27.11.2007 09:59
Leppalúði og ég.
420. Ég átti leið inn í fiskbúðina við Lækjargötuna hérna í Hafnarfirði til að kaupa fisk, - nema hvað. En í þessari ágætu fiskbúð er fáanlegt margt og margvíslegt mannafóðrið, svo lystilega framreitt að oft er úr vöndu að ráða þegar kemur að því að velja rétt dagsins. Á meðaldegi er t.d. oft hægt að velja á milli 4 - 6 fiskrétta sem eru tilbúnir í ofninn auk alls annars, og tekur oft svolítinn tíma að rýna í hvað í boði er þann og þann daginn. Það þarf að samræma langanir og þrár til fiskmetisins og taka síðan yfirvegaða lokaákvörðun í þessu stóra máli sem tekur gildi um leið og eftirfarandi orð hafa verið sögð.
"Ég ætla að fá 1200 gr. af þessu hérna."
En þetta er ekki alltaf svo einfalt mál því oftast er erfitt að velja á milli þess sem freistar bragðlaukanna. Sælkerasaltfiskbollur í súrsætri sósu, ýsubitar í sætri karrýsósu og kókos, steinbítur í sælkeragrænmetissósu, ýsurúllur með osta og humarfyllingu, blandaðir sjáfarréttir í grænmetis og lauksósu, Grískur saltfiskréttur með einhverju sem var svo framandi að ég kann ekki að nefna það og svo mætti lengi telja.
Það var einmitt eitt sinn í miðjum slíkum hugleiðingum og það af dýpri gerðinni, að mér fannst einhver vera að horfa á mig. Ég fékk á tilfinninguna að það var fylgst grannt með hverri hverri einustu hreyfingu minni, hversu smávægileg sem hún væri. Hvernig ég velti fyrir mér innihaldi hvers bakka fyrir sig þarna í borðinu og reyndi að ímynda mér hvernig hver réttur smakkaðist. Einnig fannst mér að öll svipbrigði sem ég sýndi væru bæði vegin, metin og mæld, og reynt að gaumgæfa og sjá út hvaða þýðingu hvert og eitt þeirra hefði þegar kæmi að ákvarðanatöku um hvað keypt skyldi í það skiptið..
Ég snéri mér snöggt við og horfði á manninn sem sendi mér svona stingandi og næstum því áþreifanlegt augnaráð í mjóhrygginn og við horfðumst í augu svolitla stund.
"Góðan daginn," sagði ég og kinkaði kolli til hans.
Afgreiðslumaðurinn flissaði og ég horfði á hann en síðan á Leppalúðann sem stóð grafkyrr úti í horni og lét eins og hann sæi mig ekki. En fljótlega sá ég að mér hafði tekist ágætlega upp með að gera mig að talsverðum aula eina ferðina enn.
"Er í lagi að fá eins og eina mynd af okkur saman?"
Afgreiðslumaðurinn hélt að það væri í góðu lagi og skemmti sér greinilega vel yfir öllu saman, en bætti því við að það reyndu margir sem reyndu að eiga tjáskipti við "Lúða" en án sýnilegs árangurs enn sem komið væri. Hann væri einn af þeim fáskiptari svo ekki væri dýpra í árina tekið.
En í dag þriðjudaginn 27. nóvember er ég farinn norður á Sigló í 2 - 3 daga. En ég verð að komast suður aftur fyrir helgi, því dúóið "Vanir menn" verður að spila á Catalinu í Kópavogi um næstu helgi. Og það er búið að vera mikið um að vera í þeirri útgerð, því engin helgi hefur fallið úr síðan seinni partinn í ágúst og stefnir í að fyrsta fríhelgin í tæpt hálft ár verði í janúar 2008. Þetta er sem sagt að verða eins og í "old days."