22.05.2007 00:57
Logar frá Vestmannaeyjum.
374. Fyrir nokkru síðan var fríhelgi í spilamennskunni og ég átti svolítið spjall við Axel Einarsson gítarleikara á laugardagskvöldi. Hann sagði mér þá að hann ætlaði að rölta yfir götuna og kíkja á Logana sem væru að spila á Kringlukránni þá um kvöldið, en Axel býr vestan Kringlumýrarbrautar gegnt verslunarmiðstöðinni og þá um leið umræddri krá. Ég hváði, því ég vissi ekki að Logarnir frá Vestmannaeyjum væru enn að eftir öll þessi ár.
"Þeir komu saman og gerðu sig klára fyrir nokkur gigg," sagði Axel.
Ég átti fyrst í stað ekki til eitt einasta orð, en svo komu þau bæði í belg og biðu og allt of mörg í senn. Ég talaði um hinar sætu og súru minningar frá því árum áður, mögulega upplifun og endurkomu gamalla minninga. Svo bað ég hann lengstra orða að hinkra svolítið, því ég væri alveg til í að rölta með honum yfir götuna til að hlusta á gömlu goðin og reyna að rifja upp liðnar stundir í Höllinni í Eyjum í leiðinni. Kvöldið hentaði einkar vel fyrir svolítið nostalgíukast, ég gæti bæði alveg hugsað mér að verða svolítið andvaka í morgunsárið og sofa svo fram undir hádegi daginn eftir eins og svo oft var gert í verbúðinni í Ísfélaginu eftir Logaböllin forðum.
Árin 1975 og 76 fór ég til Vestmannaeyja og vann þar í fiski, lengst af í Ísfélaginu en síðast í "Hraðinu" hjá Sigga Einars "ríka." Um helgar voru böll í "Höllinni" sem var aðalsamkomu og ballstaðurinn í Eyjum, en þar spiluðu Logarnir að öllu jöfnu. Þetta voru algjörir ofurtöffarar og "lúkkuðu" með hippalegra móti í þá daga. Þeir voru þá og eru enn mikil "Stones-fön" og héldu ávalt uppi mikilli og dansvænni stemningu.
Nú eru liðin meira en 30 ár frá mögum af mínum lífsins ljúfustu stundum, og meðlimir Loganna hafa elst og þroskast rétt eins og við hin. Þeir eiga það sjálfir til að gera svolítið grín af aldri sínum og heilsufari, og til varð skemmtileg saga um þá (sem ég hef reyndar frá þeim sjálfum) eftir að þrír þeirra höfðu fengið hjartaáfall.
Þeir voru einhvers staðar milli heims og helju, og frekar en að hafa ekkert fyrir stafni spurðu þeir til vegar og bönkuðu þeir upp á hjá Lykla-Pétri til að athuga hvort þeim yrði hleypt inn um Gullna hliðið. Sá gamli kom til dyra og spurði hverjir væru þar á ferð.
"Við erum Logarnir frá Vestmannaeyjum," svöruðu þeir í einum kór og horfðu skælbrosandi framan í gamla manninn með lyklavöldin.
Hann blaðaði í einhverjum gulnuðum skræðum og renndi fingrinum að lokum niður eina blaðsíðuna þar til hann staðnæmdist við eina línuna. Hann leit upp og sagði ábúðarfullur við drengina sem knúið höfðu dyra:
"Farið heim til ykkar aftur og verið þar þangað til ég læt sækja ykkur. Rolling Stones eru langt, langt fyrir ofan ykkur á listanum og þeir eru enn að spila á fullu."
Ég skrapp til Axels gítarleikara og við settumst inn í hljóðverið í kjallaranum, opnuðum eina græna dós og skiptum innihaldinu bróðurlega á milli okkar. Það taldist hæfilegur skammtur að sinni, því það stóð til að mynda Logana í bak og fyrir en alls ekki að hella sé á djammið.
Henrý hefur það "fram yfir" félaga sína að hafa fengið tvö hjartaáföll meðan tveir hinna hafa bara fengið eitt og aðrir ekkert. Eftir það fyrra hætti hann að reykja því læknarnir sögðu honum að það gæti skipt öllu máli. Þegar hann fékk það seinna ályktaði hann sem svo að bindindið hefði þá gagnast heldur illa og byrjaði aftur.
Óli Back er hörku góður trommari og hefur greinilega engu gleymt.
Laugi (eitt hjataáfall) spilaði á hljómborðið rétt eins og fyrir 30 árum+ og fyllti upp í lögin með bakkrödd.
Helgi (eitt hjartaáfall) spilaði og söng eins og honum væri borgað fyrir það, enda var það einmitt tilfellið því það kostaði 1800 kall inn.
Hermann Ingi (bróðir Helga) spilar líka á gítar og syngur.
Þetta er nýjasti meðlimurinn sem segja má að hafi fæðst inn í Loganna og heitir Ólafur. Hann er sonur Lauga hljómborðsleikara.
Þessi sagðist hafa verið vélstjóri á bát sem get var út af Ísafold fyrir góðum aldarfjórðungi eða svo. Hann bað fyrir kveðjur til Danna Bald og Ómars Hauks sem ég tel mig nú hafa komið til skila bloggleiðis.
Hún heitir Særún og er frá Siglufirði. Hún sagðist hafa flutt þaðan fyrir meira en 40 árum, en væri nú engu að síður Siglfirðingur.
Ég fann Ása Péturs svolítið inni í skugganum en hann hélt sig vel til hlés við dansgólfið allan tímann en var með kjaftagleiðasta móti.
Og Alla Hauks var þarna líka, en svei mér þá ef hún verður ekki glæsilegri með hverju árinu sem líður.
Þessi maður hver sem hann er, setti sig í stellingar og stillti sér alltaf upp þegar hann sá mig taka upp myndavélina, enda á hann alveg rosalega flottan hatt.
Ég hafði fengið nóg um hálfþrjúleytið og hugði á heimferð. En þá var þegar komin röð þar sem leigubílarnir komu að svo ég rölti upp á Listabraut og náði næsta bíl sem var á leiðinni að Kringlukránni.
Bílstjórinn sem sagðist heita Jón var viðræðugóður og við spjölluðum saman um Logana, kráarmenninguna (eða ómenninguna) á Íslandi, poppið fyrr og nú, og margt fleira. Hann sagði mér að hann hefði verið trommari í nokkrum bílskúrsböndum hér áður fyrr sem sum hver komust út úr skúrnum, og meðal annars spilað með stórgítarleikaranum Friðriki Karlssyni um svipað leyti og hann (þ.e. Friðrik) hefði ásamt félögum sínum stofnað Mezzoforte.
En fleiri myndir frá Logaballinu er að finna í myndaalbúmi, í möppu merkt "Logarnir." En um áramótin síðustu setti ég mér það markmið að heimsækja heimaslóðirnar a.m.k. einu sinni í mánuði að jafnaði, og seinni partinn í dag ætla ég að leggja upp í maíferðina á Sigló.