29.05.2007 03:18

Helgafell.

375. Þriðjudaginn 22. maí sl. var ákveðið að fara maíferðina á Sigló. En eins og áður hefur komið fram, var ákveðið fyrir nokkru síðan að stefna á að heimsækja heimabæinn að jafnaði einu sinni í mánuði og það hefur gengið eftir síðan seint á síðasta ári. Tilhlökkunin hafði farið stigvaxandi að undanförnu, en nú var dagurinn runninn upp bjartur og fagur. Undirbúningur var kominn á lokastig og bíllinn meira að segja fullur af bensíni. Allt í einu hringdi síminn og Magnús Guðbrandsson sá ágæti félagi var á línunni.
"Það á að labba upp á Helgafell á eftir, ertu ekki með?"
Þetta kom alveg flatt upp á mig og mér hreinlega vafðist "tunga um höfuð" eins og góður maður orðaði það einu sinni.
"En ég er að leggja af stað til Sigló," sagði ég og það var svolítill sjálfsvorkunnartónn í röddinni.
"Allt í lagi, en það er mæting hjá Kaldárseli kl. 18.30 ef eitthvað skyldi breytast hjá þér."
Það var engu líkara en að Maggi byggist allt eins við því að svo gæti farið.
Nú var eiginlega orðið úr svolítið vöndu að ráða, því ég var kominn a.m.k. hálfa leið norður í huganum. En mér þótti líka illt að missa af þessum "alveg passlega langa" göngutúr með öllu þessu skemmtilega fólki.
Ég hugsaði með mér að ekki yrði bæði sleppt og haldið frekar en yfirleitt, eða hvað?
Tíminn leið, það styttist í deginum og ég varð meira og meira tvístígandi.

Fyrir nokkrum árum hefði mér ekki þótt það vera neitt tiltökumál að sinna því sem þurfti yfir daginn, rölta þennan spotta um kvöldið og aka svo af stað norður í land um nóttina. En eftir því sem á líður verða menn víst hæglátari, skynsamari, jarðbundnari, e.t.v. latari, þreyttari en einnig raunsærri. Svona mætti auðvitað lengi leika sér upp að telja, en það hefur hins vegar ekki reynt á það mjög lengi hvernig gengi að takast á við verkefni sem nú virtist greinilega veri í uppsiglingu.
Það varð því niðurstaðan að rúmlega rétt í meðallagi vel athuguðu máli, að reyna að komast yfir hvort tveggja og sleppa engu. Á tilsettum tíma var ég því mættur upp við Kaldársel og var ekki sá síðasti á staðinn.
Tilgangurinn var sá að klifra upp á bæjarfjall Hafnarfjarðar, - Helgafell.



Gengið var frá Kaldárseli og stefnan tekin rakleiðis á Helgafell.


Hlíðar fjallsins voru miklu brattari en ég hafði haldið.



Sandsteinn.



Gil og skorningar.


Slétt svæði er uppi á fjallinu, en þó ekki alveg efst uppi, því síðasta lotan var enn eftir á tindinn. Klettaveggurinn á suðurhliðinni sést vel á myndinni, en frá brúninni sést vel yfir láglendið í suðri og til Bláfjalla.


Ef rýnt er í myndina sést að hún stendur mjög nálægt brúninni sem rennur svolítið saman við mosavaxið hraunið langt, langt fyrir neðan. Sá hluti vegarins til Bláfjalla sem liggur frá Hafnarfirði er eins og lítill lækjarfarvegur.


En auðvitað hafðist það sem að var stefnt og tindinum er náð. Þar er staldrað við og skyggnst til allra átta. Þó ekki sé eins víðsýnt og var frá toppi Vífilfells fyrir nokkrum dögum, er margt að sjá og það er engu líkara en verið sé að skoða risastórt landakort.


Þarna stóð það svart á hvítu (eða raunar grátt on´í gráu) að Helgafell er 340 metra hátt, og nú var að skrá sig í gestabókina. Eftir svolitla viðdvöl á toppnum var haldið af stað til suðvesturhlíðarinnar, en þar skyldi gengið niður.


Í suðaustri milli Helgafells og Bláfjalla leið ský yfir landið og neðan úr því steyptist úrkoman í formi hagléls.

Það kom einhver gulur, torkennilegur og lítill plastpoki upp úr innkaupapokanum sem geymdi gestabókina. Er þetta hass, spurði einhver og allir skoðuðu innihald hans gaumgæfilega og þefskyn okkar göngumanna og kvenna var hreinlega beitt af alefli í hvers manns nefi. Niðurstaðan var sú að þetta væri eitthvað allt annað án þess að það væri skilgreint nánar.


Ég sá klett sem ekki virtist vera hægt að klifra upp á, og þess vegna varð ég auðvitað að komast þangað upp.



Annar klettur var þarna skammt frá, ókleifur öðrum megin. (Ég segi nú bara sisona.)


Þetta skemmtilega gat var á "fjallsveggnum," en skriða gekk niður frá brúninni og í gegn um það.


Klettar og skriða, mosi og gras. - Ég áttaði mig á því í göngutúrnum að Edda bjó á Siglufirði seint á áttunda áratugnum, eða nánar tiltekið að Lindargötu 20.


Aðeins fyrir ofan okkur lágu mávar (held ég) á hreiðri.



Svo var hort til baka upp í gatið á fjallinu.



Þá varð á vegi okkar plastgerð gerfimús sem er ákaflega sjaldgæf dýrategund í "óbyggðum Hafnarfjarðar." Og nú er þessi stofn annað hvort enn sjaldgæfari eða hreinlega útdauður, því plastgerða gerfimúsin slóst í för með okkur, og hélt til byggða eftir langa og án nokkurs vafa einmanalega útilegu.


Og vegna þess að við komum annars staðar niður af fjallinu en við forum upp, þurftum við að ganga í hálfhring í kring um það til bílanna sem biðu á stæðinu við Kaldársel.


Á leið okkar varð þessi hellir, en hægt var að ganga niður í hann og svolítið undir hraunbrúnina.


Einnig lítið hraunhús sem var hægt að komast inn í og það var með þessum skemmtilega "glugga."


Vatnsverndarsvæðið fyrir ofan Kaldársel er girt af með hárri girðingu. En hún skarast á einum stað svo þar verður til hlið sem aldrei lokast. Girðing með stóru gati eða hvað? Sú kenning var sett fram á staðnum að hún væri bara til að draga úr eða takmarka umferð um svæðið. Þeir sem væru nógu vitlausir til að hvorki sjá né fatta, væru eiginlega hópur sem ætti hvort sem er ekkert erindi inn á svæðið. Ég hafði hljótt um mig og sagði nákvæmlega ekki neitt, því að ég hef aldrei tekið eftir neinu þrátt fyrir að hafa komið þarna mörgum sinnum.



Klukkan var alveg að verða 10, nú var "ævintýri á gönguför" að baki að þessu sinni, en til allrar hamingju aðeins u.þ.b. 10 min. akstur heim á hlað. Það var eiginlega eins gott, því nú styttist í öllu lengra ferðalag sem var Hafnarfjörður-Sigló.

Það er svo rétt að geta þess að miklu fleiri myndir frá ferðinni á Helgafell eru í myndaalbúmi í möppu merkt "Helgafell."

Eftir nokkra daga er áformað að ganga á Keili á Reykjanesi.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 613
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495990
Samtals gestir: 54735
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 18:22:34
clockhere

Tenglar

Eldra efni