13.03.2007 13:42

Um LEO súkkulaðikex



353. Einn ágætur vinur minn
spurði mig um söguna af LEO súkkulaðikexinu sem fyrir all löngu síðan var til umfjöllunar hérna á blogginu. Viðkomandi sagði það einfaldlega vera sér ofviða að pæla sig í gegn um öll eldri bloggin í leitinni að súkkulaðikexinu. Og þar sem hann er ekki sá eini sem spurt hefur um þau atvik sem urðu til þess að þessi skemmtilega saga varð til, skal ég með mikilli ánægju endurbirta umrædda klausu ásamt svolitlum skýringakafla.



Aðalsögupersónan virðist geta brugðið sér í allra kvikinda líki.

Fyrir ekki svo löngu síðan var hringt í gemsann minn og ég spurður að því hvort Laugarásvideó ehf. væri ennþá á einhvern hátt á mínum vegum. Ég kvað svo ekki vera en þar málrómurinn var kunnuglegur, var eðlislæg forvitni mín vakin og ég vildi fá að vita hvers vegna hefði verið hringt.
"Hann félagi þinn gengur á milli okkar sem stöndum í óralangri biðröð og blandar bara geði við fólk."
"Er það ekki bara jákvætt og skemmtilegt," spurði ég á móti.
"Jú, jú, nema að hann er á sneplunum og frekar úfinn um höfuðið, og það er nú ekki sérlega fögur sjón."
"Nú," svaraði ég og þóttist verða hissa.
"Hann hefur greinilega ekki eignast nýja móðulausa spegilinn sem var svo mikið auglýstur fyrir jólin, því þá mundi hann alla vega greiða sér" sagði röddin í símanum.
"Nú," svaraði ég aftur. "Hann hefur þá bara fengið eitthvað annað fallegt frá frúnni þessi jólin."
"Svo talar hann um einhvern lítinn karl suður í Hafnarfirði"
"Hver skyldi það nú vera," hugsaði ég úr Hafnarfirðinum.
Síðan kom svolítil þögn.
"Það er bara einn maður að afgreiða en sá góðglaði gengur um gólf og ruglar bara í fólki, aðallega sækir hann þó í litlar stelpur í stuttum pilsum." Ég heyrði að það hnussaði svolítið í manninum.
Ég sagði ekkert en sá sem hringdi hélt áfram.
"Nú pikkaði hann eina slíka út úr röðinni og er farinn að afgreiða hana."
Við ræddum síðan saman um önnur mál litla stund, því langt var um liðið síðan ég hafði heyrt í þessum fyrrverandi viðskiptavini mínum.
"Nú er hann greinilega farinn að afgreiða einhverja fleiri sem hann virðist hafa velþóknun á og gefur gríðarlega afslætti alveg hægri vinstri."
Eftir svolítið lengra spjall var viðmælandinn kominn að afgreiðsluborðinu.
"Spurðu um LEO súkkulaði," sagði ég.
"Ég ætla að taka þessa mynd og fá tvö LEÓ súkkulaði," heyrði ég hann segja af bragði.
Einhverju var svarað sem ég heyrði ekki en hann rak upp mikinn hlátur.
"Það er búið að banna LEO súkkulaði í þessari sjoppu," sagði hann í símann og fannst það greinilega meira en lítið fyndið.
Hann þurfti nú að ljúka viðskiptunum og kvaddi þess vegna að sinni.
Þegar ég áleit að hinu venjulega álagstímabili ætti að vera lokið, hringdi ég í gemsa starfsmannsins og vildi forvitnast svolítið.
Það var ekki fyrr en það hafði hringt a.m.k. fimm sinnum út að hann svaraði og var þá frekar andstuttur.
"Ertu bara einn að vinna?"
"Já, ég er eiginlega bara einn að vinna," svaraði starfsmaðurinn og vildi greinilega losna úr símanum sem fyrst.
"Er ekki einhver gamall maður að vinna þarna líka?"
"Hann er alla vega staddur hérna, viltu tala við hann?."
Sá sem svaraði var greinilega mjög pirraður.
"Seljið þið LEO súkkulaði," spurði ég og reyndi að vera svolítið grandalaus í röddinni.
"Nei," svaraði röddin.
"Hvers vegna ekki?" Ég virtist ekki alveg sáttur.
"Það var tekið úr sölu eftir að þú seldir og fórst og hefur verið alveg bannað síðan og þú veist þetta alveg og þarft ekki að spyrja."
Ég gat ekki annað en farið að hlægja.
Röddin í símanum varð svolítið skrýtin.
"Bara svo þú vitið það."
"Hvað." Ég skildi ekki alveg.
"Við megum ekki umgangast þig, tala við þig, hringja eða heimsækja. Allt svoleiðis er alveg bannað"
"Haaaaaa." Nú skildi ég enn minna en áður.
"Annars verðum við reknir en ég verð að halda áfram að vinna, því það gerir það enginn annar, - blessaður."
Svo var lagt á og síminn sagði bara bíb bíb bíb bíb.
Ja hérna hér.



Loftmynd af aðalsögupersónunni sem starfsmaðurinn H.T.S. sendi mér úr síma G.J.

Nokkru seinna fékk ég skemmtilega lýsingu á því hvernig LEO súkkulaðikexinu var úthýst úr sjoppunni. Daginn sem skrifað var undir skiptinguna á fyrirtækinu fann G.J. hjá sér sterka hvöt til að gera eitthvað merkilegt, einkennandi og afgerandi í tilefni dagsins. Hann fékk hugljómunina þegar hann gekk í hús með samninginn sem blekið var varla orðið þurrt á. Nú skyldi halda eins konar minningarathöfn um "litla karlinn í Hafnarfirði" eins og hann hefur kallað mig alla tíð síðan samstarfi okkar lauk. Hann gekk þungum og djúpum skrefum yfir gólfið á sjoppunni og það var engu líkara en hárlufsurnar dúuðu ofan á herðunum í samræmi við göngulagið. En þó ekki ofan á höfðinu sjálfu því þar var enginn hárvöxtur eins og kunnugir þekkja og sést á meðfylgjandi skýringamynd. Hann náði sér í lítinn pappakassa og stillti sér upp við sælgætishillurnar.
"Þetta verður aldrei selt hérna aftur" sagði hann og sópaði öllu LEO súkkulaðinu ofan í kassann.
"Af hverju ekki?" Einhver nærstaddur læddi inn spurningunni svolítið flírulegur á svipinn.
G.J. gaut augunum til fyrirspyrjanda en svaraði engu.
"Er súkkulaðið kannski bannað út af nafninu?" Sá nærstaddi spurði aftur og horfði glettnislega í kring um sig, en þeir sem fylgdust með kímdu svo lítið bæri á og reyndu að verjast brosi.
Það rumdi eitthvað í G.J. og hann lauk við að tína í kassann.

Einn af þeim sem höfðu verið það sem kalla má "húsvanir" spurði hvort ekki mætti hafa þetta með kaffinu þó svo það yrði ekki selt og eftir nokkra umhugsun taldi G.J. það væri sennilega í lagi. Sá "húsvani" beið þá ekki boðanna, heldur hellti upp á fulla könnu af kaffi og drakk síðan megnið af því sjálfur ásamt því að sporðrenna næstum því heilum kassa af LEO súkkulaði. Áður en hann fór kom hann afganginum af lagernum fyrir uppi á eldhússkáp þar sem hann var lítt áberandi. Síðan kom hann daglega í kaffi á Laugarásvideó meðan birgðirnar af LEO súkkulaðikexinu entust, en eftir að þær kláruðust hefur hann ekki sést.

Af því má ráða að LEO súkkulaðikex er örugglega skrambi gott.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni