Færslur: 2010 Október

30.10.2010 02:06

Hippy, hippy shake....

 


663. Ég rakst á þessar
verulega skemmtilegu myndir af tveimur þekktum Siglfirðingum á vefróli mínu í gær. Þar sem nokkur tími er liðinn síðan þær voru teknar, er ekki alveg víst að allir átti sig á hvaða höfðingja er þarna um að ræða. En gaman væri engu að síður að fá álit eða skoðun lesenda á því hverjir þeir eru. Svörin má svo auðvitað vista með því að smella á "Bættu við áliti," en það er því miður eins og (mér liggur við að segja) sárafáir átti sig á þeim einstæða möguleika í stöðunni.

28.10.2010 02:20

Aumingja Kalli greyið



662. Mér brá ekki svo lítið
þegar ég rakst á eftirfarandi "frétt" á netinu. Mig setti hljóðan, ég drakk í mig hvert einasta orð og hreinlega saup hveljur svo gott sem í hverri einustu línu.
Greinin fer hér að neðan.

 

"Biskup gekk berserksgang - Kalla þurfti til lögreglu

Starfsmenn biskupsstofu þurftu að kalla til lögreglu um helgina eftir að biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, gekk berserksgang á skrifstofu sinni. Var biskup svo ósáttur með tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, um takmarkanir við aðgangi trúfélaga að skólastarfi, að hann trylltist.

Þegar lögregla kom á vettvang var biskup búinn að brjóta niður hurðina á skrifstofu sinni, auk þess sem hann hafði fleygt skrifborði sínu út um gluggann. Starfsfólk var flest búið að leita sér skjóls utandyra og að sögn lögreglu var það mjög skelkað.
Þurfti fjóra lögreglumenn til að koma biskupi í handjárn en hann var mjög ósáttur með vinnubrögð lögreglu og barðist um á hæl og hnakka.
Einn lögreglumaður kjálkabrotnaði í atganginum.

Þegar lögreglan leiddi biskup út í lögreglubíl, streittist hann á móti og öskraði móðursýkislega, "Þetta er illa dulbúin atlaga að faglegum heiðri presta og djákna!"

Að öðru leyti var helgin róleg hjá lögreglu."

 

Þegar ég var farinn að jafna mig eftir lesturinn, fór ég að velta þessu máli betur fyrir mér. Það hefur greinilega allt fjölmiðlafólk lagst á eitt með að halda umfjöllun um þessa uppákomu í lágmarki og auminginn hann Kalli er líklega lokaður inni á einhverri stofnum núna því hann er auðvitað mikið veikur maðurinn.

En eftir að ég fór að skoða vefinn betur og lesa meira, fóru efasemdarhrukkur að myndast á enninu og ég fitjaði annað slagið upp á nefið. Þarna bar ýmiskonar vægast sagt skrautlegt "fréttaefni" fyrir augu sem vakti athygli mina og það ekki svo litla. Fyrir þá sem vilja kynna sér ýmis mál sem aðrir miðlar "þora ekki" að fjalla um, þá er slóðin http://sannleikurinn.com/heim/


Þetta er sagður vera guð á ferð í Breiðholtinu, en hann mun þó hafa gefið sér tíma til að setjast niður í örlitla stund fyrir ljósmyndarann.

Í þráðbeinu framhaldi af ofangreindri frétt er auðvitað við hæfi að hnýta þeirri eftirfarandi við, en hún er ættuð af "fréttasíðu" Baggalúts. 

"Meðal þeirra fjölmörgu rita sem útgáfurisinn Baggalútur sendir frá sér fyrir þessi jól er ævisaga Guðs Almáttugs, skapara. Ævisagan ber titilinn "Guð minn almáttugur: Frá sköpun til snjallsíma" og rekur hún merkilega ævi þessa merkilega hugsjónamanns, sigra hans og ósigra. Guð segir bókina bæði einlæga og hugaða, en í henni fjallar hann um ástina, frægðina, flókið fjölskyldulíf, markaðssetningu og erfiðan fyrirtækjarekstur - trúna á sjálfan sig og auðvitað edrúmennskuna. Er ljóst að bókin mun veita fróðlega innsýn í líf þessa dula markaðssnillings og margt mun koma lesendum á óvart. Það er tónlistarmaðurinn ástsæli Megas sem skrásetur."

26.10.2010 01:16

Ökutæki framtíðarinnar



661. Þó um manninn á ökutækinu
sé kannski með góðum vilja hægt að segja að sé jafnvel óvanalega venjulegur útlits (ef litið er fram hjá aukabúnaðinum sem honum fylgir), þá verður það sama tæpast sagt um farkostinn sem hann ekur á um götur bæjarins.

"Óvitlaus" maður hefði jafnvel einhvern tíma látið út úr sér að hann væri eitthvað skrýtinn þessi og flestir hefðu þá trúað honum og það strax.

 

Líklega er það "rangur misskilningur" hjá mér að slíkur maður þurfi endilega að vera með einglyrni og nefklemmugleraugu, úr samhengi við hinn viðurkennda raunveruleika og á endalausri ferð sem engan endi tekur í leit sinni að svarinu eina. En þannig er það alla vega í þeim gömlu vísindaskáldsögum og skemmtilegu ævintýrunum sem ég þekkti einu sinni til.

 

Mér datt fyrst í hug að munurinn á honum (farkostinum) og t.d. átta gata næstum því tölvustýrðum blæju-sportbíl með flækjum, brjáluðum græjum með risa bassaboxum sem fylla skottið, rándýrum álfelgum, á low-pro, svo ekki sé talað um sjálfbíttingu og olíustýri, væri e.t.v. svipaður og á flugvél og geimskipi.

 

Hann virkar ekki eins og þessi týpíska sunnlenska malbiksrotta, eyðslukló og umhverfissóði sem lesið hefur yfir sig í einhverjum hinna fjölmörgu háskóla hérlendis og fer því eftirleiðis með hinminskautum bæði í hugsun ug gerðum.

Mér þykir hann miklu líklegri til að vera fullgildur meðlimur í samfélagi hugsandi manna, vera að gera gagnlega og skynsamlega hluti sem gætu vel gagnast fólki eins og mér og þér.

 

Mér sýnist þarna vera á ferðinni neyslugrannt og sennilega heimapælt (og næstum örugglega líka smíðað) ökutæki og rennireið, þar sem ökumaðurinn tekur sjálfan sig með hvert sem hann fer og heldur sér eflaust í betra formi en þeir sem sækja rándýrar líkamsræktarstöðvar og ýmist með eða án einkaþjálfara.

 

Þessum manni og ökutæki mætti ég á mótum Bústaða og Sogavegar á dögunum, en í góðri bók sem ég las nýlega stendur: "Margur hefur lagt af stað með léttan mal og ferskur hugur hlegið í ungu brjósti við upphaf ferðar" en það gæti vel átt við þann sem hér fer.

22.10.2010 15:16

Kveðja til tónlistarmanns og frábærs kennara


(Ljósmynd - Ljósmyndasafn Siglufjarðar)

660. Í gær bárust mér þau leiðu tíðindi
að minn ágæti tónlistarkennari frá því fyrir 40 árum, Gerhard Schmidt hefði flutt sig yfir á annað tilverustig og væri því horfinn úr mannheimum. Hann mun hafa látist um miðjan septembermánuð í Berlin eftir veikindi sem hann hefur átt við að stríða um tíma, en þar hefur hann búið og starfað undanfarna áratugi. Fyrstu kynni mín af þessum fjölhæfa manni komu til eftir að mér tókst að komast að í Tónskólanum á Siglufirði, hafandi farið nokkrar krókaleiðir í þeim efnum.
Í þá daga gátu nefnilega verið langir biðlistar í þann skóla því þar var hann eini kennarinn um tíma, en fjöldi áhugasamra mun meiri en hægt var að sinna.
Óttar frændi minn Bjarnason hafði þá verið í píanótímum um nokkurt skeið, en sýndi því hljóðfæri lítinn áhuga. Hann hafði þess í stað mikla löngun til að eignast trommusett og spreyta sig á þeim vettvangi.  

Það varð því að samkomulagi okkar á milli að ég gengi einfaldlega í tímana hans, kennarinn var alveg sáttur við þessi skipti og Óttar keypti trommusettið sem virtist eiga mun betur við hann en slagharpan. Hvort foreldrar hans voru svo alveg jafn sáttir með þessar aðgerðir okkar strákanna veit ég ekki, en varð reyndar aldrei var við neitt annað.

Gerhard hafði einstakt lag á að halda kveikja elda á tónlistarsviðinu sem brunnu lengi og vakti í mínu tilfelli þann áhuga sem enn er til staðar. Hann var sannkallaður kraftaverkamaður á sínu sviði og verk hans þarf tæpast að kynna fyrir þeim Siglfirðingum sem komnir eru til vits og ára.

Það sem mér finnst hins vegar undarlegt við brotthvarf mín kæra kennara, er hve lítið virðist fara fyrir tíðindum af þeim, t.d. í Siglfirskum vefmiðlum. Við eigum þessum manni mikið að þakka fyrir það sem hann gaf af sjálfum sér til þeirrar tónlistararfleifðar sem við Siglfirðingar munum njóta til framtíðar og teljum vera okkar allra.

Bíði Sumarlandið sæla eftir okkur öllum hinum megin fljótsins mikla þegar jarðvistardögunum lýkur, má telja víst að þar verði tekið á móti okkar manni með miklum lúðrablæstri um leið og ferjumaðurinn leggur að bakkanum. Englar hinna efri byggða munu þá eflaust mynda glæsilegan heiðursvörð á bryggjusporðinum, bjóða hann velkominn í úrvalsbrassband sitt og væntanlega ætla honum að leika þar fyrsta trompet um allra framtíð.

                                            

11.10.2010 09:50

Gamalt viðtal við Hannes Bald



659. Fyrir nokkrum dögum
var ég á sveimi í þeim afkima netheima sem liggur til liðinna ára, en þar er oft gaman að dvelja um stund og rifja upp næstum því gleymdar stundir. Ég var að glugga í Þjóðviljann frá sunnudeginum 12. ágúst árið 1973 þegar ég rakst á sérdeilis skemmtilegt viðtal sem Sigurjón Jóhannsson hafði tekið við þann mæta mann Hannes Baldvinsson.


Séð yfir Miklavatn í Fljótum.




Hin landsfræga danshljómsveit Gautar.




Bjarki Árnason harmonikkuleikari, aðalmaðurinn í "gömludansahljómsveitinni" Miðaldamönnum.




"Bítlahljómsveitin" Frum í Sjallanum við Grundargötu árið 1973




Horft yfir Héðinsfjörð af Móskógarhnjúk innst í Skútudal.

11.10.2010 09:12

Fílapenslarnir



658. Þessi merkilega heimild rataði í hendur mínar á dögunum þegar ég átti leið um Aðalgötuna.
Hún sýnir Fílapenslana eins og þeir voru skipaðir á árabilinu 91-92 sem er sennilega upphaflegi og því kannski "mest orginal" hópurinn.
Líklega eru þeir þarna að troða upp á fyrsta Síldarævintýrinu sem haldið var og er myndin því enn skemmtilegri fyrir vikið.

Þeir eru frá vinstri talið: Finni Hauks, Tommi Kára, Steini Sveins, Pétur Bjarna, Baddi Valtýs og Óli Kára.

11.10.2010 08:22

Ný og miklu skemmtilegri vegaskilti



657. Ég hafði hugsað mér
að setja upp heilmikinn myndskreyttan pistil um Héðinsfjarðargöng þar sem farið væri yfir aðdragandann, hinar skiptu skoðanir landsmanna á framkvæmdinni, meðan verkið stóð yfir og svo auðvitað opnunina. En eftir á að hyggja taldi ég eiginlega alveg nóg að slíku efni hafa þegar verið á ferðinni bæði í bili í netmiðlum sem og öðrum.

"Það má nú líka éta yfir sig að góðum graut" mælti kerlingin forðum og skulum við hafa þau orð til hliðsjónar að sinni. Nokkuð er nú liðið frá opnuninni, ég hef ekki komist í tölvu svo "vel" sé síðan og það getur tæplega talist spennandi að vera alltaf að segja gamlar fréttir. En allmargar myndir frá opnunninni er eigi síður af finna inni á "myndaalbúm" aftarlega í möppu merkt "Sigló 2010" ef áhugi er fyrir skoðun.




Þetta skilti vísar leiðina frá Ólafsfirði til Siglufjarðar um Lágheiði án þess að það komi fram að önnur mun styttri leið er beint framundan. Það stóð enn á sínum stað tæpri viku eftir opnunina og viðbúið að það gæti skapað óþægindi og misskilning. Ég veit eitt dæmi þess að fólk sem ekki er staðkunnugt og ætlaði að skoða hið mikla mannvirki, tók vitlausa beygju og var komið langleiðina upp á Lágheiði þegar mistökin uppgötvuðust.

Ég fór daglega til Ólafsfjarðar fyrstu dagana eftir opnun, hvort sem ég átti þangað erindi eða ekki og stundum jafnvel oft á dag. Mér fannst eins og hinn þekkti hluti veraldarinnar hefði stækkað lítillega og sá ókannaði hefði minnkað að sama skapi. Vissulega hafði samfélagið stækkað þrátt fyrir að hin formlega sameining hefði farið fram fyrir nokkrum árum, en núna var það orðið áþreifanlegra fyrir alla íbúa Fjallabyggðar.



 

Fyrir nokkrum árum spurði kunningi minn mig hvað þessi Héðinsfjarðargöng styttu leiðina mikið milli Siglufjarðar og Reykjavíkur.

Mig langaði mest að fara nokkrum orðum um landafræðikunnáttu hans í stað þess að svara spurningunni, en stillti mig og sagði eins og var að þau breyttu engu um hana.

"Til hvers er þá verið að gera göngin" spurði hann undrandi og ég skal viðurkenna að ég varð kjaftstopp í góða stund.



 

En á tíðum ferðum mínum milli austur og vesturbæjar Fjallabyggðar undanfarna daga kom þessi spurning aftur upp í hugann og ég sá að eiginlega hafði aðeins verið spurt um bæjarhluta á sínum tíma en ekki allan bæinn. Segja má að tæknilegri útfærslu hennar á sínum tíma hafi verið ábótavant.


 

 

Þetta skilti er við Ketilás og ef vegalengdinni til Siglufjarðar er bætt við vegalengdina milli bæjarhlutanna, kemur í ljós að leiðin milli Ólafsfjarðar og Reykjavíkur hefur lengst um 5 km. sé farið um Héðinsfjarðargöng. Ekki batnar sá hluti málsins í eyrum þeirra sem aðeins hugsa í tölum og vita lítið eða ekkert um ónógt viðhald malarvegum, ófærð á heiðum uppi, djúpar holur og endalaus þvottabretti. En nú geta Ólafsfirðingar þó farið alla leiðina á malbiki og ekki ætti veðurhæðin að trufla aksturinn þá 12 km. sem hún liggur "innandyra" ef þannig mætti að orði komast.

En líklega munar mest um að þeir spyrja sig sjaldnar eftirleiðis hvort hægt að komast suður eða ekki.


En síðan styttist leiðin auðvitað enn meira þegar næstu göng (milli Hólsdals og Fljóta) verða gerð, en þau munu væntanlega leysa hin einbreiðu og  meira en 40 ára gömlu Strákagöng af hólmi sem vissulega var barn síns tíma.

Ekki er ólíklegt að vegastæðið verði þá lagt um hlaðið á Bjarnagili...

01.10.2010 00:49

Gamlar myndir frá Sigló

656. Ég hnaut um þessar bráðskemmtilegu myndir á ferðalagi í netheimum á dögunum og eins og hver maður hlýtur að skilja var mér ómögulegt annað en að "kópý/peista" þessa gullmola. Þær birtust í Þjóðviljanum þ. 12. ágúst 1973 í sérstökum blaðauka tileinkuðum Siglufirði. Fróðlegt væri að vita hvaða kona er að spjalla við Friðrik, hver strákurinn með boltann er, stelpurnar á neðstu myndinni svo ég tali nú ekki um hver gæti verið í vagninum.
Allan texta og myndir á Siglfirðingurinn Sigurjón Jóhannsson.











  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 378
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 99
Samtals flettingar: 470721
Samtals gestir: 51775
Tölur uppfærðar: 12.11.2024 16:34:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni