11.04.2007 04:31
Ferðin upp í Skollaskál.
361. Þegar ég fyrir síðustu áramót horfði svolítið til baka sá ég að ferðirnar norður á Sigló höfðu verið með færra móti á því herrans ári 2006. Sérstaklega þegar málið er skoðað út frá þeirri staðreynd að áhugann hefur aldrei skort nema síður sé, húsnæði er vissulega fyrir hendi og svo er að ég held mannskepnunni eðlislægt að vitja róta sinna og uppruna. Ég hugsaði mér að bæta úr þessu og setti mér það markmið að vera á ferðinni nyrðra að jafnaði a.m.k. einu sinni í mánuði þetta árið. Þessi síðasta ferð á heimaslóðir um páskana er fjórða ferðin í ár, og virðist því flest benda til þess að áætlunin gæti alveg átt það til að standast, eða eins og ein vinur minn segir gjarnan: Það er ekkert víst að það klikki.
Að þessu sinni var tíkin Aría með í ferð, en hún hefur áður valhoppað um Siglfirskar grundir og virðist kunna því afar vel. Það var því við hæfi að þegar ég sagðist síðdegis s.l. fimmtudag sem var reyndar Skírdagur, ætla að fá mér svolítinn bíltúr og kannski labbitúr í ofanálag, að hún kæmi með mér. Hún brást vel við þessari hugmynd og faðmaði mig að sér á sinn einstaka hátt. Við fórum yfir á gamla flugvöllinn og staðnæmdust á norðurenda hans. Þar stigum við út úr bílnum, ég á tveimur jafnfljótum en hún á fjórum og gengum af stað eftir bakkanum í áttina að Evanger rústunum. En þó fórum við ekki langt í þá áttina, því ég var búinn að skipuleggja ferðalagið með sjálfum mér og engum öðrum, og hafði gætt þess vandlega að segja ekki nokkrum frá því áður en lagt var af stað. Það hefði vísast verið ávísun á skoðanaskipti sem ég taldi óþörf og ónauðsynleg með öllu, en nú skyldi nefnilega endurtaka leikinn síðan í október og halda upp í Skollaskál. Í þetta skipti skyldi þó halda markvisst og rakleiðis alveg þráðbeinustu leið upp melana fyrir norðan Ráeyri og koma upp á sunnanverða brúnina, eða fara sem sagt stystu leið að settu marki en ekkert vera að dóla fram og aftur fjallið án sýnilegs tilgangs. Snjóföl var á allri hlíðinni alveg niður í fjöru, en melarnir voru nokkurn vegin auðir.
Aría kunni þessari algerlega "taumlausu" gönguferð vel og það virtist ekki há henni eins mikið og mér að leiðin væri öll á brattann. Í hvert sinn sem ég settist á stein til að kasta mæðinni sem var nokkuð oft, fór hún í stuttar könnunarferðir um næsta nágrenni. Hún kunni sér ekki læti og velti sér upp úr snjónum svo hann festist við feldinn og gerði hana óneitanlega svolítið vetrarlega í framan.
Núna veit ég líka hvernig orðið "kald-RANI" hefur líklega upphaflega orðið til, og þá lýsingarorðið "kaldranalegur" sem getur vart annað en verið dregið af því. Hún átti það nefnilega til að stinga snoppunni í taumlausri gleði sinni undir kragann og að hálsi mér þar sem ég taldi mig ekkert endilega þurfa á svo mikilli kælingu að halda.
Eftir því sem ofar dró breyttust útlínur fjallahringsins og nýir toppar, brekkur, gil og lautir ýmist komu í ljós, urðu sýnilegri eða tóku jafnvel á sig nýja og áður óséða lögun. Mér finnst alltaf jafn skrýtið að sjá að Hólshyrnan er í raun allt allt öðru vísi í laginu en hún virðist vera þegar horft er á hana frá bænum. Á sumri komanda er ég búinn að setja mér það markmið að ganga á hana og ná góðum skotum af bænum og firðinum. Ágætt að láta sem flesta vita af því svo ég geti vart annað en staðið við stóru orðin.
Ferðin upp tók skemmri tíma en ég hafði þorað að vona, þrátt fyrir að ég væri á spariskónum eins og svo oft áður. Þegar ég stóð þarna á brúninni fannst mér enn og aftur svolítið undarlegt hvað alltaf er miklu minni snjór í fjöllunum vestan megin fjarðar. Kannski hefði ég frekar átt að klifra upp eftir hlíðunum þeim megin að þessu sinni. En hér stóð ég og útsýnið var frábært, þrátt fyrir svolítinn hríðarhraglanda annað veifið.
Við gengum aðeins inn eftir skálinni og meðfram læknum sem hvarf inn í snjógöng þegar innar dró. Þetta er bara nokkuð myndarlegur lækur sem sprettur þarna út undan rótum hnjúkanna tveggja sem gnæfa yfir fjörðinn. Þessi skál getur ekki verið neitt annað en hreint út sagt alveg ótrúlegur staður heim að sækja að sumarlagi þegar sól skín í heiði, lækurinn hjalar og blómin anga, en þetta er um það bil að verða full dramatísk lýsing inn í ímyndaða og óupplifaða framtíðina.
Það er svolítið undarleg tilfinning að ganga spölkorn inn í skálina, setjast niður og horfa á vesturfjöllin gægjast upp fyrir brúnina en sjá hvorki bæinn né bláan fjörðinn. Það er ekki alveg laust við að kyrrðin verði svolítið afgerandi og vart verði við örlítinn skammt af angurværri einsemd eða einhverri náskyldri kennd í huga þess sem hefur alið mestallan sinn aldur í þéttbýli, þar sem ysinn og þysinn eru órjúfanlegur hluta af tilverunni og margbreytilegu mannlífinu.
En það var ekki ætlunin að stoppa mjög lengi að þessu sinni, heldur var ferðin fyrst og fremst farin til að viðhalda tilfinningunni hvernig er að stelast í svolitlu leyfisleysi og allt að því banni. Ég ætla að koma hérna aftur síðsumars þegar himininn verður blár, snjórinn farinn og sólin er komin hátt á loft. Þá verður líka jafnvel farið eitthvað lengra til eða hærra upp, - hver veit. Nú skal hins vegar halda sömu leið niður og upp var farið, og síðan rakleiðis heim því það er farið að styttast í kvöldmat og ég er að verða svangur.
"Sjáðu tindinn þarna fór ég" segir í kvæðinu, en ég fór reyndar bara upp í Skollaskál að þessu sinni. Kannski verður það tindurinn næst, hver veit. En línan sem er á myndinni sýnir leiðina eins og hún var farin að þessu sinni. Ferðin tók tvo tíma og þrjár mínútur sem ég er alveg sáttur við miðað við aldur, líkamlegt ástand, fótabúnað og að það var svo sem ekkert verið að flýta sér neitt verulega.
En páskaævintýrið var síður en svo úti, því þessi ferð var aðeins forsmekkurinn að því sem á eftir fylgdi. Eiginlega bara pínulítil æfing fyrir það sem gerðist næst, en ég ætla að fara nánar yfir þann hluta málsins einhvern næstu daga.
En ég er búinn að setja talsvert af myndum í myndaalbúm í möppu merkta "Páskar á Sigló," og von á mun fleirum.