27.12.2007 05:34
Og meira um jólin...
433. Jólatréð okkar sem var óvenju lítið í ár eða ekki nema 120 sm. hátt, leyndi á sér því undan greinum þess og borðinu sem það stóð á komu hvorki meira né minna en 40 pakkar undir því þegar allt var fram talið.
Við Minný endurnýttum tímabundið talsvert af skrautinu utan af pökkunum eins og við höfum gert bæði jólum og árum saman. Enda er alveg með öllu ástæðulaust að gera annað, því þarna er á ferðinni hið vandaðasta jólapakkadótaglanspappírsogglimmermerkispjaldaslaufumeðmeiruskraut.
Jólakveðja.
Það eru til eitthvað sem heita "þýðingarforrit," og er byggð á einhvers konar gervigreind af svipuðum stofni og t.d. leiðréttingarforritið vefpúkinn, sem stundum er svo gott er að eiga aðgang að og reynst hefur mörgum vel. En þessi þýðingarforrit virðast ekki öll vera jafn þróuð sem þau þyrftu að vera til að nýtast sem slík. Þau virðast taka fyrir eitt orð í senn, þýða það og skella síðan "afþýddu" upp í sömu röð á öðru tungumáli og það var í, án tillits til málvenja, uppbyggingu setninga, málfræði, hvort þau hafi jafnvel fleiri en eina þýðingu o.s.frv. Margir hafa því orðið til að nýta þau á annan hátt en þeim er ætlað þ.e. til skemmtunar. Það er líklega ekki að ástæðulausu og hér getur að líta eitt alveg stórfenglegt dæmi.
Upprunalegur texti.
"Years long, the time like class, is exactly fondly remembers are many time,
And places the infinite blessing!
Wishes you to be Christmas day joyful! Original Christmas's happiness and warmth,
Takes to you family's boundless happiness
Mine regards and blessing concentration in fragrance strongly fragrant greeting card,
In this happy holiday, silently gives you - - my dear friend.
The white snow, the green tree, sets off the red unlined upper garment thick to loves old person.
Puts up growl the vehicle to send safely, wishes you to be Christmas day joyful!"
Sami texti eftir að þýðingarforrit hafði "farið höndum" um hann.
Ár langur the tími eins og tegund , er einmitt ástúðlega muna ert margir tími , Og staður the óendanlegur blessun! Vilja þú til vera Jóladagur glaður! Frumeintak Jól hamingja og hlýja , Tekur til þú fjölskylda takmarkalaus hamingja Minn horfa á og blessun samsöfnun í ilmur eindregið ilmandi kveðja nafnspjald , Í this hamingjusamur frídagur , hljóður gefa þú minn yndi vinur. The hvítur litur snjór the grænn tré , stilliskrúfa burt the rauður óþroskaður efri flík þykkur til ástsjúkur gamall manneskja. upp urra the ökutæki til senda heilu og höldnu , vilja þú til vera Jóladagur glaður!
Jólakortin í ár.
Þessi jól eins og önnur var eitt og annað sem sló í gegn á hinum ýmsu sviðum. Ein bókin seldist betur en önnur, einhver hlutur var öðrum fremur jólagjöfin í ár og svo voru líka nokkur jólakort sem gerðu meiri lukku en önnur. Ég komst yfir nokkur þeirra sem virðast hafa kætt landann ærlega og hér að neðan getur að líta nokkur þeirra. En þess má líka geta að sum taldi ég tæpast birtingarhæf.
Takk fyrir komuna Guðmundur Óli.
Hann Guðmundur Óli átti leið hjá og rak inn nefið í smá kaffisopa þrátt fyrir að drekka alls ekki kaffi, en fékk þá bara límonaði í staðinn. En hann fékk líka aðrar trakteringar sem ég veit ekki hvort hann var jafn ánægður með.
Ég mundaði myndavélina inni í stofu, beið hans eins og ugla eftir mús sem villist inn á veiðilendur hennar og um leið og okkar maður kom í gættina smellti ég af, þrátt fyrir að hann hafi komið í allt öðrum tilgangi en að láta mynda sig. Svona lagað heitir auðvitað ekkert annað en fyrirsát.
Eftir svolítið sálarlegt uppþot og óróa G.Ó. til að byrja með, færðist samt ró yfir stofuna, ganginn og eldhúsið á endanum. Augun hættu fljótlega að sjá depla úti um allt eftir flassið og mér tókst að róa félaga Guðmund Óla og við settumst niður við tölvuna.
Ég sýndi honum nokkrar afgerandi jólamyndir og hann tók fljótlega barnslega gleði sína á ný. Ég sagði honum líka nokkrar skemmtilegar sögur af Andrési önd, Mikka mús, Kertasníki, Árna Johnsen og jólaskrímslinu ógurlega honum Jim Carrey. Hann kannaðist vel við þann síðast nefnda undir dulnefninu "Grinch" eða Trölli eins og það hefur verið þýtt á Íslensku. Ég "seifaði" því mynd af honum af Gúggúl okkur báðum til skemmtunar og andlegrar uppörvunar.
Við ræddum einnig uppruna okkar beggja og hversu góður og uppbyggilegur bakgrunnur hann væri þegar haldið væri út í lífið á fjárans suðvesturhorninu. Mér datt líka í hug syðsti hluti bæjarins ljósum prýddur gæti einnig verið mjög góður bakgrunnur svona myndrænt séð.
Jólasveinahúfa er órjúfanlegur hluti af sjálfum jólunum og öllu því sem þeim tilheyrir. Við vorum því sammála um að við vildum skoða nokkrar jólasveinahúfur og þessi fannst okkur langflottust.
Og auðvitað varð ég að blanda saman skoðunum okkar, niðurhöluðu myndefni, upprunanum o.s.frv., o.s.frv., en útkoman er alla vega sú sem sjá má hér að neðan.
Mig langar svo til að þakka Guðmundi Óla fyrir komuna og vona að hann þori að koma fljótlega aftur þrátt fyrir að móttökurnar hafi verið með óhefðbundnara móti. Eftir að hann kvaddi fór ég á síðuna hans sem fleiri mættu alveg gera og skoðaði myndir af heimaslóðum frá s.l. sumri. Þar á meðal myndir frá gönguferðinni miklu sem var farin út á Siglunes þegar Anna María átti afmæli, en ég lagði ekki í hana vegna þess að ég hafði snúið á mér ökklann á Hrómundartindum skömmu áður. En slóðin til G.Ó. er http://www.123.is/gummioli/
Áfram með smjörið "skrautlega" þjóð.
Eftir því sem árin líða verður landinn sífellt "skreytnari." Ég á við að hann skreytir og lýsir upp híbýli sín meira og meira, og ekki verður fyrirséð hvernig þetta getur eiginlega endað. Á Íslandi er ekki óalgengt að við þurfum að gera að minnsta kosti örlítið betur en nágranninn gerði í fyrra. Það er bara og hefur verið um árabil ríkjandi hugsunarháttur hér á skerinu og er líklega u.þ.b. að verða alveg blýfastur í genunum. Hugsanlega hefur batnandi efnahagur einnig áhrif á þessa þróun, því síðustu árin höfum við undantekningalítið vermt eitthvert sætið á topp tíu listanum yfir ríkustu þjóðir heims. Ég fór í svolitla skoðunarferð á netinu og sá þá að enn má Mörlandinn bæta við nokkrum perum og perustæðum ef hann vill vera mestur og bestur á þessu sviði eins og öllum hinum. Við höfum vissulega átt fallegustu konur í heimi, sterkustu mennina, duglegasta fólkið, ótrúlegustu útrásina í seinni tíð, flesta og nýjustu bílana, meira að segja stærstu frysti og kæligeymslurnar og svo mætti lengi telja. Auðvitað er þetta allt saman reiknað út frá höfðatöluformúlunni góðu sem hentar okkur svo vel, en hún er fyrir löngu orðin viðurkennd aðferð, a.m.k. af okkur sjálfum. En nú er sem sagt komið að jólaskreytingum og hér að neðan getur að líta nokkur "skrautleg" sýnishorn.
Þá erum við komin með nokkrar tillögur að skreytingum fyrir næstu jól, og vonandi einhverjar hugmyndir um hvað við þurfum að bæta við okkur mörgum seríum frá því sem nú er. Ég mæli með því að byrja á janúarútsölunum á jóladóti þar sem oft má gera reyfarakaup á slíku. Hjá flestum verður líklega nóg eftir samt.