04.09.2007 22:24
Ferðin austur í Mýrdal - seinni hluti.
400. Þegar við fórum frá Skógum og Skógarfosssi héldum við rakleiðis til Víkur. Það var varla slegið af fyrr en við vorum komin í Víkurskála þar sem við pöntuðum okkur dýrindis Sýslumannsborgara með tilheyrandi og límonaði. Og eftir svolítið kaffi á eftir, var tæpast til setunnar boðið því nóg var að skoða á þessum slóðum einstakrar náttúrufegurðar.
Eftirfarandi texti er sóttur á heimasíðu Mýrdalshrepps.
Mýrdalur, syðsta sveit á Íslandi, er grasi gróin sveit sunnan Mýrdalsjökuls. Sveitin er land mikilla andstæðna þar sem beljandi jökulfljót og víðáttumiklir sandar mynda mótvægi við grasi grónar heiðar og láglendi. Hér á landi fyrirfinnast vart svo gróin fjöll og dalir, iðagræn frá toppi til táar. Í Mýrdalnum er mest úrkoma á landinu en regnið viðheldur frjósemi jarðvegarins og fannfergi Mýrdalsjökuls í norðri.
Á sumrin skrýðist sveitin dökkgrænum feld enda er grasið hvergi grænna að sjá hér á landi. Sem landbúnaðarhérað er sveitin kjörlendi til ræktunar þar sem gróðursæld, frjósemi og fjölbreytni í gróður- og fuglalífi er með eindæmum enda er veðurfar einstaklega milt, jafnt á sumri sem að vetri. Eitt stærsta kríuvarp í Evrópu er í næsta nágrenni Víkur og er stórfengleg sjón að sjá er allur hópurinn kemur í einu að vori til varps. Í Reynisfjalli og Dyrhólaey er fjöldi fuglategunda, þar á meðal fýll, lundi, svartfugl og rita. Austan undir Reynisfjalli dafna ótal mörg afbrigði blóma- og grasategunda en hvergi annars staðar á landinu vaxa jafn margar tegundir á einum stað. Þar er m.a. hægt að finna búsældarlegustu hagamýs á landinu. Svæðið er því kjörið til skoðunar fyrir alla náttúruunnendur.
Í Landnámabók getur um einn fyrsta bústað norrænna manna á Íslandi í Hjörleifshöfða með komu Hjörleifs Hróðmarssonar, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar, í upphafi landnáms.
Svo segir í Landnámu: Hjörleifur tók land í Hjörleifshöfða og var þá þar fjörður og horfði botninn inn af höfðanum. Hjörleifur lét gera þar skála tvo og er önnur tóftin átján faðmar en hinn nítján.
Árið 1883 hófu þeir Víkurbændur, Halldór Jónsson, Suður-Vík og Þorsteinn Jónsson, Norður-Vík, að panta vörur frá Bretlandi og seldu þeir vörur sínar heima fyrir. Hjá þeim gátu fátækir bændurnir nýtt gjafafé það sem þeim áskotnaðist og er hér kominn fyrsti vísir að verslunarrekstri í Vík. Hér voru á ferðinni stórhuga bændur og miklir frumkvöðlar og átti þetta frumkvæði þeirra eftir að leiða af sér frekari byggðarmyndun í Vík.
Um 1890 hlaut Halldór Jónsson, bóndi í Suður-Vík borgarabréf sem löggiltur kaupmaður og varð það mikil bót þar sem menn höfðu áður þurft að fara alla leið til Eyrarbakka í verslunarferðir sem oft höfðu í för með sér tveggja til þriggja vikna útivist frá heimilum. Árið 1899 byrjar Halldór svo að slátra í Vík sauðfé til útflutnings eða sölu í Reykjavík. Halldór var mikill framámaður og frumkvöðull og átti framkvæmdasemi hans og áræðni eftir að hafa mikil áhrif að byggð og samfélag í Mýrdal á næstu áratugum. Árið 1903 fer Halldór út í miklar framkvæmdir en ásamt íbúðarhússbyggingu sinni reisir hann tveggja hæða verslunarhús undir ört vaxandi verslunarrekstur sinn sem í daglegu tali var nefnd Halldórsverslun og stendur hún enn. Ásamt verslunarrekstri sínum var Halldór með útræði á sínum snærum og var rekstur hans í heild stórtækur og margir menn er höfðu atvinnu við Halldórsverslun á einn eða annan hátt. Var Halldórsverslun starfrækt allt til ársins 1959. Það varð þó ekki fyrr en með tilkomu Brydesverslunar sem byggð tók að myndast.
Bryde kaupmaður hóf að senda vöruskip til Víkur og var það upphafið að viðskiptum "Brýðanna" við Skaftfellinga. Bryde lætur reisa selverslun á Víkursandi, Blánefsbúð, sem rekin var sem selverslun í nokkur ár. Verslunin var aðeins opin nokkrar vikur fyrri part sumars en síðan þurfti að færa hana lengra uppá land er sjór gróf undan henni árið 1892. Á árinu 1895 lét Bryde kaupmaður taka niður gömlu Godthaabsverslunina í Vestmannaeyjum og flytja til Víkur. Þetta stóra verslunarhús hafði staðið í Vestmannaeyjum frá árinu 1831 og er því í dag næstelsta timburhús á Suðurlandi. Aðeins Húsið á Eyrarbakka er eldra. Það hefur örugglega verið stórfengleg sjón þegar efniviðnum í Brydesverslun var skipað upp í Víkurfjöru enda ber það vott um mikla framtakssemi að taka niður sextíu ára gamalt hús og flytja það sjóleiðina áleiðis til Víkur, þar sem hafnleysa var í þokkabót. Verslun þessi var opin allt árið um kring sem þótti mikil bót frá fyrri verslunarháttum. Þegar hér er komið við sögu hafa risið upp tvær blómlegar verslanir en báðir aðilar höfðu nóg að starfa.
Athyglisvert þykir það góða samstarf sem ríkti á milli keppinautanna, Brydesverslunar og Halldórsverslunar. Í frásögn Guðmundur Þorbjarnarsonar, þá bónda á Hvoli í Mýrdal kemur fram að ekki hafi verið eingöngu háð samkeppni þeirra á milli, heldur hafi ríkt góð samvinna á ýmsum sviðum. Riðu þeir gjarnan til hrossakaupa, Halldór í Suður-Vík og faktor Brydesverslunar Á selverslunarárunum fengu starfsmenn Brydes fæði frá Suður-Vík, úr eldhúsi Halldórs kaupmanns og stórbónda "nóg af silung, eggjum og öðru góðgæti " svo ekki hefur verið illa útilátinn maturinn ofan í keppinautana. Einnig tók Halldór að sér að selja vörur fyrir Bryde sem óseldar voru á hausti.
Báðir aðilar hafa séð hag að góðri samvinnu enda var vinskapurinn ætíð mikill milli Halldórs og starfsmanna Brydes á þessum árum, enda sveitin lítil og fámenn.
Til gamans má geta þess að í dag eru rekin Brydebúð og Haldórskaffi í Vík í Mýrdal.
Skammt ofan fjörunnar er minnisvarði um þýska sjómenn. Ég reyndi að "gúggla" frekari upplýsingar um þennan stað en það var sama hvað ég reyndi, engar upplýsingar var að hafa. Ég geri því ráð fyrir að einhvern tíma hafi orðið sjóslys þarna nálægt, verið sé að heiðra minningu þeirra sem þar fórust. En allar frekari ábendingar eru vel þegnar.
Stundum velti ég því fyrir mér hversu margar myndir túrhestar og annað fólk hafi tekið af hinum og þessum merkum kennileitum á Íslandinu góða, þ.á.m. Reynisdröngum sem er auðvitað ekkert skrýtið. Drangarnir sem standa framan við Reynisfjall og eru 66 metra háir, eru svipsterkar náttúruperlur sem setja sterkan svip á umhverfið. Þeir heita Langsamur, Landdrangur og Háidrangur sem einnig er nefndur Skessudrangur. Þjóðsögur herma að tvö tröll hafi ætlað sér að draga þrímastraða skútu fyrir Reynisfjall, en ferðin gekk seint og þegar þau voru hálfnuð á leið sinni kom sólin upp og þau breyttust þar með í stein.
Þetta hús við Sunnubrautina vakti athygli mína fyrir undarlega útbygginguna sem er svolítið eins og óvelkomin "varta" út úr kassalöguðu húsinu. Vantaði fataskáp, var klósettið of lítið eða komst hjónarúmið ekki fyrir? Eftir á frétti ég að þarna búa Hafdís (systir Hraungerðisbræðra) og Svenni sem var eins og grár köttur á eftir Hafdísi á verbúðinni í Ísfélaginu 1976. En þá var sá sem þetta ritar einnig til húsa í sömu verbúð og vann í aðgerð hjá Bassa Möller og í saltfiskinum hjá Torfa.
Ég fór upp að kirkjunni til að sjá byggðina frá hæðinni þar sem hún stendur. Í þorpinu búa um 330 manns og hjá norðlendingi eins og mér kemur Hofsós upp í hugann sem ámóta stór (eða lítill) staður.
Ég lagði af stað á Nissan Micru upp á Reynisfjall, en þangað kom ég síðast fyrir rúmum 30 árum. Vegslóðinn þangað upp eftir er samt alls ekki fær nema jeppum, enda kom það á daginn þegar ég var hálfnaður að bíll eins og ég var á átti takmarkað erindi þessa stórholóttu leið. Magga stökk æpandi út og ég lagði bílnum í stæði við eina beygjuna. Hún harðneitaði að fara lengra, svo það varð úr að sátt varð um að ég gengi uppeftir en hún niðureftir. Ég tók myndina hér að ofan af þessu fallega þorpi þar sem ég stóð við hlið bílsins.
Og svona leit það svo út þegar upp á brúnina var komið. Það er farið að líða á daginn og skuggarnir af Reynisfjalli eru teknir að lengjast örlítið.
Ég gekk inn á fjallið og í norðvestri sást vel til Mýrdalsjökuls.
Til vesturs... Ég veit ekki hvað allir þessir fjallatoppa heita nema Pétursey sem er lengst til vinstri.
Til suðurs... Vitinn er á syðsta hlutanum en ég gaf mér því miður ekki tíma til að fara þangað. Nokkuð var um sauðfé þarna uppi, enda liggur fjallið ekki hátt yfir sjáfarmáli. Því miður gaf ég mér ekki tíma til að fara á suðurendann.
Til austurs... Hér er horft yfir Vík og austur eftir söndunum í átt til Hjörleifshöfða.
Aftur til vesturs, en sjónarhornið er þrengra en að ofan. Það verður ekki annað sagt en að landslagið á þessum slóðum sé með ólíkindum og alveg einstakt.
Séð yfir grundir, tún og móa ofarlega í Reynishverfi sem er vestan Reynisfjalls.
Og svolítið annað sjónarhorn á Mýrdalsjökul, en nú var farið að kvölda og margt enn ógert. Þess vegna var tímabært að huga að því að fara að koma sér til baka. En ef vel hefði átt að vera, þyrfti alveg heilan dag til að skoða bara það sem er að sjá á, frá og umhverfis Reynisfjall.
(Ljósmynd fengin að láni á netinu.) Og til að bæta upp það sem á vantaði "gúgglaði" ég nokkrar Mýrdælskar myndir af ljósmyndasíðum sem er að finna í öllum heimshornum. Hér sést niður á Reynisdranga af suðurendanum.
(Ljósmynd fengin að láni á netinu.) Skammt sunnan við bæinn Garða er þetta ótrúlega stuðlaberg.
(Ljósmynd fengin að láni á netinu.) Og skammt þar frá er Garðahellir og nokkrir aðrir hellisskútar. En til að komast að hellunum og stuðlaberginu verður að fara inn í Reynishverfið skammt austan Gatnabrúnar sem er vestan Víkur.
En leiðin lá aftur niður í þorpið og ég tók þessa mynd af Sunnubrautinni. Mér finnst kirkjustæðið í Vík vera einstaklega vel staðsett og kirkjan í leiðinni vera eitt það kennileiti sem setur hvað mestan svip á byggðina.
Héðan er horft til kirkjunnar frá svipuðum slóðum og lagt er upp á Reynisfjall úr þorpinu.
Leiðin til baka lá svo upp frá þorpinu upp Skeifnadal og fram á Gatnabrún, og enn og aftur er Mýrdalsjökullinn myndaður. Það hlýtur að hafa veruleg áhrif á fólk sem vex úr grasi þar sem náttúran er jafn stórbrotin og í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllum.
Ferðin sóttist auðvitað seint því það var alltaf verið að stoppa og taka myndir, enda frábært myndefni hvert sem litið var. Hér sést til Suður-Hvamms (t.v.) og Norður-Hvamms, (t.h.) en bærinn Suður Götur gægjast inn á myndina í neðra horninu t.h.
Og þegar ég sný mér við blasir þetta skrýtna og skemmtilega fjall við sem heitir Hatta, og líklega má með réttu halda því fram að nafnið fari því vel.
Áfram er haldið og innan skamms er beygt inn á afleggjarann sem liggur niður að Dyrhólaey.
Þaðan blasir Reynishverfið við svo og Reynisdrangarnir frá öðru sjónarhorni en Víkurmegin. Ég hélt að "vatnið" hlyti að eiga sér eitthvert nafn, en engar merkingar bentu til þess. Á kortinu sem ég skoðaði svo í kjölfarið stendur svo skýrum stöfum Dyrhólaós.
(Ljósmynd fengin að láni á netinu.) Þetta er eiginlega dæmigerð "póstkortamynd" af Dyrhólaey. Svona man ég fyrst eftir að hafa séð hana og svona greyptist hún inn í hugann fyrir margt löngu síðan. En hérna hefur ljósmyndarinn þurft að ganga niður í fjöruna fyrir neðan eyna, en þangað liggur ekki neinn vegur. En ég kaus að aka upp á eyna eins og flestir gera.
Dyrhólaey séð ofan af Reynisfjalli. Ekið er eynni eftir mjóu eiði (frá hægri) sem sést ógreinilega á myndinni.
Þetta er eiginlega bakhliðin á eynni og fyrir þann sem er ekki staðkunnugur væri líklega ekki auðvelt að giska á hver staðurinn væri.
Dyrhólaey sem er 120 m. há og er syðsti hluti landsins er talin hafa myndast fyrir um 80 þús. árum. Erlendir sjómenn nefndu hana gjarnan Portland vegna gatsins. Vitinn var reistur 1927 og efnið í hann híft upp á eyna úr fjörunni fyrir neðan. Upphaflega hafði vitavörður fasta búsetu á staðnum og reist var fjárhús og hlaða á Háey, en svo heitir vestari hlutinn.
Nokkuð var af fólki þarna með myndavélar á lofti. Því var flestu mikið niðri fyrir og fannst greinilega mikið til um það sem fyrir augu bar. Þarna voru töluð fjölmörg tungumál nema íslenska, sem segir okkur að kannski ættu Íslendingar að gera meira af því að skoða landið sitt. Þó komu þarna hjón á jeppanum sínum sem eru líklega úr sveitinni því þau virtust vera mjög kunnug öllum staðháttum. Maðurinn var brúnaþungur og sagði fátt, en konan sem var bæði glæsileg og bauð af sér alúðlegan sveitaþokka hafði orðið. Það var eina íslenskan sem ég heyrði talaða þarna uppi í þetta skiptið.
Austari hluti eyjunnar heitir Lágey en er líka kölluð Tóin. Ég sá til mannaferða fremst frammi á enda klettsins og lagði því auðvitað af stað þangað.
Mig sárlangaði að gægjast fram af brúninni og ofan í fjöruna en þorði því ekki og skammast mín auðvitað mikið fyrir skræfuganginn.
Og þá var bara að taka beygjuna út í klettinn. Ég fylgdist um stund með fuglunum langt fyrir neðan.
Þaðan mátti svo sjá Vitann og túnið í slakkanum fyrir austan hann (hægra megin) sem var nytjað meðan búið var í eynni. Og svo var sólin að búa sig undir að setjast í vestri.
Smátt og smátt fer sandströndin að vestanverðu að gægjast fyrir enda Háeyjar.
Úti fyrir eynni eru nokkrir klettadrangar og er það líklega Lundadrangur sem sést á þessari mynd. Aðrir eru Kamburinn, Mávadrangur og Háidrangur.
Og þegar ég var kominn niður fyrir vörðuna sá vel inn til landsins vestan eyjarinnar.
Pétursey í kvöldsólinni.
Ég held að skýringar séu óþarfar með þessari mynd.
Reynisfjall og Reynishverfi.
Ég stalst aðeins yfir handriðið til að sjá betur ofan í sandinn fyrir neðan.
Og enn og aftur beinist linsuopið að Reynisdröngunum.
Ég stoppaði í bakaleiðinni þegar komið var ofan af eynni til að taka mynd af sólsetrinu bak við fjöllin háu. Hjónin á jeppanum óku fram hjá og ég veifaði þeim haldandi á myndavélinni. Maðurinn veifaði á móti og ég gat ekki betur séð en að brýrnar lyftust örlítið, en glæsilega konan horfði á mig eins og hún væri svolítið hissa á svipinn. Skyldi henni kannski finnast ég ekki falla nægilega vel inn í hið stórfenglega Mýrdælska landslag.
Það þarf ekki glöggt auga til að sjá að þetta er sama myndin og hér fyrir ofan, en ég varð auðvitað að prófa að fikta svolítið í litunum þegar heim var komið.
Þarna hinum megin við Dyrhólaós er Loftsalahellir sem til stóð að skoða í bakaleiðinni. En eins og oft gerist þegar það er gaman, líður tíminn hraðar en búist hafði verið við, dagurinn var nú liðinn og kvöldskuggarnir höfðu umbreyst í nótt. Loftsalahellir var því settur á lista fyrir næstu ferð á þessar slóðir.
En nóttin varð ekki aldimm strax, því fyrst þurftu síðustu sólargeislarnir að fá að leika sér svolítið í skýjunum.
Mýrdalsjökull.
Bakhlið Dyrhólaeyjar. Og "nóta bene," Dyrhólaey er strangt til tekið alls ekki eyja því hún er kyrfilega landföst.
Pétursey
Og áfram er ekið en með hléum, því það var alltaf verið að stoppa til að taka myndir.
Þessi bær sem kúrir þarna undir heiðgulum himninum heitir Hryggir.
Litli Hvammur er kirkjustaður í Mýrdalnum.
Skotið upp í loftið.
Þetta svipmikla fjall heitir Búrfell og bærinn undir því heitir Steig. Annars finnst mér þetta eiginlega líkara málverki en ljósmynd.
Og enn og aftur er horft til Mýrdalsjökuls og skýjanna fyrir ofan hann sem brjóta upp myndflötinn.
Og litirnir leika sér í kring um Pétursey enn meira en áður.
"Þangað liggur beinn og breiður vegur" segir í ljóðinu, og vissulega eru margir beinir og góðir kaflar á sléttlendinu á suðurlandinu. En það dugði ekki öllum sem áttu þarna leið um og við urðum fyrir heldur óþægilegri reynslu þegar skammt var liðið á heimferðina. Undir Eyjafjöllunum kom bill á móti okkur og við sáum ljósin á honum nálgast smátt og smátt. Þegar nokkur hundruð metrar voru á milli okkar sá ég að þetta var flutningabíll og það sem meira var, hann virtist aka því sem næst á miðjum veginum. Hann nálgaðist enn meir og færðist líka örlítið meira yfir á rangan vegarhelming. Ég hægði ferðina og fór út í kantinn, en flutningabíllinn færðist bara enn meira yfir á minn hluta vegarins. Ég var kominn því sem næst alveg út í vegkantinn, en flutningabíllinn virtist vera búinn að skipta yfir í vinstri umferð. Og það er kannski rétt að rifja upp að ég var á Nissan Micru sem er með allra minnstu bílum. Nú voru aðeins nokkrir tugir metra á milli okkar og ég átti bara eftir að beygja út í móa þegar ökumaður stóra, og í mínum augum ógnvænlega bílsins virtist átta sig. Hann tók krappa hægribeygju en við það hallaðist hann svo mikið að ég hélt í fyrstu að hann myndi velta þarna á veginum. En til þess kom þó ekki og eftir að hafa rásað svolítið á veginum, sá ég hann hverfa inn í nóttina fyrir aftan okkur í baksýnisspeglinum. Ég jók hraðann smám saman aftur úr 40 og upp í 90. Fram undan var tveggja tíma keyrsla og ég var farinn að hlakka til þess að geta komist í fiðrið og hvílt mig eftir viðburðaríkan en ánægjulegan dag.
Það var aðeins staldrað við hjá Klifanda, en þarna við brúna eru bekkir og svolítið bílastæði. Þetta var síðasti áningarstaðurinn áður en haldið var heim á leið. Til stóð að fara í kring um Pétursey, en þar sem mjög dimmt var orðið, var sá hringur einnig settur á tossalista fyrir næstu ferð. En í næstu ferð er nóg að skoða, og líklegast er að þá standi eitthvað einnig út af borðinu og verði þess vegna full ástæða til að fara ferð númer þrjú.
Þakgil, Heiðardalur, Reynishverfi, Loftsalahellir, Péturseyjarhringurinn og margt, margt fleira.
En nú er runninn upp sunnudagurinn 9. sept. og ég er á leið vestur á firði. Spái næst í bloggmál undir vikulok.