08.11.2007 01:30
Styttri, skemmtilegri og fljótfarnari leið.
413. Öllum skrambanum taka menn upp á og það meira að segja á gamals aldri! Ég verð líklega að gangast við þessum veikleika mínum því þar eru orðnir svo margir sem hafa orðið vitni að þeim hamförum sem stundum eiga sér stað í stigaganginum hér heima á Öldugötunni. Það er samt yfirleitt frekar þegar að ég held að enginn sjái til, að ég fer þessa styttri og fljótfarnari leið ofan af þriðju hæðinni og alla leið niður til jarðar. En í hvert sinn sem ég lendi á næsta stigapalli fyrir neðan hvert handrið heyrist svolítill dynkur og það jafnvel þó að lendingin takist með ágætum. Reyndar er þessi dynkur kannski ekki bara svolítill, því "talsverður" væri e.t.v. það lýsingarorð sem gæfi réttari mynd af þeim kafla í atburðarrásinni. Það hefur reyndar gerst að hurðir hafa verið rifnar upp, nágrannarnir snarast fram en staldrað við, horft á mig furðu lostnir og með spyrjandi augnaráði en sagt síðan svolítið vandræðalegir.
"Ég hélt að einhver væri að flytja eða eitthvað svoleiðis!"
Ég hef þá auðvitað líka orðið svolítið skömmustulegur og afsakað þessa hegðun mína með því að segjast vera að athuga hvort ég geti "þetta" ennþá.
Einu sinni náði ég alveg svakalega góðu rennsli niður síðasta hlutann og niður á neðsta gólf. Kom aldeilis á fljúgandi ferð niður handriðið og kútveltist á gólfinu með miklu brambolti. Það vildi þá ekki betur til en svo að ein frúin í stigaganginum var að flýta sér eitthvað verulega mikið og svipti upp hurðinni með stæl og hugðist storma með tilþrifum til síns heima í sama mund og ég lenti. Ég féll því eiginlega að fótum hennar rétt eins og þvældur kartöflupoki, en um leið og ég skynjaði návist hennar, spratt ég samt á fætur eins og stálfjöður, reyndi auðvitað að halda andlitinu og láta á því sem næst engu bera. En atburðarrásin var bæði hröð og henni fylgdi líka talsverð hávaðamengun. Hún sem áttaði sig ekki á hvað gæti eiginlega verið að gerast þarna, fraus á staðnum og það var engu líkara en hún hefði breyst í skúlptúr. Andartak var dauðaþögn, ég var sprottinn upp og vissi ekki alveg hvað ég ætti að segja eða gera næst. Þá komst hreyfing á loftið á ný og skúlptúrinn lifnaði snarlega aftur við og það svo um munaði. Nágrannakona mín orgaði af öllum sínum lífs og sálarkröftum og það sást skýrt og greinilega hvað hún hafði borðað í morgunmat þann morguninn. Þetta var mikið hátíðnihljóð sem skar í bæði innri og ytri eyru og ég sá eins og í móðu að hún lyfti hægri hendinni eins og hún ætlaði að blessa mig. En þar sem hún kreppti hnefann svo að hnúarnir hvítnuðu vissi ég að það stóð ekki til, enda hafði ég aldrei heyrt að hún væri neitt sérlega trúuð kona. Það opnuðust nokkrar hurðir og höfuð íbúanna teygðu sig fram á ganginn. Sumir sáu að ég var þarna á ferð og áttuðu sig á að það gæti ekki verið neitt merkilegt að ske fyrst svo var, en aðrir vildu svala forvitni sinni í örlítið smærri atriðum og spurðu hvað gengi á eða eitthvað í þá áttina. Nágrannakonan lét handlegginn síga aftur og ég varpaði öndinni svolítið léttar.
"Góðan daginn" sagði ég.
"Þú ert nú meira helv... fíflið" svaraði hún.
Ég brosti á móti, gekk út og þóttist bara hafa sloppið vel.
Nokkuð er liðið síðan þessir atburðir áttu sér stað, en ég renndi mér síðast niður handriðið seinnipartinn í dag. Það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja...