16.12.2007 14:43
Róstur og ribbaldaskapur.
427. Dúóið "Vanir menn" var á Gullöldinni um helgina sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi svona eitt og sér, en það hefur verið mikið að gera undanfarið. Ekki hefur fallið úr helgi síðan í ágúst s.l., og ekkert bendir til þess að svo verði fyrr en einhvertíma á næsta ári. Til stóð að senda dreifibréf til nokkurra valinna þorrablótsnefnda, en fallið hefur verið frá því einfaldlega vegna þess að eftirspurnin er mun meiri en framboðið eins og er. Og ég sem hélt að ég væri að komast á aldur í þessum bransa.
En það var reyndar alls ekki þetta sem ég ætlaði að fjalla um, heldur hitt að svo lengi lærir sem lifir. Á föstudagskvöldið var þokkaleg mæting miðað við allt og allt, en það var engu líkara en eitthvað meira en verulega dularfullt lægi í loftinu. Einhver órói, eitthvað rafmagnað eða eitthvað sem ekki með góðu móti hægt að útskýra. Snemma kvölds sáum við af pallinum hvar svolitlar ýfingar voru með mönnum, en dyraverðirnir voru fljótir að varpa eins og einum óróasegg á dyr og róa þá sem eftir stóðu. Þetta endurtók sig skömmu síðar og ferlið var með líkum hætti og áður. Einum var hent út en hinir róuðust niður eftir svolitlar fortölur og svolítið spjall á hæfilega lágum nótum. Í þriðja sinnið fór ekki eins vel, því það fór eiginlega allt úr böndunum sem gat úr einhverjum böndum farið. Ég hef aldrei, aldrei, aldrei nokkurn tíma á minni lífsfæddri ævi séð eitthvað þessu líkt, og hef ég þó ýmislegt séð til þessa. Ég ætla að leyfa mér að giska á að hartnær þriðjungur gesta á staðnum hafi komið að vísu mismikið við sögu í þessum fjöldaslagsmálum sem brutust út. Fyrst byrjuðu tveir að kýta og fóru síðan að stympast og þar á eftir ruku þeir saman eins og tveir reiðir hanar. En báðir áttu vini sem vildu leggja þeim lið sem þeir (vinirnir) gerðu alveg svikalaust. Þá bar dyraverðina að (sem eru tveir), en þeir reyndu í fyrstu að slíta óróaseggina í sundur. Þá beindist reiði vina beggja fyrst og fremst að þeim svo að þeir (dyraverðirnir) voru allt í einu farnir að slást við talsverðan mannfjölda af báðum kynjum. En þeim tókst engu að síður að koma versta slagsmálahundinum út fyrir (Portúgala) en samlandi hans sem þar var, lagði honum þá lið af sínum lífs og sálar kröftum. Lengi vel var mikill bardagi í gangi utandyra milli dyravarðanna og tveggja Portúgala, eða alveg þar til lögregla var mætt á staðinn. Þegar þarna var komið sögu vorum við hættir að spila og lágum á gluggunum eins og aðrir sem inni voru og fylgdumst með því sem fram fór fyrir utan.
"Ertu að reyna að bíta í punginn á mér helv. fíflið þitt," heyrði ég annan dyravörðinn arga hásum rómi á viðfangsefni sitt.
"Þetta er Eyrnabítur, þessi á hvítu peysunni. Hann beit einu sinni eyrað af manni hérna inni" sagði þéttvaxin kona sem lá með nefið klesst að næstu rúðu. Það varð ekki mikið úr spilamennsku eftir þetta, enda orðið álíðið. Við tókum nokkra "slóara" og þökkuðum síðan fyrir okkur með virktum. Þegar við fórum var einn lögreglubíll eftir á stæðinu af þremur sem áður höfðu verið á staðnum. Við veittum því athygli að aðal slagsmála og óskundahundurinn var enn á stæðinu og lét ófriðlega. Við spurðum lögguna hverju það sætti að maðurinn gengi laus eftir það sem á undan væri gengið. "Löggarnir" svöruðu því þá til að þeir væru búnir að hafa tal af viðkomandi, vissu hver hann væri og það yrði að duga í bili. Það var ekki fyrr en í hádegisfréttum á laugardegi að það kom fram að allar geymslur hefðu verið fullar og fleiri hefðu í raun þurft á gistingu að halda en húsrúm leyfði.
Á laugardagskvöldið vorum við mættir rétt fyrir miðnætti eins og ráð er fyrir gert og sáum að dyravörðum hafði verið fjölgað um einn. Við fengum að vita að það hafði verið setið fyrir öðrum dyraverðinum kvöldið áður og hann eltur á bíl áleiðis heim til sín en án þess að kæmi þó til frekari átaka. Allt fór þó vel fram þetta kvöld og eiginlega rúmlega það. Við fengum jólakort og lítinn pakka frá borði no. eitt sem við köllum svo. Borðið sem er reyndar við sviðið dregur nafngift sína af því að þeir og þær sem við það sitja alla jafna eru oftar en ekki mætt(ir) fyrst af öllum.
Í hádegisfréttum í dag (sunnudag) var svo sagt frá hópslagsmálum u.þ.b. 100 unglinga í Grafarvoginum. Það hlýtur að hafa verið sett eitthvað dularfullt íblöndunarefni í andrúmsloftið.
En burtséð frá því þá er ég alvar lega að hugsa um að skreppa norður á Sigló á morgun (mánudag) í 2 - 3 daga til að hlaða smá fyrir jólin.