13.08.2007 23:23
Þorskur á þurru landi.
394. Í vor fór ég eins og svo oft áður í svolítinn bíltúr og hafði myndavélina meðferðis. Ég ók í gegn um Vellina sem er nýjasta hverfið í Hafnarfirði og inn á veginn sem liggur til Krýsuvíkur. Þegar ég hafði skammt farið kom ég að fiskhjöllum og beygði inn á stæði og rölti að þeim. Ég skoðaði þá og nánasta umhverfi þeirra, tók mikið af skemmtilegum myndum og það var þá sem ég tók eftir þessum vesaling sem lá á jörðinni og ekki var betur séð en að hann væri alveg steindauður.
Ég rak tána í hann en það breytti engu, ég varð ekki var við nokkurt lífsmark. Hann hreyfði sig ekki og þegar betur að gáð, lágu fleiri úr fjölskyldu hans þarna á víð og dreif um jörðina. Ég horfði svolitla stund á hópinn og allt var kyrrt og hljótt. Það heyrist aðeins svolítið skrjáf í tómum plastpoka sem hékk á ryðguðum nagla á staur þarna skammt frá. Hann hreyfðist lítillega í hægum og hljóðlátum blænum sem strauk blíðlega á kinn en var að öðru leyti mjög svo aðgerðarlítill. Það hvarflaði að mér að sú speki ætti ef til vill við að "þeir sem vita meira en aðrir, hafa líka vit á að þegja," en líklega var það ekki málið í þessu tilfelli.Mér fannst þetta vera mikil kyrrðarinnar stund og ég velti fyrir mér hvað væri til ráða.
Ég gæti alla vega tekið mynd af greyinu og reynt að "fótósjoppa" í hann svolítið líf.