30.10.2007 10:26

Fyrsta fölið.



410. Fyrsta föl vetrarins féll í gær. Þegar við Minný komum út, kom í ljós að það þurfti að skafa af rúðum og sópa snjónum ofan af litla bláa bílnum áður en hægt var að halda af stað.

Svo finnst mér það alltaf jafn skemmtilega undarlegt hvað veturinn kemur ökumönnum mikið á óvart í hvert einasta sinn. Á Reykjavíkurveginum hérna í Hafnarfirði myndaðist löng röð bíla á sumardekkjum við dekkjaverkstæðið "Dekkið." Mér fannst það eiginlega aðdáunarvert hvað eigendur ökutækjanna voru tilbúnir að sitja lengi í þessari ógnarlöngu biðröð og bíða þess að röðin kæmi að þeim. Þeir hljóta að hafa komið sér upp eins konar "Rússneskum hugsunarhætti" áður en þeir stilltu sér upp. En á seinni hluta síðustu aldar taldist það "eðlilegur" hluti hins daglega lífs þar eystra að standa í biðröðum dag hvern fyrir utan hinar ríkisreknu verslanir. Þar átti fólkið nóg af rúblum, en varningur var hins vegar af skornum skammti og hillur verslana ýmist hálftómar eða galtómar. Það á reyndar ekki við í nútímanum uppi á Íslandinu góða, landi velmegunar, þar sem smjör drýpur af hverju strái og þar sem lagerar dekkjaverkstæða eru fullir af þeim varningi sem selst grimmt á dögum sem þessum.

Í næstu götu sem er Hjallahraunið, er sama ástand uppi. Þar beið bíll við bíl í ekkert styttri röð, bílstjórarnir sátu rólegir undir stýri og færðu bílana nokkur hænufet áfram í hvert sinn sem fremsti bíllinn í komst inn á gólf á áfangastaðnum. Ég veitti því athygli að það voru í miklum meirihluta konur sem sátu undir stýri. Það er sennilega skýringin á því hve allt gekk vel fyrir sig. Engar flautur voru þeyttar, engir krepptir hnefar voru steyttir út um glugga og engin skammaryrði heyrðust.

En þetta er líka kjörlendi prakkara af yngstu kynslóðinni. Hæfilega blautur snjór sem einstaklega gott var að hnoða. Þeir flugu líka margir snjóboltarnir um loftin blá eða öllu heldur grá, því að þannig var gærdagurinn á litinn. Ég fór ekki varhluta af því, - og þó. Þegar ég átti leið um Álfhólsveginn í Kópavoginum í gær, sá ég hvar hópur skólakrakka í frímínútum stillti sér upp með "skotfærin" tilbúin til notkunar. Þegar ég nálgaðist meira sá ég að ég myndi líklega fá dembu yfir mig og brá því á það ráð að stöðva við gangstéttarbrún fyrir framan krakkahópinn. Sum voru búin að setja sig í stellingar, hendur komnar aftur fyrir hnakka haldandi á snjóboltum og skotin voru við það að ríða af þegar ég tefldi fram þessum óvænta mótleik mínum. Ég steig út úr bílnum og horfði til krakkanna sem kom greinilega á óvart það sem var að gerast. Ég sagði ekki neitt en stóð kyrr eins og ég væri að bíða eftir einhverju og hópurinn varð skyndilega mjög órólegur. Hendur sigu og skotfærin féllu til jarðar eins og óvart. Skyndilega rölti öll hjörðin af stað í átt til skólans en sum barnanna gjóuðu á mig augunum. Þau gengu hægt og rólega eins og þau vildu fyrir alla muni halda virðuleika sínum hvað sem það kostaði, og eftir skamma stund stóð ég einn eftir og hafði þá fátt annað að gera en að stíga aftur um borð og aka af stað.

Rétt á eftir sá ég hvar lítil stúlka sem gekk eftir gangstéttinni, hnoðaði saman í bolta þegar hún sá mig nálgast. Hún stóð þarna sælleg og rjóð og beið eftirvæntingafull eftir að ég kæmi nær. En þar sem hún hafði einmitt stöðvað för sína við gangbraut en líklega án þess að taka sérstaklega eftir því, fannst mér auðvitað sjálfsagt að stöðva við línuna. Hún horfði svolítið vandræðaleg á mig og höndin sem var farin að lyftast tók nú að síga aftur. Hún stóð kyrr svolitla stund og horfði útundan sér á mig en ég skrúfaði niður rúðuna og kallaði út.
"Ætlarðu ekki að fara yfir gangbrautina vina."
Ég brosti mínu blíðasta og hún varð enn vandræðalegri. Ég sá þá að hún var fyrst að veita því athygli að það var gangbraut þarna og hún hristi hægt höfuðið og ég sá að hún stakk snjóboltanum svolítið laumulega í vasann. Ég átti í svolitlum vandræðum að skella ekki upp úr, en hún gekk nokkur skref aftur á bak, snéri sér við og gekk ákveðin af stað og horfði fast ofan í steinlagða stéttina sem var óðum að koma í ljós undan hinu hvíta teppi sem lagst hafði yfir jörðina um morguninn.

Svipað átti sér stað í Hafnarfirðinum nema þar var hópurinn öllu fámennari, eldri og eingöngu skipaður strákum. Það var því útlit fyrir að aðrar aðferðir væru vænlegri til árangurs (og skemmtunar.) Þarna var greinilega á ferðinni mun harðsnúnara lið en í Kópavoginum því ég átti spölkorn ófarið að stórskotaliðinu þegar fyrsta hrinan lenti á grillinu, húddinu og framrúðunni. Ég sá að önnur demba var í undirbúningi og ég negldi niður þegar ég kom að hópnum og stökk út úr bílnum nánast á ferð.
"Hvern andsk. haldiði að þið séuð að gera villingarnir ykkar?" Ég brýndi raustina, hafði hátt og reyndi að gera mig eins dimmraddaðan og ég frekast gat. Hópurinn tvístraðist í allar áttir og ég hljóp nokkur skref á eftir hluta hans. En það var engu líkara en hann væri búinn þeim einstaklega fágætu eiginleikum að geta gufað upp, því eftir andartak sást hvorki tangur né tetur af nokkrum snjókúlukastara neins staðar.
"Þetta er algjörlega snarbrjálaður karl," heyrði ég einhvern segja á fyrstu metrunum og mér fannst það í sjálfu sér ekkert mjög leiðinlegt.
Ég er nefnilega ekki frá því að ég hafi ekki skemmt mér neitt minna en árásarsveitin sem nú var gersamlega horfin eins og jörðin hefði gleypt hana hafði gert áður en ég átti þarna leið um.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 505
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495882
Samtals gestir: 54725
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 15:25:38
clockhere

Tenglar

Eldra efni