22.08.2007 09:48
Ferðin austur í Mýrdal - fyrri hluti.
Þegar ekið er um Landeyjarnar virðast Vestmannaeyjar vera ótrúlega nálægt landi.
Svo er auðvitað hægt að draga þær enn nær, þannig að bærinn sjáist vel og það meigi jafnvel greina einstaka hús.
Eyjafjallajökull. - Ef farið er niður fyrir þjóðveginn sést enn betur til jökulsins.
Eyjafjallajökull. - Við ókum því niður að kirkjustaðnum Krossi sem stendur svolítið ofan við ströndina.
Þetta er bærinn Vatnshóll í Austur-Landeyjum. Þarna mætti að sjálfsögðu taka aðeins til á bæjarhólnum.
Núpsfjall stendur norðan við Fljótshlíðina og setur mikinn svip á þá fjallasýn sem við blasir frá þjóðveginum.
Horft inn Fljótshlíðina upp Markarfljót og Markarkarfljótsaura í áttina til Þórsmerkur. Eyjafjallajökull til hægri
Ef ekið er nokkra tugi metra inn Þórsmerkurveg er komið að Seljalandsfossi. Hér situr sá sem þetta ritar og virðir fyrir sér fossinn. (Ljósmynd: Magga)
Við ókum upp eftir veginum sem liggur upp á Hamragarðaheiði, en stöldruðum við á brúninni fyrir ofan Seljaland. Þaðan er gott útsýni til allra átta. Hér er horft yfir Markarfljótsaura og til Vestmannaeyja..
Gljúfrafoss er rétt norðan við Seljalandsfoss. Ekki er annað hægt en að staldra við og mynda þetta magnaða náttúrufyrirbæri.
Og rétt austan við fossinn er þessi bær, en við byggingu hans hefur torfið, þetta gamla byggingarefni verið talsvert notað.
Við gengum upp að Paradísarhelli, en þangað liggur ágætlega merktur stígur af þjóðveginum. Það hittum við fyrir tvo stráka sem héldu sig greinilega að mestu við hellismunnann.
"Það er fýlsungi þarna inni og við viljum ekkert að hann sé að æla á okkur" sagði annar þerra.
Aðgengið hentar ekki hverjum sem er og ég lét það vera að príla þarna upp. Auðvitað sárlangaði mig að feta mig upp keðjuna, en það kom þrennt til sem aftraði mér frá því. Magga hefði staðið æpandi þarna fyrir neðan, fýlsunginn hefði eflaust ælt á mig og strákarnir hefðu farið að hlægja að mér ef ég hefði svo ekki ráðið við verkefnið.
Paradísarhellir er u.þ.b. 5,5 metrar að lengd og 3 metrar þar sem hann er breiðastur. Hellismunninn er frekar þröngur en þó er auðvelt að komast inn um hann eftir að hafa klifrað upp að honum.
Hellirinn einna þekktastur fyrir að hafa verið dvalarstaður Barna-hjalta sem var ástmaður og síðar eiginmaður Önnu stórbónda á Stóru-Borg.
Í sögunni um Önnu á Stóru?Borg kemur Paradísarhellir mjög við sögu. Anna sem var auðkona og af höfðingjaættum lagði ástir á smaladreng er Hjalti hét. Páll bróðir Önnu reiddist mjög þessar ástir og vildi ná til Hjalta. Hann faldist í Paradísarhelli í fjölda ára og sagt er að hann hafi getið með Önnu 8 börn þaðan. Sagan endar á því að Páll bróðir fellur með hesti í Markarfljóti og kemur þá Hjalti til og bjargar honum og var hann tekinn í sátt upp úr því.
Jón Trausti dvaldi hjá Þorvaldi stórbónda á Þorvaldseyri upp úr aldamótunum 1900, og þar skrifaði bókina "Anna á Stóru-Borg" upp úr aldamótunum1900 en
Og á netinu rakst ég á eftirfarandi "þjóðsögu" sem sagt er að Jón Trausti hafi byggt sögu sína á auk munnmæla.
Vigfús Erlendsson á Hlíðarenda, lögmaður og hirðstjóri 1515, var maður ákaflega ríkur og mikill höfðingi. Hann átti Guðrúnu Pálsdóttir lögmanns á Skarði Jónssonar. Þeirra dætur voru tvær; Guðríður kona Sæmundar í Ási og Anna var önnur. Hún fór ógift frá föður sínum og að Stóruborg undir Eyjafjöllum, eignarjörðu sinni sem þá var einhver mesta jörð undir Fjöllum. Heyrt hefi ég að þar hafi verið sextíu hurðir á hjörum; er það oft talið um stærð bæja hvað margar voru hurðir á hjörum.
Anna gjörðist auðkona hin mesta og er það talið til marks um búrisnu hennar að hún hafði þrjú selstæðin: eitt í Seljunum, annað á Ljósadíla og þriðja á Langanesi. Sagt er að margir hafi beðið hennar, en hún verið mannvönd og engum tekið.
Hjá henni var smaladrengur sá er Hjalti hét Magnússon, lítilsigldur, en félegur. Einu sinni í kalsaregni um sumar eitt hafði Hjalti verið yfir fé og kom heim húðhrakinn og votur. Voru þá piltar hennar að nota rekjuna. Slógu þeir nú upp á glens við Hjalta og buðu honum ærið fé til að fara nú heim eins og hann var hrakinn og upp í hjá húsmóðurinni. Hjalti fór nú heim og upp í loftstigann, en er hann rak upp höfuðið leit Anna við honum. Varð hann þá inurðarlítill og dró sig í hlé. Þannig fór í þrjár reisur. Anna tók eftir þessu óvanalega einurðarleysi Hjalta og segir: ?Hjalti! Hvað er þér?? Hann segir henni hvað vinnumenn hennar hefði lofað honum. ?Tíndu þá af þér leppana, drengur minn, og komdu upp í,? segir hún. Afklæðir hann sig nú og fer upp í. Sofa þau nú fram eftir deginum eins og þeim líkar og er mælt henni hafði líkað drengurinn allvel er honum fór að hlýna. Svo sendir hún til piltanna og biður þá sjá hvar Hjalti var; heimtar nú af þeim það þeir lofuðu og máttu þeir til að inna það af hendi, svo var hún ráðrík.
Oft hafði Anna haft það um orð hvað fögur væri augu í Hjalta. Eftir þetta sænguðu þau saman og fóru að eiga börn. Þessu reiddist Vigfús faðir hennar svo ákaflega að hann sat um líf Hjalta og setti allar þverspyrnur við veru hans þar sem hann kunni. Hafðist Hjalti við í ýmsum stöðum. Mælt er að hellrar væru fyrir framan Stóruborg og væri þaðan stutter sprettur heiman úr Stóruborgarhólnum. Voru þessir hellar kallaðir Skiphellrar því þar settu menn skip sín inn í. Þar hafðist Hjalti við um stund. Hest átti hann brúnan að lit, mesta afbragð; var það lífhestur hans. Þetta frétti Vigfús faðir hennar og fór þangað með margmenni. Kom hann að Hjalta þarna í hellirnum. Hafði hann ekki annað ráð en hlaupa á bak Brún og hleypti undan. Eltu menn hann, en Brúnn var svo góður hestur að enginn sá á eftir honum. Þá bjó Eyjólfur í Dal frændi hennar Einarsson og Hólmfríður Erlendsdóttur, systir Vigfúss hirðstjóra. Eyjólfur skaut skjólshúsi yfir hann. Sumir segja hann kæmi honum til Markúsar Jónssonar á Núpi sem átti Sesilíu Einarsdóttir á Múla, systur Eyjólfs, en Markús keypti trúnað bónda þess er bjó á Fit og kæmi hann honum í Fitjarhellir og skammtaði honum mat. Mátti hann vitja hans á vissum stað. Þarna var hann svo árum skipti, en er hann varð sýkn nefndi hann hellirinn i virðingarskyni Paradís. Hann er nú ýmist nefndur Paradísar eða Fitjarhellir. Svona var mér sagt þegar ég var ungur. Aðrir segja hann hafi haft aðsetur sitt í helli þeim á Seljalandi er kallaður er Kverkarhellir og verið undir vernd Seljalandsbóndans. En þó hann væri svona ofsóktur var hann þó alltaf með annan fótinn í Stóruborg og var að eiga börn með Önnu. Sagt hefir mér verið að þau hafi átt svona saman átta börn.
Einu sinni kom Vigfús lögmaður faðir hennar svo að henni er Hjalti var hjá henni að hún sá ekki annað undanbragð en læsa hann í kistu sinni. Kom þá Vigfús að og leitaði Hjalta þar honum kom til hugar. Sat Anna á kistu sinni og gaf sig ekkert að því. Vigfús spurði hana hvað væri í kistu þessari. Hún kvað það barnaplögg sín. Svo varð faðir hennar reiður þessu öllu saman að hann gjörði hana arflausa.
Þetta eru litlu hellatröllin þeir Kristján og Óli, en þeir sögðust vera í sveit á bænum Steinar sem er þarna skammt fyrir austan. Þeir eru báðir Eyjapeyjar, en Kristján er þó fyrir nokkru fluttur til Þorlákshafnar.
Þessi litli en laglegi foss er við Skálaveg sem liggur m.a. að Ásólfsskála.
Þorvaldseyri þar sem sagan um Önnu á Stóru-Borg var skrifuð.
Horft til austurs frá Þorvadseyri.
Raufarfellsvegur liggur til norðurs frá Hringveginum.
Á þessu máða skilti stendur að Seljavallalaug hinni eldri hafi verið lokað. En sökum ókunnugleika fundum við ekki þessa sundlaug, sem mér skilst að sé gerð að mestu leyti af náttúrunnar hendi. En nú hafa borist nánari upplýsingar um staðsetninguna, svo að í næstu austurferð verður hún á listanum yfir þá staði sem vilji stendur til að skoða.
"Landslag væri lítils virði, ef það héti ekki neitt."
Svo mælti skáldið forðum, en hér er það Núpurinn undir Eyjafjallajökli sem gægist upp fyrir Lambafellið.
Þetta mun vera bærinn Selkot með Rauðafellið í baksýn.
Þarna inn í gilið og til hægri liggur leiðin inn að Seljavallalaug.
Rauðafell 2. Einhvern tíma hefur staðið hér bær. Siðan hefur verið byggt við hann einu sinni, og síðan aftur og aftur og aftur...
Fyrir framan bæinn mátti sjá þessi gömlu landbúnaðartæki sem nú hafa lokið sínu hlutverki.
Á leiðinni út úr Raufafellshringnum austan megin var þessi þreytti vörubíll rétt við veginn.
Og einnig þessi. Ekki gat ég með nokkru móti áttað mig á tegundunum, og litlar líkur verða að teljast á að þeir verði skoðaðir í ár.
Þetta eru á vissan hátt skemmtilegar andstæður sem þarna getur að líta. Þessir gömlu vinnuþjarkar sem komnir eru að fótum eða öllu heldur dekkjum fram úti í guðsgrænni náttúrunni sem á hverju vori vaknar til lífsins meðan þeir verða sífellt hrörlegri.
Hér sést vel yfir "stjórntæki bifreiðarinnar," ásamt sæti ökumanns og farþega sem einhvern tíma hafa verið bólstruð og þægileg.
Skammt vestan Skóga rís þessi Drangur upp úr sléttlendinu undir Drangshlíð og við samnefnda bæi. Þetta er sannkallað náttúrunnar undur og stórmerki, og ekki gerir gamli bærinn sem kúrir þarna útsýnið lakara. Svona landslag blandað mannanna verkum mætti halda að væri aðeins til í ævintýrunum, en það er þá alla vega líka til undir Eyjafjöllum.
Skammt undan eru svo þessar mannvistarmenjar. Við veginn er gott að staldra við því þar er rúmgott stæði eða öllu heldur vegur við hliðina á veginum sem augljóst er að margir hafa nýtt sér. Líklega er búið að taka ófáar ljósmyndirnar þaðan.
Maður var þarna á gangi á þjóðveginum sem ég hélt í fyrstu að væri ferðamaður á puttanum. En þetta reyndist vera kennari sem hafði orðið fyrir því óláni að bíll hans hafði bilað þarna skammt frá. Hann var ættaður þarna úr sveitinni og því vel kunnugur staðháttum og benti okkur á að fara niður að Eyvindarhólum, því þaðan væri fjallasýnin betri sem reyndist rétt vera.
Séð til austurs skammt ofan Eyvindarhóla. Pétursey lengst til hægri.
Eftir ferðina niður eftir afleggjaranum lá leiðina sömu leið til baka.
Við komum aftur upp á þjóðveg númer eitt og nú var stutt í næsta áfangastað.
Þaðan var stutt í hinn glæsilega Skógarfoss. Furst var tekin ein mynd af honum.
Og svo var tekin önnur þar sem ég fékk að vera með.
Síðan varð að færa sig nær til að ná regnboganum þar sem sólarljósið brotnaði í vatnsúðanum.
Eftir það þurfti ég auðvitað að labba upp allar tröppurnar sem liggja upp á útsýnispallinn þar sem Skógáin steypist fram af brúninni. Þaðan er gott útsýni, en grunur minn er að þangað fari alls ekki allir þeir sem staldra við ryrir neðan fossinn.
Ég stalst auðvitað aðeins fram fyrir girðinguna og reyndi að mynda fossinn ofan frá, en þarna er allt rennandi blautt og að sama skapi hált svo ég hætti mér ekki alveg fram á brúnina.
Og það er þó nokkuð hátt niður.
En óneitanlega er þessi sýn tilkomumikil.
En það kom að því að það var tímabært skokka niður þrepin að halda áfram för því margt var enn ógert og óséð í þessari ferð. - Hafi einhver örnefni skolast til í kollinum á mér og lent á röngum stöðum, einhver fróðleikur sem við mætti bæta eða bara hvað sem er, eru allar ábendingar vel þegnar.
Fleiri myndir í myndaalbúmi í möppu merkt "Mýrdalur og fleiri góðir staðir."