02.08.2007 09:01

Hin síðari júlíferð á Sigló.

392. Við Magga skruppum á Sigló í örstutta vinnuferð. Það var farið eftir kvöldmat á mánudaginn sl. og komið til baka aðfararnótt miðvikudags. Það var skúrað og skrúbbað, þurrkað af og tekið til, borað og skrúfað, pípað og neglt. Valdi Gosa spurði hvort væri verið að gera partýklárt, og það má kannski segja að á vissan hátt hafi kjöftugum ratað satt orð á munn því það er von á fjölmenni í gistingu á Aðalgötuna á Síldarævintýri no. 17. Þess vegna gaf ég mér engan tíma til myndatöku á staðnum eins og venjulega, en bætti það kannski upp að einhverju leyti á leiðinni. Mikla litadýrð var að sjá ef litið var til himins, og vakti það sjónarspil náttúrunnar athygli mína. Ég stillti litlu vasamyndavélina eins og ég hafði vit til miðað við aðstæður og skaut nokkrum skotum ýmist að landslaginu sveipað rökkri miðsumarnæturinnar, eða á undarlega lituð skýin sem sum voru hæðar sinnar vegna enn böðuð sólarljósi dagsins sem var liðinn á jörðu niðri.



Horft út Skagafjörðinn.



Það rýkur úr Tindastól eins og það sé kviknað í honum. - Horft yfir Hegranesið.



Eldur í skýi yfir Blönduósi.



Horft út á Húnaflóann. Í efri skýjalögunum skin en sól dagsins sem leið, en lágskýjabakkinn læðist yfir landið úr norðri. Á morgun verða gráu tónarnir líklega allsráðandi.

Forynjur og fyrirbæri. Langur ormur liðast um loftin blá og það er engu líkara en hann opni ginið og ætli sér að steypa sér yfir okkur og gleypa vegfarendurnar sem eiga sér einskis ills von.



Er þetta geimskip að búa sig til lendingar?



Horft yfir Hrútafjarðarhálsinn. Yfir innsta hluta Strandasýslu og Laxárdalsheiðinni er þykkur skýjabakki, en fyrir ofan hann skín sólin enn. Sérstaka athygli mína vakti svarti skýhnoðrinn (til vinstri) sem er líklega rétt fyrir neðan sólargeislana og þess vegna komin nótt hjá honum.



Inn til landsins mátti sjá fullt tunglið sem var stundum á bak við skýjahulu, en fékk stundum að láta ljós "sitt" skína. En þegar dýpra er hugsað vitum við auðvitað að tunglið á sér ekkert eigið ljós heldur fær það að láni hjá sólinni og endurkastar því af góðsemi sinni til okkar jarðarbúa.

En nú fer að verða kominn tími á að drífa sig á Síldarævintýri á Sigló, en þar ætla ég að vera fram á þriðjudag.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 302
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496798
Samtals gestir: 54813
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 11:38:51
clockhere

Tenglar

Eldra efni