Færslur: 2012 Júní

28.06.2012 02:40

Aðdáandi Biebersins no 1


824. Í síðustu viku var viðtal við hið nýútsprungna stórstirni Justin Bieber í sjónvarpi allra landsmanna og þá var einnig sýnt frá tónleikum hans. Þessi hressi og hæfileikaríki strákur er fæddur í mars 1994 og því nýlega orðinn 18 ára. Sannkallað Justin Bieber æði hefur gripið um sig um allan heim og margt af því sem bar fyrir augu á skjánum minnti á bítlaæðið fyrir hálfri öld þar sem ungar meyjar rifu í hár sitt, æptu sig raddlausar og grétu úr sér augun í miklu tilfinningahitakasti.

-

Justin Bieber lýsti því nýlega yfir að hann hefði þroskast bæði hratt og vel sem listamaður, langaði að höfða til breiðari aldurshóps en áður með tónlist sinni og segist nú eiga erindi við eldra fólk. Það kom honum skemmtilega á óvart þegar 80 ára gömul kona, Josie Dimples, bættist í hópinn. Dimples, sem er margföld amma, óskaði Bieber til hamingju með nýtt lag sem hann sendi frá sér í vor og sagðist vera stórhrifin af nýju tónlistinni.

-

Ýmislegt fylgir því að verða heimsfrægur svo að segja á einni nóttu og það er auðvitað komin út bók um kappann sem var snarað skjótlega á ylhýra fyrr á árinu. Þar er spurt "HVERSU VEL ÞEKKIR ÞÚ BIEBERINN?" sem er þeir sem vilja láta taka sig alvarlega verða auðvitað að vita í heimildarmyndinni "ALL AROUND THE WORLD: PART 1" sem er líka nýleg, fá áhorfendur að fylgja honum á tónleikaferðalagi og sjá hvernig hann ferðast á milli 19 borga í 7 löndum á aðeins 12 dögum.

-

Bieberinn skrifaði líka nýlega undir kaupsamning á glæsivillu og borgaði hvorki meira né minna en andvirði 800 milljóna íslenskra króna fyrir eignina sem var áður í eigu Nicole fyrrum eiginkonu Eddie Murphy, rúmir 1000 fermetrar með sundlaug, gestahúsi, bíósal, vínkjallara, andatjörn úti á lóðinni og ýmsum öðrum flottheitum.

-

Á dögunum varð mér ljóst og það með afgerandi hætti að frægð og frami stráksa hefur náð að festa djúpar rætur í a.m.k. einhverjum íslenskum hjörtum og það svo um munar, ef marka má myndina hér að neðan sem var tekin þ. 18. júní sl. niður við Sundahöfn.



18.06.2012 16:08

Erfitt að vera Steingrímur J

Líklega er óþarfi að kynna manninn...

823. Það er líklega síður en svo tekið út með sældinni að vera Steingrímur J. þessa dagana, og mikið held ég að þeim ágæta manni hafi verið úthlutað sterkum beinum, þykkum skráp og greinilega ekki krækt saman með neinum kattarbeinum í öndverðri sköpunarsögu sinni. Álag og áreiti, umtal og illmælgi, ásamt hatursfullum áróðri og núna allra síðast rætnum níðvísum hefur gjarnan verið fylgifiskur hans á kjörtímabilinu sem senn fer að styttast í. Ég get ekki annað en virt hann fyrir margra hluta sakir, þó ég sé síður en svo alltaf sammála honum eða sáttur við verk hans og hafi aldrei kosið hann.

Ég man að eftir kosningarnar 2009 sagði einn ágætur kunningi minn sem stundum hefur setið á hinu "háa" Alþingi sem varamaður, að stærsta vandamálið núna væri að það vildi enginn taka við stjórninni, en sumir væru einfaldlega dæmdir til þess vegna þess hvernig þeir (og þær) hefðu talað. Það að fara í stjórn strax eftir hrun og verða að gera allar þær óvinsælu ráðstafanir sem ekki varð komist hjá, jafngilti að margra mati pólitísku sjálfsmorði, sama hver ætti í hlut. Margt ómaklegt hefur því verið sagt í hita leiksins (eða öllu heldur í hita hrunsins) og það fer ekki hjá því að stundum sé sú röksemdafærsla sem beitt er illskiljanleg á köflum. Alla vega fyrir leikmenn sem eru á svipuðu aulastigi í pólitík eins og ég er.



Björn Jón Bragason er ekki svo ólíkur Norðmanni sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið.


Ég rakst á grein sem Björn Jón Bragason skrifaði og birtist á pressan.is fyrir nokkru undir fyrirsögninni "Bankahrun Steingríms J." Ég varð bæði hissa og forvitinn, því ég hafði ekki heyrt af því að fjármálaráðherrann fyrrverandi væri talinn bera ábyrgð á neinu bankahruni og fór því auðvitað að rýna í lesefnið sem fjallaði nær einungis um aðkomu ríkisvaldsins að hinum gjaldþrota fjármálastofnunum SpKef og SPRON.

Þar segir hann: "Tap skattborgara vegna þessa ævintýris Steingríms J. er meira en öll útgjöld ríkissjóðs til Vegagerðarinnar á þessu ári". Hann vandar ráðherranum ekki kveðjurnar, telur fulla ástæðu til að draga hann fyrir Landsdóm og dæmir hann raunar sjálfur svona fyrirfram fyrir afglöp í starfi. Hann segir einnig að á "sama tíma og framsæknasta banka landsins var neitað um lausafjárfyrirgreiðslu var gríðarlegum fjármunum almennings dælt inn í gjaldþrota sparisjóði að geðþótta valdhafanna". Þar átti hann við fyrirmyndarbankann Straum-Burðarás þeirra Björgólfsfeðga sem hann fer um mörgum fögrum orðum. Maður spurði sjálfan sig allt frá miðri grein og alla leið niður úr hvort ekki væri allt í lagi sums staðar, því ekki var minnst svo mikið sem einu einasta orði á dóminn sem féll fyrr í mánuðinum í Hæstarétti. En það var þyngsti dómur sem fallið hefur hér á landi vegna efnahagsbrota. Ragnar Z. Guðjónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs og Jón Þorsteinn Jónsson fyrrverandi stjórnarformaður Byrs fengu fjögurra og hálfs árs óskilorðsbundinn fangelsisdóm. Ekki heldur eitt einasta orð um Geirmund Kristinsson sem átti vafalaust mestan þátt í falli SpKef, en síðasta heila starfsár sjóðsins (2008) undir hans stjórn, nam tapið hvorki meira né minna en nítján milljörðum.

-

Í skýrslu Price Waterhouse Coopers um sparisjóðinn, sem gerð var fyrir fjármálaeftirlitið kemur fram að Sparisjóðurinn átti fasteign á Akureyri sem Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri réð einn yfir. Engin gögn lágu fyrir um hvernig fasteignin var notuð. Sparisjóðurinn yfirtók einnig íbúð í Kópavogi og leigði hana syni eins starfsmanna sjóðsins á verði sem virðist hafa verið vel undir markaðsvirði. Samkvæmt skýrslunni nutu valdir starfsmenn fríðinda umfram hefðbundin starfsmannakjör. Sjö starfsmenn höfðu bíl til umræða, sumir fengu farsíma og ADSL-tengingar en engar reglur giltu um úthlutun þessara fríðinda. Þá fengu níu háttsettir starfsmenn líf- og sjúkdómatryggingar greiddar og fjórir til viðbótar slysatryggingu. Í skýrslunni er gerð athugasemd við að ýmis fríðinda starfsmanna SpKef hafi ekki verið gefin upp til skatts. Bílahlunnindi voru þau einu sem gefin voru upp en tryggingarnar og afnotin af húsinu á Akureyri hefði átt að gefa upp til skatts. Þá voru starfsmönnum oft lánaðar háar fjárhæðir. Til dæmis fékk þjónustufulltrúi í útibúi á landsbyggðinni 200 milljón króna lán sem nú hefur verið afskrifað. Þá fékk stjórnarmaður SpKef 800 milljón króna lán sem einnig hefur verið afskrifað.

Björn Jón Bragason gerir sem sagt enga athugasemd við ofantalið.

-

En hver er svo þessi skríbent? Björn Jón Bragason er sagnfræðingur og laganemi sem hefur gefið kost á sér til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Hann skrifaði bókina "Hafskip í skotlínu" að beiðni (sumir segja samkvæmt pöntun) Björgólfanna þar sem hann fegrar sumt en reynir að kasta rýrð á annað.

Eftir útkomu bókarinnar gerði fyrrum bankastjóri Útvegsbankans sáluga verulegar athugasemdir við innihaldið og sagði þá meðal annars að hún væri því miður ekki góður vitnisburður um æðsta takmark sagnfræðinnar sem ætti að vera að leita sannleikans.

Því má svo bæta við að Björn mun hafa fengið ágætlega greitt fyrir skrifin.

-

Greinarnar um "Bankahrun Steingríms J." eru í tveimur hlutum og er að finna í heild sinni á http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bjorn_Jon/bankahrun-steingrims-j.-120 og http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Bjorn_Jon/bankahrun-steingrims-j.--annar-hluti

-

En þetta er ekki allt, því einhverjir Skuggabaldrar hafa í skjóli nafnleyndar fengist við hinn forna (ó)sið að yrkja níð um ráðherrann sem finna má á hinum "vafasama" vef AMX.is

 

Skallagríms vísur.

 

Við skalla er kenndur skatni einn,
skuggabaldurinn, Grímur Steinn.
Fylgir honum flokkur smár
fyrst skal nefndur komminn Már.


Indriða telja einnig má
og IceSave Svavar líka þá.
Ill er þessi auma hjörð,
sem eftir skilur sviðna jörð.

 

Arði rænir illur sá,
auð hann telur víða.
Ævisparnað ei má sjá,
aldnir fyllast kvíða.


Rænir hann og ruplar þá
sem ráðdeild mátti prýða.
Land og þjóðin líða má,
og lokum fársins bíða.

 

Og aftur var hnýtt í efnahags og viðskiptaráðherrann á AMX þegar hann fékk skeyti sem sagt var að ætti að taka á upphafi og endi Steingríms í pólitík, en hún var svona:

 

Fáum var hann fyrirmynd,

fáir nefndu hann Jóhann.

Með Jóhönnu hann sökk í synd,

síðan bara dó hann.

 

En Steingrímur sem er með liprari hagyrðingum sendi AMX svar sitt.

"Ekki kippi ég mér upp við hefðbundið og reglulegt nag ykkar í mig, en þótti fróðlegt þetta með kveðskapinn og kíkti því á hann. Þá fór í verra, því mér þótti illa kveðið. Ég vil því bjóða ykkur að birta þetta svar frá mér og bréfið með ef þið viljið.

 

Illa kveðinn er þinn leir,

ýldu fylgir þefur.

Þegi skaði þegar deyr,

þessi aumi vefur.

með viðeigandi kveðju - Steingrímur J. Sigfússon.

 

Því er svo við að bæta að Steingrími J. Sigfússyni var boðið að taka við sem sérstakur fjármálastjóri á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Grikklandi í hálft ár, en hafnaði boðinu.

13.06.2012 03:58

ESB og fiskurinn í sjónum


822. Í gær komu ráðherrar evrópusambandslandanna saman til að greiða atkvæði um hina sameiginlegu fiskveiðistefnu sem hefur verið nokkuð lengi í endurskoðun og miklar vonir voru bundnar við. En hvernig sem atkvæði falla er ljóst að engar grundvallabreytingar verða gerðar og framtíðarstefnan hvorki fugl né fiskur eins og komist var að orði í fréttaskýringaþættinum Speglinum í fyrradag. Framkvæmdastjórnin gerir sér grein fyrir að gagngerra breytinga er þörf, en ráðherrar flestra aðildarlandanna taka ekki annað í mál en að fresta öllum nauðsynlegum aðgerðum sem stuðla að sjálfbærni á tímum kreppu og atvinnuleysis. Ástands sem fylgt hefur ESB allt frá stofnun þess, og sé rýnt í tölur sést að meðal atvinnuleysi þar er u.þ.b. tvöfallt meira en við búum við um þessar mundir og þykir okkur þó meira en nóg um.

Talið er að allt að 90% fiskistofna í lögsögu sambandsins séu ofveidd og jafnvel í bráðri útrýmingarhættu á næsta áratug eða ekki síðar en þar næsta, verði ekki algjör kúvending á fiskveiðistefnunni sem nú er ljóst að mun ekki verða.

Fiskiskipaflotinn er allt of stór, allt of afkastamikill og allt of óhagkvæmur, en honum er haldið gangandi með endalausum niðurgreiðslum og ríkisstyrkjum.

Fiskneysla íbúa ESB er u.þ.b. tvöfallt meiri en fiskimið landanna stendur undir, svo flotinn er því gjarnan sendur á fjarlæg hafsvæði þar sem fiskistofnar annarra ríkja eru ofveiddir, eða á "enskis manns land" á úthöfunum þar sem lög frumskógarins er alls ráðandi. En niðurstaðan er sem sagt sú að umhverfissjónarmiðin skulu víkja fyrir þeim efnahagslegu og vandanum er frestað um ókomin ár. Það er því eins öruggt og 2 + 2 eru 4, að hann mun koma margfaldur í hausinn á þeim sem ákvarðarniranar tóku eða arftökum þeirra og verður þá eflaust nálægt því að teljast óviðráðanlegur. En því miður er sjaldnast  tekið tillit til slíks þegar skammtímahugsun og grunnt hugarfar ræður ferðinni eins og nú virðist vera raunin á.

Fyrir fáeinum árum tók makríllinn að ganga inn í íslenska efnahagslögsögu, líklega vegna vegna hlýnunar sjávar, nema hann hafi hreinlega verið að flýja sjávarútvegsstefnu ESB sem væri ekkert nema skynsamlegt af honum. Lengi vel viðurkenndi sambandið ekki að nokkur flótti hefði brostið í stofninn og engan makríl væri að finna á Íslandsmiðum, þrátt fyrir að mælingar sýndu að þar hefðust við meira en milljón tonn. Og þar sem við höfum tregðast við að láta kúga okkur til samninga eins og ESB vill hafa þá, er okkur hótað efnahagslegu ofbeldi nema við gefum frá okkur strandríkjaréttinn. Það glittir í hið rétta andlit kúgarans þar sem hann neyðist til að stíga út úr skugganum og taka af sér falska ímyndarblæjuna.

Við munum því standa frammi fyrir enn breyttara Evrópusambandi en fram kom í orðum Siglfirðingsins Illuga Gunnarssonar á Alþingi í vikunni, en honum varð þar tíðrætt um þróunina í átt til sambandsríkis og evrukrísuna.

Vonandi fáum við tækifæri sem allra fyrsta til þess að taka af öll tvímæli um hvort svona kompaní er eitthvað fyrir okkur?

10.06.2012 05:28

Sýning á Gróttumyndum



821. Grótta telst vera eyja á okkar dögum og hefur gert það síðast liðin 200 árin eða svo, en þannig mun það ekki alltaf hafa verið því hún var áður landfastur hluti af Seltjarnarnesinu. Hún er nú tengd er við land af mjóum granda sem fer á kaf á flóði og þarf því að sæta sjávarföllum til að komast frá og til lands. Þessi breyting hafa komið til vegna verulegs landsigs og aukins sjávargangs vegna þess, en einnig mun mikið landbrot hafa orðið í Básendaflóðunum miklu árið 1799. Eftir þau var Grótta sem áður taldist hin mesta kostajörð, því sm næst óbyggileg.

-

Á vef Seltjarnarneskauptaðar má lesa eftirfarandi:

"Aðfaranótt 9. janúar brá til útsuðuráttar um allt Suður- og Vesturland, með þeim býsnum, sem fæstir höfðu áður lifað.  Um öll Suðurnes, allt austur að Eyrarbakka, gerði feikna hafrót og stórflóð sem olli gífurlegum skemmdum. Básendakauptún á Miðnesi lagðist af með öllu, því að sjór og veður braut þar öll bæjar og verslunarhús, fékk kaupmaðurinn með naumindum forðað lífi sínu og fjölskyldu sinnar að Stafnesi. Fiskgarðar og túngarðar þar syðra sópuðust heim á tún, sumstaðar tók jafnvel af túnin, skipauppsátur og brunnar. Tvær kirkjur fuku, Hvalneskirkja og og kirkjan að Nesi við Seltjörn sem sögð hafa fokið í heilu lagi af grunni sínum. Á Seltjarnarnesi gerði óveður þetta mikinn usla og olli miklum skemmdum. Um 18 skip og minni róðrarbátar brotnuðu, svo að sum fóru í spón, en önnur löskuðust svo, að ekki gátu sjófær talist. Fyrir innan Lambastaði gekk sjór yfir þvert nesið milli Skerjafjarðar og Eiðsvíkur, svo að ekki var fært mönnum né hestum. Er haft eftir jafnathugulum heimildarmanni og biskupinum á Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhníptu máli, en í öðrum stórstraumsflóðum. Í Örfirisey spilltist land svo af sand og malarburði, að eyjan mátti lítt byggileg teljast, enda lögðust býli þar úti í eyði.

-

Frá Gróttu mun áður fyrr hafa verið talsvert útræði og eitt sinn þegar skip fórst við Gróttutanga varð til eftirfarandi vísa.

Dauðinn sótti sjávardrótt,
sog var ljótt í dröngum.
Ekki er rótt að eiga nótt
undir Gróttutöngum.

-

Viti var fyrst reistur í Gróttu árið 1897 og varð Þorvarður Einarsson vitavörður þar, en hann og kona hans Guðrún Jónsdóttir hófu þar búskap árið 1895. Í tíð þeirra var túnið stækkað til muna, en sjór braut land og brotnaði úr sjógarði þar veturinn 1926 -27 en hann var þá hlaðinn myndarlega upp aftur. Síðar var svo ekið stórgrýti á grandann milli Snoppu og Gróttu til að verja hann frekari niðurbroti. Er Þorvarður lést 1931 tók sonur hans Jón Albert (1910-1973) við vitavörslunni og gengdi þeim starfa til dauðadags, en hann drukknaði í róðri 12. júní 1970. Albert stundaði mest sjó á meðan hann bjó í eynni en hafði lítilsháttar búskap með útgerðinni. 

Nýr viti var reistur í Gróttu eftir síðari heimstyrjöld, allnokkru austar en gamli vitinn og voru ljós nýja vitans tendruð í nóvember 1947. Lendingaraðstaða í eynni var bætt á búskaparárum Alberts í Gróttu og var gerð bryggja framan við sjóbúð hans og við hlið hennar dráttarbraut og gat Albert dregið bát sinn þar upp. Grótta var friðlýst árið 1974".

-

Því má svo bæta við að Björgunarsveitin Albert á Seltjarnarnesi er nefnd eftir vitaverðinum.

-

En það er ástæða þess að Grótta kemur svo snögglega og kannski pínulítið óvænt inn í umræðuna þar sem Siglufjörður hefur ávalt verið efst á baugi og fátt annað komist að. Forsagan er sú að sr. Bjarni Þór Bjarnason rakst á mynd sem ég hafði tekið af Gróttu fyrir fáeinum árum og Gunnar Trausti síðan prentað fyrir mig á striga. Bjarni spurði mig hvort ég gæti ekki hugsað mér að lána hana á sýningu sem til stæði að halda á Gróttumyndum, og ég taldi mér auðvitað mikinn heiður að fá að gera. Það var svo í vikunni sem leið að ég gerði mér ferð þangað vestur eftir með myndina, og þar tóku á móti mér tvær konur sem voru að setja sýninguna upp. Við tókum tal saman og eftir svolitla stund hafði ég auðvitað komið hinum siglfirska uppruna mínum inn í umræðuna.

"Fyrri maðurinn minn var frá Siglufirði" sagði önnur, og "hann Örlygur á safninu var bekkjarbróðir min í Mynd & Hand" sagði hin. Það sannaðist sem sagt þarna eina ferðina enn að líklega hafa flestir Íslendingar einhverja tengingu við síldarbæinn fornfræga, ef ekki meðvitað þá að öllum líkindum ómeðvitað.

Það er svo í dag þann 10. júni að efnt er til svonefndrar Albertsmessu í Seltjarnarneskirkju. Þá er Alberts vitavarðar minnst, en hann lést 12. júní 1970. Eftir messu verður síðan sýningin opnuð.

08.06.2012 17:08

Á Búálfinum í Breiðholti


820. Síðast liðin þrjú skipti sem gítarleikarinn, söngvarinn, lagasmiðurinn og Fáskrúðsfirðingurinn Axel Einarsson hefur skroppið til landsins frá Svíaríki þar sem hann hefur verið búsettur undanfarin þrjú ár, höfum við skroppið saman eins og eina kvöldstund í Breiðholtið. En í verslunarmiðstöðinni Hólagarði er kráin Búálfurinn til húsa, og hún er rekin er af Ísfirðingnum Bjarna Hákonarsyni. Þar höfum við haft fyrir sið að taka a.m.k. eitt gigg í hverri (íslands)ferð Axels og það er einmitt það sem stendur til að gera í kvöld föstudaginn 8. júní. 




Í fyrstu var ég svolítið smeykur við að hætta mér inn í þetta villimannahverfi sem ég hafði í eina tíð fengið á tilfinninguna að Breiðholtið væri, og þá ekki síður eftir að skyggja tæki. En sá ótti reyndist ástæðulaus, rétt eins og hræðslan við "gömlu" villimennina í samnefndu hverfi heima á Sigló sem ég hef á síðari árum sannreynt að eru upp til hópa hinir mætustu menn og bestu drengir. Þarna er oftar en ekki alveg bullandi stuð og allir hinir kátustu á þessum vinalega og heimilislega stað jafnt eigandi, starfsfólk og gestir.

 

Heimasíða kráarinnar er http://bualfurinn.is/ er einhver vill kíkja á hvað staðurinn hefur upp á að bjóða.

05.06.2012 14:01

Meiraprófið


819. Þann 12. apríl sl. setti ég inn svolitla færslu undir yfirskriftinni "Aftur í skóla" án þess þó að fara neitt út í nein smærri atriði, þ.e. um hvers konar væri að ræða. Síðan þá hef ég alloft verið spurður þegar ég hef hitt kunningja og/eða sveitunga á förnum vegi, hvaða skóla ég sé nú kominn í. Það skal því upplýst að um er að ræða miklu frekar námskeið en einhverja alvöru skólagöngu, enda spurning hvort slíkt er ekki full mikið í lagt á "gamals" aldri.

Í byrjun aprílmánaðar þegar ég var á netflakki eins og svo oft, rakst ég á auglýsingu frá Ökuskólanum í Mjódd um meiraprófsnámskeið sem var í þann mund að byrja. Ég velti því fyrir mér svolitla stund hvort þetta gæti ekki verið allt hið skemmtilegasta mál, gagnlegt og opnaði e.t.v. ýmsar dyr, því verulega breytt skattalegt umhverfi ásamt mjög svo hækkandi verði á byggingarefni, hefur orðið til þess að það sem ég hef fengist við undanfarin ár getur tæplega talist mjög skynsamlegt lengur. Flest bendir því til að kominn sé tími til að taka svolitla vinkilbeygju, líta í kring um sig og huga að einhverju nýju sem hægt væri að reyna eða leggja jafnvel fyrir sig. Daginn eftir var ég enn að velta þessu fyrir mér og hringdi í umræddan skóla öðrum þræði og undir niðri fyrir forvitnis sakir. Ég spurði m.a. hvort ekki gæti verið að ég væri hreinlega orðinn of gamall til að setjast á skólabekk og hvort ég yrði þá ekki örugglega aldursforsetinn í hópnum. Sú sem var til svars hélt nú ekki og upplýsti mig um að á námskeiðinu sem hæfist þ. 11. apríl yrðu nokkrir á mínu reki og sá elsti allt að því heilum áratug á undan mér "í þroska". Símtalinu lauk með því að ég sló til og skráði mig í nám á vörubíl og trailer. Ég var á þeim tíma þeirrar skoðunnar að það yrði líklega nægilegur pakki í einu, og eins víst að móttakarinn í toppstykkinu sem er væntanlega farinn að slitna eitthvað, réði ekki við stærri skammt nema í einhverjum áföngum. Mér til svolítillar undrunar fór þetta allt saman svo vel af stað að það voru ekki liðnir nema þrír dagar af námskeiðinu þegar ég í bjartsýniskasti bætti leigubílnum og rútunni við og tók sem sagt allan pakkann. Róðurinn þyngdist að vísu lítillega þegar á leið, en þá var auðvitað ekki aftur snúið. Fyrir fáeinum dögum tók ég leigubílaprófið og í dag steinlá vörubílaprófið.

Ég er því bara nokkuð góður með mig þessa stundina þrátt fyrir að tæpast sé á slíkt bætandi, en þetta brölt hefur líklega orðið til þess að færri færslur hafa ratað hér inn á síðuna að undanförnu en ella hefðu gert.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 408
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 362
Gestir í gær: 99
Samtals flettingar: 470751
Samtals gestir: 51775
Tölur uppfærðar: 12.11.2024 16:56:21
clockhere

Tenglar

Eldra efni