15.08.2007 21:27

Skreppitúr á Þingvelli.

395. Í upphafi ferðarinnar var talað um svolítinn bíltúr, en svo var minnst á að kíkja hvort einhver ber væri að finna við Hafravatn eða þar í grenndinni. Svo gleymdist ekki bara að beygja í áttina að Hafravatni, heldur var haldið í austurátt eftir Nesjavallavegi á fullri ferð en þó innan löglegra hraðamarka. Þarna er landslagið skemmtilegt svo ekki sé meira sagt og innan tíðar var slegið af og rennt inn á stæði.



Þarna eru margar og skemmtilegar gönguleiðir í allar áttir.



En við Gulli sáum lítið fell eða klett einn ógurlegan þarna við veginn sem virtist við fyrstu sýn ókleifur með öllu. Þess vegna fannst okkur sjálfsagt að klöngrast upp á hann.



Það er enginn beinn og breiður vegur.



Og hvorki vegrið, skilti né neinar merkingar, bara þröngt einstigið.



Það var hins vegar þó nokkuð hátt niður.



Og upp fóru menn.



Og hreyktu sér sigurreifir á næsta tindinum.



Það gerðu líka fleiri og það svo að undir tók í fjöllunum, - við nefnum engin nöfn (mín vegna.)



Svo voru teknar fleiri myndir.



Og við feðgarnir skiptumst á að sitja fyrir.



Og mikið rétt, þetta er Þingvallavatn sem er í baksýn.



En hinum megin liggr vegurinn til Nesjavalla.



"Komdu niður kvað hún amma,
komdu niður sögðu pabbi og mamma."



Ég féllst á að koma niður þegar búið var að taka nokkrar myndir til viðbótar.



Sólin skein og menn orðnir heitir eftir gönguna.



Svo komum við að útsýnispalli sem er fyrir ofan Nesjavelli.



Við beygðum til hægri og ókum suður Grafninginn. Þetta er líklega með flottustu kirkjustæðum en mér hefur ekki tekist að finna út hvað kirkjan heitir. - Allar upplýsingar vel þegnar.



Við veginn sem liggur fyrir ofan kirkjuna er þessi kross. Skv. mínum upplýsingum var hann settur upp eftir hörmulegt bílslys sem þarna varð. Nokkurn tíma á eftir var mikið rætt um nauðsyn þess að gera úrbætur á þessum hættulega vegi en síðan sofnaði sú umræða.



Og þarna er útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn. Hér hafa líklega verið kyrjaðir rúmlega nokkrir skátasöngvar í það heila.



Þegar farið er yfir Sogið er Ljósafossvirkjun á vinstri hönd.



Og Írafossvirkjun til þeirrar hægri.



Þetta er Steingrímsstöð við Úlfljótsvatn sem fær vatn úr Þingvallavatni sem stendur hærra. Stöðvarhúsið stendur undir svolitlu hæðardragi sem skilur að þessi vötn, en í gegn um það kemur vatnið sem knýr virkjunina. Við fórum upp á hæðina og lituðumst um.



Yfirfallið úr Þingvallavatni virðist hafa nartað í bergið því það er farið að slúta yfir vatnið.



Gott útsýni er ofan af hæðinni yfir sumarbústaðina við Þingvallavatn.



Einnig yfir lokubúnaðinn sem tilheyrir virkjuninni.



Og inntakið fyrir Steingrímsstöð.
En þarna á hæðinni var líka talsvert af bláberjum og til allrar hamingju var hæfilega stórt kökubox í skottinu. Það var því lagst yfir lyngið og boxið fyllt.



"Þar sem að Öxará rennur,
ofan í Almannagjá."
En þar var næsti viðkomustaður. Gulli gerði sig líklegann til að framkvæma faglega úttekt á ferskleika og hitastigi árinnar.



Sem hann og gerði.



Mig langaði hins vegar að hreykja mér svolítið fyrir linsuopið en í hæfilegri fjarlægð þó.
Fyrst þarna á klettinum.



En síðan upp við brún Öxarárfoss.



Síðan var svæðið neðan gjárinnar kvatt og ekið upp fyrir hana og að þjónustumiðstöðinni þar sem útsýnispallurinn er.



Og útsýnispallurinn stendur undir nafni því þaðan er gaman að horfa enda margt að sjá.



Kirkjan og tilheyrandi eru borðleggjandi efniviður í póstkort.



Ef maður stelst aðeins útfyrir handriðið og kíkir niður á botn gjárinnar má sjá að það er svolítið hátt niður.



Það er ekkert skrýtið þó hingað liggji straumur fólks, þetta er hrikalega flott.



Þetta er þekktasti hluti gjárinnar og sá sem yfirleitt sést á öllum myndum, en Almannagjá nær allmarga kílómetra inn til landsins og nú er verið að lengja og laga gangstígana upp eftir henni svo líklegt er að fleiri leggi leið sína lengra til norðurs, enda full ástæða til.



Á pallinum voru samankomnir fulltrúar fjölmargra þjóða og mig grunar að ég sá eini íslenskumælandi í hópnum, en allt gott og blessað um það að segja.



Á leiðinni heim mátti sjá hvernig lágskýin gægðust upp fyrir fjallabrún Esjunnar og fóru síðan að "leka" niður hlíðarnar. Þetta var svolítið sérstakt og skemmtilegt sjónarspil.



En þá var bara eftir að koma við í búð og kaupa svolítið skyr.

Og miklu, miklu fleiri myndir eru inni á myndaalbúmi í möppu merkt "Þingvellir 2007."

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495582
Samtals gestir: 54652
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:16:24
clockhere

Tenglar

Eldra efni