Færslur: 2008 Október

31.10.2008 08:46

Hljómsveitin FEÐGARNIR.



509. Fyrir u.þ.b. hálfum mánuði heyrði ég eftirfarandi auglýsingu á Bylgjunni: Hljómsveitin FEÐGARNIR leika í kvöld, - Catalina Hamraborg. Það stækkuðu lítillega á mér eyrun því mér fannst þessi nafngift vægast sagt undarleg. Hljómsveitin FEÐGARNIR! Vááá...

Það rifjaðist upp svolítil saga frá Gaggaárunum heima á Sigló þar sem hljómsveitarnafn var mál málanna.

 

Þetta var á þeim tíma sem við nokkrir guttar úr fyrsta bekk vorum nýbyrjaðir að æfa saman og á hverri æfingu var rætt um hvað bandið ætti heita, en án þess þó að komast nokkru sinni að afgerandi niðurstöðu. Ég var svo eitt sinn á þessum tíma samferða einum skólabróðir mínum niður í Versló í löngu frímínútunum, en hann hafði sýnt hljómsveitarbrölti okkar mikinn  áhuga og ég er ekki frá því að hann hefði gjarnan viljað munstra sig inn í hópinn. Á leiðinni spjölluðum við um eitt og annað eins og gengur og ég sagði honum meðal annars að það vantaði nafn á hina verðandi hljómsveit. Hann svaraði því til að það þyrfti nú ekki að vera svo mikið vandamál því hann ætti frábær og alveg ónotuð hljómsveitarnöfn á lager, enda mikill áhugamaður um tónlist og tónlistarflutning. Ég gerðist auðvitað forvitinn og vildi endilega fá að heyra nokkur dæmi, en hann varð þá svolítið drýgindalegur og sagðist vilja grufla svolítið fyrst. Á morgun skyldi hann samt vera tilbúinn með nokkrar góðar tillögur handa mér sem ég gæti síðan lagt fyrir hópinn. Mér leist ekki illa á það því allar ábendingar voru vel þegnar og alveg sérstaklega ef þær væru góðar. Strax morguninn eftir fyrir fyrsta tíma vildi ég svo fá að heyra nokkur dæmi, en hann bað mig nú að vera rólegan því löngu frímínúturnar væru alveg gráupplagðar til slíkra umræðna. Ég mátti því sitja fyrstu tvo tímana af mér áður en ég ætti þess kost að fá svalað ört vaxandi forvitni minni. En þar kom að við gerðum okkur klára í röltið niður í Versló og nú vildi ég fá að heyra þessar boðuðu tillögur. Við röltum af stað og hann varð mjög ábúðarfullur á svipinn og sagði fátt í fyrstu. Ég spurði hann ítrekað út í nafnalagerinn, en hann var lengi að koma sér að efninu. Að lokum þegar við vorum a.m.k. hálfnaðir niður í bæ setur hann loksins upp sinn spekingslegasta svip og spyr mig hvernig mér lítist á kúlur.

"Hvernig kúlur" spyr ég á móti og veit ekki alveg hvert hann er að fara. Skyldi hann ætla að kaupa sér tyggjókúlur hjá Geira í Versló?

"Nei ég meina Hljómsveitin KÚLUR" hélt hann áfram og glotti út í annað vegna barnslegs skilningsleysis míns.

"Ha" hváði ég og var alveg viss um að hann væri að gera svolítið grín að mér og ætti eftir að koma með stóra smellinn.

"Já, hljómar það ekki bara vel? Hljómsveitin KÚLUR leikur í kvöld í Æskó, - mætum öll."

Ég sá nú að honum var fúlasta alvara og fór að hugsa til þess hvernig hægt væri að loka umræðuna umræðunni án þess að valda honum sálartjóni, því ég var nú búinn að átta mig á að málið var honum verulega hjartfólgið og hann var innilega sannfærður um ágæti hugmyndarinnar.

"Þú segir nokkuð" sagði ég hægt og var nú orðinn svolítið áhyggjufullur því ég vissi vel að þessi skólabróðir minn átti það til að vera svolítið viðkvæm sál ef á móti blés.

"Voru einhverjar fleiri góðar hugmyndir í gangi?"

"Ja, það var eiginlega bara ein önnur sem mér fannst virkilega góð. Hvernig líst þér á GANGAR. Hljómsveitin GANGAR, ha. Hljómar það ekki líka ágætlega?"

Ég svitnaði lítillega á enninu og var eiginlega sleginn út af laginu og vissi alls ekki hverju ég ætti að svara.

"Þú segir nokkuð" sagði ég að lokum eftir langa umhugsun og alveg jafnlanga þögn.

"Já, hvernig líst þér á?"

Við höfðum þegar þarna var komið sögu skyndilega eins konar hlutverkaskipti hvað varðaði vörn og sókn. Ég sá út undan mér að eftirvæntingin hafði tekið sér bólfestu í andliti hans, en framundan hjá mér var ekkert annað en bullandi vörn. Ég hugsaði með mér að líklega fyndist honum hálfur sigur unninn með því að geta sagt hverjum sem heyra vildi að hann hefði "fattað upp á nafninu" á bandinu fyrst hann fékk ekki að vera með í því. Ég skynjaði að ég var kominn í þess konar klemmu sem ég yrði að losa mig úr sem fyrst og það þyrfti að gerast með mikilli lægni og nærgætni.

"Þú segir nokkuð" endurtók ég, en hann beið ennþá óþreyjufullur eftir áliti mínu á hugmyndum sínum. Líklega var skásta leiðin úr því sem komið var, að reyna að hluta væntanleg vonbrigði hans niður í smærri einingar því þannig yrðu þau að öllum líkindum léttbærari.

"Sko þetta er ansi merkilegt" sagði ég og undirbjó fyrstu lotu.

"Það var einmitt búið að stinga upp á þessu með KÚLUR, en sumir vilja endilega að hljómsveitin heiti HENDRIX."

Ég sá að þessi innkoma hafði strax slæm áhrif svo ég ákvað að bakka aðeins til baka.

"Mér finnst reyndar KÚLUR betra en GANGAR en ég skal nú samt koma hugmyndinni að á næstu æfingu. Annars er ekkert er ákveðið ennþá svo allt getur gerst."

"Og hvenær er svo næsta æfing?" Vinurinn var óðamála og var búinn að varpa fram spurningunni áður en ég náði að ljúka við síðustu setningu.

"Hún er í kvöld" svaraði ég eins og satt var og vissi nú að umræðunni yrði alveg örugglega fram haldið morguninn eftir þar sem hart yrði gengið eftir niðurstöðu í stóra nafnamálinu.

"Viltu kannski að ég mæti og tali við strákana um nafnið?"

"Neeeei, það er alveg óþarfi" svaraði ég og snaraðist inn í Versló.


Um kvöldið sagði ég strákunum frá vandræðum mínum og þeir áttu greinilega mjög erfitt með að hemja fölskvalausa gleði sína. Þeir ýmist örguðu úr hlátri eða glottu allan hringinn. Mér var hins vegar ekki hlátur í hug því ég vissi að ég þyrfti að vinna í málinu til lengri tíma og finna því þann farveg sem leiddi til farsælla endaloka þess.

Morguninn eftir var svo auðvitað beðið eftir mér á tröppunum og ég vissi alveg hver spurningin yrði.

"Hvað sögðu þeir um nöfnin sem ég benti þér á í gær?"

"Það var nú eiginlega ákveðið að ákveða ekkert strax, því við erum hvort sem er nýbyrjaðir að æfa og ekkert að fara að spila neitt alveg á næstunni."

Ég sá að það dofnaði yfir hugmyndasmiðnum og ég er ekki frá því að það hafi myndast örlítill vottur af skeifu á andlitinu.

"En mér fannst þeir vera samt nokkuð jákvæðir," bætti ég við sem var á vissan hátt alveg satt.

Brúnin lyftist örlítið aftur og ég fékk að heyra að það yrði þá bara fylgst með málinu, en það var einmitt það sem ég vissi að myndi alveg örugglega verða gert.

Það varð líka þannig og alveg svikalaust, því næstu daga á eftir var spurt út í málið að minnsta kosti einu sinni á dag. Ég ítrekaði þá alltaf það sem ég hafði áður sagt þ.e. að engin ákvörðun yrði tekin í bráð, en stundum bætti ég því við að einn hljómsveitarmeðlimurinn væri mikið í mun að HENDRIX yrði fyrir valinu því hann væri mikill aðdáandi meistarans.

Leið nú fram á veturinn og til allrar hamingju fjaraði málið út smátt og smátt þar til það sofnaði alveg undir vorið.




Hljómsveitin HENDRIX 36 árum síðar.

Það var svo ekki fyrr en haustið eftir að hljómsveitin HENDRIX spilaði á sínu fyrsta balli í ÆSKÓ. Þar var vinurinn mættur, en eftir ballið gaf hann sig á tal við mig.

"Ég sé að þið hafið valið HENDRIX" sagði hann.

"Jú, jú. Kannski má segja að við tveir höfum tapað í baráttunni en svona er nú lífið."

"Já, svona er nú lífið" endurtók hann og glotti aulalega út í annað.

"Kannski er bara ágætt að eiga gott ónotað hljómsveitarnafn á lager því ég er að hugsa um að stofna hljómsveit sjálfur."

Því er svo við að bæta að atvinna nafnasmiðsins í dag er mjög tónlistartengd og þykir hann alveg sérlega frambærilegur á sínu sviði.



En ég ætlaði reyndar að skrifa svolítinn stúf um hljómsveitina FEÐGANA.

Um kvöldið hringdi ég í Axel meðspilara minn og sagði honum þau tíðindi að hljómsveitin FEÐGARNIR ættu að spila á Catalinu í kvöld. Nafngiftin segði mér að annað hvort væru þarna miklir húmoristar á ferð eða þá hreint ótrúlegt hallærisdæmi.

Væri málið ekki svo lítið forvitnilegt og full ástæða til að kíkja við og hlusta á eins og tvö eða þrjú lög?

Hann var eiginlega sammála skoðunum mínum í öllum atriðum og fannst nafngiftin vissulega svolítið á sérkennilegri nótunum. Það varð því úr að við litum inn rétt upp úr eitt og hittum þannig á að um leið og við gengum inn úr dyrunum var hljómsveitin sem reyndar er dúó, að fara í pásu. Eftir drykklanga stund mættu þeir aftur og hófu leik sinn. Þeir áttu greinilega ekkert erfitt að ná fólki út á gólf, en hvorki fór mikið fyrir húmor né hallæri eins og ég bjóst við. Þetta voru eiginlega bara tveir karlar að syngja og spila eins og gengur og fórst það alveg þokkalega vel bæði úr hendi og barka. En okkur félögunum dvaldist hins vegar lengur á staðnum en upphaflega stóð til eða allt fram yfir síðasta lag. Og ástæðan var jú auðvitað sú að það var bara ansi gaman. Þarna voru allir að heilsa upp á okkur og nú var hægt að spjalla við fastagesti staðarins sem við höfum hingað til aðallega séð hringsnúast á gólfinu fyrir framan pallinn.


Ég hef heyrt tvennar sögur af tilkomu nafngiftarinnar en svo sem ekkert fengið staðfest í þeim efnum, enda slétt sama.

Önnur útgáfan er sú að upphaflega hafi þetta verið fjögurra manna hljómsveit sem samanstóð af tvennum feðgum sem hlýtur að teljast nokkuð einstakt. Með tíð og tíma hafi mönnum svo fækkað, þ.e. annar sonurinn og hinn pabbinn ef svo mætti segja en enginn bæst við í staðinn. Eftir standi þessir tveir úr sitthvorum helmingnum, þ.e. þeir séu í raun alls ekki feðgar þrátt fyrir að vera nauðalíkir hvor öðrum. Engu að síður hafi verið ákveðið að halda nafninu og meira að segja hafi það verið prentað á hljómsveitarbolina eins og má sjá ef vel er gáð.

Hin útgáfan er sú að þetta sé saga sem þeir hafi sjálfir komið af stað í auglýsingaskyni. Þeir séu vissulega feðgar eins og greinilegt sé. Eina vafamálið sé bara hvor er pabbinn og hvor sonurinn.

Mér finnst þær báðar bráðskemmtilegar.



Jobbi (Prestley) var mættur, brosti sínu blíðasta þegar hann sá okkur og tók á móti okkur með útbreiddan faðminn.



Taktu mynd af okkur heyrðist úr einu horninu. Ég skaut út í loftið með það sama - og hitti...



Þetta par lítur undantekningalítið inn og heilsar þá innilega upp á okkur og helst með handabandi verði því við komið. En þau stoppa yfirleitt stutt við því þau eru mjög ráðdeildarsöm og nota gjarnan nótiina í að tína flöskur og dósir, eða það sögðu þau mér. Svo var því bætt við að það yrði lítið um svefn nú eins og oft áður því í morgunsárið færu þau síðan að bera út fréttablaðið.



Þetta par kom alla leið frá Keflavík til að "finna sig" á Catalinu.



Jói á hjólinu mætir flestar helgar í réttum búning og nýtur talsverðrar kvenhylli.



En sumir gestir eru hversdagslegrin en aðrir og lita staðinn jafn sterkum litum með nærveru sinni einni saman.
Gerða sem er önnur staðarstýran vildi fá sér eins og einn snúning með Axel sem svaraði með vel þekktum frasa. - Strákar dansa ekki, stelpur dans. En ég er hins vegar góður á loftgítar. 
Og þau fengu sér þá bara öllara saman í staðinn.



En mér hlotnaðist sá heiður að dansa við Birnu eins og tvö lög áður en ég skilaði henni til næsta. En Birna er einn af föstustu gestum staðarins.



En um helgina sem er að ganga í garð verðum það við (VANIR MENN) sem stígum aftur á pallinn á henni Catalinu.

25.10.2008 00:19

Hvernig á alvöru kreppa að vera?

                                

508. Íslensk kona hefur verið að styrkja námsmann í Uganda sem "óvænt varð á vegi hennar" eins og hún orðaði það. Hann var búinn að lofa að senda henni einkunnirnar sínar sem hann og gerði þegar þar að kom. Þar kom fram að hann hafði fengið A í öllum fögum og góða umsögn að auki. Það var nefnilega búið að gera honum ljóst að góður árangur væri lykillinn að því að hann fengi áframhaldandi styrk.

En allt er breytingum undirorpið í henni veröld og ýmislegt getur vissulega haft áhrif á afkomu Frónbúans og getu hans til að láta gott af sér leiða. Hún var að velta því fyrir sér hvort rétt væri að reyna að segja honum frá gangi mála hér á landi, þ.e. kreppunni og öllu því. Og það gæti því miður reynst nauðsynlegt að skera eitthvað niður styrkinn vegna hins breytta ástands hérna megin. Það eru nefnilega tiltölulega litlar líkur á því að fréttir af Íslenska skipbrotinu hafi borist alla leið til hans þarna í Entebbe. Og svo er alls ekki víst að hann skilji alvöru málsins á sama hátt og við hér heima. En ef reynt væri að útskýra hið Íslenska kreppuástand fyrir honum sem virðist ætla að fara langt með að sliga þjóðina einhver þó nokkur ár inn í framtíðina, gæti það samtal orðið á eftirfarandi nótum.

 

*Heyrðu félagi, það er úr vöndu að ráða. Íslenska þjóðin er gjaldþrota!

Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra, eigið þið þá ekki fyrir baunum og maís?

*Jú reyndar eru búðir fullar af mat og enginn vöruskortur.

Hvað segirðu, þið eigið þá mat. Það er gott. En eigið þiðþá ekki þak yfir höfuðið lengur!

*Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir og það eru fáir heimilislausir á Íslandi.

En hvað segirðu mér þá? Gengur plága yfir landið, eru allir veikir og heilbrigðiskerfið lamað?

*Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með ágætt heilbrigðiskerfi.

Nú jæja. Það var gott að heyra. En eru þá skólarnir að loka og fá kannski ekki allir tækifæri til að læra að lesa lengur og sérstaklega þá ekki konur.

*Jú reyndar er 99,9% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með háskólagráður og konur ekki síður en karlar.

Það er nú gott, en þið verðið þá að passa er að lenda ekki í stríði við nágrannaþjóðir ykkar.

*Uuuu við erum reyndar ekki með her og teljumst nú frekar friðsæl þjóð. En við þurfum bara að hlusta á bullið og stríðsyfirlýsingarnar í fíflinu honum Gordon Brown. Það er það sem við munum líklega komst næst því að fara í stríð.

Ok. Segðu mér nú samt ekki að þið komist ekki í hreint vatn.

*Við eigum reyndar besta vatn í heimi.

Nú, er vegakerfið þá ónýtt? Hérna í Afríku ganga allir eða nota asna og stundum reiðhjól. Það eru líka til strætisvagnar hérna, en þeir eru alltaf yfirfullir.

Eru kannski strætóarnir hjá ykkur hættir að ganga?

*Neeee... Það er verið að ræða um hvort almenningssamgöngur hér eigi að vera ókeypis, en það eru flestallir vegir malbikaðir og næstum allir eru á nýlegum bílum.

Eigið þið þá enga peninga til að gera ykkur glaðan dag? Ég meina, þú sagðir að þjóðin væri gjaldþrota.

*Flestir eiga reyndar einhvern sparnað á bókum þó sumir hafi tapað honum eða hluta hans síðustu daga. Það verður alla vega erfitt að kaupa stærri flatskjái og utanlandsferðunum verður að fækka.

Já, ég á kannski einhvern tíma eftir að fara til útlanda, en ég er nú líka frá Uganda. Hefur kannski enginn vinnu og þurfið þið núna öll að betla?

*Neiiij...! Atvinnuleysið er um 2% en við verðum að flytja Pólverjana aftur heim og fara sjálf að vinna vinnuna sem þeir unnu.

Hmmm... Svo þið hafið peninga, mat, húsaskjól, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, búið við frið, eigið nóg hreint vatn og samgöngur eru góðar.

Segðu mér, hvert var vandamálið aftur?

 

Eftir þessar vangaveltur um aðstæður okkar hérna uppi á skerinu og þetta ímyndaða samtal, ákvað hún að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum áhyggjum sínum af "gjaldþrota" eyríki norður í ballarhafi. Námsgjöld hans skulu greidd hér eftir sem hingað til og kannski fær hann líka smá vasapening með. Hann getur þá kannski tekið strætó í skólann endrum og sinnum í stað þess að þurfa ganga í marga klukkutíma eins og venjulega. Fé hins meinta íslenska terrorista yrði þá líklega bara vel varið.

(Upprunið á vefnum www.cafesigrun.com. en er lítillega stílfært.)

20.10.2008 22:06

Gamlar myndir frá Sigló

507. Ég var að vafra um víðáttur alnetsins rétt einu sinni, og að þessu sinni í leit að skemmtilegum ljósmyndum eða ljósmyndasíðum. Ástæða þess kann e.t.v. að vera sú að ég hef sjálfur ekki komist mikið á myndaveiðar undanfarið vegna anna. Eftir nokkurt flakk rakst ég á http://www.snorrason.is/main.php sem ég hef ekki séð áður. Óhætt er að segja að þar meigi berja augum margan merkan myndflötinn og þarna fór vissulega saman það sem gerist ekki oft, þ.e. bæði magn og gæði. Ég veit svo sem að ég á ekkert með að endurbirta þessi Siglfirsku sýnishorn hérna hjá mér, en vona samt að ég komist upp með "glæpinn." Sá sem að baki stendur heitir Haukur Snorrason (þó ekki frá Hólakoti) og greinilegt er að hann kann sitt fag. Hvet ég alla unnendur ljósmynda í hæsta gæðaflokki að kíkja á síðuna hans


















17.10.2008 22:06

Kreppubrandar

506. Eftir að fyrsti hvellur efnahagsfárviðrisins var að mestu um garð genginn, kom í ljós að þjóðinni gengur býsna vel að halda í skopskynið. En við öðru var auðvitað ekki að búast og enginn veit betur en við sjálf hvað við erum einstök.

Frekar en að sitja hnípin og horfa ofan í gaupnir okkar, hefur verið tekið til hendinni og þróuð alveg ný tegund af þjóðlegri kerskni. Hún geysist yfir alnetið um þessar mundir rétt eins og eldur um sinu og menn ýmist brosa aulalega út í annað eða hreinlega sleppa sér af kæti.

Undirstaða formúlunnar er auðvitað traust eins og fleiri velþekktar undirstöður. Þar er sá sami aðilinn sem gerir grínið og grín er gert að, eða líkt og t.d. Skotar sjálfir eru yfirleitt taldir vera höfundar Skotasagnanna þar sem allt gengur út á óhóflega sparsemi.
En þar sem við Íslendingar getum tæpast gert út á sparsemina eins og hinir pilsklæddu nágrannar okkar, gerum við í staðinn út á það sem nærtækast er og við erum heimsþekkt fyrir um þessar mundir.

Ég fiskaði nokkra kreppubrandara upp úr póstinum ef einhver skyldi ekki hafa náð að velta sér upp úr þeim ennþá...













Bónus lækkaði nýlega ísinn niður í 99 kr. lítrann sem þýðir að tveggja lítra pakkinn kostar aðeins 198 kr.
Kreppuís fyrir litla manninn.

Ég sem er vægast sagt talsvert mikið fyrir ís svo vægt sé til orða tekið, var auðvitað fljótur að lauma einni slíkri "einingu" ofan í innkaupakörfuna. Fljótlega eftir að heim var komið hvarf helmingurinn úr umbúðunum en "seinni hlutinn" strax daginn eftir. - Nánar um það síðar.


Er mér farið að förlast eða eru þeir ekki svolítið keimlíkir?








Ort í kreppunni...
Hugarvíl og harmur dvín,
er horfi ég á frúna.
Hún er eina eignin mín
sem ekki rýrnar núna.



Svolítil hagfræði.

Ef þið hefðuð lagt 100.000 krónur í að kaupa hlutabréf Nortel fyrir einu ári síðan væri verðmæti bréfanna í dag um 4.900 krónur.

Hefði sama fjárfesting verið lögð í Enron væri sú eign í dag um 1.650 krónur.

Hefðuð þið keypt bréf í World Com fyrir 100.000 krónur væri minna en 500 kall eftir.

Hefði peningurinn hins vegar verið notaður til að kaupa Thule-bjór fyrir einu ári síðan þá hefði verið hægt að drekka hann allan og

fara síðan með dósirnar í endurvinnslu og hafa um 21.400 krónur upp úr því.

Þegar ofangreint er athugað virðist vera vænlegur kostur fyrir fjárfesta að drekka stíft og endurvinna!

 

Ég veit ekki með ykkur en ég er farinn í ríkið, NÚNA....



5 vísbendingar
um það að Ísland sé að sigla aftur inn í áttunda áratug 20. aldar

1.    Óðaverðbólga
2.    Gjaldeyrisskömmtun
3.    Stríð við breta
4.    Vinsælasta tónlistin er ABBA og Vilhjálmur Vilhálmsson
5.    Forsætisráðherrann heitir Geir og er sjálfstæðismaður

 

 

Björtustu stundir útrásarinnar.

http://eyjan.is/silfuregils/2008/10/08/bjortustu-stundir-utrasarinnar/>

Þessa færslu ætla ég að helga skemmtilegustu stundunum frá tíma útrásarinnar. Ég ætla að biðja ykkur að hjálpa mér að rifja þær upp.

Hannes Smárason og Jón Ásgeir í Gumball kappakstrinum.

 

Tom Jones að syngja fyrir veislu útrásarvíkinga um áramót í London.

 

Elton John í afmæli Ólafs Ólafssonar.

 

Existabræður á þyrlunni að kaupa pylsu.

 

Þegar Fréttablaðið kaus Hannes Smárason sem markaðsmann ársins.

 

50cent í partíi Björgólfs yngri í Karíbahafinu.

 

Tónleikar Stuðmanna í Albert Hall.

 

Galaveisla Glitnis í Laugardalshöll.

 

 Þegar forseti Íslands veitti Baugi útflutningsverðlaun forsetans. Jafnvel þótt Baugur flytji ekkert út, nema kannski fjármagn.

 

Kynningarfundurinn í London þegar næstum því var búið að selja orkulindirnar í hendurnar á Hannesi, Jóni Ásgeiri og Bjarna Ármannssyni.

 

Partíin á Three Vikings snekkjunni.

 

Uppboðið þar sem selt var ómálað verk eftir Hallgrím Helgason fyrir 20 milljónir.

 

Laugardagarnir í stúkum íslensku bankanna og fjármálafyrirtækjanna á enskum knattspyrnuvöllum.

Egill Helgason sat í heiðursstúku Vest Ham

Á elliheimilinu...

Gamla fólkið á elliheimili úti á landi var orðið afar þrúgað og meðtekið af efnahagsbölsýnissíbyljunni í fjölmiðlunum og forstöðukonan hafði miklar áhyggjur af þessari þróun. Einn morguninn var leikfimi á heimilinu eins og venjulega og að þessu sinni bað hún íþróttafræðinginn að vera nú heldur á léttu nótunum og fyrir alla muni ekki minnast á efnahagsmál eða þrengingar, því þetta væri alveg að fara með gamla fólkið. Íþróttafræðingurinn sagði það ekki nema sjálfsagt og svona hóf hann tímann:
"Kæru vinir! Í dag byrjum við á mjög léttri æfingu. Við réttum hendur út frá hliðunum, beygjum olnbogana og bönkum flötum lófum létt á bringuna, síðan réttum við úr höndunum og kreppum snöggt hnefana og endurtökum allt aftur og aftur," og svo hrópaði hann:
"Koma svo! Banka - kreppa, banka - kreppa, banka - kreppa......!"

 

Þessi kreppa er verri en skilnaður...

Maður er búinn að missa helming af eignunum,

en situr en uppi með karlinn!

 












 

Saga af Boga og Örvari...

En þeirra kreppa er reyndar af svolítið öðrum toga en flestra annarra, en það var eiginlega ekki annað hægt en að láta þennan fljóta með...

Þeir félagarnir vöknuðu í húsasundi, alveg að drepast úr
brennivínsþrá, málið var bara að aleigan var hundrað og fimmtíukall.
Heyrðu ég er með frábæra hugmynd sagði Örvar,hann fór og keypti sér
pylsu fyrir allan peninginn þeirra, fór svo og
dró Boga á næsta bar og pantaði fullt að drekka handa þeim.
Þegar að þeir voru búnir með drykkina sáu þeir barþjóninn stefna að
þeim með reikninginn,

Örvar brást snöggur við og setti pylsuna í buxnaklaufina hjá Boga og
byrjaði að totta pylsuna,
þegar að barþjónninn kom að þeim varð hann alveg brjálaður,

"DRULLIÐ YKKUR ÚT HELVÍTIS HOMMA ÓGEÐ" öskraði hann á þá.
Þeir stukku upp og hlupu út, án þess að þurfa að borga. Bragðið
heppnaðist alveg jafn vel á næsta bar,og næsta, og næsta, og næsta.
Í raun heppnaðist þetta svo vel að þegar að þeir skriðu á staðinn sinn
í húsasundinu voru þeir alveg á rassgatinu.
"Þarna sérðu hvað maður getur gert með einni pylsu" sagði Örvar.
Þá skellihló Bogi "HAHAHAHAHA, við týndum pylsunni eftir þriðja
barinn"

11.10.2008 01:11

Gordon Brown.

505. Þetta er Gordon Brown. Hann er forsætisráðherra Breta um þessar mundir hvernig í ósköpunum sem stendur á því. En það er nú svo margt sem maður fær ekki með góðu móti skilið.
Ég er á því að hann hafi afrekað fátt af viti, en gert talsvert af heimskulegum hlutum. Nú síðast með því að gera fjölda landa sinna atvinnulausa og valda sínum eigin seðlabanka  stórtjóni þegar hann talaði á fáeinum mínútum Singer & Friedlander bankann í þrot. Samt ætlast hann til að hinn venjulegi (sennilega þó óupplýsti hlutinn) Breti kjósi sig í næstu kosningum. Landar hans eru nú svo sem ekki allir kátir með "þann brúna" og gengið svo langt að sæma hann titlinum "versti forsætisráðherra sem Bretland hefur eignast."
Hann gefur í skyn að við Frónbúar séum gjaldþrota hryðjuverkamenn sem ber að refsa harðlega.

Ætili hann skilji Engilsaxneska séntimennsku á þann veg að það eigi að sparka í liggjandi?

09.10.2008 23:16

Montinn afi.



504. Rétt fyrir hádegi í dag eignaðist ég þriðja afabarnið og er ekki lítið montinn af. Það var í gærkvöldi að unga parið lagði af stað á fæðingardeildina í þriðja sinn, en að þessu sinni skyldi ekki farið neina erindisleysu. Það gekk eftir og fæddist þeim 14 marka og rúmlega 50 cm. löng stúlka. Auðvitað eru þau kát svo og allir aðrir sem málið snertir, en montnastur allra er líklega afinn.

04.10.2008 03:38

Clapton, Janis Joplin og Hjaltalín.



503. Ég hafði alltaf hugsað mér að minnast lítillega á tónleikana sem ég sótti þegar gítargoðið Eric Clapton mætti til leiks í sumar sem leið. Þau eru ófá topplögin sem þessi hæfileikaríki tónlistarmaður hefur sent frá sér í gegn um tíðina, svo að ég eins og eflaust flestir aðrir sem þarna voru höfðu byggt upp talsverðar væntingar.
Ellen Kristjánsdóttir ásamt hljómsveit sem samanstóð að stórum hluta af nánustu fjölskyldumeðlimum komst í raun ágætlega frá sínu, en náði ekki sérlega vel til áheyrenda. Ástæðuna tel ég vera þá að hún var að flytja nýtt efni (utan eitt eða tvö lög) sem var ekki sérlega auðmeltanlegt við fyrstu hlustun, auk þess að vera  annað og öðruvísi en flestir bjuggust við eða jafnvel vonuðust til að heyra. 
En þar kom að Clapton steig á svið og salurinn fagnaði ógurlega. Goðið hóf leik sinn og hver blúsinn rak annan og sumir með löngum "improviseruðum" gítarsólóum eins og við var að búast. Aðeins eitt lag frá Cream-tímabilinu var á lagalista kvöldsins (Crossroads) sem er allt, allt of lítið. Þegar svona listamaður mætir til leiks, þenur gígju sína og stígur á stokk Frónbúans, má vita að mæting verður með ágætum. En það má líka reikna með því og það fastlega, að þeir 15 eða 16 þúsund áheyrendur sem voru saman komnir í Egilshöllinni til að hlýða á sjálfan "Slow hand" og margir hverjir gera bara einu sinni á ævinni, vilji fá að heyra það sem maðurinn er þekktur fyrir. Það sárvantaði lög eins og Layla, Lay down Sally, I shot the sheriff, Swing low, Change the world, My father´s eyes, Tears in heaven svo nokkur séu nefnd. Fyrir utan Crossroads, voru Coacain og Wonderful tonight þau einu sem ég man eftir af áðurnefndu kalíberi. Það var rosalega heitt og loftlaust í höllinni, en hvort sem það var út af því eða einhæfu lagavalinu fór gestum ört fækkandi þegar leið á. Það vantar ekkert upp á að allir þeir sem fram komu voru alveg ótrúlega vel spilandi, en þessir tónleikar eru ekki þeir skemmtilegustu sem ég hef farið á. Ég held að ef þessi mikli meistari mætir aftur til leiks, þá þurfi hann ekki á Egilshöll að halda. Kaplakriki gæti alveg dugað.  



Janis Joplin.

Ég man ennþá hvar ég var staddur
þegar ég heyrði í Janis Joplin í fyrsta skipti. Ég var aðeins 15 ára gutti, það var laugardagur, hásumar og sólin hellti geislum sínum yfir lönd og höf. Árið var 1971 og ég stundaði sjóinn með Svenna Björns og Hafþóri Rósmunds á Gullveigunni sem var 12 tonna dekkari. Við vorum  á góðu reki, undir var boltaþorskur, það var fiskur á hverju járni og langbylgjan flutti okkur fréttir Ríkisútvarpsins. Í þá daga var fréttaflutningur af Viet Nam stríðinu fyrirferðarmestur allra frétta, en að þeim loknum var útvarpað veðurfregnum. Richard M. Nixon var forseti Bandarríkjanna, Kristján Eldjárn sat í því embætti á Íslandinu góða og Óli Jó. var forsætisráðherra. Vinsælasta lagið þetta ár var Joy to the world með Three dog night, Rod Stewart sem var að hætta í Faces og hefja sólóferil sinn kom fram á sjónarsviðið með Maggie May, Rolings Stones gáfu út LP vinylinn Brown Sugar og Bítillinn George Harrison lagið My sweet lord.
 
Að loknum fréttunum byrjaði einhver poppþáttur á "Gufunni" sem gæti hafa heitið "Áfangar" og þar var kynnt platan "Pearl" með söngkonunni Janis Joplin. Platan kom út nokkru eftir að söngkonan lést og ég man vel eftir laginu "Mercedes Benz" sem var spilað í umræddum þætti og var tekið upp aðeins fjórum dögum fyrir lát hennar. Mér kom þessi hippalega acapello útsetning undarlega fyrir eyru og boða að ýmsu leyti nýja tíma. Þegar ég kom í land var það eitt fyrsta verk mitt að hringja í plötubúðina "Hverfitóna" og panta þessa Perlu. Segja má að ég hafi síðan hlustað á þessa plötu þangað til "lagið hinum megin heyrðist í gegn" eins og ágætur maður orðaði það svo skemmtilega eitt sinn. Enn í dag finnst mér Janis Joplin vera langmest töff allra söngkvenna sem nokkru sinni hafa komið fram og standa vel undir titlinum "hippi allra hippa."

Þann 25. september hóf að nýju göngu sína þátturinn "Uppruni tegundanna" á Rás 2 eftir að hafa verið í svolítilli hvíld í sumar. Þar er núna fjallað um það sem umsjónarmaðurinn Kristinn Pálsson nefnir "Helgimyndir hippatímans." Hefst hann á umfjöllun um hina kannski svolítið vafasömu ímyndardrottningu, erkihippann en ótrúlegu söngkonu Janis. Slóðin þangað er 
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4446669 Framhaldið er svo finnanlegt á http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4446670 en þar er fjallað um endalokin. Þættirnir ættu að vera skylduhlustun hjá öllum þeim sem hafa áhuga á góðu blússkotnu rokki.

Þeir sem guðirnir elska deyja ungir...
Hún hlýtur að hafa verið mikið elskuð af þeim því hún sem lifði bæði stutt og hratt og náði aðeins 27 ára aldri. En það virðist vera einhvers konar örlög allt of margra þeirra sem markað hafa djúp spor í poppsöguna því gítarhetjan Jimi Hendrix, Jim Morrison úr Doors, Kurt Cobain úr Nirvana og Brian Jones úr Rolling Stones voru einnig 27 ára þegar jarðvist þeirra lauk langt á undan áætlun.



Hjaltalín.

"Þú komst við hjartað í mér"
hefur verið eitt mest spilaða lagið á rás 2 undanfarið og rétt áður en ég lagði af stað á Catalinu í gærkvöldi (föstudag) heyrði ég það einmitt í útvarpinu og lagði við hlustir. Ég leitaði síðan textann uppi á netinu og prentaði hann út, en áður en opnað var inn í danssalinn á þeim bæ náðum við Axel að fara einu sinni yfir lagið. Það varð að duga og gerði það líka því við lagasmíðina hefur einfaldleikinn greinilega verið hafður í fyrirrúmi, en um kvöldið var þessi skemmtilega lumma svo spiluð sundur og saman. Í leit minni af textanum gúgglaðist upp á skjáinn mjög athyglisverð upptaka af laginu flutt af Hjaltalín, en slóðin þangað er http://www.youtube.com/watch?v=VqrnG25bsXU
fyrir lysthafendur.


Og til gamans læt ég textann fylgja svo að ljóðafíklar geti vegið hann og metið út frá "fagurfræðilegu sjónarmiði."

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Ég þori að mæta hverju sem er.

Þú komst, þú komst við hjartað í mér

 

Á diskóbar ég dansaði frá sirka tólf til sjö.
Við mættumst þar, með hjörtun okkar brotin bæði tvö.

Ég var að leita að ást, ég var að leita að ást.

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér

Ég þori að mæta hverju sem er.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

 

Það er munur á að vera einn og vera einmanna.

Ég gat ei meir, var dauðþreyttur á sál og líkama.

Ég var að leita að ást, ég var að leita að ást.

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Ég þori að mæta hverju sem er.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

 

Á diskóbar.

- - -

Að þessu sinni mætti eins og svo oft, ein að fastagestunum sem er eiginlega orðin svolítil vinkona okkar. Hún er bæði dansglöð með afbrigðum og svo heldur sig gjarnan alveg við pallinn hjá okkur. Í sjálfu sér er það hið besta mál að öðru leyti en því að hún tekur hressilega undir í hverju einasta lagi sem er öllu verra. Bæði liggur henni óvenju hátt rómur og svo man ég ekki til þess að hún hafi nokkru sinni hitt á einn einasta rétta tón. Axel hefur nokkrum sinnum gert við hana sértækt samkomulag undir fjögur augu sem gengur út á það eitt að hún syngi alls ekki meðan hann syngur, og hún hefur sýnt honum allan sinn skilning á málinu og samþykkt bón hans. En að sjálfsögðu á hún það til að gleyma sér um leið og hún er komin í  "verulega góðan fíling" og þá hefur Axel farið út af laginu með það sama.

Ég hef reynt að finna út hve langt henni getur tekist að fjarlægjast hina réttu melódíu og sýnist mér að um sé að ræða hækkaða ferund eða minnkaða fimmund (sem er það sama) í því sem næst hvert einasta sinn, sem verður að teljast í það minnsta mjög athyglisvert ef ekki hreint og klárt afrek. Dæmi um þetta tónbil er t.d. þegar látið er hljóma saman C og Fis, G og cis eða E og bes, en lengra verður ekki komist frá grunntóninum í skalanum. Fyrir nokkrum árhundruðum var það kallað tónbil Djöfulsins og alfarið bannað í allri kirkjutónlist. Í dag er hins vegar allt leyfilegt og segja má að dim-hljómur sé t.d. myndaður úr tvöfaldri minnkaðri fimmund. En þess má einnig geta að venjulegur maður með sæmilegt tóneyra getur tæpast með góðu móti haldið einfaldri laglínu með öðrum í umræddri fjarlægð nótnalega séð.

Skemmst er frá því að segja að þegar sú sem um er rætt heyrði þetta vinsæla lag, kættist hún mjög og tók vel undir í söngnum, okkur á pallinum til lítillar gleði.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 151
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 302948
Samtals gestir: 32753
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 03:13:19
clockhere

Tenglar

Eldra efni