26.04.2007 18:38

Saumaklúbburinn.


367. Ég fór í "saumaklúbb" í gær. En í raun er líklega ekki um hefðbundinn saumaklúbb að ræða, heldur er frekar gert út á að viðhalda hinu góða sambandi sem stelpurnar í árganginum komu á eftir að hafa fluttst af heimaslóðum. Þannig er að flestar þeirra búa nú orðið á höfuðborgarsvæðinu, en strákarnir hafa miklu frekar orðið eftir fyrir norðan svo skrýtið sem það nú er. Kannski er það ekkert skrýtið því algengt bæði var og er enn að eftir að unglingar sem þurfa að fara úr fámenninu í framhaldsskóla, snúa þeir allt of sjaldan aftur þar sem markaður fyrir menntað fólk er víðast mjög takmarkaður. Og víst er að stelpurnar í okkar bekk voru yfirleitt sýnu betur gefnar en við strákarnir, og á því eru líklega engar undantekningar. Þær gengu því frekar menntaveginn, en við strákarnir sátum eftir. Skyldi annars eitthvað íblöndunarefni hafa verið sett í drykkjarvatn bæjarbúa árið 1955? "Klúbburinn" er haldinn til skiptis hjá meðlimum hans og nú var komið að Gunnu Sölva. En þar sem auðveldlega má flokka slíkt sem eins konar "afbrigði," þar sem Óttar Bjarna úr sama bekk er bóndi Gunnu. Var því farin sú leið að hóa í Þórð Þórðar og síðan mig til að "lita" stelpuklúbbinn svolítið. Hugmyndin þróaðist frekar því Þórður er listakokkur, Óttar er bakari eins og flestir vita, en ég er reyndar ekki neitt en það er nú annað mál. Ég mætti snemma á staðinn ef hugsast gæti að ég gæti orðið að liði við undirbúninginn, en það kom reyndar á daginn að ég reyndist ekki vera hæfur til neinna verka. Þórður eldaði dýrindis krásir; hreindýrabollur, skötusel og einhvern mega-saltfiskrétt sem er engan vegin hægt að lýsa með orðum. Óttar bakaði m.a. þá bestu súkkulaðiköku sem ég hef á ævinni bragðað, og hef þó goggað í eitt og annað í allnokkrum sætabrauðsbúðum. En ég gerði sem sagt fátt annað en að horfa á þá félaga undirbúa kvöldið og tefja fyrir þessum galdramönnum.



Álfhildur, Stella, Fríða Birna, Klara, Jóna, Óttar, Stína, Dóra, Ég, Gunna, Þórður og Oddfríður eru á hópmyndinni, en á hana vantaði Elenóru því einhver varð að fórna sér og taka myndina. Ég greip því til þess ráðs að galdra hana inn í hægra hornið neðan til, því við hin getum að sjálfsögðu ekki án hennar verið.

Samkvæmisljónið Óttar Bjarna horfði á mig með undarlegum svip eins og sést, og mér datt svona rétt í hug að hann vildi ekki að ég tæki mynd af honum með fullan munninn. En auðvitað var það bara tóm vitleysa svo ég smellti af og glotti aulalega.

Þórður Þórðar er óborganlegur kokkur, skemmtikraftur og vélstjóri á Mánaberginu í hjáverkum. Eiginlega get ég leyft mér að segja að á þessari mynd hafi ég fangað eitt lítið andartak og náð honum "fyrir nesið."

Því er svo við að bæta að 123.is kerfið liggur niðri að hluta laugardaginn 28. apríl, svo ekki er alveg víst að allir geti gert það sem hugurinn stendur til þann daginn. Var reyndar búinn að skrifa langan og mikinn pistil (Home alone 2) sem ég við nánari athugun þori ekki að birta af ótta við refsiaðgerðir. Ég ætlaði líka að skreppa norður á Sigló einhvern næstu daga, en hef frestað því fram yfir sauðburð vegna anna.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 149
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495526
Samtals gestir: 54633
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 12:10:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni