19.01.2008 13:50
Janúarferð á Sigló.
439. Eins og áður hefur komið fram skrapp ég á Sigló á dögunum, eða nánar tiltekið þ. 11. - 14. jan. s.l. Að þessu sinni gætti ég þess betur en í næstu ferð á undan að hafa kort í myndavélinni. Það er sagt að mistökin séu bæði til þess að læra af þeim svo og að gera þau aftur, en mér finnst fyrri kosturinn mun fýsilegri ef ég má velja. Ég hafði líka meðferðis þrífótinn góða sem ég fékk í jólagjöf í hitteðfyrra því ég var ákveðinn í að reyna að taka nokkrar "næturmyndir," sem eftir á að hyggja varð eins konar myndaþema ferðarinnar ásamt Siglufjarðarkirkju sem ég horfði sennilega oftar til en nokkru sinni áður. Ekki er víst að það hafi verið af trúarlegum ástæðum einum saman, heldur miklu frekar vegna þess að þarna stendur svipmikið og reisulegt hús afar vel á sínum stað. Það er fyrir löngu orðið tákn þeirrar bjartsýni og framsýni sem einkenndi manninn á bak við tilurð þess, en hann hét Bjarni Þorsteinsson eins og flestir vita og var réttnefndur faðir Siglufjarðar. Þetta mikla hús verður honum um alla framtíð sá minnisvarði sem hann á svo sannarlega skilið fyrir öll þau góðu verk sem hann vann fyrir bæinn og íbúa hans.
Hún stendur eins og klettur upp úr ljóshafinu. Ég fer oft "yfir á Ás" eins og Saurbæjarásinn var alltaf kallaður í mínu ungdæmi og horfi yfir til bæjarins.
Og við færum okkur nær með hjálp aðdráttarlinsunnar.
Þessi götumynd er algjört einsdæmi. Aðalgata kaupstaðarins þar sem eitt sinn allt iðaði af lífi. Þarna voru tugir verslana, en þegar íbúar voru flestir var Siglufjörður fimmti fjölmennasti kaupstaður landsins á Eftir Reykjavík, Akureyri, Hafnarfirði og Ísafirði ef ég man rétt. Á sínum tíma var hægt að standa á kirkjutröppunum og horfa í háaustur niður Aðalgötuna, og blöstu þá bæjarhúsin á Staðarhóli við beint á móti.
Horft til kirkjunnar ofan af snjóflóðavarnargarðinum. Þetta sjónarhorn hefur oft sést áður.
Kirkjan séð frá planinu fyrir sunnan Siglósíld.
Kirkjan frá planinu norðan við Olísbúðina.
Frá norðurenda gamla flugvallarins. Í forgrunni má sjá það sem eftir er af flaki tunnuflutningaskipsins Skoger sem kviknaði í við bryggju einhvern tíma upp úr 1930, en rak upp í fjöru austan megin fjarðar eftir að það var leyst frá bryggju alelda. Lítið er nú eftir annað en hluti byrðingsins bakborðsmegin. Gaman væri ef einhver vissi meira um þetta flak, kynni söguna um eldsvoðann, strandið og gæti sagt eitthvað frá atburðarrásinni.
Ég fór aftur upp undir snjóflóðavarnargarðinn, en að þessu sinni að degi til og í fljúgandi hálku á spariskónum upp brattann hólinn sem er fyrir ofan gamla kirkjugarðinn. Ferðin tók talsverðan tíma.
Og ég sem hélt að jólin væru búin, en þau hafa greinilega lengst í annan endann á Siglufirði og er það vel. Það er ekkert að því að lýsa svolítið upp janúarmánuðinn sem í minningunni er talsvert drungalegri en bræður hans ellefu. Bæjarbúar virtust vera nokkuð samtaka um að vera ekkert að flýta sér að taka jólaljósin niður. Ekki veit ég hvort til þessa hefur verið mælst af einhverjum, en alveg gæti ég hugsað mér ljós í hverjum glugga út Mörsug (en það hét janúar áður samkvæmt gamla norræna tímatalinu) og fram í Þorrann.
Ég gat auðvitað ekki stillt mig um að taka mynd af sumar jafnt sem vetrarbústaðnum mínum.
Nú standa Sparisjóður eitt og Sparisjóður tvö við torgið, en allt bendir til þess að Sparisjóðurinn sé í þann veginn að verða stærsti vinnustaðurinn í bænum ef hann er ekki þegar orðinn það. - Öðruvísi mér áður brá.
Ég fékk vatn í munninnn nokkrum sinnum þegar ég gaut augunum á stafninn á þessu húsi. Reykt Egilssíld er góð, og takið eftir að þetta er sett fram sem fullyrðing.
Ráðhúsið ljósum prýtt er gott fordæmi fyrir alla sem vilja lengja í jólunum þrátt fyrir að vera löngu búnir að opna alla pakkana og klára alla afgangana af jólamatnum.
Þegar ég fór úr bænum var komið að kvöldi 14. jan, en jólatréð á Ráðhústorgi var enn með fullum ljósum. Fróðlegt væri að vita hvað það hefur lýst upp skamdegið í marga daga eftir það. Ég man þá tíð að það var slökkt stundvíslega við jólalok, eða strax daginn eftir Þrettándann.
Þetta hús var eins og klippt út úr einhverju jólaævintýri, en þarna búa þau Hafþór Rósmundsson og frænka mín Guðný Pálsdóttir.
Það verður að segjast að þessi lýsing er miklu flottari svona "læf" en hún virðist vera á ljósmyndinni. Veit ekki alveg hvers vegna mér tókst ekki að fanga "lúkkið," en það verður minna úr lýsingunni á girðingunni og jólasveinninum í stiganum en í raunveruleiknanum.
Takið eftir gamla sparksleðanum...!!! En hann eitthvað svo sjálfsagður og eðlilegur hluti af heildarmyndinni.
Jólastjarnan vísar veginn alveg heim að dyrum, en hvar eru vitringarnir?
Hér sjást fyrstu húsin norðan við kirkjugarðs, en þegar ég var lítill var að sjálfsögðu allt miðað við Brekkuna sem var miðdepill alheimsins og er sunnan hans. Ef við Brekkuguttarnir fórum yfir garðinn sem var nokkurs konar einskismannsland, var þetta útjaðar óvinasvæðisins. En í dag er ég ekkert smeykur við að fara þarna um...
Hvanneyrarkrókurinn var með allra lygnasta móti og endurspeglaði ljósin frá mannheimum
Á laugardagskvöldinu eftir myrkur datt mér í hug að rölta upp í fjall með myndavél og þrífót til að freista þess að ná góðri mynd af ljósunum í bænum. Auðvitað var þetta tóm steypa en ég fór nú samt inn í Skútudal og rétt áður en ég kom að gangnamunna Héðinsfjarðarganga nam ég staðar og rölti til fjalls. En þetta var auðvitað ekki mjög einfalt því að ekki var gott að sjá fyrir hvar væri heppilegast að drepa niður fæti. Ferðin sóttist því bæði seint og illa þar til ofar kom eða upp að snjólínu. Þar var mun bjartara og ferðin sóttist betur um stund eða allt þar til brattinn fór að aukast. Þar kom að lokum að ég sá að það var lítið vit í þessu ferðalagi og stillti upp þrífæti og festi myndavélina á hann. Eftir svolitlar pælingar var smellt af nokkrum frekar einsleitum skotum og haldið niður hlíðina.
Daginn eftir fór ég yfir á Ás, horfði upp í hlíðina og reyndi að gera mér grein fyrir hversu hátt ég hefði farið. Ég hafði brún Skollaskálar til viðmiðunar og giska á að ég hafi farið rúmlega hálfa leið í þá hæð. Rosalega getur maður nú verið vitlaus á köflum, en einhvern tíma skal ég nú samt gerast "vitlausari" en þetta og komast hærra.
Undir miðnættið sama kvöld ók ég en gekk síðan langleiðina upp í Hvanneyrarskál sem var ekki mjög gáfulegt, því eftir að ég yfirgaf bílinn kunni ég ekki fótum mínum forráð í bókstaflegri merkingu.
Langur sunnudagsbíltúr og og ekki spillti blíðan. Það voru margir á heilsubótargöngu bæði út á Strönd og inni í firði.
Ég kom við í nýja kirkjugarðinum og sótti ljósakrossinn af leiði afa og ömmu. Eins og sjá má ef vel er rýnt í myndina, eiga margir eftir að gera sér ferð á þessar slóðir í sömu erindagjörðum.
Þetta eru svo leifar gömlu sundlaugarinnar sem var aflögð um miðja síðustu öld, en svo fáránlega sem það kann að hljóma hef ég aldrei komið á þennan blett áður. Hún má vissulega muna sinn fífil fegri og auk hef ég orðið var við að margir af bæjarbúum viti jafnvel ekki einu sinni af tilvist hennar eða sögu.
Þessi mynd og myndin hér að neðan eru úr safni Jóns Dýrfjörð en þær birtust á vefnum "Lífið á Sigló" fyrir all nokkru síðan.
Þær eru teknar á sundmóti skömmu fyrir miðja síðursu öld í þessari sömu gömlu sundlaug sem er nokkru fyrir neðan Stóra Bola.
Tímarnir breytast...
Lítil blá Nissan Micra í hæstu hæðum svolítið góð með sig og horfir niður á okkur hin. Ég hef aldrei áður skoðað grjótnámuna á Ströndinni, sem er auðvitað annað skrýtið mál.
Ég leit við hjá honum Steingrími og sníkti kaffi og með því eins og svo oft hefur gerst áður. Í leiðinni hlotnaðist mér sá heiður að setjast í sjálfan ritstjórastólinn í aðalstöðvum vefsins "Lífið á Sigló," og setja saman svolitla klausu sem síðan rataði beinustu leið inn á þennan ágæta vef. Ég geri mér að sjálfsögðu glögga grein fyrir því að þetta er hreint ekki svo lítil upphefð, og uppákoman mun að sjálfsögðu vaxa og dafna í huga mér um alla framtíð. Til að reyna að finna samlíkingu af einhverju tagi við þessa lífsreynslu þá kemur upp í hugann hending úr kvæðinu Fjallganga eftir Tómas Guðmundsson: "Sjáið tindinn! Þarna fór ég." Og þá er ég auðvitað að vísa til þeirrar ólýsanlegu andagiftar sem hver maður hlýtur að fyllast við það eitt að setjast í stólinn hans Steingríms og leggja fingur á lyklaborðið.
Ljósmyndina tók svo auðvitað sjálfur Steingrímur Kristinsson.
Þegar ég lagði af stað suður var engu líkara en ég væri að fara í vitlausa átt. Í stað þess sem ég á að venjast á þessari leið, bætti jafnt og þétt í vind og snjó eftir því sem sunnar dró en ekki öfugt eins og ég á að venjast. Það hvarflaði sem snöggvast að mér að pólskiptin sem spáð hefur verið um langa hríð hefðu orðið án þess að ég hefði frétt af því.
Fékk þessa sendingu frá góðum manni og kann honum auðvitað mínar bestu þakkir fyrir. Nú er bara að sjá hvort Grettir gagnast mér í mínum stífluvandamálum...
En mun fleiri myndir frá Siglufirði eru í möppu "Sigló 2008" í myndaalbúmi.
Skrifað af LRÓ.