Færslur: 2009 Nóvember

19.11.2009 10:56

Tónleikar í Miðgarði.


(Varmahlíð)

595. Þann 7. nóv. s.l. fór ég á skemmtilega tónleika í félagsheimilinu Miðgarði í Varmahlíð. Rúmur aldarfjórðungur er liðinn síðan ég kom síðast í þetta hús sem hefur nýlega verið endurnýjað verulega auk þess að rekstrarleg áherslubreyting hefur líka orðið mikil. Í dag er rekin mun "menningarlegri" starfsemi þar en áður var, tími sveitaballanna er því sem næst alveg liðinn eins og flestir vita og nýir tímar kalla eftir nýrri hugsun. Mikil áhersla hefur verið lögð á að hljómburður sé sem bestur og sá hluti framkvæmdanna virðist hafa tekist afburðavel.(Ljótu hálfvitarnir)

En þar sem ég var staddur þarna í sveitinni og mikið stóð til, var tæpast hægt annað en að mæta á "Ljótu hálfvitana" og "Hvanndalsbræður" í einum og sama pakkanum. "Hálfvitarnir" sem er hvorki meira né minna en níu talsins riðu á vaðið og byrjuðu á sínum þekktasta smelli "Lukkutrollinu". Mér fannst svolítið skrýtið að byrja á að spila út sínu stærsta trompi, því þar með væri "stígandaformúlunni" fórnað sem er nánast viðtekin venja að notast við. Það er að byrja með gott númer, halda góðan sjó en enda á hápunktinum. En það verður að segjast að þessir drengir fóru vissulega ótroðnar slóðir og komust hreint ótrúlega vel frá því. Það vakti athygli mína að þeir tóku með sér blautlegt nesti sem var til að byrja með vistað í baukum á svið og fóru ekki í neinar felur með það. Skammturinn var u.þ.b. tvær til fjórar dósir á mann og þeir skáluðu óspart við gestina milli laga sem tóku vel undir. Og þvílíkir sprellarar og þvílíkir húmoristar. Tíminn sem þeir voru á sviði var hrein hláturveisla út í gegn og þess utan var mjög athyglisvert að sjá að þeir skiptust sífellt á hljóðfærum milli laga. Bassaleikarinn fór t.d. á trommur, trommarinn á gítar, gítarleikarinn á básúnu o.s.frv., en þessir drengir munu allir vera Þingeyingar búandi á suðvesturhorninu. Spurning er hvort ekki sé réttast að gefa þeim 11 í einkunn af 10 mögulegum fyrir framlag sitt.(Hvanndalsbræður)

Þegar "Hvanndalsbræður" stigu á svið var orðin talsverð ölvun í salnum, en þeir lýstu því yfir strax í upphafi að þeir væru "þurrt" band og væru ýmist hættir að drekka eða mættu það ekki. Þeir komu mér ekki síður á óvart en undanfarar þeirra, en þó á allt annan hátt. Líklega munar ekki litlu að Rögnvaldur "gáfaði" er hættur, en mér skilst að hann hafi verið talsmaður þeirra á palli. En þessir drengir hækkuðu vel í græjunum, sögðu fátt og spiluðu hvert lagið á fætur öðru án þess þó að fá mikil viðbrögð úr sal. Það var engu líkara var en fólk væri hreinlega að hvíla sig eftir allt sem á undan var gert. Hljóðblöndunin var reyndar afar slæm til að byrja með því þrátt fyrir að tónlistin hafi verið hækkuð til muna, virtist hafa gleymst að hækka sönginn til samræmis. Hann var því mjög ógreinilegur og textar skildust alls ekki. Eftir nokkur lög virtust þeir átta sig á klúðrinu og allt breyttist til hins betra. "Hvanndalsbræður" eru ekki neitt grínband í dag eins og ég hélt, heldur dúndurgóðir og ótrúlega þéttir rokkarar, afburða hljóðfæraleikarar og flottir söngvarar. Hápunkturinn í þeirra hluta var þegar þeir tóku "Maístjarnan" í þungarokksútsetningu og ekki verður á móti mælt að það var alveg ROSALEGA flott. Þá var salurinn vægt til orða tekið kominn í góðan gír á ný eftir lægðina eftir hléið og menn dönsuðu upp á borðum, slömmuðu af mikilli innlifun og létu vel í sér heyra.

 

Eftir á að hyggja finnst mér skrýtið að þessar tvær hljómsveitir skuli halda sameiginlega tónleika eins og þær eiga litla tónlistarlega samleið, alla vega nú orðið. En ekki var annað að sjá en að allir skemmtu sér vel í "fullum" Miðgarði þetta kvöld þar sem auðvitað  það sem skiptir máli.

Og nú er ég farinn aftur norður rétt eina ferðina enn til að spila í Skagafirðinum næstu tvær helgar og finnst varla taka því að koma suður á milli. Ég ætla því að finna mér eitthvert verkefni nyrðra þá daga sem "óbókaðir" eru.

17.11.2009 09:14

Egilssíld til sölu.594. Ég varð ekki lítið hissa þegar ég leit inn á fasteignir.is í morgun. Ég hugsaði með mér að svo bregðist krosstré o.s.frv., því sumt hefur verið óumbreytanlegt í huga okkar Siglfirðinga árum og jafnvel áratugum saman rétt eins og Gimbraklettarnir eða Hvanneyrarskálin. Ég man ekki eftir öðru en að Egilssíld hafi alltaf verið á sínum stað og einhvern vegin aldrei leitt hugann að því að það geti nokkurn tíman breyst. En nú hefur fyrirtækið verið sett á sölu og rétt er því að benda á að vissast er fyrir velunnara afurða þess að fara nú að hamstra ef vera skyldi að framleiðslan yrði torfengin áður en langt um líður. Reyndar hefur dreifingin ekki verið nægilega góð undanfarin ár því ég hef nokkrum sinnum þurft að leita bæði víða og lengi hérna á suðvesturhorninu að reyktri Egilssíld sem þeir sem til þekkja vita að er hið mesta lostæti.
En það tók þó steininn úr í sumar þegar ég í tvígang leitaði að Egilssíld í SAMKAUPUM Á SIGLUFIRÐI án árangurs, en stórkaupmaðurinn Eysteinn klikkaði hins vegar ekki.

En ef einhver vill fræðast nánar um fyrirhugaða sölu Egilssíldar er slóðin til þeirra upplýsinga
http://www.fasteignir.is/fasteignir/eign/137710/

En lengi má manninn reyna og alltaf skal eitthvað verða til að koma okkur rækilega á óvart. Annað sem kom mér gjörsamlega í opna skjöldu í dag voru þeir tónar sem hljómuðu eftir að ég smellti á http://www.youtube.com/watch?v=O88k4i6pF1A Váááá maður...!

13.11.2009 06:17

Þegar Steingrímur fór til Helvítis

593. Ég fékk eftirfarandi "stubb" sendan á dögunum í rafpósti og tek áhættuna á að skjóta honum hér inn þrátt fyrir að vita ekki hvaðan hann er "stolinn". Einhver svolítið andstyggileg hugljómun var til þess að mér datt í huga að hægt væri að myndskreyta þessa smásögu, svo ég viðaði að mér efni og skeytti því saman eftir kúnstarinnar reglum og aðlagaði hinum "rauða" þræði.
Ég vil taka það fram að mínar pólitískar skoðanir
koma þarna hvergi að málum, því ég er fyrir löngu orðið gegnumheilt (flokks)pólitískt viðriðni og algjörlega litblindur á þeim vettvangi. En svo vil ég líka bæta því við að ég hef það mikla trú á Steingrími að mér þætti líklegra ef til kæmi, að hann hefði betur líkt og Sæmundur Fróði forðum í samskiptum við þann eldrauða. - En sagan er skemmtileg...
                               
                                       

Steingrímur Sigfússon er kominn til himna þar sem hann hitti Lykla-Pétur.
Lykla-Pétur varð svolítið vandaræðalegur: "Eh, velkominn," sagði hann loks. "Þakka þér fyrir," sagði Steingrímur, "ég vissi að ég mundi enda hér".
"Nja," sagði Pétur , "þú hefur lifað sæmilega frómu lífi, eða þannig, svo við vildum gjarnan hafa þig hér en því eru ekki allir sammála. Þú ert umdeildur maður og það hafa fleiri áhuga á þér en við hér í himnaríki. Við urðum að halda fund með djöflinum þar sem þetta var rætt og það endaði með því að við gerðum samning við hann."
"Samning!" Hrópaði Steingrímur og var sýnilega brugðið.
"Það er nú ekki alslæmt," sagði Pétur, "en djöfullinn sagðist nú þegar hafa flesta vini þína svo við sömdum um að þú eyddir einum sólarhring í helvíti og öðrum hér hjá okkur í himnaríki og svo velur þú sjálfur hvar þú dvelur um aldur og eilífð.
Steingrímur maldaði svolítið í móinn en samningur er jú samningur svo Pétur vísaði honum á lyftuna, kvaddi hann og sagðist sjá hann eftir sólarhring. Steingrímur ýtti á hnapp merktan "helvíti" í lyftunni og seig svo langt, langt niður á við þar til lyftan stoppaði við kolsvarta hurð. Þegar dyrnar opnuðust stóð djöfullinn sjálfur fyrir innan. "Gamli vinur, vertu hjartanlega velkominn, gakktu í bæinn," sagði kölski.Steingrímur fór inn og við honum blasti risastór golfvöllur. Margir af hans gömlu flokksbræðrum léku golf á vellinum eða stóðu í smáhópum og töluðu saman. Golfvöllurinn var fullkominn. Það var heitt í lofti og út um allt voru léttklæddar, snoppufríðar djöflastelpur sem færðu mönnum bjór og aðra kalda drykki. Steingrímur lék golf allan daginn og um kvöldið bauð Svavar Gestsson, honum í "gúrme"grill ásamt Indriða, Álfheiði og fleiri góðum vinum með öllu góðgæti sem hugsast gat. Fáum sögum fer af því hvernig Steingrímur eyddi nóttinni en sólarhringurinn í helvíti var fljótur að líða og morguninn eftir var honum vísað á lyftuna á ný.
Þegar Steingrímur kom aftur til himnaríkis var hann efins um ágæti þess staðar en það var samt sem áður tekið vel á móti honum. Hann var klæddur í englaföt og fengin harpa til að leika á. Hann eyddi deginum með því að ganga um milli skýjanna, hlustaði á fagran fuglasöng og borðaði ferska ávexti. Hann fékk reyndar í magann af ávöxtunum og það pirraði hann að sjá Davíð og Þorgerði sitja saman á skýi og leika á hörpur af mikilli innlifun.
Um kvöldið kom Pétur. "Nú ertu búinn að dvelja heilan sólarhring í helvíti og heilan dag hér í himnaríki. Ertu kannski búinn að ákveða þig?" Spurði Lykla-Pétur.
"Hmm," sagði Steingrímur, ég átti nú kannski ekki von á því en ég held að ég velji helvíti, þrátt fyrir allt. Það er heppilegasti staðurinn fyrir mig." Andlitið datt af Pétri og hann reyndi hvað hann gat að fá Steingrím ofan af ákvörðun sinni. En Steingrímur var harðákveðinn.Á ný fór Steingrímur með lyftunni niður í helvíti og djöfullinn tók aftur á móti honum. Hann kippti Steingrími inn fyrir, en þar var þá allt öðru vísi umhorfs en daginn áður. Brennisteinsfnykinn lagði um allt og skerandi sársaukavein flokksbræðra hans og vina fylltu loftið. "En hvar er golfvöllurinn?" Spurði Steingrímur skelfdur á svip "og allar flottu djöflastelpurnar, bjórinn og grillið?
"Ah," sagði djöfullinn, "þú átt nú að skilja þetta manna best, í gær var kosningabaráttan í fullum gangi, en nú ertu búinn að kjósa!

12.11.2009 22:42

Evrópa handan við hornið.592. Ég rakst á þetta "skemmtilega" landakort þar sem spáð er fyrir um búsetuþróun í Evrópu á næstunni og niðurstaðan sett upp á þennan myndræna hátt.

Eflaust munu einhverjir hafa þær skoðanir á útkomunni að svona verði þetta vegna þess að veikir og undanlátssamir ráðamenn hafi á einhverjum tímapunkti afsalað sér dómgreindinni til háværra þrýstihópa, meðan aðrir halda því eflaust fram að kortagerðarmaðurinn sé haldinn áráttukenndri þjóðernisþráhyggju og vilji með henni kynda undir útlendingahatri, mismunun ásamt því að stuðla að kúgun minnihlutahópa.
  • 1

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 370
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 415
Gestir í gær: 117
Samtals flettingar: 344729
Samtals gestir: 38297
Tölur uppfærðar: 24.5.2024 16:32:02
clockhere

Tenglar

Eldra efni