30.03.2007 20:29

Ferð á Sigló í marsmánuði



358. Það vantaði ekkert upp á móttökurnar hvað veðurblíðuna og afburðafagurt útsýnið varðaði, þegar ég skrapp á heimaslóðir nýverið. Ég er núna búinn að finna mér nýjan "stall" ef svo mætti segja, og prílaði upp á hann til að taka þessa mynd. Eiginlega er ég að meina stað sem mér finnst henta alveg einstaklega vel til myndartöku af bænum. Ofan við nyrsta hluta Hólavegar eru fjárhúsin hans Hafsteins Hólm og þangað upp eftir liggur svolítill stígur. Ef gengið er upp hann en síðan beygt til suðurs, komum við að sneiðing sem liggur skáhallt upp á norðurenda snjóflóðavarnargarðsins. Þaðan er mjög góð yfirsýn yfir bæinn, en einnig er upplagt að rölta göngustíg sem liggur eftir garðinum til suðurs. Slíkur göngutúr hressir, bætir og kætir rétt eins og sagt er um ópalið, einkum þó á góðviðrisdögum eins og þeim sem hér má sjá.



Ég skrapp fram að Hóli og staldraði þar við nokkra stund. Vélsleðamenn voru talsvert á ferðinni og einn þeirra fór mjög hátt upp í Hólshyrnuna. Við sem fylgdust með bjuggumst þá og þegar við að sjá sleðann sporðreisast, því brattinn var verulegur. En þegar sleðamaðurinn var farinn að nálgast klettana sem liggja mjög hátt í hyrnunni, tók hann u-beygju og fór að sjálfsögðu hálfu hraðar niður eins og við var að búast.
Var það ekki svona sem platan var skorin í Hlíðarfjalli á síðasta ári og búið til snjóflóð?
Það var einhver sem spurði og Andrés Stefáns taldi að þetta væri aðferðarfræðin í hnotskurn. En sjá mátti nokkur smáflóð í fjöllunum í kring.



Óli Þór var að koma af gönguskíðum og bjó sig undir að fara heim á F-21.



Bekkjarbróðir minn Andrés Stefáns og Kári Hreins, fyrrum nágranni af Brekkunni voru að dytta að troðaranum.

Það er ekki amalegt yfir að líta skíðasvæði Siglfirðinga þarna í blíðunni. Hvað er hægt að hafa það flottara, því hér er snjór lengur en á öllum hinum stöðunum og miklu meira af honum í ofanálag. Fer ekki að verða kominn tími á svolitla markaðssetningu, því eins og við sem þekkum til vitum svo vel þá er Skarðdalssvæðið sannkölluð paradís á jörð fyrir unnendur skíðaíþróttarinnar?

Þegar ég keyrði aftur í bæinn sá ég að það var stórstraumsfjara. Ég gat ekki annað en staldrað svolítið við á móts við Langeyrina og rölti út á leirurnar þar sem ég hafði dvalið bæði löngum og mörgum stundum sem barn og unglingur. Mig rekur samt ekki minni til að hafa séð svona mikið af botninum nokkurn tíma áður. Ætli það sé búið að grynnast svona mikið á þessum árum sem liðin eru, eða eru einhverjar aðrar skýringar á ástandinu. Ég gekk út á "miðjan fjörð," síðan langleiðina að flugvellinum og svo út eftir í átt að endanum á uppfyllingunni þar sem "Bás" hefur aðstöðu.

Ég gekk eftir hörðum sandbotninum en sums staðar voru svolitlir pollar sem ég sveigði hjá. Leifar af lagís sem sjáfarföllin höfðu brotið en ekki náð að fljóta út, settu skemmtilegan svip á þetta umhverfi sem ég hafði ekki farið um í hartnær fjóra áratugi. Þetta varð því á vissan hátt margföld upplifun. Þarna hafði fyrir margt löngu síðan verið gróskumikil kajakútgerð, oft höfðum við stjakað okkur um leirurnar á lagísjökum og þarna höfðum við guttarnir oft vaðið leirurnar á fjöru og tekið land hinum megin fjarðar. Eitt sinn fór ég á DBS hjólinu mínu þessa leið þrátt fyrir að ekki væri alveg háfjara. Það var auðvitað miklu sniðugra því ég hjólaði heimá leið eftir veginum sem liggur inn fyrir fjarðarbotninn þegar kominn var heimferðartími, en aðrir ferðalangar þurftu þá að ganga.

Íshraflið náði nokkuð langt út eins og sjá má, og ég hélt áfram göngunni eftir sandbotninum.

Þarna er ég kominn á móts við endann á stálþilinu og horfi þaðan yfir að flakinu af Skoger. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti gengið að því ef ég væri sæmilega stígvélaður, en þar sem ég er aðeins á kuldaskóm legg ekki í þann áfanga. Sandrif sem ég hef aldrei séð áður og vissi ekki að væri til, gægist eins og lítil eyja upp fyrir sjávarflötinn milli flaksins og enda stálþilsins. Annað flak nokkru norðan við Skoger er nú vel sýnilegt. Hvað ætli það fley hafi heitið á sínum tíma og síðan hvenær ætli það hafi legið þarna á þessum vota hvílustað?

En landið stækkar ekki bara og stækkar, því sjórinn tekur svolítinn toll af mannanna verkum. Og þó að Ægir konungur sé ekki nein hamhleypa til verka í niðurrifsstarfseminni á þessum slóðum, nartar hann rétt aðeins eins og svolítið forvitnislega í röndina á hinu nýja landi. Þarna hefur steypuafgangi verið hellt yfir jarðveginn og myndar plötuna ofan á, en sjórinn hefur kroppað í undirlagið og myndað svolítið holrými. Lítið mál í sjálfu sér en myndefnið fangaði athygli mína, því stundum er það formið en ekki stærðin sem kallar.

En ekki voru allir dagar svona, því engu var líkara en veðurguðirnir myndu skyndilega eftir því að Síldarbærinn er staðsettur norður undir heimskautsbaug. Þeir fengu svolítið "hóstakast" sem entist í nokkurn tíma og svona kom það mér fyrir sjónir. Myndin er tekin út um dyrnar á "Kaupfélaginu" upp á gamla mátann, þrátt fyrir að staðurinn heiti Samkaup-Úrval í dag.

Eftir vikudvöl á heimaslóðum þótti mér tími kominn til að melda mig á suðvesturhorninu í svolitla stund áður en ég færi norður aftur. Á suðurleiðinni var eins og oft gerist á Íslandi, boðið upp á ýmis konar veðurafbrigði. Stundum gjörbreyttust aðstæður á hreint ótrúlega stuttum tíma. Þessi mynd er tekin í Sléttuhlíðinni, en u.þ.b. einum km. sunnar var heiðskírt og skyggni ágætt og komið besta veður sem hélst þar til við nálguðumst Vatrnsdalinn í Húnavatnssýslu.

Hér er keyrt út úr éljagangi sem byrgði sýn og hægði för, sem eitt og sér er líklega allt í lagi í umdæmi Blönduóslöggunnar.

Þarna sjást sömu fjöll og á næstu mynd fyrir ofan, en ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hvað þau heita. En vissulega eru þau mjög löguleg og hljóta því að bera stórfengleg nöfn. Eftir þetta bar fátt eitt til tíðinda á suðurleið, en stefnan er aftur sett norður um páskana.

Svo vil ég ítreka það boð mitt sem allt eins má túlka sem áskorun til þeirra sem rekast hingað inn, að setja loppu eða skófar sitt í gestabókina meðan nóg er plássið og merkja sér þar svolítið svæði. Nokkrar myndir til viðbótar eru í "Myndaalbúmi" í möppu merktri Sigló 4.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496670
Samtals gestir: 54802
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:28:03
clockhere

Tenglar

Eldra efni