Færslur: 2007 Júlí

30.07.2007 19:11

Einn af Jónösunum í umferðinni.

391. Það er oft brýnt fyrir okkur að fara varlega, betra sé að fara sér hægt og komast klakklaust á leiðarenda, en öllu má nú ofgera. Sumir taka slíkar umvandanir svo bókstaflega að horfir til stórvandræða, og sá sem ók á undan mér skammt austan við Selfoss fyrr í sumar er án nokkurs vafa einn þeirra. Kílómetra eftir kílómetra hélt hann sig á nákvæmlega 70 km hraða og ekki agnarögn meira en það. Talsverð umferð var á móti svo mér þótti ekki fýsilegur kostur að aka fram úr vegna þess. Nokkur röð var farin að myndast fyrir aftan mig og sá ég í speglinum að það var eins og sumir bílarnir væru að gægjast út á veginn, rétt eins og ökumenn þeirra væru að velta fyrir sér að taka stökkið og þeysa fram úr. En þeir eins og ég mátu aðstæður þannig að slíkt væri ekki með öllu óhætt og héldu sig á sínum stað í sístækkandi lestinni. Loksins sá ég að nú myndi vera óhætt að ýta pinnanum svolítið nær gólfi og geystist fram úr þeim gráa sem hafði verið á undan mér allt of lengi. Ég er ekki frá því að hann hafi aðeins bætt í ferðina meðan ég fór fram úr honum og sendi mér svolítið súrt augnaráð sem var lýsti bæði hneykslan og reiði. Ég stillti mig um að senda honum þekkt merki þar sem langatöng kemur hvað mest við sögu, enda orðinn öllu dannaðri með aldrinum.Nálin virtist lengi vel vera föst á 70.

Lestarstjórinn sem stjórnaði hraðanum hjá okkur hinum.

28.07.2007 13:30

Frumvarp til laga...390. Ég fékk þetta sent frá ágætum vini mínum sem hafði fengið þetta sent frá ágætum vini sínum eins og svo oft gerist í netheimum. Þess vegna er m.a. höfundur með öllu ókunnur.

Frumvarp til laga um kvótaúthlutun og ýmislegt fleira sem færa má til betri vegar.

1. Öllum þorski er hér með bannað að fara í veiðarfæri báta og skipa, nema viðkomandi þorskur hafa tilskilin leyfi sjávarútvegmálaráðherra.
2. Hver sá sjómaður sem fær þorsk í óleyfi, skal henda honum án tafa út fyrir borðstokkinn.
3. Öllum hvölum er með öllu óheimilt að borða þorsk eða aðrar fisktegundir sem eru í útrýmingarhættu samkvæmt reiknilíkönum fiskifræðinga.
4. Útgerðum hvalaskoðunarbáta er skylt að bjóða upp á hvalkjöt sem aðalrétt í öllum skoðunarferðum.
5. Engum er heimilt að verða fyrir slysi af neinu tagi, nema viðkomandi hafi aflað sér til þess tilskilinna leyfa sem fást hjá umferðastofu´gegn hæfilegu gjaldi.
6. Björgunarsveitum er stranglega bannað að bjarga fólki, nema öruggt sé að viðkomandi hafi áðurnefnt leyfi til að slasast.
7. Þrátt fyrir að hinn slasaði hafi slíkt leyfi, er stranglega bannað að fara í björgunarleiðangur hans vegna leiði það til þess að farið verði fram úr fjárlögum ársins.
8. Til að fyrirbyggja að slys geti orðið, er öllum ferðalöngum skylt að tryggja sig hjá einhverju af hinum stóru tryggingafélaga.
9. Til að losna við hvimleiða innbrotsþjófa er öllum sem hyggja á ferðalög, skylt að tryggja sig gegn innbrotum., Þeir sem tryggja verða því hvorki fyrir skemmdum né missi á persónulegum eignum. Sérstaklega skal á það minnt að þér er alveg óhætt að keyra á ef þú ert tryggður! (eða svo má skilja á auglýsingum tryggingafélaga sem alltaf hafa rétt fyrir sér!)
10. Til viðbótar áður tilkomnum lögum um jafnrétti kynjanna, þá er framvegis stranglega bannað að mismuna börnum sem fæðast á sjúkrahúsum. Því skal framvegis annað hvert barn vera kvenkyns (og hitt karlkyns) og viðkomandi heilbrigðisstofnun þarf að sækja um sérstakan kvóta vegna barna sem í framtíðinni má ætla að hneigist til samkynhneigðar.
11. Íbúum Fjallabyggðar er stranglega bannað að skreppa í Bónus á Akureyri til að nálgast þar ódýrari vörur en í heimabyggð, jafnvel þó verð á bensíni á Akureyri sé 6 krónum ódýrara en í Fjallbyggð.
12. Fjölmiðlum, ASÍ og Neytendastofu er framvegis stranglega bannað að birta opinberlega verð á vörum í Bónus og bera það saman við verslanir á landsbyggðinni. Aðeins má birta opinberlega mismuninn á verði í ESB löndum og Reykjavík.
13. Öll vínsala á Siglufirði er óheimil nema vínið verði fyrst blandað vatni í réttu hlutfalli við hraða ADSL-tenginga á staðnum. Leggja skal 5% aukagjald á vínið, sem renni í ferðasjóð utanríkisráðherra.
14. Fjölmiðlum, Símanum, bönkum og öðrum fyrirtækjum er skylt að senda út auglýsingar og gylliboð til allra viðskipta-?vina? sinna eins og þeir hafa gert hingað til án tillits til þess hvort viðskiptavinirnir eigi kost á að njóta þeirrar þjónustu og gylliboða sem þeir bjóða í persónulegum bréfum og eða auglýsingum. Persónuvernd og Neytendastofnunum kemur slíkt ekkert við.
15. Til að sinna eftirliti með því að ofanritað verði framfylgt skal skipa sérstaka nefnd. Hún skal skipuð öllum sitjandi kvenkyns alþingismönnum á þingi og jafnmörgum karl-alþingismönnum völdum af handahófi án tillits til hvort þeir hafa eitthvað vit á ofannefndum lagagreinum.
16. Þungar sektir sem renna skulu í kaffisjóð (risnusjóð) utanríkisþjónustunnar verða innheimtar af þeim sem brjóta ofangreind lög.
17. Lögreglunni á Siglufirði er þó óheimilt að hafa afskipti af brotum ofannefndra laga, alveg eins og brotum á lögum og reglum varðandi það hvernig Siglfirðingar leggja ökutækjum sínum.

Þetta lagafrumvarp er sett upp á þann hátt að auðvelt er að hafa margar og mismunandi skoðanir á því og túlka bæði vítt og þröngt eða eftir smekk hvers og eins. Eins og eðli allra laga stendur til, þarf síðan stóran hóp hálærða spekinga til að túlka og dæma eftir þeim. Að vísu má búast við að flestir skili séráliti í nánast hvert einasta sinn sem reynir á lögin.
Aðeins 17 sérfræðingar komu að gerð þessa lagafrumvarps sem er óvenjulega fámennt, en ástæða þess er hversu fjármagn var takmarkað vegna fyrirhugaðra ferðalaga flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.
En þeir sem kunna að hafa eitthvað við frumvarp þetta að athuga er bent á að þeir geta látið skoðun sína í ljós hér að neðan.

26.07.2007 00:37

Verslað í Bónusvideó.389. Einhvern tíma hefði ég hlotið mína eigin fordæmingu án áminningar fyrir það eitt að láta nokkurn mann sjá mig halda poka svona kyrfilega merktum Bónusvideó svo hátt á lofti sem glöggt má sjá, en núna er ég sem sagt farinn versla stundum í Bónusvideó.

Það var á því herrans ári 1981 þann 12. ágúst klukkan 16.00, sem ég byrjaði að leigja út videóspólur norður á Siglufirði. Upphaflegt stofnfé var hvorki meira né minna en heilar tólf þúsund krónur, og fyrir þær voru keyptar átján notaðar videóspólur í Videóbankanum við Laugarveg. Segja má að mjór sé mikils vísir og það varð síðan mitt aðalstarf í 24 ár að reka myndbandaleigur sem grundvallaðist á þessu umrædda upphafi. Fyrst á Siglufirði, þá Videóbjörninn Hringbraut 119 í Reykjavík og síðast Laugarásvideó í Laugarásnum. Það var á síðasta staðnum sem menn gátu loksins gert eitt og annað sem hugurinn hafði alltaf staðið til. Eitt af því var að hefja stórfelldan innflutning á svokölluðu jaðarefni sem var þá hvergi annars staðar til. Það gerði staðinn verulega sérstakan og orðspor hans fór hratt vaxandi. Eitt af því sem fréttist út var að starfsmönnum Bónusvideó sem margir hverjir voru góðir viðskiptavinir Laugarásvideós, var harðbannað að benda viðskiptavinum sínum á að myndefnið sem þeir leituðu að og var ekki til þar, væri fáanlegt í Laufgarásvideó. Þetta hleypti kergju í "suma" og Bónusvideó var úthrópað sem myndbandaleiga hins smekklausa undirmálsmanns sem gerir ekki gæðakröfur heldur vill láta matreiða afþreyinguna ofan í sig gagnrýnilaust án nokkurrar hugsunar.
"Þegar þú ert farinn að versla í Bónusvideó, þá ertu búinn að finna botninn."
Reyndar er ég þeirrar skoðunar enn í dag að þetta eigi við einhnver rök að styðjast en samt...

Áður fyrr horfði ég á að minnsta kosti eina bíómynd á hverjum einasta degi, en ég var að átta mig á því nýverið að ég hef hvorki notað DVD tækið né gamla spólujálkinn til að horfa á svo mikið sem eina einustu ræmu allt þetta ár. Ég spyr því sjálfan mig hvað sé eiginlega að gerast, en við þeirri spurningu er líklega ekki til neitt einfalt svar.
Ég læt mér alla vega ekki detta í hug að reyna að svara henni, yppi bara öxlum kæruleysislega og segi bara - SO WHAT!

Ég er nefnilega steinhættur í videóbransanum.

22.07.2007 02:19

Júlíferð á Sigló, - fyrri hluti.

388. Ég skrapp á Sigló um helgina (13-16) og eins og svo oft á þessum tíma ársins var mikið að gerast í bænum. Mannlífið bar svolítið "keim til fortíðar" vegna þess hversu margir voru á ferli sem eru burtfluttir fyrir að vísu mislöngu síðan. Ástæðan var að sjálfsögðu sú að þrjú árgangsmót voru haldin þessa daga auk eins ættarmóts sem var reyndar ekki af minni gerðinni. Það voru árgangar ´47, ´52 og ´57 sem voru saman komnir til að finna til hinnar nostalgíulegu samkenndar sem eðlilega einkennir slíkar samkomur þegar bæði sætar og súrsætar minningar eru gjarnan rifjaðar upp. Svo voru "Gosarnir" frammi á Hóli með ættarmótið sitt, en það verður að segjast að viðkoma þeirra sem teljast til þessarar ættar er líklega talsvert langt yfir meðallagi, slíkur var fjöldinn á gamla kúabúinu. Reyndar var einnig haldið pílumót að Suðurgötu 10, en ég veit ekki hvort það hefur dregið að sér margmenni til bæjarins að þessu sinni.


Eitt af því sem ég klikka ekki á er að kaupa Sírópskökur hjá Kobba. Nokkuð sem ég hef hingað til ekki séð annars staðar. Alla vega ekkert sem stenst samanburð.

Biggi Ölmu sem er af ´57 árgerðinni var á ferðinni seinni part laugardagsins, bankaði upp á og tók nokkur létt en valinkunn rokkslagarastef frá því í denn á eldhúsgólfinu. Hann hlaut auðvitað sína umbun fyrir rétt eins og krakkarnir sem fara syngjandi milli búða á Öskudaginn. Við Biggi vorum nefnilega saman í hljómsveit að okkur minnti árið 1975 sællar minningar og spiluðum þá oft í Allanum hjá Villa Friðriks.Eitt af því sem mér tókst alveg sérlega vel upp með að gera, var að læsa mig úti. Ég sá þá að stofuglugginn var opinn og einfaldast að fara þar inn. Ég fór því svolítinn rúnt ásamt Ingvari afkvæmi mínu um nágrennið í leit að stiga. Við fundum hann í garði við ónefnt hús í nágrenninu og rændum honum, reisum upp og ég klifraði upp og inn. Síðan fórum við annan leiðangur skömmu síðar, rétt eins og ræningjarnir í Kardímommuibænum þegar þeir skiluðu Soffíu frænku. Auðvitað lögðum við stigann aftur í grasfarið sitt þar sem hann hafði verið tíndur upp."Gosarnir" sem hafa tímgast með ólíkindum voru á Hóli.Þarna tókst að mynda það sem kallast "sólarglenna" þó í fjarska sé.Manngerð tjörn og manngerður lækur, hvílík ónáttúra á bak við tóra Bola gæti einhver heittrúaður umhverfisverndarsinni látið sér detta í hug að segja. En samt alveg ferlega flott rétt eins og Bakkatjörnin hinum megin í bænum.En ég var aðallega kominn norður í þetta skipti til að skipta um útihurð á Aðalgötunnu. Hér má sjá þá gömlu og nýju. Tíminn sem ég valdi til skiptanna var líklega ekkert eðlilegri en svo margt annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana. Ég byrjaði um tíuleytið á laugardagskvöldinu og var búinn rétt fyrir þrjú um nóttina. Þar sem inngangurinn í Bíókaffi þar sem Karma var að spila fyrir fyllu húsi, var innan við 10 metrum ofar í götunni var auðvitað erilsamt hjá mér við allt annað en hurðarísetningu.

Margir litu inn og það voru teknar langar pásur. Gummi Páls og Gústi Dan eru ekki daglegir gestir.Maggi Jóns hjá Sam-bíóunum á Akureyri og fyrrum næst, næsti nágranni er það ekki heldur.

Maggi Árna (bróðir Elmars) er "alvöru" smiður og með pappíra upp á það. Hann var með ólíkindum hjálpsamur við að glerja, bora lista og skrúfa. En hann skrapp aðeins út af ballinu en fór þangað aftur, að vísu löngu seinna en hann ætlaði sér í upphafi.

Öðlingurinn Steini Garðars var líka einn af þessum góðu drengjum sem vildu leggja málefninu lið. Hann réðist að slúttjárninu sem hafði núna lokið hlutverki sínu. Inn um dyrnar gægist Rögnvaldur stórtónlistarmaður frá Sólgörðum sem færði mér disk að gjöf sem hann hafði tekið upp og ég þakkaði ekki nógsamlega fyrir. Alltaf þegar ég sé Rögnvald rifjast upp fyrir mér þegar ég seldi honum fyrsta rafmagnsorgelið. Hann kom ásamt föður sínum upp á Hverfisgötu 11 til að sækja gripinn samkvæmt umtali sem var forláta tveggja borða Yamaha rafmagnsorgel með fótbassa, og sá gamli spurði hvort þetta væri ekki bara einhver bölvuð vitleysa í stráknum að vera að kaupa svona lagað en ég hélt nú aldeilis ekki.Ásgeir Sölva heiðraði mig líka með nærveru sinni, en við unnum saman í Húseiningum hf. á árabilinu ´78 - ´81

Þegar hurðin var komin í fór ég úr vinnufötunum, í þau skárri og leit aðeins út í tjaldið sem er komið inn á baklóðina hjá mér og þá einnig á bak við Bíókaffi. Ballið var búið og þar var slangur af skemmtilegu fólki sem var ekki farið heim alveg strax.Gamlir popparar. Stjáni og Siggi Hólmsteins.


"Bleeeeeeeeeessaður," en ég skaut flöguskoti á móti.

Hann er ógeðslega frægur leikari eða eitthvað. Ég ætla að læðast bak við hann og vertu svo tilbúinn að taka mynd. Mér sýnist plottið hafa gengið upp.Fleiri vildu leika þetta eftir og "frægi" maðurinn fílaði sig ágætlega en alveg ómeðvitað í þessu nýjasta hlutverki sínu.En þá var komin röðin að mér. Þessir drengir sem eru gamlir kúnnar úr Laugarásvideó kölluðu mig "video-legend" og ég féllst því á þessa myndatöku alveg "ógeðslega" mikið upp með mér af öllu hólinu sem þeir demdu yfir mig.Hverju skyldi hún vera að hvísla að honum og klukkan orðin svona margt???Júhúúúú. Taktu mynd af okkur sagði Una sem er alltaf til í að sitja fyrir.Og fleiri voru tilbúnir að sitja fyrir.Tumi blikkari og Elli Ísfjörð jr. voru á Torginu. En nú var komið nóg og tími á svolítinn svefn.Á sunnudeginum skrapp ég svolítinn rúnt í blíðunni. Ég velti fyrir mér hvort saga þessa "draugaskips" í slippnum er einhvers staðar til og aðgengileg.Um kvöldið má segja að "kvöldblíðan lognværa" hafi verið ríkjandi með afgerandi hætti. Sjórinn orðinn seigfljótandi, sólin strýkur fjallatoppana og fjöllin standa á haus í sjónum.

Í þessu spilverki náttúrunnar kjagar ungamamma með afkvæmi sín fram hjá mér og hefur fátt annaað til málanna að leggja en bra, bra, bra...Álfhóll við ós Fjarðarárinnar sem ég held að flestir þekki núorðið sem Hólsá.Þegar heitara og svolítið kaldara loft mætist verður til svona míni-þoka.Þessi mynd er tekin suður í Melasveit að lokinni einni af ferðum mínum á æskuslóðirnar. Ég er ekki farinn að sjá dagskrá Síldarævintýrisins ennþá, en er samt fyrir margt löngu búinn að taka þessa helgi frá og stefna fullt af fólki norður í Síldarbæinn.

18.07.2007 10:30

Júlíferð á Sigló, - seinni hluti.

387. Þegar ég skrapp á Sigló um helgina, var ég með sæþotuna í eftirdragi sem Haukur var nýbúinn að kaupa. Hann sem var nýlega kominn af sjónum, var svo snoðaður að ég ætlaði varla að þekkja piltinn. Bítlakynslóðargenið frá föðurnum (mér) virðist sem sagt ekki vera að virka þegar kemur að hársöfnun á þeim aldri þegar rokklegt útlit til höfuðsins er það sem mestu máli skiptir. Kannski lýsandi dæmi um breyttar áherslur í tímmanna rás sem mér er reyndar með öllu móti fyrirmunað að skilja. En nýja leikfangið komst norður á föstudeginum síðasta og það var ekki beðið mjög lengi með að sjósetja það og þeysa síðan um fjörðinn, enda aðstæður hinar ákjósanlegustu alla helgina. Ég fór niður í fjöruna í Hvanneyrarkróknum og síðan niður á Hafnarbryggju til að ná nokkrum skotum af "athöfninni."Sjósetning og undirbúningur.Allt að verða tilbúið.Niður slétta sandfjöruna og út í báruna."Apparatið" lyftist af kerrunni sem er síðan dregin aftur upp á land.Sett í gang.Stórsvig um fjörðinn.Talandi um svokallaðan "snertiflöt."Þetta er svolítið meira en smávægilegur ýringur.Farið fram hjá ljósmyndaranum sem stendur á bryggjunni á hægri ferð til að fá amk. eina mynd sem örugglega ekki hreyfð.

Þetta hlýtur að vera "ógeðslega" gaman.

13.07.2007 01:15

Í staðin fyrir stígvél.

386. Fyrir nokkrum vikum keypti ég kjallaraíbúð við Hallveigarstíg á hundraðogeinum í Reykjavík. Húsið var tekið í gegn fyrir fáeinum árum að utan og fært að mestu í upprunalegt horf, en það er hundrað ára gamalt á þessu ári. Og auðvitað gerði ég það vegna þess að inni í íbúðinni var varla svo mikið sem ein einasta spýta heil. Allt var í gömlum en grautfúnum og illa lyktandi panel sem var sums staðar horfinn undir óteljandi lög af veggfóðri. Eitt af því sem ég gerði var að fjarlægja innveggi og gera þrjú rými að einu, þ.e. gang, eldhús og stofu. Kom þá í ljós að golf voru mishá svo leggja þurfti í hluta gólfflatarins. Í þann hluta fóru hvorki meira né minna en tvö tonn af steypu sem ég handhrærði í stórum bala með litlum rjómaþeytara. (Reyndar er ég að tala um borvél ásamt tilheyrandi fylgibúnaði.)


Svona leit gólfið út eftir að öll steypan var komin á sinn stað.En eins og búast mátti við þurfti að ýta aðeins við flotinu svo það settist sæmilega. Og til þess að gera það þurfti að vaða út í steypuna, en ég var bara á gömlu aflögðu spariskónum sem nú gegndu hlutverki vinnuskóbúnaðs. En það varð auðvitað að reyna að bjarga sér þó engin væru stígvélin sem þurfti til þess verkþáttar. Því varð að notast það sem gerði sama gagn eins og Geir sagði forðum og lengi verður í minnum haft.

En nú ætla ég að skreppa á Sigló yfir helgina.

11.07.2007 00:59

Toto.

385. Ég fór að sjá og heyra mega-bandið Toto í höllinni í gærkvöldi. Samsetning bandsins hér á klakanum var eftirfarandi: Steve Lukather - Gítar / Söngur, Lee Sklar - Bassi / söngur, Simon Pillips - Trommur , Bobby Kimball - Söngur og Greg Phillinganes - Piano / Söngur. Hvort hægt er að tala um að hljómsveit sé einhvern tíma skipuð "orginal" hljóðfæraleikurunum vil ég hafa sem fæst orð um, því þannig er því farið í henni veröld að menn koma og menn fara. En það sem var boðið upp á í Höllinni í kvöld var að mínu mati eitt hið mesta eyrnakonfekt sem rekið hefur á Frónskar rokkfjörur. Það voru sannkallaðir snillingar í hverju rúmi sem skiluðu frábærri "heildarhljóðmynd." Þetta eru svo sem engir byrjendur í bransanum því þessar menn hafa verið í fremstu röð t.d. sem eftirsóttustu sessionspilarar í rokkinu í áraraðir. Steve Lukather er svo fáránlega góður gítarleikari að manni er næst að halda að hann sé rammgöldróttur. Þau voru hreint ótrúleg hljóðin sem hann seiddi fram úr hljóðfærinu og það sem meira var, það var ekki að sjá að hann þyrfti að hafa mikið fyrir gjörningnum. Simon Pillips hefur m.a. einnig leikið með hljómsveitinni Asia auk þess að hafa tekið við sem trommari The Who.Greg Phillinganes hefur túrað með Stevie Wonder, Michael Jackson og Eric Clapton. Lee Sklar sem kom inn í túrinn eftir að hann var hafinn, er líka án nokkurs vafa einn besti rokkbassisti um þessar mundir þó útlitið bendi frekar til þess að hann sé útúrruglaður vísindamaður og náskyldur Skrepp seiðkarli.

Ég náði eftirfarandi myndrænum skotum af Toto-flokknum í gærkvöldi...08.07.2007 00:09

Þegar ég stal brúðinni.384. Það var um mitt sumarið 1976 heima á Siglufirði að ég fékk skilaboð um að mér væri boðið í partý næstkomandi laugardagskvöld ásamt fleira fólki sem ég þekkti og umgekkst alla jafna. Það var svo sem ekkert nýtt að brugðið væri á leik og skvett svolítið í belginn á sér á þeim árum þegar menn voru ekki nema tvítugir, en þeim sem stóðu fyrir mannfagnaðinum að þessu sinni var ég aðeins lítillega kunnugur. Ég var því svolítið hissa á boðinu og fannst það koma ef svo mætti segja, úr frekar óvæntri átt.

Hann var fæddur og uppalinn á Siglufirði, en hún var einhvers staðar að sunnan. Þau bjuggu á þessum tíma í litlu bárujárnsklæddu timburhúsi sunnarlega í bænum sem nú er horfið. Það stóð svolítið afsíðis sem hentaði þeim skötuhjúum afar vel því þau voru bæði ölkær með afbrigðum, og að sama skapi mjög hávaðasöm svo vægt sé til orða tekið.

Ég spurði hvort eitthvað sérstakt stæði til, en fékk þau svör að svo væri alls ekki. Aðeins væri meiningin að eiga saman skemmtilegt kvöld, og það var sérstaklega tekið fram að "vínguðinn" myndi án nokkurs vafa heiðra samkomuna með nærveru sinni. Ég þakkaði fyrir mig og mætti á staðinn umrætt laugardagskvöld á tilsettum tíma. Mér fannst samt eitthvað undarlegt liggja í loftinu en gat samt ekki alveg áttað mig á því hvað það gæti eiginlega verið.

Það verður ekki annað sagt en að höfðinglega hafi verið tekið á móti mér þegar ég mætti á staðinn, því ég var vart kominn inn fyrir þröskuldinn en ég var kominn með glas í hönd og síðan leiddur rakleiðis til stofu þar sem allt var fullt af Buggles, Ritz-kexi, allnokkrum sortum af ídýfum og fleira góðgæti. Til gamans langar mig að skjóta því inn að á þessum tíma var fátt annað til gamla Buggles-ið sem var undanfari þess aragrúa af tegundum og óteljandi afbrigðum kartöflu og maísafurða, kræsilega distileruðum, maukuðum og uppsoðnum sem nútímamaðurinn kallar snakk.

Fljótlega fjölgaði í húsinu og þegar leið á kvöldið ríkti gleðin og glaumurinn með frekar lítt beisluðu og nánast alveg óheftu sniði. Ég sá t.d. á eftir strák og stelpu sem núna eru virðulegri en orð fá lýst og komin á sextugsaldurinn, inn á þröngt og illa lyktandi klósettið sem var á stærð við meðalstóran Ikeaskáp af ódýrari gerðinni. Þau komu svo þaðan út skömmu síðar með rjóð í kinnum og það breiðasta bros sem ég hef nokkru sinni séð.

Rétt er að geta þess að húsbóndinn á bænum hafði um árabil verið þekktur brennivínsberserkur og mönnum ekki með öllu grunlaust um að það hegðunarmynstur sem hann var hvað frægastur fyrir væri engan vegin fyrir bý, þrátt fyrir að frægðarsól hans á því sviði hefði dvínað lítillega allra síðustu misserin. Hann hafði nefnilega alltaf átt það til að láta hendur skipta ef orða var vant sem gerðist alloft, því hann var engan vegin þekktur fyrir að vera neitt sérlega orðheppinn eða mælskur. Þess vegna notaði hann hendurnar og hnefana kannski oftar en góðu hófi gegndi en höfuðið að sama skapi minna.

Það kom líklega fáum viðstöddum á óvart að þetta kvöld endaði einmitt þannig, og sérstaklega þó vegna þess hve ótæpilega var tekið við veitingunum þar sem húsráðandinn gekk á undan með "góðu" fordæmi. Þegar nokkuð var liðið á nóttina varð parinu sundurorða sem sem lá í loftinu að myndi gerast, og ágreiningsmálið var leyst með hæfilegum barsmíðum. Þegar ég kom að lá hún í gólfinu svolítið vönkuð vegna "tiltalsins" sem hún hafði fengið ásamt áfengisáhrifunum, en hann hafði skroppið inn í stofu til að fylla á glasið sem var orðið tómt rétt einu sinni enn. Ég ásamt öðrum gesti sem þarna var staddur togaði húsfreyjuna á fætur og kom henni út úr húsinu, og síðan í veg fyrir bíl sem ók hjá og fékk far fyrir okkur bæði niður í bæ. Ég reyndi að ná sambandi við hana en þar sem hún var frekar rænulítil, (reyndar var hún alveg pissfull) fékk ég litlar eða öllu heldur engar upplýsingar um hvað hafði gengið á eða hvað hún vildi gera í sínum málum. Ég fór því með hana heim til mín, kom henni fyrir uppi í rúmi, breiddi yfir hana og slökkti ljósið. (Það skal tekið skýrt fram að ég svaf ekki í sama herbergi.)

Morguninn eftir þegar ég vaknaði var hún horfin.

Síðar hinn sama dag frétti ég að mín væri ákaft leitað af nýorðnum eiginmanni hennar sem ætlaði að drepa mig og það strax. Því þrátt fyrir að þau hafi haldið því fram að ekkert sérstakt hafi staðið til umrætt kvöld, giftu þau hjú sig engu að síður með leynd þá um daginn, en ég hafði síðan orðið þess valdandi að brúðguminn hafði sofið einn á sjálfa brúðkaupsnóttina.

04.07.2007 11:15

Bónus regnboginn.383. Nú þykir mér almættið sýna svo ekki verður um villst að það hefur velþóknun á Baugur group og þeirri starfsemi sem það stendur fyrir. Það fær ekki hver sem er híbýli sín skreytt á þennan hátt sér að kostnaðarlausu nema að vera í náðinni. Sennilega hefur ómakleg aðför stjórnvalda að fyrirtækinu og eigendum þess orðið til þess að vekja meðaumkun almættisins á því, svo ekki sé nú minnst á alla þá töpuðu milljarða sem "þetta glaðlega svín" hefur orðið af vegna aðgerða þeirra andlegu dverga og hugsjónageldinga sem eru ekkert annað en Nátttröll í hugsun og gerðum. Nær væri að vinir litla mannsins fengju Fálkaorðuna fyrir að hafa átt stærstan þátt í því að þeir verst settu í hinu íslenska samfélagi þar sem ofurlaunin geta orðið allt að 20 millur á mánuði, þurfa nú síður að leita matarleifa í sorptunnum nágrannans. En sem betur fer þá er útlit fyrir að réttlætið sigri að lokum, við getum haldið áfram að láta okkur líða vel í eigin skinni og Bónusfeðgar munu vonandivaka áfram yfir velferð þess hluta þjóðarinnar sem þarf á styrkri leiðsögn þeirra að halda. Og þá gildir einu hvort um er að ræða portkonur eða hreinar meyjar, uppþornaðar gamlar karllufsur með kulnað gjálífisblik í auga, eða siðbættir og sjálfskipaðir gæslumenn minnipokamannsins.

En spakmæli dagsins er: Aldrei kalla mann heimskan ... láttu hann frekar lána þér pening.
Og til vara: Berjist gegn verðbólgu! - Étið þá ríku

P.S. Til að fyrirbyggja misskilning, þá er "þetta glaðlega svín" tilvísun á logo fyrirtækisins og ekkert annað.

01.07.2007 22:47

Esjan - Þverfellshorn.

382. Þau Svandís og Bjarni kíktu við um kvöldmatarleytið á föstudaginn og það var eftir matinn sem ég spurði Bjarna því sem næst upp úr hvort við ættum ekki að skreppa upp á Esjuna á eftir að því að það væri svo gott veður.
?Jú, jú,? svaraði hann að bragði og deplaði ekki auga.
Ég reiknaði alveg fastlega með að hann væri að grínast, en komst að því að svo var ekki því skömmu síðar stóð hann upp og spurði hvort ég væri ekki að koma.
Og ég gat auðvitað ekkert annað gert en að standa upp og lýsa mig reiðubúinn.
Við komum við á Njálsgötunni en ókum síðan áleiðis upp í Mos, og á leiðinni sagði ég við Bjarna að hann skyldi gá að því að fyrst við færum svona seint af stað yrði hann varla kominn heim aftur fyrr en í fyrsta lagi um hálf tvö.
?Já, já,? sagði hann og glotti. Það var ekki fyrr en ég var kominn niður af fjallinu um nóttina að ég komst að því að hann hélt að nú væri það ég sem væri að grínast.

Við ókum inn á stæðið við Esjurætur og lögðum af stað upp eftir hlíðinni. Gangan gekk ágætlega en það er samt ekki mjög sniðugt að fara hratt af stað upp Esjuna því hún er eiginlega svolítið launbrött. Og ganga á Esjuna er mun lengri en á flest önnur fjöll sé horft til hæð yfir sjáfarmáli. Því við Esjuna byrjar ferðin við ströndina, en í flestum tilfellum eru menn komnir í margra tuga metra hæð þegar fjallganga hefst.

Á vefnum kjalarnes.is má lesa eftirfarandi.
Vinsælasta leiðin á Esju frá Mógilsá. Hún er auðrötuð enda mörkuð af sérstökum göngustíg á fjallinu. Efst eru nokkur klettaþrep sem auðvelt er að klífa en rétt er að fara varlega vegna hættu á grjóthruni frá fólki sem kann að vera fyrir ofan. Lofthræddum er bent á að ganga aðeins vestan við hornið og finna sér leið þar upp. Að vetrarlagi skal þó fara að öllu með gát en árið 1979 féll á þessum slóðum snjóflóð og létust 2 menn. Í vörðunni, sem er í 750 m hæð má finna gestabók sem komið hefur verið fyrir í stálhólki. Rétt er að skrá nafn sitt í bókina, afrekinu til sönnunar. Sagt er að fjallið sé ekki sigrað fyrr enn hinum eina sanna tindi er náð. Um klukkustundar gangur frá vörðunni að Hábungu Esju sem rís hæst 914 m. yfir sjáfarmáli.

Talsverð umferð var um fjallið og var oft staldrað við og spjallað því með ólíkindum var hvað maður þekkti marga sem áttu leið þarna um.
Bjarni stillir sér upp til myndatöku.Ég geri það auðvitað líka en það má sjá að kvöldblíðan hreinlega breiðir úr sér um gjörvallt baklandið.Og geislarnir tylla sér á fjallatoppana, en skafheiður himinninn myndar ljósblá leiktjöldin.Við vorum komnir í 240 metra hæð þegar Bjarna fannst nóg komið. Ég held að honum hafi fundist ég hafa platað hann út í eitthvað sem hann vissi ekki hvað hann var. Alla vega sagðist hann ætla að setjast niður og hvíla sig, ég skyldi labba upp á þetta fjall en hann myndi bara bíða hérna á meðan. Tíkin Aría hafði komið með okkur og varð það úr að við héldum áfram en Bjarni ætlaði að vera í sólbaði og afslöppun á meðan við ?skryppum? þarna upp. Rétt að geta þess að lagt var af stað rétt fyrir tíu, en hún var orðin rúmlega hálf ellefu þegar leiðir skildu.Svolítið ofar sá ég að það voru komin ský á himininn yfir Reykjanesinu.Samkvæmt þessu leiðakorti eru 773 metrar upp á Þverfellshornið en ekki 750 eins og fram kemur á kjalarnes.is en ekki að það breyti svo sem neinu.Rétt fyrir neðan tindinn hvarflaði að mér að skynsamlegt væri að snúa við því þokan var farin að þéttast nokkuð mikið þarna efst uppi.En viðvarandi skynsemisskortur kom í veg fyrir svoleiðis nokkuð. Leiðin gerðist nú ögn erfiðari yfirferðar.Aría fylgdi mér eftir en gaf sér þó ágætan tíma til að skoða næsta nágrenni í leiðinni. Henni þótti greinilega ekkert leiðinlegt að hafa það frelsi sem fylgdi fjallaferðum eins og þessari. Það var þó þegar að við komum að þrepum í berginu sem gamanið kárnaði. Hún lagði ekki í þau og ég þurfti að beita hana svolitlum fortölum til að fá að halda á henni upp á brúnina.En upp forum við þó útsýnið væri ekki eins og ég vonaðist eftir.Þó létti til í svolitla stund en skömmu síðar var allt komið í sama horf. Ég settist niður og sendi sms til nokkurra útvalinna.
?Kominn á tindinn,? og ég hugsaði til Bjarna sem ég vissi ekki betur en að biði neðarlega í hlíðum fjallsins. ?Honum er örugglega farið að hundleiðast.?Þegar horft er til austurs er skýjafarið með öðrum hætti og nýr dagur greinilega að verða til.En til vesturs var útsýnið orðið svona skýin voru orðin eins og ólgandi haf en engu var líkara en brimskaflarnir skyllu á fjallshlíðinni rétt eins og þeir kæmu æðandi upp í stórgrýtta fjöruna.
Þetta var reyndar þó nokkuð flott.En það var komið fram yfir miðnætti og kominn tími á heimferð.Þegar ég var hálfnaður niður fjallið kom ég niður úr skýjunum. Borgin var orðin ágætlega upplýst en það var mun dimmra yfir en þegar ég fór upp þó Borgarljósin komi ekkert sérlega vel út á myndinni.

Þegar ég var loksins kominn niður á stæði komst ég að því að Bjarni var löngu farinn heim að sofa en í stað hans biðu mín systurnar Svandís og Minný. Þessi ferð var að baki en takmarkinu var ekki náð. Ég verð að fara aftur þegar skyggni og birtuskilyrði henta betur til myndatöku.

En myndirnar hér að ofan eru aðeins brot af Esjumyndunum í myndaalbúmi.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 220
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 726
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 344164
Samtals gestir: 38217
Tölur uppfærðar: 23.5.2024 09:19:43
clockhere

Tenglar

Eldra efni