Færslur: 2010 Júní

28.06.2010 04:39

Höfrungur III636. Rakst á þessa mynd
á skemmtilegri og mjög svo fjölsóttri vestfiskri skipasíðu http://golli.123.is/ og staldraði auðvitað strax við hana þar sem hún var frá Siglufirði.

 

Með henni fylgdi eftirfarandi texti: Hér sjáum við Höfrung lll sigla smekkfullann af síld inn til Siglufjarðar á þjóðhátíðardaginn 17 júni 1966. Þarna er hann tveggja ára gamall en hann var smíðaður í Noregi 1964. Ekki veit ég hvar hann er niðukominn í dag en síðast hét hann Hafnarröst og var gerður út við strendur Afríku. Myndin er úr 70 ára afmælissögu HB&CO.

 

Við fyrstu sýn virðist manni hleðsla skipsins vera í meira lagi glannaleg svo ekki sé meira sagt. En þegar hugurinn leitar til þeirra liðnu ára þegar síld var enn söltuð á plönum upp á gamla mátann, rifjast það upp að þetta var í raun algeng sjón. Stundum mátti sjá mörg skip koma siglandi inn fjörðinn sama daginn, þannig að aðeins stýrishús, möstur og hvalbakur virtust vera ofansjávar.

28.06.2010 04:12

Auglýsingin í sjoppunni hjá Matta635. Hér kemur svolítil upprifjun á gamalli færslu
sem er núna talsvert aukin og endurbætt, auk þess sem Steingrímur fann mynd í fórum sínum sem hann tók af herlegheitunum.

Við strákarnir vorum að spila flestar helgar þetta sumar þó svo að eftirtekjan væri ekki alltaf í samræmi við fyrirhöfnina. Hljómsveitin hét Frum og hún starfaði frá því sein á árinu 1971 og lítillega fram á 1974. Ég, Biggi Inga, Gummi Ingólfs, Viddi Bö, Guðni Sveins, Gummi Ragnars og Tóti Ben áttum að vísu svolítið mislanga dvöl í bandinu en einhverju sinni eftir æfingu stóðum við inni í Pósthússkotinu og horfðum á sveitunga okkar sækja Moggann sinn í sjoppuna til Matta. "Af hverju setjum við ekki ballauglýsingar þarna?" Biggi trommari og auglýsingagúrú spurði bæði sjálfan sig og okkur, en við sem minna vissum um auglýsingar og markaðssetningu áttum svo sem engin svör. Þetta var eiginlega alfarið deildin hans Bigga. Við vorum bókaðir á Ketilásnum næstu helgi og nú var komin miðvikudagur, það var því hvort sem er orðið tímabært að láta vita af sínum fyrirætlunum. Biggi rölti yfir Grundargötuna og við horfðum á eftir honum fara inn til Matta og sáum að þeir tóku tal saman. Eftir svolitla stund kom hann til baka og sagði okkur að Matti vildi alveg hengja upp auglýsingu frá okkur um Ketilásballið. "Ég sagði bara hverra manna ég var og þá var allt í lagi" sagði Biggi en það hefur eflaust ekki skemmt fyrir að Ingi Bald hefur greinilega verið metinn réttu megin í pólitíkinni að mati Matta því sonurinn var þá ekki kominn með aldur til að kjósa. Við fylgdumst síðan Bigga meðan hann gerði auglýsinguna.

"Þetta verður alls staðar bannað" sagði ég þegar útlínurnar myndarinnar tóku að skýrast á blaðinu.

"Sjáum til" sagði hann og kláraði myndina og textann á ótrúlega stuttum tíma. Síðan var beðið eftir að einhver leysti Matta af og þá var farið inn með auglýsinguna inn og hún hengd upp. Mótmæli afleysingamannsinns voru kæfð í fæðingu.

"Matti var búinn að lofa okkur þessu og sagði að þetta væri í góðu lagi."

Auglýsingin var gerð á breiðan renning af umbúðapappír og var vel á annan metir á hæðina svo varð hreinlega dimmt inni í sjoppunni, en af einhverjum ástæðum lét Matti þetta yfir sig ganga. Hann vissi auðvitað að menn áttu að standa við loforð sín, en fannst eflaust að hann hafi verið plataður svona pínulítið. Myndin á auglýsingunni var af bakhluta einhvers sem var með allt niður um sig og stutt skilaboð voru dreifð út um allt. Textinn var: "Hver er þetta? Komið á ballið og fræðist". Síðan var minnt á dagsetninguna sexta maí og að sjálfsögðu var minnt á sætaferðirnar.

Það var svo Jóhannes lögga en ekki Matti sem bað okkur að taka auglýsinguna niður því hann taldi að hún gæti hugsanlega legið vitlausu megin við þá hárfínu línu sem skilur að velsæmi og siðferðisskort. Biggi varð við beiðni yfirvaldsins og tók auglýsinguna niður en setti aðra minni í staðin. Tilgangnum var náð því hún hafði þá þegar vakið talsverða athygli í bænum og það voru hvort sem er flestir búnir að sjá hana, og nú gat sólin farið að skína aftur inn í sjoppuna til Matta.

28.06.2010 02:29

Davíð og stóra skipið634. Ég rakst nýlega á þessa mynd
í húsi á Siglufirði þar sem hún hékk uppi á vegg. Mér varð strax ljóst að ekki var um að ræða neinn fjölskyldumeðlim og einnig að einhverjir húmoristar höfðu fiktað "lítillega" í henni.

Ég varð auðvitað að negla hana í flögu...

 Ég átti leið í Örfirisey á dögunum og sá þá þetta skip liggja þar við bryggju. Eðlislæg forvitni mín varð til þess að ég las það sem ég taldi vera nafn skipsins og blasti við öllum þeim sem áttu leið hjá. Nokkur andartök liðu og mér fannst eitthvað ekki ganga alveg upp svo ég leit aftur á "nafnið" og áttaði mig þá á að þarna gat að líta eitt af stærri "skiltum" sem ég hefi alla vega séð þar sem varað var við reykingum.

25.06.2010 15:48

Tryggvi Hubner á Catalinu


Tryggvi Hubner

633. Þá er enn ein Siglufjarðarferðin á enda og skríbentinn kominn á suðvesturhornið á ný, m.a. til að spila á Catalinu um helgina. Illa horfði þó um tíma með spilamennskuna, því meðspilarann og gítarleikarann Birgir Jóhann forfallaðist. Það var þá þegar hafin leit að staðgengli hans sem bar árangur eftir allmörg símtöl og talsverðar spegulasjónir. Sá heitir Tryggvi Hubner og er ekki af verri endanum svo ekki sé dýpra í árina tekið. Hann hefur á sínum ferli komið víða við t.d. leikið með hljómsveitunum: Mátturinn og dýrðin, Stofnþel, Cabaret, Eik, Friðryk, Mannakornum, Geimsteini, Súld, Rokksveit Rúnna Júl, Pops, ásamt því að hafa spilað mikið með Bubba Mortens og meðal annars inn á fjölmargar plötur hans.

Þá má það alveg fylgja með að hann spilaði gítar inn á flest lög "Svona var á Sigló" diskanna hérna um árið.
Hann stundaði nám í klassískum gítarleik ofl. við Tónlistaskóla Kópavogs, Tónskóla Sigursveins, og Tónlistarskólann í Reykjavík. Eftir það fór hann til frekara gítarnáms á Spáni.
Hann rekur nú Gítarskóla Íslands (GÍS) ásamt Torfa Ólafsyni ásamt því að starfa sem tónmenntakennari í Garðabæ.
Það er því nokkuð ljóst að notkun vinnukonugripa verður með allra minnsta móti um helgina, en því meira um flott lick, riff og inprovisjóneraða sólkafla.

04.06.2010 11:58

Að heiman og aftur heim

632. Þetta verður síðasta færslan næstu tvær vikurnar eða svo, því enn á ný liggur leiðin á heimaslóðir. Þaðan verður svo haldið á ættarmót í Svarfaðardal þ. 18-20, en eftir það til baka á Sigló og að síðustu suður þ. 24. júní.
Hann var ekkert sérlega glæsilegur skúrinn sem nú hýsir veitingastaðinn Hannes boy. "Rauðkugengið" hefur hér lyft enn einu Grettistakinu í okkar kæra bæ og eiga þeir fyrir það ómædar þakkir skilið.
Þessi mynd er tekin þ. 16. maí og farið að styttast verulega í opnun sem fyrirhuguð var á afmælisdegi bæjarins þ. 20. maí. En menn höfðu á orði að talsverð vinna væri ennþá eftir innandyra og langur vegur væri frá því að það gæti tekist.
Það skeikaði þó ekki miklu því laugardaginn þ. 22. var opnað með pompi og prakt í Siglfiskri sumarblíðu eins og hún gerist best. Til hamingju starfsfólk og eigendur Rauðku.
Á rölti mínu um nýja kirkjugarðinn heilsaði ég svo upp á Hannes "boy" og fleiri góða og gengna Siglfirðinga. Þeir félagar hans sem sáu til þess að merkja leiði hans eins vel og smekklega og hér má sjá eiga líka heilmikinn heiður skilið.
Ekki veit ég hvort hér er um að ræða svokallaðan Spánarsnigil því ég er alls ekki fróður um snigla, en þessum mætti ég á "förnum vegi" á Sigló í síðustu ferð og hann er u.þ.b. 4-5 cm. á lengd.
Það var á Hvítasunnudag að við Maggi Guðbrands brugðum okkur í svolítinn göngutúr. Það hafði verið ákveðið deginum áður og við vonuðumst auðvitað til þess að sæmilega viðraði. Valið stóð milli Dalaskarðs og Skollaskálar sem varð sá kostur sem tekinn var vegna þess að bjartara virtist vera yfir austurfjöllunum. Eins og sést á myndinni hér að ofan, var gengið svolítið lengra en bara upp í skálina. Sennilega hefði verið farið enn ofar og jafnvel alveg upp á brún en þokuslæðingur hefði ekki raskað þeim ferðapælingum.
Það var mjög lágsjávað og flakið af  Skoger stóð að mestu leyti upp úr sjó, en annað flak litlu norðar gægðist líka örlítið upp fyrir sjólínuna. Það gerir það stundum þegar stórstreymt er en líður manni úr minni þess á milli. Miðað við lögun að útlit gæti þarna vel verið steinprammi líkur þeim sem stóðu sem lengst á sandbotninum á Leirunum áður en landið þar stækkaði.
Það er "skolli" gott útsýni úr henni Skollaskál yfir bæinn og reyndar allan austurhluta fjarðarins. Þetta er því frábær staður til myndatöku.
Við gengum upp úr skálinni og áleiðis upp brattar brekkur Staðarhólshnjúks í björtu og góðu veðri.
En skyndilega kom þokuruðningur æðandi yfir melinn fyrir norðan okkur.
Við hættum við að hækka okkur meira, gengum til suðurs yfir snævi þaktar skriðurnar talsvert fyrir ofan skálina og yfir nokkrar litlar snjóspýjur.
Þegar að klettabrúninni kom sem er sunnan megin og undir Hestskarðshnjúknum urðu þessar rjúpur á vegi okkar. Þær voru hinar spökustu og leyfðu okur að mynda sig.
Síðan lá leiðin niður öxlina undir hnjúknum og fljótlega fór þokan að þynnast. Við gengum niður á svipuðum stað og við fórum upp, túrinn tók tæpar fjórar stundir og því má svo bæta við að ekki reyndist erfitt að sofna um kvöldið.
Það getur orðið verulega ófriðlegt fyrir ofan kollinn á manni ef maður ætlar að forvitnast um hvernig kríuvarpið gengur á manngerðu eyrinni sunnan við Suðurtangann þar sem Langeyrarvegur tekur við af Snorragötu. Því komst þessi ungi maður að þegar hann vildi kynna sér aðsetur þessa fima fluggarps sem tók heimsókninni ekki sérlega vinsamlega. Það var því ekki margt annað til ráða en að snúa við og reyna að komast sem fyrst af svæðinu baða út öllum öngum og beina priki upp í loft sér til varnar.

-

Það er að öllum líkindum óhætt að draga þá ályktun af uppákomuni sem átti sér stað í síðustu viku á Suðurgötunni, að kettir á Siglufirði séu almennt vel aldir og þurfi lítið að sjá sjálfir um að afla sér lífsviðurværis.

Það var orðið verulega áliðið því kvöldið og nóttin runnu saman algerlega samskeytalaus, ég hafði ílengst við vinnu mína sem gerist stundum þegar nóttin er jafn björt og veðrið eins frábært og það var að þessu sinni. Við slíkar aðstæður á tímaskynið það til að skerðast verulega, þó svo að ekki bætist við að mér var mjög í mun að ljúka því verki sem ég var að fást við þá stundina. 

Til að byrja með tók ég ekki eftir neinu nema fuglasöngnum sem ómaði eins og torræð en mikilfengleg sinfónía úr görðunum í kring, eða eins konar tónlistargörningur sem mannfólkið ber vissulega bæði misjafnlega mikið skynbragð á eða hefur skemmtun af. En þegar á leið fór að bera meira á einni röddinni sem skar sig nokkuð úr kórnum. Ég hugsaði með mér að hér væri nú stiginn fram einsöngvari sem með þanið brjóst og sperrt stél, teldi sig eflaust hafa meira til málanna að leggja en meðaljóninn, þ.e.a.s. ef hægt er að nefna einhvern fugl Jón. Ég leit upp og sá hvar fuglinn með stóru röddina virtist vera að halda einkatónleika fyrir kött nágrannans sem var þó undarlega áhugalítill og virtist helst vilja komast sem lengst frá þessum hávaðasegg.

Hefur þessi fugl orðið fyrir alvarlegri vitröskun og úthýst allri gagnrýnni hugsun í sínum fiðraða kolli hugsaði ég með mér, eða er hann kannski eitthvað skyldur þeim skötuhjúum Monthana og Vindænu? Kannski er hann að koma úr einhverju hanastéli svona í morgunsárið bæði sólhýr og svipléttur í lund og fasi. En þrátt fyrir að líta út fyrir að vera jafn óvanalega venjulegur og virtist, þá má einnig vera alveg dagljóst að hann trampaði ekki í vitinu. Eða hefur þessi fugl e.t.v. afsalað sér dómgreindinni, veruleikafirringin þannig orðið ofan á, hann haldinn áráttukenndri þráhyggju um eigið ágæti rétt eins og pólitíkus viku fyrir kosningar, telur sig spakari að viti en aðra fugla, fjölfróðan og jafnvel kraftaskáld svo nokkuð sé nefnt. Hann hlýtur að hafa étið eitthvað sem var farið að gerjast.

En kötturinn þrýsi sér bara upp að hurðinni og vildi fyrir alla muni komast inn.
Svo getur líka verið að hin afar skammsýna skynjun fuglsins á hugsanleg viðbrögð kattardýra yfirleitt og skáldlegt eðli söngvarans á handriðinu, veki þá hugmyndafræði í hugarheimi hans að honum sé ætlað það hlutverk öðrum fremur að skemmta kettinum eins og þeim sem veit að engin synd stærri en sú að vera leiðinlegur.

Engu er líkara að viðbrögð kisa sem virðast minni en engin, hafi mjög pirrandi áhrif á hinn fiðraða félaga sem lætur dæluna ganga. Hann bætir heldur í eins og sá sem veit að betra er að fara á kostum en taugum og mér rennur í grun að ef hann heldur svona áfram verði hann fljótlega blár í framan af áreynslu. Tónninn breytist og það sem áður gat alveg hljómað eins og áferðarfallegt en innihaldslaust orðaglamur í eyrum kattarins, virðist nú líkara háværum óbótaskömmum gargandi vargfugls sem vill hafa siðbætandi áhrif á þann ferfætta með góðu eða illu. Stígandinn í orðræðu þess vængjaða bendir til þess að fyrst hafi hann lagt upp með leiðbeinandi umvandanir, þá fortölur og ofanígjöf, en að síðustu skammir og hótanir.

En ekki veit ég fyrir hvaða sakir því ég skil því miður ekki fuglamál.

En kisi snéri sér að hurðarkarminum hægra megin og klóraði hikandi í lakkaðan harðviðinn eins og hann vildi komast bæði sem fyrst og sem lengst frá þessum leiðinda kjaftaski.
Og enn bætti sá vængjaði í raddstyrkinn og það var engu líkara en "Bíbí" væri nú farinn að gagga. Grái kötturinn með hvítu loppurnar sýndi áhugaleysi sitt og óvirðingu á málatilbúnaðinum með því að færa sig um set og sýna ræðumanni bakhlutann. Sá stélfagri tók því illa og færði sig líka um set svo undan átölum hans yrði síður komist.

Ég fylgdist forvitinn með framvindunni en var eiginlega hætt að lítast á blikuna fyrir hönd fuglsins sem var ekki að gera neitt annað en að áreita köttinn.

Veit hann ekki að innan í hvítum silkihönskunum leynast klærnar, endurspeglar framkoma hans ekki vanþekkingu á eðli kattardýra, veit hann ekki að sá sem við er að etja stendur mörgum þrepum ofar í fæðukeðjunni og veit hann ekki að það er ekki skynsamlegt að veifa hráu kjöti framan í ljón?

Og veit hann ekki að hann gæti setið eftir með "súrt eplið" og loppufar á kinn eða jafnvel eitthvað ennþá örlagaríkara ef hann lætur ekki af eineltinu.

En það var engu líkara en hin gömlu eyru "Grána" væru búin að heyra svo margt í gegn um tíðina og þetta áreiti næturinnar væri svo sem ekkert til að gera veður út af. Ætli hér sé kannski fundið stökkbreytt eintak af ketti sem þróast hefur frá villimennsku til úrkynjunar í einu vetfangi þar sem veiðieðlið virðist ekki vera lengur fyrir "hendi" eða eigum við kannski að segja loppu?

Eða er hann kannski orðinn gamall og það færi honum og hans virðulega fasi því best að verða sér úti um einglyrni og nefklemmugleraugu.

Um hvað skyldi kötturinn annars vera að hugsa?

Kannski langar hann mest til að setja dúsu upp í hr. Garg-gogg eða gefa honum kex með sultu til að hann finni sér eitthvað annað til dundurs en að rífa kjaft og verði þá kannski loksins til friðs.

Eftir góðan hálftíma var kettinum var þó nóg boðið og hann brást við eins og gömul kerling í niðursetu sem er bæði skapstygg og ófrýnileg, en sem kann engu að síður eitt og annað fyrir sér.

Kisi reis stirðlega upp og þrammaði virðulega en þó ákveðið yfir pallinn þar sem þessi leiðinda fiðurfénaður hélt sig, en "Bíbí" skaust þá út á götu og hélt uppteknum hætti þaðan sem hann stóð nú á malbikinu.

"Gráni" elti og fór nú öllu hraðar yfir, en "Bíbí" leiðindaskjóða hvarf þá fyrir húshornið, e.t.v. af "heilsufarsástæðum" að eigin mati.

Kötturinn kom sér þá aftur makindalega fyrir við dyrnar og beið þess að mannfólkið vaknaði og hurðin opnaðist...
Þegar ég átti leið um Ráðhústorgið gekk ég fram á þessa virðulegu Saab bifreið sem er greinilega orðin með "ráðsettari" ökutækjum eins og sjá má. Ekki treysti ég mér samt til að greina aldur hennar því ég er ekki mjög glöggur á slíkt, en það mætti eflaust finna út úr því með kolefnisprófi eins og fornleifafræðingar gera gjarnan. En að öllu gríni slepptu má eigandinn alveg vera stoltur af þessari eðalkerru.Þegar ég lagði af stað frá Siglufirði að þessu sinni var dagur kominn að kvöldi þess 4. júní. Klukkan var langt gengin í tíu svo nú þýddi ekkert slór. Þó gaf ég mér tíma til að staldra við í Fljótunum og smella á þessa fjölskyldu sem stillti sér svona skemmtilega upp fyrir manninn með myndavélina.Og þegar ég var loksins kominn á suðvesturhornið var farið að styttast í að morgnaði af næsta degi og himininn fyrir ofan Esjuna stóð í björtu báli miðnætursólarinnar.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 370
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344729
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 16:32:02
clockhere

Tenglar

Eldra efni