Færslur: 2010 Mars

24.03.2010 01:14

Nokkur orð um húsin í bænum622. Það er líklega ekki of djúpt í árinni tekið
að segja að fasteignamarkaðurinn á Siglufirði hafi verið á lágstemmdari nótunum undanfarna áratugina og verðlag húsnæðis lengst af býsna "botnlægt". Samt hafa átt til að myndast svolitlir verðtoppar, en þeir oftar en ekki verið stýfðir af með byggingar"skoti" sem hefur leitt til tímabundins offramboðs með tilheyrandi lækkunum.

Eftir að síldarævintýrinu lauk tóku við nokkur mögur ár þar sem allt staðnaði, bærinn drabbaðist niður og almenn svartsýni íbúanna jókst til muna. Eftir það heldur niðurdrepandi tímabil tók það næsta við sem stundum hefur verið nefnt "skuttogaraöldin". Allt virtist á bullandi uppleið, síldarverksmiðjur, plön og brakkar týndu tölunni. Splunkunýtt og mjög fullkomið frystihús var byggt, atvinna jókst til muna og menn fóru að byggja hús eins og þeir ættu lífið að leysa. Á seinni hluta áttunda áratugsins og aðeins fram á þann næsta var gríðarlega mikið byggt á Siglfirskan mælikvarða. Á annan tug íbúða á Fossveginum einum, einnig talsvert á Hólaveginum þar beint fyrir ofan svo og nokkru sunnar, 9 stórmyndarleg raðhús við Hafnartún svo og einnig hér og þar á óbyggðum lóðum inn á milli eldri húsa. Skömmu síðar var Norðurtúnið (allt) byggt svo til í einu lagi og segja má að þessari loti hafi lokið með byggingu "fjósanna" svokölluðu við Hafnartún árið 1984. Eftir þetta "átak" og reyndar einnig á meðan á því stóð, hríðféll verð  á eldra húsnæði, því offramboð varð á eldra húsnæði og sem dæmi keypti ég 260 fermetra íbúð sem þarfnaðist að vísu verulegra endurbóta á heilar 80.000 (áttatíuþúsund) (ný)krónur um áramótin 80/81. Þegar hinn Siglfirski fasteignamarkaður var aðeins tekinn að jafna sig aftur, reið næsta byggingaralda yfir. Dvalarheimilið Skálahlíð var stækkuð verulega, en við það losnaði um talsvert af eldra húsnæði í bænum. Það hefði því að öllum líkindum fullnægt eftirspurn í einhvern tíma, en það gerðist fleira á svipuðum tíma. Gamla bakaríinu við Hvanneyrarbraut var breytt í íbúðir og svonefnd Grásteinshús voru byggð ásamt nokkrum einbýlishúsum við Eyrarflöt. Annað verðfall var því óumflýjanlegt og sem dæmi var verðmiðinn á litlu og gömlu bárujárnsklæddu einbýli nokkurn veginn fastur í 400-600 þús. um árabil. Það er ekki fyrr en nokkuð eftir aldamótin 2000 sem segja má að flest hafi farið að stefna í einhverja vitræna átt, og nú er svo komið að fasteignir bæjarbúa eru aftur orðnar svolítilla peninga virði.  

Það er ekki alveg að ástæðulausu sem ofanritað rifjast upp núna, því hugmyndir eru uppi um að byggja 14 íbúðir á gamla malarvellinum við Túngötu.

Sjá nánar á slóðinni http://www.sksiglo.is/is/news/vill_reisa_14_hus_a_fotboltavelli/
Á Siglufirði voru skráðar 32 eignir á fasteignir.is þegar ég skoðaði hann á dögunum, en hann er sameiginlegur vefur starfandi fasteignasala. Þessi tala þýðir að til sölu eru u.þ.b. 25 eignir á hverja 1000 íbúa, en þar af eru reyndar ekki nema 7 íbúðir sem myndu teljast til tiltölulega lítilla eigna.
Í Reykjavík eru skráðar 4451 eignir á sama vef sem eru því um 42 eignir á hverja 1000 íbúa en það telst vera gríðarlegt offramboð. En þess utan skal á það bent að mun algengara er þar en á Siglufirði að sama eign sé skráð á fleiri en einni fasteignasölu og eru því skráningarnar mun fleiri en eignirnar. Ég gerði (að vísu) svolítið ófaglega talningu á nokkrum síðum vefsins og samkvæmt henni væri sennilega nær að ætla að talan gæti verið á bilinu 35-37 eignir á hverja 1000 íbúa.

Ég kannaði nokkra staði til viðbótar sem eiga það sameiginlegt að ekki á að vera um offramboð af húseignum að ræða nema e.t.v. á Akureyri. Upplýsingar um skráðar eignir eru fengnar hjá fasteignir.is en íbúatölur frá Hagstofu Íslands.

Dalvík 17 eignir á 1000 íbúa.

Blönduós 14 eignir á 1000 íbúa.

Ólafsfjörður 31 eign á hverja 1000 íbúa.

Akureyri - 48 eignir á hverja 1000 íbúa.

Seyðisfjörður - 16 eignir á hverja 1000 íbúa

Bolungarvík - 26 eignir á hverja 1000 íbúa.

Það er því hægt að leiða að því nokkur rök að ástæða sé til að finna fyrir svolitlum fiðring í tánum þegar farið er að tala um nýbyggingar á Siglufirði. Auðvitað þarf að byggja hús þar sem fólk ætlar sér að búa, en ég vona bara að það fái ekki of margir of mikið og stórfenglegt bjartsýniskast á sama tíma.En ég vil taka það fram að það er síður en svo skoðun mín að ekki eigi að byggja hús á Siglufirði. Ég held bara að minna í senn en kannski oftar, sé gæfulegri leið að markinu, en svo má ekki gleyma gömlu húsunum. Ég get ekki stillt mig um að bæta við nokkrum myndum hér að neðan af húsum sem hljóta að teljast vera orðin alveg ómissandi í bæjarmyndinni í dag, þrátt fyrir að margt misjafn hafi verið um þau sagt á árum áður og jafnvel talað um að best væri að fara með jarðýtuna á þessi ónýtu hrófatildur. En mörg þeirra sem áður voru vissulega til lýta hafa komist í góðar hendur og endurheimt reisn sína og þokka. Rétt er að rifja það upp í leiðinni að þrjú efstu húsin fengust gefins gegn því að útlit þeirra yrði fært til betri vegar.Svo má líka spyrja sig að því hvort ekki sé að finna á myndununm hér að ofan húsagerðir sem myndu falla betur að byggðinni í kring um gamla fótboltavöllinn en áform eru uppi um.
Dæmi nú hver fyrir sig.

15.03.2010 19:54

Alveg eins og jójó621. Fyrir fáeinum dögum skrapp ég norður á Sigló en staldraði stutt við. Nú er verið að leggja aftur af stað á heimaslóðir og aftur verður stoppað mjög stutt við, eða aðeins fram að helgi. Eftir helgina verður svo haldið af stað eina ferðina enn, og eins og áður stoppað við í 3-5 daga.
En nánar um það næst...

- - -

Viðbót.


Bergþórugata 51.

Ástæðan fyrir öllu "jójóinu" er að nýlega skipti ég á 40 fermetra ósamþykktu íbúðarrými í kjallara við Bergþórugötu í Reykjavík og húsi á Siglufirði. Íbúðarrýmið sem samanstendur af tveimur stökum herbergjum með eldunaraðstöðu, hefur nýst mér illa eða reyndar ekkert sl. tæp tvö ár, þar sem ekki hefur náðst samkomulag um nauðsynlegar endurbætur á hreinlætisaðstöðu í sameign sem íbúðin þarf að hafa aðgengi að. En nánar um það mál síðar...


Suðurgata 46

Húsið sem ég fékk svo í staðinn, er öllu stærra eða heilir 210 fermetrar. Íbúðin (150 fermetrar) á efri hæðinni er í mun betra standi en ég átti von á, en sú á neðri hæðinni (60 fermetrar) því sem næst við fokheldismörk. Það er því margt handtakið framundan og mér þykir ekki slæmt að sjá fram á að ég muni því dvelja meira og minna fyrir norðan fram eftir árinu. En það er líklega vægt til orða tekið að það sé
talsverður munur á fermetraverðinu, hann er með ólíkindum.

En svo er hitt að það þarf oftast að skjótast suður um helgar til að spila og sinna ýmsum öðrum málum þeim megin á landinu.

03.03.2010 13:15

Hver var þessi Gunna?

620. Ég rakst á þessa hráslagalegu ferðalýsingu á einu netflakkinu, en hún birtist í Norðra þann þriðja dag ágústmánaðar árið 1906. Það svífur öllu minni rómntík yfir vötnunum í þessari frásögn en svo oft má lesa í hástemmdum lýsingum frá þessu mesta ævintýri allra íslenskra ævintýra. Líklega hefur rósrauða áferðin varðveist betur í minningum margra þeirra sem lifðu þetta tímabil, en sá hluti litrófsins sem er dekkri og dapurlegri. Það sem miður fór er annað hvort gleymt eða það hafa verið fundnir á því nýir og jákvæðari fletir.

"Manstu hvað við vorum rosalega sjóveik þegar við fórum með henni á Gunnu til Sigló"...?

Það var örugglega ekkert gaman meðan á ferðinni stóð, en það má vel brosa að öllu saman þegar hún er rifjuð upp einhverjum áratugum síðar.

Svona atburðirnir eiga það nefnilega til að taka algjörum stakkaskiptum þegar tímans tönn hefur nagað utan af þeim verstu hnúturnar.
En man einhver eftir að hafa heyrt af fólksflutningaskipi sem hét Guðrún?
03.03.2010 06:24

Litli maðurinn og vinur litla mannsins619. Hugtakið "litli maðurinn" er oftast notað þegar átt er við þann sem hefur orðið undir í lífsbaráttunni, manninn sem má sín alla jafnan lítils gagnvart ofureflinu, nær ekki "standard" og er oftar en ekki láglaunamaður, öryrki, ellilífeyrisþegi eða eitthvað í þá veruna. Stundum er "litli maðurinn" hvunndagshetjan sem allir dá, ímynd Davíðs sem leggur Golíat að velli og hann er hylltur og borinn á gullstóli þann tíma sen hann nýtur athygli fjöldans. Dæmi um slíkt er fyrirsögn sem ég rakst á frá árinu 2007. "Litli maðurinn leggur olíufélögin í héraðsdómi". Síðan segir frá Sigurði Hreinssyni frá Húsavík sem vann mál gegn olíufélaginu Ker, en það var dæmt til að greiða honum 15.000 krónur í skaðabætur vegna samráðs olíufélagana á árunum 1993 til 2001. En nú eru reyndar flestir búnir að gleyma Sigurði.

En stundum er líka átt við þann sem er lítilmótlegur í hugsun og gjörðum eins og Sigurgeir Orri átti við á Moggablogginu á dögunum.

"Þetta er nákvæmlega það sem búast má við af litlum manni. Það voru myndir af Brown um daginn í sjónvarpinu þar sem hann stóð meðal stjórnmálaleiðtoga heimsins. Það sem ég sá var lítill maður, lítill aumur maður. Því það eru bara litlir menn sem haga sér gagnvart Íslandi eins og hann gerði."

Ef slegið er inn leitarorðinu "litli maðurinn" á Google, kemdur ýmislegt skondið í ljós. Í tilefni þess að sveitastjórnankostningar eru á dagskrá með vorinu á eftirfarandi ágætlega við:

"Litli maðurinn er okkar innri kjarni segir Margrét St. Hafsteinsdóttir: Litli maðurinn dreginn fram í dagsljósið og skellt í fangið á framboðsfólki sem rífst um það hvert þeirra ætlar að gera mest fyrir hann."

Aðalsteinn Á Baldursson formaður Framsýnar skrifar um litla manninn í svolítið yfirfærðri merkingu:

"Já, litli maðurinn er ekki ánægður um þessar mundir þar sem þjóðarskútan er strand og brimgarðar ganga yfir hana í flæðarmálinu. Áhöfnin með skipstjórann í fararbroddi er komin á þurrt og telur sig ekki bera neina ábyrgð á strandinu. Strandið sé öðrum að kenna, jafnvel litla manninum sem gagnrýnt hefur skipstjórann og aðra yfirmenn skútunnar fyrir eyðslusemi og stefnuleysi undanfarin ár. Litla manninum fari best að þegja þar sem hann sé bæði vitlaus og gamaldags og skilji því ekki mikilvægi útrásarinnar fyrir efnahag þjóðarinnar. Það eigi hins vegar ekki við um forseta vorn og stjórnmálamenn sem haldið hafi útrásarvíkingunum veislur og veitt þeim orður eftir þörfum fyrir góð störf í þágu þjóðfélagsins. Skipstjórinn gengur í burtu af strandstað og raular lagið, Ekki benda á mig."


Ein birtingarmyndin af litla manninum er sagan af Siglfirðing nokkrum sem átti ekki fyrir rafmagnsreikningnum svo Rarik sendi mann frá Blönuósi til að loka. Það tók sveitungann tvo daga að aura saman fyrir hinum ógreiddu reikningum, hann borgaði þá og bað síðan náðarsamlegast um að aftur yrði opnað fyrir rafmagnið. Í fyrstu var það ekki hægt fyrr en maðurinn frá Blönduósi kæmi aftur í bæinn, en síðan var það ekki heldur hægt vegna bilunar í tölvukerfi orkufyrirtækisins því þar komu ekki fram meinar hreyfingar á greiðslum. Heil vika leið í rafmagnsleysi frá því að reikningar voru greiddir og uppistaða matseðilsins á heimilinu var nær eingöngu dósamatur og kaldar samlokur.

"Vinur litla mannsins" er svo undantekningalítið hinn póllinn, sá jákvæði og sá góði. 

Ég rakst á athyglisverða upptalningu á þeim sem gætu talist vinir litla mannsins, en auðvitað voru verulega skiptar skoðanir á þeim lista. Hér kemur hann og dæmi nú hver fyrir sig...

Jóhanna Sigurðardóttir

Linux

Frjálslyndi flokkurinn

Herra Sigurbjörn Einarsson

Obama

Bónus

Albert Guðmundsson

Jólasveinninn og þá helst Stekkjastaur (sem heldur sig mest í fjárhúsum um fengitímann).

Steingrímur J.

ASÍ

Ögmundur Jónasson

Fjarðarkaup

Ólafur Ragnar Grímsson

Davíð Oddsson

Netið

Castro

Mörður Árnason

Ástþór Magnússon

Mandela

Leikfélag Reykjavíkur

Þrotabú Baugs

02.03.2010 15:24

Snurparinn hans Óskars


Heimili fiðurfénaðarins hans Óskars. - Mynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar

618. Ég er mikið búinn að reyna að komast yfir mynd af hinu afar sérstaka hænsnahúsi hans Óskars Sveinssonar. Hún fannst að lokum og þó talsvert hafi vantað upp á að myndgæðin, flaggaði ég henni engu að síður hér að ofan. Ekki var hún þó búin að vera þar lengi þegar Steingrímur (siglo.is) sendi mér aðra mun betri og tók hún með það sama við hlutverki þeirrar eldri. En "húsið" er ekki bara einhver súðbyrðingur á hvolfi þar sem fyllt er að með torfi og grjóti, heldur getur hér að líta snurpubát sem er svolítið sértækara fley. Þegar síldveiðar hófust við íslandsstrendur var yfirleitt veitt í reknet, en bylting varð í veiðunum þegar hringnótin (sem einnig hefur verið nefnd herpinót og snurpunót) kom til sögunnar.


Óskar fyrir framan hænsnabúið. - Mynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar.


Ég kynntist Óskari lítilsháttar þegar ég vann í frystihúsi S.R. við Vetrarbraut sem síðar varð frystihús Þormóðs Ramma, og ekki er ofsagt að hann hafi verið hinn skemmtilegasti karl.


Snurpubátar á Ráeyri - Ljósmynd Gestur Fanndal um 1970

 

Ágæta lýsingu má finna á netinu skrifaða af Ingibjörgu Jónsdóttir nema í fiskifræði við HÍ.

"Hringnót er netgirðing sem lögð er hringinn í kringum fiskitorfu. Hringnætur eru notaðar við loðnu- og síldarveiðar við Ísland. Hringnót samanstendur úr aflöngum netstykkjum úr næloni sem eru saumaðar saman lóðrétt og mynda mjög stórt net. Meðalsíldarnót er 550m löng og 180m djúp. Á efri brún netsins eru flot sem halda netinu á floti og við neðri brún netsins er teinn sem á eru festar blýsökkur til að þyngja netið. Einnig eru snurpuhringir festir á neðri brún netsins og í gegnum þá þræddur snurpuvír. Netið er lagt utan um torfuna og neðri teinninn látinn síga til að komast niður fyrir torfuna. Nótinni er lokað að neðan með því að hífa snurpuvírinn inn. Því næst er annar endi nótarinnar dreginn inn í skipið og minnkar þá nethringurinn þar til aðeins lítill netpoki er við hliðina á skipinu og í honum liggur fiskurinn. Fisknum er svo dælt upp í skipið. Hringnót er stærsta veiðarfærið sem notað er við Ísland og vegur meðalsíldarnót um 40 tonn. Hringnótin er einnig afkastamesta veiðarfærið við Ísland, þ.e.a.s. tekur mestan afla. T.d. getur kolmunnatroll tekið allt að 200 tonnum í einum drætti."Auglýsing í Mbl. frá árinu 1940.

 

En gömlu snurpubátarnir urðu úreltir þegar menn höfðu tileinkað sér nýrri og þróaðri tækni við síldveiðarnar og með tilkomu kraftblakkarinnar hurfu þeir síðan endanlega


Óskar Sveinsson. - Mynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

 

Ég rakst á alveg frábæra mynd af hænsnabúinu sem er teiknaða af snillingnum Örlygi Kristfinnssyni. En þar sem ég gaf mér ekki tíma til að sækjast eftir leyfi hans til birtingar, læt ég slóðina fylgja því hana er reyndar að finna á gamla sksiglóvefnum. 

Hún er: http://old.sksiglo.is/e107_images/newspost_images/18kort.jpg

 


Snurpubátur á hvolfi við Síldarminjasafnið.

 

Þegar ég var "lítill" var oft farið suður á Langeyrina og leikið sér, en þar voru tugir slíkra báta geymdir. Lengi vel var svo hefð fyrir því að taka a.m.k. einn bát á ári, saga hann í sundur þvert yfir miðjuna, reisa hlutana upp á endann, snúa þeim saman og nota sem aðaluppistöðu í áramótabrennuna. Nú munu aðeins þrír snurpubátar í sæmilega heilu lagi vera eftir af þeim hundruðum sem eitt sinn flutu við Íslandsstrendur.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 345
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344704
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 16:10:34
clockhere

Tenglar

Eldra efni