21.11.2007 12:12
Stuttur til klofsins.
418 Hann þótti alltaf stuttur til klofsins og líktist að því einu leytinu móðurömmu sinni sálugu örlitla agnarögn. En enginn sem til hans þekkti þorði fyrir sitt litla líf að hafa orð á því svo hann heyrði. Það hefði einfaldlega þýtt félagslegan dauðadóm yfir viðkomandi, því sá klofstutti virðist geta verið á mörgum stöðum á sama tíma svo að fyrir þá sem hann umgangast alla jafna yrði lítið um skjól. Og hann heyrir ekki bara vel, heldur hefur hann alltaf haft kjaftinn vægast sagt á réttum stað. Hann hefur og farið létt með að jarða hvern sem er, með andstyggilega kvikindislegum háðsglósum sem hafa oftar en ekki gengið sem hárbeittur rýtingur í gegn um hjarta, lifur, lungu, bris og milta þess sem fyrir þeim hefur orðið. Þá hefur það ekki verið til þess að draga úr áhrifunum, að raddstyrkurinn virðist vera því sem næst ótakmarkaður. Undarlegt hvað stundum geta komið mikil hljóð úr svona litlum búk. Það er því alveg sama hvað hver segir, viðkomandi verður alltaf undir eða það segir reynslan okkur.
Það er einmitt vegna mælsku sinnar vegna sem okkar maður nýtur meiri virðingar nærstaddra hverju sinni en einhver annar myndi gera, og mörgum ókunnugum þykir stundum full mikið af henni miðað við t.d. ytra útlit. En það er bara rétt allra, allra fyrst á meðan þeir eru alveg bláókunnugir. Að vísu er ég ekki frá því að ef vel er skoðað með þykku kókflöskubotnagleraugunum, kemur það e.t.v. í ljós að virðingin er kannski lítillega yfirborðskennd á köflum.
Og eitt er víst að hann aðhylltist alls ekki skoðanir hinna djúpvitru sem flagga gjarnan frasanum: "Þeir sem vita meira en aðrir, hafa líka vit á að þegja."
Ég veit að Stuttlingur mun aldrei nokkurn tíma lesa þennan pistil vegna núverandi aðstæðna sinna sem gerast dapurlegri með hverju árinu sem líður, en þar sem myndin hér að ofan er orðin nokkuð gömul, eru þeir sem á henni eru það þess vegna líka. Þeim klofstutta hefur nefnilega loksins verið komið fyrir á "viðeigandi stofnun" eins og það er stundum kallað. Því eftir því sem árin hafa liðið hefur hugsunin orðið óskýrari, mælskan farið hratt minnkandi þar til hún hefur vart talist mælanleg. Margur maðurinn hefur þess vegna rétt örlítið úr kútnum, varpað öndinni léttar og loksins farið að tjá sig um það sem fyrir augu og eyru ber óttalausari en áður.
Og rétt er að geta þess að ekki er talið að margt "stórmennið" sé undan okkar manni komið, enda var hann sjálfur ekki bara tiltölulega lágvaxinn, heldur einnig ákaflega lítillar ættar.
Og lýkur þar með þessari tölu, hafi hver einasti ríkulega þökk er las og gerði sér skemmtan af, en hinir ógleði er angrast við og verður ekki að gamni.