13.03.2007 13:57
Hasar í miðborginni um hábjartan dag.
354. Á dögunum lenti ég í svolitlu ævintýri. Ég átti erindi á Bergstaðastrætið í Reykjavík og ók því yfir Skólavörðuholtið og niður Skólavörðustíginn í áttina þangað. Þegar ég er kominn niður að gatnamótunum við Njálsgötu, er svínað all hressilega á mig og ung stúlka ekur inn á götuna í rólegheitunum án þess að líta til vinstri upp götuna sem er jú í þessu tilfelli aðalbraut. Ekki var neinn asi á henni eða fyrirgangur, því hún fór í raun alveg ofurhægt yfir. Reyndar sá ég bara í hnakkann á henni því hún snéri sér að vinkonu sinni í farþegasætinu og var greinilega niðursokkin í samræður við hana. En það var bara ég sem trúði því ekki fyrr en bílarnir höfðu nær því snert hvorn annan, að hún myndi ekki stoppa á stöðvunarskyldunni. Ég nauðhemlaði því og flautaði til áhersluauka, en það hafði nákvæmlega engin áhrif. Engin sjáanleg breyting varð á aksturslaginu frekar en hvorki ég né nokkur annar gæti verið þarna á ferðinni, og vel mátti sjá að hún hélt áfram að tala við vinkonu sína eins og ekkert hefði í skorist og sigldi áfram á sama hraða líkt og seglskúta í hægum andvara. En þegar við nálguðumst gatnamót Bergstaðastrætis beygðu þær stöllur inn í þá götu og lögðu í laust stæði beint á móti húsinu sem ég átti erindi í. Ég lagði líka í stæði skammt frá og þegar ég hugðist sinna erindum mínum gekk ég fram hjá umræddum bíl.
Passa sig í umferðinni stelpur.
Ökumaðurinn sem var nýstiginn úr stakk höfðinu inn í hann aftur og þóttist vera þar eitthvað að gramsa, en fliss, einhverjar ógreinilegar athugasemdir ásamt léttum hlátrasköllum bárust út úr bílnum. Það var auðvitað meira en ég þoldi og þar sem ég er oftast með myndavélina í höndunum beindi ég henni að bílnum og smellti af. Ég hefði kannski átt að láta það ógert, en mér vitanlega er ekki bannað að taka myndir á almannafæri af því sem næst hverju sem er.
Þá opnast dyrnar farþegamegin, vinkonan kemur út og virðist nú skyndilega hafa skipt skapi og það svo um munar.
"Ertu fimmtán ára eða eitthvað svoleiðis fávitinn þinn? Ef þú tekur mynd af mér þá brýt ég fokking myndavélina."
Hún gekk að mér og reyndi að vera eins ógnandi á svipinn og hún frekast gat.
"Fyrst þú ert að hóta mér er ábyggilega gott að eiga mynd af þér líka" svaraði ég og ég smellti af á ný.
Skipti þá engum togum að hún stökk að mér og ég fékk krepptan hnefann í andlitið. Fyrst einu sinni, en síðan aftur og aftur. En þar sem hún reyndist ekki vera nein kraftakerling og höggin reyndust því heldur léttvæg, stóð ég bara sem fastast og spurði hana hvort hún teldi að það gætu hugsanlega verið einhver vitni að þessari ?líkamsárás.?
Stöðvuðust þá aðgerðirnar jafn skyndilega og þær höfðu byrjað og vinkonurnar hröðuðu sér á braut.
Það getur verið hættulegt að vera of-virkur myndavélaeigandi?...