir úr skólanum fyrir rúmum 40 árum. Ég hef grun um að þá hafði það jafnvel verið búið að vera lengi notað sem kennslugagn í heilsufræðitímum. Tilfinningin var líkust því að hitta gamlan félaga á förnum vegi, - eða eitthvað til að gleðjast yfir. Ég sló samt ekki á bak honum og spurði tíðinda...
Á bryggjurúntinum dag einn í góða veðrinu beindist athygli mín að því sem þarna var að gerast hvað sem það annars nú var. Ég hugsði með mér að það sé nú alltaf skemmtilegt að vera hæfilega hátt uppi. Í framhaldinu datt mér líka í hug gamli aulabrandarinn: "Hvað þarf marga til að skipta um peru..."
Þetta myndarlega hús hýsir starfsemi Siglufjarðar Seigs.
Þar er kannski kominn tími á seinni slátt.
Það hafði verið ætlunin að ganga á Siglunesmúla fyrir veturinn, en svo heitir fjallið frá Kálfsdal og fram á Nesnúp. Mér er ekki grunlaust um að þangað fari frekar fáir sem gerir leiðina bara forvitnilegri ef eitthvað er.
En af heilsufarsástæðum varð ég að láta mér nægja að fara góðan rúnt í Skógræktinni. Það hefur aldeilis tognað úr þessum trjám. Þegar ég var að gróðursetja þau í unglingavinnuni forðum hjá Jóhanni Þorvalds, náðu allra hæstu hríslurnar mér upp í mitti og hef ég þó hækkað nokkuð síðan.
Þetta er alveg hrikalega flott og þetta er sko engin "feik" mynd. Ef einhverjum sem ekki þekkir til skyldi detta í hug að fossinn væri eitthvað seytl milli steina, þá er það ekki svo því hann er upp á nokkrar mannhæðir. Trén eru bara orðin svona stór og svo má það líka fylgja að skógræktin í Skarðdal er nyrsti skógur á Íslandi. Það er líka nokkuð merkilegt.
Þessar tröppur eru vægast sagt mjög vinsælar til "ísetu" og gildir þá einu hvort er um hábjartan sumardag eða dimma vetrarnótt. Hér má sjá svolítinn þverskurð af þeim sem aðstöðuna nota...
Ég sá mælinn á Sparisjóðnum fara upp í 23 stig og frétti að hann hefði farið upp í 25 síðar sama dag. Þá mældust 27 stig inni í Skarðdal. Ekki slæmt að fá svona sumarauka þegar komið er fram í september.
Það er nú samt alveg greinilegt að haustið er ekki mjög langt undan því Hólshyrnan er farin að máta trefilinn.
Þessar voru á rölti í vegkantinum á ströndinni þessa síðustu sumardaga og það var engu líkara en að þær fyndu það líka á sér að haustið nálgaðist. Ef ég væri í þeirra sporum myndi ég forða mér sem lengst í burtu því haustinu fylgir nebblega sláturtíðin, en líklega hefur enginn sagt þeim af því
Náði þessu skondna skoti þar sem myndavélin er yfirleitt nokkurn vegin við hendina...
Það er ekki hægt að segja annað en að manni sé tekið opnum örmum þegar maður á leið í S.R. Byggingavörur á Siglufirði af "fyrrverandi" Akureyringi sem er óðum að breytast í alveg gegnheilan Siglfirðing.
Og nú fer að styttast í næstu Siglufjarðarferð...
23.09.2010 08:51
Hvar er Osama
649. Í gærkvöldi var endursýndur á RUV þátturinn "Hvar í veröldinni er Osama Bin Laden." Ég gúgglaði svolítið af því tilefni og setti m.a. inn leitarorðin "Osama" og "dancing." Út úr því komu nokkur skondin myndbönd, þar á meðal opnun þáttarins og dansatriðið ógurlega. Myndefnið og efnistök þess bera það greinilega með sér að Osama skorar ekki hátt á vinsældalista þeirra kvikmyndagerðarmanna sem að framleiðslunni hafa staðið. Það er kannski ekkert undarlegt því þeir eru jú "að vestan."
Og fyrir þá sem vilja kynna sér afraksturinn lítillega þá er bara að fylgja eftirfarandi slóðum...
http://www.boreme.com/boreme/funny-2002/osama_dance-p1.php
http://www.pakistan.tv/videos-osama-break-dancing-music-video-%5BXYBc9OxUtiM%5D.cfm
http://www.metacafe.com/watch/2344003/osama_bin_laden_singing_the_numa_numa_song_and_dancing_xd/
http://www.tumtube.com/view_video.php?viewkey=32de0f0f139ac51d9929
http://www.youtube.com/watch?v=BXCzmbSmDSw
Og rétt er að láta það fylgja að í einhverjum tilfellum þarf að copy/peista slóðirnar og færa þær upp á leitarstrenginn til að komast í "fönnið."
22.09.2010 09:57
Blæs um þingsali
648. Rakst á þessa "skemmtilegu" mynd á netinu, en óhætt er að segja að ekki fari mikið fyrir koppalogninu í þingsölum þessa dagana.
18.09.2010 11:50
"Rutt yfir hvalbeinið"
647. Nú þegar sú stund nálgst að miklar og langþráðar samgöngubætur verða senn orðnar að veruleika en eru ekki lengur aðeins fjarlægur draumur, leitar hugurinn stundum til fortíðar og ýmsir þættir úr samgöngusögunni rifjast upp. Nú eru rétt um 42 ár síðan Strákagöng voru formlega vígð, en umferð mun þó hafa verið hleypt á þau eitthvað fyrr. Þar áður hafði Siglufjarðarskarð verið eina tenging Siglfirðinga við vegakerfi landsins, en það var sjaldan fært nema 4-6 mánuði ársins vegna snjóa. Skarðið var tekið í notkun árið 1946 og þjónaði því byggðinni aðeins í 22 ár sem manni finnst svona eftir á að hyggja alveg ótrúlega skammur tími.
Ég rakst á athyglisverða grein um vegamál og forna búsetu á Almenningum sem birtist í Morgunblaðinu miðvikudaginn 29. ágúst árið 1962. Hana ritar "Stefán" fréttamaður Mbl. og hann ræðir þar m.a. við Gísla Felixson rekstrarstjóra vegagerðarinnar á Sauðárkróki.
Ekki kemur fram hvaða Stefán það er sen er höfundur að henni, en grunur
(Ljósmynd Hannes Baldvinsson)
(Ljósmynd Ólafur Bermannsson)
17.09.2010 23:39
Skreiðarhúsið
647. Þegar ég frétti að áformað væri að rífa gamla Skreiðarhúsið, hugsaði ég með mér að ég skyldi ekki klikka á að taka nokkrar myndir af "rifrildinu" meðan það stæði yfir. Ég náði því miður ekki fyrstu myndinni af húsinu fyrr en svolítið var farið að narta í það norðaustan til, en ég gat líka illa setið á strák mínum eins og fordæmi eru fyrir frá fyrri tíð. Ég laumaðist m.a. með myndavélina inn í húsið og upp á loft þar sem mestur hasarinn var, en slíkt er líklega alveg bannað. Og þar sem ég stóð á vaggandi loftinu kom heljarmikil krumla tækisins stundum óþægilega nálægt og kroppaði bárujárnið utan af grindinni. Sperrur og lektur voru síðan snyrtilega pikkaðar upp, flugu í fallegum boga gegn um loftið og enduði í lögulegum bing niðri á jörðinni. Það vakti athygli mína hve mikið var þarna inni af ýmis konar dóti þrátt fyrir að niðurrif hússins væri hafið, en annað hvort hefur það verið afskrifað fyrirfram alla leið niður í núll eða hinn lagni tækjamaður hugðist einfaldlega rífa húsið utan af því án þess að það yrði fyrir hnjaski.
Þó ekki væri hægt að segja að þetta 74 ára gamla hús hefði beinlínis eitthvert tilfinningagildi fyrir mig, hafði ég samt verið að vinna þarna á árunum fyrir og eftir tvítugt. Þannig var að svokallaður innri salur frystihússins náði inn í efri hæð Skreiðarhússins eftir stækkun þess fyrrnefnda, en þar hafði ég unnið um árabil og svo hafði ég einnig verið að vinna á neðri hæðinni við að pakka skreið.
Samkvæmt mínum heimildum var húsið byggt árið 1936 og þá sem mjölhús í tengslum við síldarverksmiðju SRN.
Og þó svo að fréttavefirnir siglo.is og siglfirdingur.is séu báðir búnir að
16.09.2010 07:19
Eyfirski söguhringurinn og híbýli mannanna
646 Á vef Akureyrarbæjar (undir fréttir frá 02.07.2009) er að finna eftirfarandi auglýsingu í greinarformi sem kallast "Eyfirski söguhringurinn." Að vísu finnst mér þessi hringur í þrengra lagi, en hugmyndin í sjálfu sér alveg ágæt.
"Skipulögðu ferðirnar sem hafa verið í boði með bátnum Húna II yfir sumartímann, njóta mikilla vinsælda, og bætist nú ný ferð í hópinn. Kallast hún "Eyfirski söguhringurinn" og er um fjögurra tíma ferð sem farin verður á fimmtudögum.
Húni II mun sigla með farþega til Hjalteyrar þar sem tekið verður á móti þeim með leiðsögn heimamanns. Eftir um klukkustundar stopp þar, er lagt er af stað með "sögu" rútu um athygliverða sögustaði á leiðinni til Akureyrar. 30 mínútna stopp verður á Möðruvöllum þar sem heimamenn taka á móti hópnum, sýna gestum kirkjuna og fleira, ásamt því að fræða þá um sögu staðarins.
Aðstandendur ferðarinnar eru Hollvinir Húna II, Sportrútan ehf., ásamt Verksmiðjunni á Hjalteyri, Kaffi-Lísu og Amtmannsetrinu á Möðruvöllum. Lagt verður af stað frá Torfunefsbryggju á Akureyri kl. 16.30 í dag, fimmtudag.
Sex ferðir verða í boði í sumar, 2. júlí, 9. júlí, 16. júlí, 30. júlí, 6. ágúst og 13. ágúst.
Að auki býður Húni II enn uppá hina vinsælu Sögusiglingarferð á föstudagskvöldum kl. 20.00 í sumar. Áhugaverð ferð með leiðsögumanni fyrir þá sem hafa gaman af að fræðast um þróun bæjarins, staðhætti og veiðiaðferðir fyrr og nú. Fræðslu og fróðleiksferð þar sem siglt er um innanverðan fjörðinn."
Árið 2008 var ég á Dýrafjarðardögum, en svo kallast bæjarhátíðin á Þingeyri sem er haldin fyrstu helgina í júlí. Þar var m.a. gengið um götur og saga gamalla húsa rifjuð upp svo og íbúa þeirra.
Gunnlaugur Magnússon fór fyrir hópnum og ljóst var að maðurinn var mikill viskubrunnur. Hugmyndin var hreint út sagt alveg frábær og ég hugsaði með mér að hún myndi henta vel á t.d. Síldarævintýri.
16.09.2010 06:34
Kominn suður
645. Eftir langan og mikinn blíðviðriskafla var loksins kominn að því að haustið minnti á sig, því það var auðvitað alveg til í dæminu að einhverjir héldu að það væri ennþá hásumar eins og veðurfarið hefur verið undanfarið. Ég ákvað að skreppa suður á bóginn í nokkra daga, því þar spáði nefnilega batnandi veðri. Þegar ég renndi fram hjá Sauðanesi sá ég að líklega myndi ekki mælast mesti hiti á landinu á þessum ágæta stað þennan daginn eins og svo oft hefur gerst.
Á leiðinni á suðvesturhornið gerði ég mislukkaða tilraun til að fanga dans norðurljósanna sem þau stigu svo glatt yfir byggðum Borgarfjarðar. Líklega var bæði um að kenna óþolinmæði ljósmyndarans við að finna þá stillingu á myndavélinni sem hefði dugað, en líklega ekki síður umferðinni sem var talsverð og hafði verulega truflandi áhrif á myndatökumanninn.
- 1