Færslur: 2012 Október

31.10.2012 03:04

Rölt upp í Skollaskál



846. Þann 15. október s.l. var ég staddur norður á Sigló þar sem ég staldraði við í heila tvo daga, en slíktar ferðir eru því miður orðnar allt of fátíðar. Eins og svo oft áður var horft til fjalla, en það verður að segjast eins og er að það hefur verið látið duga undanfarin misseri, því engin afrek hafa verið unnin á því sviðinu í allt of langan tíma. En að þessu sinni var þó búið að taka þá staðföstu ákvörðun að nú skyldi eitthvað gera ef veður yrði með hagfelldara móti. Ekki endilega neitt langt eða hátt, engir toppar gengnir og engin persónuleg met sett, en þó eitthvað meira en bryggju eða bæjarrölt. Það gekk eftir með veðrið og stefnan var tekin upp í Skollaskál, gamalkunnan áfangastað sem alloft hefur verið gengið í og myndavélin var auðvitað upp á vasann eins og vera ber. Það vakti athygli mína að það tók mig heilar 80 mínútur að komst upp á brúnina, en fyrir tæpum þremur árum þegar ég fór þarna síðast tók ferðin upp hlíðina u.þ.b. 50 mínútur. Nokkuð sem segir kannski meira en mig langar mest til að vita.
Hér að neðan eru nokkrar myndir úr skálarferðinni.


                             

Lækurinn sem rennur til sjávar rétt norðan við Ráeyri heitir Naustaá og á upptök sín í skriðunni innst í skálinni. 
Hann lítur út fyrir að vera bæði ískaldur og svalandi...



Horft til tindanna tveggja af brúninni. Staðarhólshnjúkurinn sýnist svolítið ávalur og mjúku línurnar eru alls ráðandi frá þessu sjónarhorni sem er nokkuð á annan veg en þegar upp er komið.



Hestskarðshnjúkur og öxlin sunnan skálarinnar en úr henni féll svokölluð Ráeyrarskriða í febrúar 1830, en nokkru sunnan megin við hana er Hestskarðsskálin sem er mun stærri og meiri en flestir halda sem ekki hafa komið þar.



Hér innan við brún skálarinnar getur orðið mjög sumarfallegt



Horft yfir til vesturfjallanna, - Hafnarfjall fyrir miðju, en Illviðrishnjúkur til lengst vinstri.



Það verður ekki annað sagt en að lækurinn við mosagróna bakkana sé tær og svalandi að sjá, þorstlátum göngugörpum eflaust til mikillar gleði...



...enda vel kældur af náttúrunnar hendi.



Ef gengið er innar í Skollaskálina er fljótlega komið í skugga og haustsólin hverfur bak við fjallsöxlina.



Hvanneyrarskálin í klæðum hausts og vetrar gægist upp fyrir brúnina.



Jarðraskið í hlíðinni fyrir ofan bæinn vakti athygli mína.



En þarna er vegurinn alveg að ná upp í Fífladalina. Ég get ekki neitað því að talsverðra efasemda gætir í huga mér varðandi þessa framkvæmd. Er þetta rétta leiðin?
Hefði ekki verið ráð að bæta við einhverju fé og fá túristaveg sem síðar hefði getað orðið góð göngubraut úr Skarðsdal upp fyrir Snók og norður í Leirdali. Vegur sem ekki hefði verið mjög sýnilegur neðan úr bænum og því ekki litið út sem eitthvert ör í fjallið. Þaðan bráðabirgðaveg niður að fyrirhuguðum snjóflóðamannvirkjum sem hefði verið jafnaður út og græddur upp við verklok.
Slíkt hefði verið einstakt í sinni röð og laðað að sér heilu flokkana af útsýnisþyrstum.



Flakið af tunnuflutningaskipinu Skoger hefur farið hratt minnkandi hin síðari ár, en sömu sögu er ekki að segja um einn af steinnökkvunum sem Óskar Halldórsson Íslandsbersi flutti inn seinni hluta fimmta áratugs síðustu aldar.



Og hafið bláa hafið mætir himninum í fjarskanum lengst út við ystu sjónarrönd.



Inni í Skarðsdal er mjög heppilegt upphaf margra skemmtilegra gönguleiða, sérstaklega fyrir þá sem eru í takmörkuði formi og vilja aðeins reyna hæfilega mikið á sig rétt eins og ég þessa dagana. Ofarlega úr dalnum er stikuð leið til norðurs upp á Snók og þaðan áfram eins langt og menn lystir. Norður Hafnarfjall, upp á Hafnarhyrnu, fyrir Hvanneyrarskál, upp á Hvanneyrarhyrnu, yfir Skrámu og alla leið út á Strákafjall. Einnig í hina áttina, fyrir ofan Leyningsbrúnir og áfram til suðurs inn í Selskál, ofan við Geldingahlíð og út á Lágblekkil. Einnig er hægt að aka yfir Siglufjarðarskarð og hálfa læeið niður efstu brekkuna hinum megin. Þaðan er örstutt ganga upp í Afglapaskarð, en úr því er frábært útsýni yfir fjörðinn auk þess sem dúlúð staðarins er hreint yfirþyrmandi.
Og "Illviðrishnjúkurinn" er þarna lengst til hægri, en fjallið milli hans og Siglufjarðarskarðs er líklega einn þriggja fjallstoppa sem sameiginlega eru nefnidir Illviðrishnjúkar.



Illviðrishnjúkur eða Illviðrahnjúkur er annað hæsta fjall við Siglufjörð, örlítið lægra en Almenningshnakki vestan Hólsskarðs. Fyrir ofan Snók er á myndinni Hádegisfjall, en Efrafjall sem lítur út frá þessu sjónarhorni eins og þokkalega stór hóll er hægra megin við það. Einn Illviðrishnjúkanna má svo sjá á bak við það.




Mjög er hann myndarlegur,
og meistaralega gerður.
Svo er það lýginni líkast,
hve lygn og tær fjörðurinn verður.

Í skrautlegu haustlitaskrúði,
þá skammdegið leggst upp að ströndum.
Á sólríkum sumardegi,
sem og í klakaböndum.

Já menn fara hreinlega á flug og detta í einhvern ljóðrænan fíling við að horfa út á fjörðinn í kyrrðinni svona lygnan og bráðmyndarlegan.




Og þessir tveir steinrunnu risar sýnast mér standa vörð um Skollaskál.
Kannski eru þeir ættaðir þaðan?



En Evanger rústirnar eru eilífðarmyndefni.



Og margt býr í þanginu.



Og það hefur greinilega náð að kólna víða, jafnvel hér niður við sjávarmál, utan í bakkanum fyrir ofan fjöruna rétt sunnan við Evanger.

25.10.2012 09:43

Afastelpur



845. Ég náði þessu bráðskemmtilega skoti af þeim afastelpum Lillý og Helgu Gunnlaugsdætrum þar sem þær eru að sinna einu af sínum sameiginlegu áhugamálum, og það greinilega af mikilli innlifun þó svo að þær séu eiginlega í sitt hvoru hlutverkinu.

18.10.2012 10:12

Skarðsmótið 1976

Þar sem áletrunin er ekki mjög vel sýnileg, skal upplýst að fyrir ofan skjaldarmerki Siglufjarðar stendur "Skarðsmótið 1976".

844. Ég rakst á þessi stórskemmtilegu glös fyrir stuttu síðan þegar mér datt í hug að kíkja inn í hið óborganlega og ómissandi magasín "Góða Hirðinn". Ég hugsaði mig ekki mjög lengi um og festi kaup á þeim þrátt fyrir að mig vantaði svo sem ekkert endilega fleiri drykkjarílát. Kaupverðið var 10 kr. stykkið og þar sem stóð sæmilega á hjá mér akkúrat þá stundina, gat ég nokkuð auðveldlega greitt það út í hönd í reiðufé. Þegar heim kom datt mér í hug að fræðast svolítið um þetta tiltekna mót og niðurstöðurnar gera glösin jafnvel enn merkilegri og sérstakari, því í ljós kom að Skarðsmótið 1976 var síðasta punktamótið sem haldið var á þeim stað. Annars var Skarðsmótið á árum áður alltaf síðasta skíðamót keppnistímabilsins, nokkurs  konar uppskeruhátíð og punkrurinn yfir i-ið, því það var haldið um Hvítasunnuna og oft orðinn lítill snjór í fjöllum.

Þetta ár áttu Siglfirðingar því miður mun færri menn og konur á verðlaunapalli en fáeinum árum áður þegar "við" bárum hreinlega ægishjálm yfir flesta aðra landsmenn þegar skíðaíþróttir voru annars vegar.

Enginn Siglfirðingur var í neinu af fimm efstu sætunum í stórsvigi karla, en Gústi Stefáns bjargaði því sem bjargað varð í þeirri grein og var í þriðja sæti í sviginu. Gamla kempan Jóhann Vilbergs var í þriðja sæti í alpatvíkeppni karla, en garpurinn Magnús Eiríksson var fyrstur í göngu karla og þar með eru siglfirstu nöfnin upp talin.

Athygli vakti að Steinunn Sæmundsdóttir Reykjavík, Aldís Arnardóttir Akureyri og Kristín Úlfsdóttir Ísafirði voru efstar í stórsvigi kvenna, svigi kvenna og alpatvíkeppni kvenna. Og ekki bara það, heldur var Steinunn alltaf efst, Aldís alltaf önnur og Kristín alltaf í þriðja sæti.

11.10.2012 23:54

Skömmbakkar í skítamálum

                         

843. Ófögur sjón blasti við nokkrum erlendum ferðamönnum fyrir stuttu síðan í miðbæ Reykjavíkur þegar þeir þurftu að létta á sér eftir hressandi morgungöngu og búðarráp, en eins og sjá má á myndinni er sumt greinilega verulega úr lagi fært þarna innan dyra. Varla verður aðkoman að þessari bráðnauðsynlegu aðstöðu talin landi og þjóð til sóma á erlendri grund þegar frá líður, en auðvitað geta því miður fáein skemmd epli haft mjög svo mengandi áhrif á umhverfið með háttarlagi sínu og eru því verulega slæm auglýsing fyrir Ísland og íslendinga. - Nema þeir sem þarna voru á ferð hafi verið með svona gríðarlega mikið harðlífi.



                         

06.10.2012 10:00

Nokkrar haustlegar myndir að vestan


842. Seint í nýliðnum septembermánuði var skroppið í stutta ferð vestur á firði. Farið var um Dali, Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði og Djúpið norður, en Barðastrandarleið til baka. Svolítil lykkja var lögð á leiðina þegar komið var niður af Þröskuldum og beygt til hægri eða í suðurátt, en ekki í áttina til Hólmavíkur eins og flestir vesturfara gera. Ástæðan var sú að mig hefur lengi langað til að staldra aðeins við og líta á gamla kirkjustaðinn Kollafjarðarnes, en þar þjónaði langafi minn sr. Jón Brandsson frá 1908 og allt til ársins 1950. Hans saga verður þó ekki sögð hér, heldur bíður betri, en þó frekar öllu meiri tíma en nú er aflögu til slíkra skrifta. 



Gamla íbúðarhúsið kemur kunnuglega fyrir sjónir af öllum fjölskylduljósmyndunum sem mér hafa áskotnast í gegn um tíðina, en það virðist lítið sem ekkert hafa breyst a.m.k. hið ytra frá því fyrir miðja síðustu öld.



Á leiðinni til baka var staldrað við og smellt mynd af þessu gríðarlegu magni af rekaviði og svo má sjá Drangsnesið hinum megin við Steingrímsfjörðinn. Á þeim stað ætla ég að staldra við næst eða þar næst (eða kannski þar, þar næst).



Ég velti fyrir mér hvaðan vatnið í ána eða fossinn kemur. Áin er eiginlega foss alla leið frá brún og niður úr. Ég er vanur því að sjá litlar lækjarsprænur verða að meiri vatnsföllum eftir því sem neðar dregur í hlíðum fjalla, en þessa útgáfu. Ekki man ég hvað stóð á skiltinu við vatnsfallið en ætli ég hafi ekki þarna verið staddur í Hestfirði frekar en í Skötufirði?.


Þetta er þó alla vega Hestfjörður. Myndin er tekin innarlega í firðinum sem virðist vera óendanlegur þegar horft er út eftir honum. Firðirnir sem ekið er um eða framhjá í sunnanverðu Djúpinu eru níu eftir því sem ég best veit og eru þá víkur og vogar ekki taldir með. Þeir eru talið vestan frá; Skutulsfjörður, Álftafjörður, Seyðisfjörður, Hestfjörður, Skötufjörður, Mjóifjörður, Vatnsfjörður, Reykjarfjörður og Ísafjörður. Mér finnst alltaf jafn skrýtið að Ísafjörður sem er innsti fjörðurinn sé einn sá eyðilegasti, en Ísafjörður (kaupstaðurinn) þar sem flest fólkið býr, standi svo mun utar við Djúp og við Skutulsfjörð.



Hvammur í Dýrafirði þar sem hinn eini sanni Gústi Guðsmaður er fæddur. Þar var lengi fjórbýli, þ.e. efsti, mið og neðsti Hvammur og skiptist einn hlutinn í norður og suður Hvamm.



Þessi skilti eru negld á grind sem rís upp við vegg Öldunnar á Þingeyri, en þar var lengi rekin verslun og síðar verkstæði þar sem leikfangabíllinn Dúi var framleiddur. 



Þessi brunahani er með þeim nýtískulegri sem ég hef séð í dreifbýlinu og ég er ekkert viss um að þeir gerist neitt flottari syðra.



Hvort sem menn vilja nefna hann Fjallfoss eða Dynjanda, þá er hann flottur þarna utan í fjallshlíðinni.



Talsvert var að finna af krækiberjum vestra...



...en þó mun meira af aðalbláberjum.



Allra mest virtist samt vera af bláberjum. Því miður láðist mér að taka myndir af bláberjaklösunum sem urðu á vegi mínum í Arnarfirði skammt frá Mjólkárvirkjun, líklega vegna ákafans við að tína þau. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að ég hef aldrei nokkurn tíma séð annað eins magn.



Lyngið var farið að roðna, kjarrið að gulna og haustilmurinn hreinlega mettaði loftið.



Haustið var alls staðar og litir þess allt um kring.



Þessi á heitir Svíná og er ekki langt frá Dynjanda, eða væri kannski réttara að nefna náttúrufyrirbærið foss eða "hálffoss" vegna þess að hallinn í landinu er eða fer eiginlega bil beggja?



Þetta er svo vatnsfallið sem rennur í gegn um ræsi á Dynjandisheiðinni, en steypist fram af brúninni nokkru neðar og myndar einn fegursta foss á Íslandi. Dynjanda sem sr. Böðvar sem var afi Ragga Bjarna söngvarans góðkunna, vildi nefna Fjallfoss vegna lögunnar sinnar og útlits.



Eftir að komið var suður af Dynjandisheiðinni og ofan í Vatnsfjörðinn (sem Hrafna-Flóki hafði vetursetu í nokkru áður en hann nam og settist að í Flókadal í Fljótum) var eins og sjá má ærin ástæða að staldra við og smella af eins og einni sólarlagsmynd.

03.10.2012 18:13

Kveðja til Bassa Möller

                                     

841. Í dag lagði ég leið mina í Digraneskirkju í Kópavogi til að kveðja mætan sveitunga, Kristinn Tómas Möller. Ég kynntist honum fyrst þegar okkur Bigga Inga datt í hug að líta út fyrir fjallahringinn nyrðra og skelltum okkur á vertíð til Eyja og það verða að teljast bæði góð og þroskandi kynni. Kristinn eða Bassi eins og hann var alltaf kallaður, réði gjarnan Siglfirðinga til vinnu í Ísfélagið, en gerði okkur jafnframt grein fyrir því að enginn skyldi halda að hægt væri að koma til að sukka og slarka. Hjá honum yrðu menn að stunda sína vinnu og standa sína plikt. Ísfélagið í Vestmannaeyjum var því góður vinnuskóli sem Bassi veitti forstöðu, a.m.k. í hugum okkar sem bjuggum á verbúðinni uppi á þriðju hæð. Og þó að hvessti stundum í samskiptum okkar um stund lægði storminn alltaf aftur því annað var ekki hægt þegar maður eins og hann átti í hlut. Til hans lögðu leið sína margir góðir drengir að heiman á árunum eftir gos, Biggi Inga, Guðbrandur Ólafs, Guðni Jóhanns, Jonni Odds, Palli Sigþórs, Bjössi Sveins, Gummi Kötu, bræðurnir Sigurjón og Úlfar Gunnlaugs, Birgir Óla Geirs. Gleymi ég einhverjum?

Og svo voru stelpurnar þarna á vistinni líka þó þær störfuðu ekki í móttökunni. Þær unnu þó oft með okkur í salthúsinu. Magga Alfreðs frá Lambanesreykjum, Erla Gull, Kristín Sigurjóns, Svava Gunnars. Ég gleymi örugglega einhverjum.

Hin síðari ár ráðgerðum við strákarnir úr þessu gengi nokkrum sinnum að kíkja á gamla verkstjórann okkar og einu sinni hringdi ég í hann því nú átti að láta verða af því.

"Þú hittir ekki vel á því ég er alveg að drepast í löppinni" sagði hann.

"Endilega kíkiði við seinna þegar ég verð orðinn skárri, en þið fáið bara kaffi og ekkert með því" bætti hann við.

Við vorum ekki búnir að gera aðra tilraun og gerum hana tæpast úr því sem orðið er, - því er nú bæði ver og miður.




Blessuð sé minning hans.

  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 659
Gestir í dag: 103
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303456
Samtals gestir: 32833
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 09:24:36
clockhere

Tenglar

Eldra efni