Færslur: 2011 Maí

27.05.2011 12:56

Og svolítil viðbót um Önnu Láru


715. Svo verður að bæta við því allra nýjasta í afrekaskrá Önnu Láru. Í gær skrapp hún í sund með Gunnu Finna vinkonu sinni í Ólafsfjarðarlaug. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema að Anna Lára mun hafa látið sig vaða í stóru rennibrautina sem er ekki af minni gerðinni eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Það væri heldur ekki í frásögur færandi nema að hún er "ekki nema" 88 ára. - Geri aðrir betur.

25.05.2011 07:30

Anna Lára þriðja hæst

 

714. Þegar ég var að grúska í gömlum blöðum á dögunum vegna annarra mála, rakst ég á þessa skemmtilegu grein sem birtist í Frjálsri Verslun vorið 1941. Ég renndi fyrst lauslega yfir byrjunina og snarstoppaði svo á "Anna Lára". Ég fullvissaði mig um að þarna væri átt við okkar Siglfirsku Önnu Láru sem verslaði á Túngötu 1, Tórahorninu og síðast á Aðalgötu 28 þar sem Bakaríið er núna, en hóf síðan lesturinn á ný. Í seinni yfirferðinni drakk ég í mig hvert einasta orð og sleppti engu. Þar segir m.a. síðar í greininni.

"Ýmiskonar félagsskapur er starfræktur í Verzlunarskólanum, málfundafélag, taflfélag, bindindisfélag og ýms bekkjarfélög. Blöð eru gefin út, sum vélrituð eða fjölrituð bekkjarblöð, en skólablaðið Viljinn, sem komið hefur út í 32 ár, er nú prentað blað, og sömuleiðis Verzlunarskólablaðið, sem kemur út árlega í sambandi við nemendamót skólans. Þar geta menn lesið ýmsar nánari frásagnir, en hér eru fluttar, um skólastarfið og félagslífið. Tvær höfuðsamkomur héldur skólinn árlega, árshátíð og nemendamót. Sú fyrri er dansleikur, sú síðari einnig samkoma með all umfangsmikilli dagskrá, sem nemendurnir annast sjálfir. Þar er venjulega söngur, og ræðuhöld og leiksýning, í ár voru t.d. fluttir tveir smáleikir, Alibi Ingimundar, og Blessuð Abyssiniubörnin, sem var gamanleikur úr skólalífinu, eftir nemanda í skólanum. Einnig var leikfimissýning pilta og ein stúlka sýndi listdans, og loks var vélritunarsýning. Meðal annara skemmtana, sem nemendur hafa haldið uppi innan skólans í vetur, má nefna grímudansleik, sem fór mjög vel úr hendi, spilakvöld og skákkeppnir og knattspyrnukeppni og handknattleikskeppni. Þá hefir skólinn haft opna lesstofu, með allmiklu af blöðum og tímaritum og bókum, og nokkrir sérnámsflokkar voru starfandi. Bóksalan, sem kaupir og selur notaðar námsbækur,hefir nú starfað í átta vetur, og skólaselsnefndin, sem vinnur að því að koma upp útibúi frá skólanum, eða skólaseli, hefir einnig starfað í vetur.

24.05.2011 11:49

Bátur eða bíll

Báturinn sem í boði er.
 
713. Fyrir fáeinum vikum síðan setti ég litla einstaklingsíbúð í Reykjavík á sölu. Mér til svolítillar undrunar bárust mér tvö tilboð tiltölulega fljótlega, en það hafa ekki farið miklar sögur af hreyfingu á þeim markaði síðustu misserin. Þegar farið var að glugga í þau fór mig að gruna að tilboðsgjafar hefðu hugsanlega meiri
áhuga á að selja eitthvað en kaupa.
Í öðru tilfellinu bauðst bátur langleiðina upp í kaupverðið. Hann var sagður henta
alveg sérlega vel til sportsiglinga og íbjarnarveiða fyrir norðan og vestan.
Í hinu hékk 50 manna rúta á spýtunni og var sögð vera að verðmæti tæpar fjórar millur sem gæti vel nýst undir hljómsveit og kór.
Ég rifjaði upp í huganum þuluna frá því hér í denn um ugluna sem sat á kvisti o.s.frv. og endar eins og börn á öllum aldri vita, á orðunum "og það varst þú."
En líklega beiti ég henni ekki sem valtæki, heldur hinkra aðeins lengur. 


Þetta er ekki rútan sem var í boði, en þessi mynd kemur ósjálfrátt uppí hugann.

21.05.2011 22:41

Þrír páfar, Siggi Ægis og ég


712. Það var í fréttunum um daginn að Benedikt páfi tók Jóhannes Pál páfa í tölu blessaðra, en það er forstig þess að verða gerður að dýrlingi. Það kom hins vegar ekki fram fyrir hvaða afrek hann átti slíkt skilið. Ekki að ég sé þeirrar skoðunnar að hann Jói Palli hafi ekki verið ágætis karl, það bara kom ekki fram.

Árið 2000 varð sá síðarnefndi að taka til varna og rökstyðja þær gjörðir sínar að hafa tekið Píus páfa í tölu blessaðra. Um þann náunga er það helst að segja að hann sat á páfastóli frá 1846 til 1878 og þótti strangur og íhaldssamur. Hann gaf til dæmis út skrá yfir "rangar skoðanir", þar sem meðal annars var að finna sósíalisma, frjálslyndisstefnu, raunhyggju og framfarahyggju, auk þess sem siðmenning samtímans var fordæmd í heild sinni.

Ég ætlaði reyndar ekkert að minnast á neina páfa og þess konar kjólklæddar prjáldúkkur þegar ég settist að þessu sinni niður við tölvuna, - það bara gerðist.

En ég fékk myndina hér að ofan senda frá Gunnari Trausta vini mínum og fyrrum nágranna. Mér finnst hún bara býsna skemmtileg og mér datt si svona í hug að líklega kemst ég aldrei nær því að verða tekinn í dýrlingatölu en að standa við hliðina á Sigga Ægis.

20.05.2011 21:17

Núllkall


711. Einhverju sinni fyrir margt löngu þegar tölvur voru að ryðja sér til rúms sem apparöt hvað talið var að myndu í framtíðinni spara nær alla starfsmenn á nær öllum skrifstofum út um allt, var viðkvæðið yfirleitt á eina lund ef eitthvað fór úrskeiðis"þetta er þessum fj. tölvum að kenna". En maður spurði stundum sjálfan sig og aðra bæði fyrr og nú; hver stjórnar því hvað tölvurnar gera og hvað þær gera ekki? Auðvitað er alltaf gott að geta kennt þeim um sem ekki svara fyrir sig og hvað þá fullum hálsi, og tölvur svara vissulega ekki fyrir sig. Þær segja bara alls ekki neitt. Þær halda bara þolinmóðar og að því er virðist með ótakmörkuðu jafnaðargeði áfram að vinna hvert einasta verk sem þeim er falið að vinna samkvæmt þeim línum sem forritarinn hefur lagt. 

Nýverið bar þetta skondna bréf frá Íbúðarlánasjóði fyrir augu mín, en eins og sjá má er þar hótað kostnaðarsömum aðgerðum ef ekki eru greidd upp vanskil upp á hvorki meiri en minn en heilan núllkall. Verði það ekki gert, þá hækka dráttarvextir sem eru í dag heil 11,5% um núllkall á degi hverjum. En ef þú ert búinn að borga núllkallinn, þá bara sorry. 

Og nú spyr ég eins og hver annar auli: hvernig borgar maður núllkall?

Kannski með ávísun? 

Tölvur gera stundum villur.

Tölvur gera oft villur.

Tölvur gera margar villur.

Tölvur gera allar villur.

Það er mannlegt að gera vilur.

17.05.2011 04:40

Á Græna Hattinn


710. Einhverjar spurnir munu Akureyringar hafa haft af uppákomunni í Bátahúsinu um páskana, því nýverið var haft samband við Siglfirsku hljómsveitargaurana frá höfuðstað norðurlands. Það eru því aftur hafnar æfingar fyrir aðra tónleika, sem stefnt er að á Græna Hattinum síðustu helgina í maí. Að þessu sinni verður í hópnum auk Þuríðar burtflutti Akureyringurinn Grímur Sigurðsson. Hann lék með hljómsveit Ingimars Eydal síðustu árin sem hún starfaði og mun eflaust syngja lagið sitt um Róta raunamædda sem hljómaði ósjaldan á öldum ljósvakans fyrir hartnær 30 árum. Það verður því hópur "þroskaðra" tónlistarmanna sem leggur land undir dekk og stefnir norður yfir heiðar í leiðangur númer tvö eftir fáeina daga.


13.05.2011 06:44

Minningargrein um Osama

709. Sverrir Stormsker er sjálfum sér líkur á blokki sínu, en hann ritaði þar minningargrein um Osama bin Ladin. Í sjálfu sér kemur þar ekkert á óvart, en það er samt allaf jafn erfitt að slíta sig frá orðaleikjum og neðanbeltishúmor Sverris hvort sem manni líkar það sem fyrir augu ber eða ekki. Til að gefa svolítitla innsýn í málið eru sýnishornin hér að neðan ættuð af umræddri síðu. 

"Ástkær eiginmaður okkar, faðir, bróðir, sonur, bróðursonur, mágur og kviðmágur, Osama bin Laden andaðist á heimili sínu árla morguns mánudaginn 2. maí. Dánarorsökin var blýeitrun." 

"Af hverju hann af öllum góðum mönnum? Why?! Hvar er réttlætið? Hvert er eiginlega þessi heimur að fara? Ertu þá farinn? Ertu þá farinn frá mér? Hvar ertu núna? Hvert liggur mín leið? Hvert er stærsta stöðuvatn Ástralíu? Afhverju er himininn blár? Hvað er klukkan?

Mörgum spurningum er ósvarað í þessum heimi." 

"Óvinir hans sprungu yfirleitt úr einhverju öðru en hlátri." 

"Ýmsum þótti hann ganga full langt í að sannfæra heimsbyggðina um að Bandaríkin væru heimsveldi hins illa. Þar þurfti engra sannana við. Víetnamstríðið eitt og sér ætti að nægja sem vitnisburður - svo ekki sé minnst á Britney Spears og Justin Bieber." 

"Síðustu æviárin bjó hann á sambýli í Abbottaverybad í Pakistan en lengst af bjó hann í afar huggulegum og snyrtilegum leðurblökuhelli í Tora Bora í Líkkistan." 

"Á borðum hafði hann súpuskálar úr hauskúpum bandarískra fréttamanna og í frystikistunni geymdi hann restina af þeim. Hann átti sem sé hug og hjörtu margra Bandaríkjamanna. Hann grobbaði sig aldrei af þessu og fór reyndar með þetta eins og mannsmorð." 

"Osama bin Latte, eins og hann gjarnan var kallaður, lætur eftir sig 72 eiginkonur, 358 börn, 890 barnabörn og mikið og gott vopnasafn." 

"Útförin hefur farið fram í kyrrþey en þeir sem vilja minnast hins látna er vinsamlegast bent á hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og íslenska bankakerfið."

"Blessuð sé minning hans. Friður guðs hann blessi og allt það. Rest in pieces." 

Og alla minningargreinina er svo að finna á http://stormsker.blog.is/blog/stormsker/

10.05.2011 21:52

Hvað varð um Noreg?708. Það hafa sjálfsagt margir verið búnir að afskrifa íslenska lagið með vinum Sjonna, þegar aðeins var eftir að opna eitt umslag og Stella Mwangi með sitt Haba, haba var ekki enn kominn áfram. Lagi sem var af mörgum Júrófræðingum talið vera líklegt til að taka þátt í toppslagnum.
Ég ætla ekki að hafa þessa færslu lengri að sinni, heldur sökkva mér niður í djúpar pælingar.

10.05.2011 17:42

Og þá er hann Bláus allur


707. Nú er hann Bláus allur, en hann hefur þjónað mér og mínum eitthvað á þriðja hundrað þúsund kílómetra, farið um vegleysur og lent í ýmsum skakkaföllum. Nú er svo komið að þrátt fyrir að það skili sér yfirleitt að leggja meira í viðhald og viðgerðir nú en fyrir kreppu, benti nýleg úttekt til þess að slíkt gengi tæpast upp hans tilfelli. Hann hefur því verið afskráður og seldur til niðurrifs.
Blessuð sé minning hans.

06.05.2011 13:55

Metingur og hrepparígur706. Ég hitti hann Sigga Björns
á dögunum, en ég hef þekkt hann síðan síðan á videóárum mínum á Siglufirði. Þá rak hann ásamt Siglfirðingnum Ara Eðvalds, videóleigu í Ólafsfirði og ég átti talsverð samskipti við þá félaga. Ég hef ekki rekist á Sigga í a.m.k. áratug, svo við settumst niður á tröppurnar fyrir framan Bakaríið og tókum spjall saman. Það fór ekkert á milli mála að þarna var mættur alveg sami "Sigginn" og ég man svo vel eftir, a.m.k. þegar hann fór að tjá sig um menn og málefni og viðra skoðanir sínar á öllu mögulegu og ómögulegu. Svo það komist til skila við  hvað ég á, er ekki hægt að stilla sig og birta örstutt brot úr spjallinu.
"Býrðu einn núna?" Mig grunaði einhvern veginn að svo væri.
"Já, það tollir engin kjelling hjá mér." Það hnussaði í honum.
"Og af hverju skyldi það vera?" Ég átti auðvitað ekkert með að spyrja að því.
"Ég skil ekkert í því." Hann glotti út í annað og það var eins og hann væri að gera grín að mér fyrir að þykjast ekki vita það. En hann hafði greinilega ekkert of mikinn áhuga á að ræða sína einkahagi svo hann skipti um umræðuefni.
"Rosalega er mikið af gömlum ónýtum kofum hérna á Siglufirði." Ég hváði og sá nú í hvaða gír minn maður var kominn.
"Er eitthvað minna af þeim á Ólafsfirði." Ég taldi mig nú vita allt um það verandi nýkominn þaðan, þar sem ég hafði einmitt séð fullt af feysknum "byggingum" sem mörgum hverjum var ekkert allt of vel við haldið og tók meira að segja myndir af sumum þeirra.
"Því er nú ekki saman að jafna. Það þarf að fara að taka til hendinni hérna og rífa eitthvað af þessi braki sem er hérna út um allt." Ég minntist þá á skúrana sem ég hafði séð á Ólafsfirði og spurði hvort hann hefði ekki tekið eftir þeim.
"Þú meinar þá, ég veit ekki betur en það séu Siglfirðingar búsettir á Ólafsfirði sem eiga þá." Það hnussaði aftur í Sigga og hann hélt áfram í sama dúrnum.
"Hver er svo að steypa sökkul hérna neðar í götunni fyrir einn smákofann enn"? Þarna átti hann geinilega við framtak Örlygs neðan við Sæluhúsið.
"Ég get alveg lofað þér því að þar mun rísa einn flottasti kofi sem um getur." Ég hélt ró minni og vel það, þrátt fyrir að Siggi reyndi greinilega að ýta svolítið við mér og hann gerði eina tilraun enn.
"Rosalegt er að sjá hvað það er miklu meiri snjór hérna í fjöllunum en í Ólafsfirði. Þetta lítur ekki vel út hjá ykkur." Nú gat ég ekki annað en skellt upp úr, en Sigga var ekki hlátur í hug. Ég áttu auðvitað að bregðast allt öðru vísi við athugasemdum hans. Og ég hefði líklega líka gert það ef ég hefði ekki kannast við kauða.

Ég get auðvitað ekki setið á mér og fannst ég þurfa að láta nokkrar myndir fylgja sem ég tók á Ólafsfirði á dögunum.

 

Siggi er annars ágætur, bara svolítið stríðinn eða þannig...

02.05.2011 06:41

1. Maí 1938Hátídahöldin 1. maí

 

D A G S K R Á:


 

I. Kl. 1 e. h. Útifundur vÍð Alþýðuhúsið . Ræða: Gunnar Jóhannsson.

II. Kröfuganga undir fánum verkalýðsfélaganna og íslenzka

fánanum.

Gengið verður suður Túngötu, suður Lindargötu og niður á Suðurgötu, niður Aðalgötu, út Vetrarbraut og staðnæmst á Skólabalanum.

III. Ræður: Jón Jóhannsson og Þóroddur Guðmundsson.

IV. Kröfugöngunni haldið áfram út að Alþýðuhúsinu og slitið með ræðu.

V. Kl. 6 e. h. Barnasýníng í BÍÓ. »Eitthvað fyrir alla«. Aðg. kostar kr. 0.25.

VI. Kl. 8.30 e h. Kvöldskemmtun í Alþýðuhúsinu:

1. Skemmtunin sett. Angantýr Guðmuridsson.

2. Kórsöngur. Karlakór Siglufj. undir stjórn Jónatans Ólafss.

3. Ræða. Ríkey Eiríksdóttir.

4. Upplestur. Gísli Indriðason.

5. Ræða.

6. Kórsöngur. Karlakór Siglufj. undir stjórn Jónatans Ólafss.

7. Ræða. Aðalbjörn Pétursson.

8. Dans.

Aðgangur kostar kr. 1.50. Börn fá ekki aðgang.

Allan daginn og á kvöldskemmtuninni verða seld merki og kosta 25 aura, 75 aura og 1 kr.

Skipið ykkur um hátíðahöld verkalýðsins.

Kaupið 1. maí merki. Sækið kvöldskemmtunina.

 

Allt alþýðufólk i kröfugönguna.

 

1. maí-nefndin.

 
705. Það er oft gaman að grúska í gömlu dóti og rata þá oft hinir ótrúlegustu hlutir upp á yfirborðið. Ég rakst á þessa auglýsingu sem birtist í "1. maí blaðinu" sem kom út einu sinni á ári, eða þann 1. maí eins og nafn þess ber með sér. Á þessum tíma hefur þáttaka í kröfugöngunni líklega verið all verulega mikið meiri og almennari en nú gerist, enda yfirleitt líka talsvert heitara í kolunum og oft ófriðarsamt á vinnumarkaði. Nöfn þeirra sem þarna koma við sögu koma flest kunnuglega fyrir sjónir, a.m.k. hjá þeim sem eru annað hvort komnir eitthvað "til vits og ára" eða hafa gluggað svolítið í söguna. Flestir áttu það líka sameiginlegat að vera yfilýstir bolsar, en einnig hinir mætustu menn.

Þarna eru þrír menn sem dæmdir voru fyrir að skera niður nasistafánann hjá þýska konsúlnum árið 1933 þ.e. Þóroddur Guðmundsson formaður verkalýðssambands norðurlands, síðar bæjarfulltrúi og varaþingmaður, Gunar Jóhannsson síðar formaður verkalýðsfélagsins Þróttar, bæjarfulltrúi og alþingismaður og aðalbjörn Pétursson gullsmiður.
Ríkey vr skráður félagi í Siglufjarðardeild ASV, en sú skammstöfun stóð fyrir alþjóðasamhjálp verkalýðsins sem hafði nokkra starfsemi á kreppuárunum.

Angantýr var einn af stofnendum Mjölnis og sá sem mest skrifaði í hann ásamt Gunnari og Þóroddi. Hann var líka einn af stofnendum Kommúnistaflokks Íslands en sagði sig úr honum 1934 í hreinsunum sem þá fóru fram. Í þeim var Gísli Indriðason rekinn, en hann mun hafa verið mjög hagmæltur og góður penni.
Þessi lausavísa hans á eflaust rætur í pólitíkinni á Siglufirði.
  Flestar skærur flæktur við
  fólsk meinsæris bulla.
  Spillir æru, forðast frið
  og fjandanum þvær um rassgatið.

Og þessi varð til þegar hann kom á gatslitnum skóm til skósmiðs.
  Af elli flestu aftur fer.
  Er það mesti bagi.
  Eins og sést er undir mér
  allt af versta tagi.

Ég er þó ekki viss um hvort Jón Jóhannsson er sá sami og starfaði mikið að verkalýðsmálum er var kratamegin við hina pólitísku vinstri línu, eða þá nafni hans.

Athygli vekur að Karlakór Siglufjarðar syngur þarna á kvöldskemmtuninni en ekki Karlakórinn Vísir. Ég vissi reyndar ekki að til hafi verið Karlakór Siglufjarðar fyrr en um aldamótin 2000. En stjórnandinn Jónatan Ólafsson er ekki ókunnur með öllu. Hann kom til Siglufjarðar sumarið 1933 á tónleikaferð með, en ílentist og giftist Þorbjörgu dóttir Guðmundar Fr. í Ytra-húsi. Jónatan var mikill tónlistamaður og hefur samið mörg þekkt lög sem þjóðin hefur sungið árum og áratugum saman. Meðal þekktustu laga Jónatans eru t.d. Laus og liðugur þar sem sungið er um Sigurð sem er sjómaður og sannur Vesturbæingur. Einnig Síldarvalsinn þar sem sjómönnum þótti á Siglufjörð farandi og upplifðu indælar andvökunæturnar upp í Hvanneyrarskál, hvar Adamssynirnir og Evudæturnar áttu sín leyndarmál. Jónatan var bróðir Sigurðar Ólafssonar hins landskunna söngvara og hestamanns, en dóttir hans er svo söngkonan Þuríður Sigurðardóttir. Jónatann Garðarsson poppfræðingur og útvarpsmaður með meiru er afabarn Jónatans eldri.

Svo birtust nokkrar auglýsingar í blaðinu, því auðvitað þurfti líka að fjármagna útgáfuna. Hér má sjá svolítið sýnishorn.

-

Munið að beztu hjólhestana

fáið þið í Verzlun Egils Stefánssonar.

-

 

Ný verðlækkun.
 

Kaffi brennt og malað frá Kaffibrennslu Akureyrar pr. kg. kr. 3.25.

 

Gestur Fanndal  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 315
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344674
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 15:48:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni