02.04.2007 10:54

Nýtt skjaldarmerki Hafnarfjarðar



359. Ekki tel ég neitt ofsagt
þó talað sé um mikil tímamót byggðar og mannlífs í Hafnarfirði eftir nýyfirstaðnar kosningar um deiliskipulag í suðurbænum. Deiliskipulag var það vissulega og ekkert annað sem íbúarnir kusu um, og hlýtur það að teljast einsdæmi hvað Hafnarfirðingar eru orðnir áhugasamir um skipulagsmál. Þeir eru svo innilega áhugasamir um skipulagsmálin að það jaðrar við trúarofstæki. En því miður bera þeir ekki gæfu til að fagna nýfengnu ofuríbúalýðræði sem hrundi nýverið beint ofan í hausinn á þeim nánast af himnum ofan. Nokkuð sem svo einstætt í sinni röð hérlendis og einnig víðast hvar erlendis, að það á sér varla nokkra hliðstæðu í hinum vestræna, frjálsa og kapítalíska heimi. Alltaf þurfa einhverjir svartir (í þessu tilfelli grænir) sauðir að rjúfa friðinn og skera upp herör gegn rödd skynseminnar. Ekki hafa þeir vitsmuni til að lifa í sátt við framfarasinnað, vel upplýst og friðsamt fólk og stuðlað með því að betri nýtingu og beislun náttúrunnar, heldur misnota nýfengið og dýrðlegt frelsið af vankunnáttu og vanþakklæti til að kljúfa samfélagið í herðar niður.

En eftir storminn lifir aldan og nú er svo komið að sundraðar fjölskyldur, fjölgun hjónaskilnaða, vinslit margra aldavina, nágrannaerjur og ýmis konar huglægur terrorismi er það sem setur hvað mestan svip á þetta áður fyrr fyrirmyndar bæjarfélag. Allt þeim að kenna sem voru á móti þeim úrslitum sem gert var ráð fyrir að fengjust. En til allrar hamingju var kosningin svo háleynileg, að þó ég sé með einhverjar léttvægar vangaveltur um málið getur að sjálfsögðu engan rennt hinn minnsta grun í hvað ég kaus.

En hvað um það, þetta er búið og gert í fyrstu lotu og það verður þess vegna bara að kjósa aftur síðar með von um heppilegri niðurstöðu. Víst er að betra er að fara á kostum en taugum eins og sagt er, og allt skynsama og fordómalausa fólkið lætur að sjálfsögðu ekki einhver misheppnuð skúffuskáld, trefla og annað lopapeysulið rugla sig í ríminu með því að hafa uppi einhverjum smávægilegan goluþeytingi vegna málsins. ?Forpokun í fyrirrúmi? getur í sjálfu sér aldrei verið markmið, og þess vegna hlýtur það að vera hin glæsta framtíðarsýn allra skynsamra manna og kvenna að hafa það að yfirskini um hríð að græða sárin og halda áfram að tala fyrir málinu og beita markvissri innrætingu og áunninni þekkingarstjórnun í því skyni. En það verður að hafa nærgætnina og yfirvegunina bæði í hávegum og fyrirrúmi, og sá á afar lævísan hátt fræjum efasemda í huga þeirra félagslegu nátttrölla sem hafa meðvitaðar kosningamisgjörðir á samviskunni. Eiginlega verður að gera það þannig að þeir sem við er rætt hafi ekki hinu minnstu hugmynd um að verið sé að heyja aðra kosningabaráttu. Og þegar svo kemur að kosningunum með litlum sem engum fyrirvara, hlýtur niðurstaðan að stuðla að auknu góðæri, farsæld og uppgangi, jafnt fyrir bæjarbúa, aðra Íslendinga svo ég tali ekki um stórvini okkar Ameríkanana. Það hefur nefnilega enginn klifið þrítugan hamarinn svo vit sé í nema það hafi verið gert í Hafnarfirði. Máltækið ?ef þú ert ekki sammála mér þá ertu óvinur minn,? á ekki við í okkar siðmenntaða samfélagi, heldur er mun vænlegra að vera einlægur í málflutningi sínum og röksemdafærslu þó maður meini ekkert með því.

Þess vegna hef ég hannað nýtt skjaldamerki Hafnarfjarðar til nota á hinum síðari og væntanlega betri tímum í þeirri von að það verði til að auka á samhygð bæjarbúa, vinarþel þeirra í garð hvors annars og sem tákn heilbrigðri skynsemi til framtíðar.

Og því er við að bæta að sá sem síðast hlær.... hugsar hægast.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496670
Samtals gestir: 54802
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:28:03
clockhere

Tenglar

Eldra efni