26.01.2008 03:36
Óli & Villi
440. Ó, Reykjavík, ó, Reykjavík, þú yndisfagra borg... Það var hljómsveitin Vonbrigði sem flutti lagið í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík árið 1982. Þá var mikil gróska í tónlistarlífinu í höfuðborginni og segja má að enn sé veruleg gróska á sama stað, en kannski þó öllu meiri í pólitíkinni sem stendur. Og ljóst er að vonbrigði (þó ekki hljómsveitin) hafa enn og aftur komið við sögu hjá einhverjum, alla vega miðað við hasarinn í Ráðhúsinu á dögunum.
Ólafur er sagður hafa tekið "(metorða)rúllustigann eða jafnvel hraðlyftuna upp allar hæðirnar í einum áfanga," og því gæti leiðin ekki legið nema bara niður úr því sem komið væri. Ég var að gúggla svolítið og sá pistil þar sem pólitíkus nokkur er uppnefndur "Lánlausi Villi." Það er auðvitað ljótt að uppnefna fólk, en hver ætli það sé annars...? Það er greinilega heitt í kolunum í henni Reykjavík um þessar mundir og víst er að ekki er hægt að tala um gúrkutíð þessa síðustu daga fyrir Þorra.
Eftirfarandi "frétt" var að finna á baggalutur.is
Hlutirnir gerast hratt í ráðhúsi Reykjavíkur þessa stundina. Óstaðfestar heimildir herma að nýr borgarstjórnarmeirihluti hafi verið myndaður nú rétt í þessu.
Mun meirihlutinn skipaður sjálfstæðismönnum 40 ára og yngri, flakkaranum svonefnda auk auðra og ógildra.
Einn óháðasti armur F-lista og sjálfstæðisflokkur hafa náð saman um nýjan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, þann tólfta á þessu kjörtímabili.
Mun meirihlutinn starfa undir slagorðinu Bingi sökkar! og er meginmarkmið hans að "halda völdum frá kómúnistum og kellingum," eins og segir í málefnasamningi flokkanna.
Gert er ráð fyrir að meirihlutinn haldi eitthvað fram eftir vikunni, en fljótlega verður svo haldið áfram að reyna öll þau mögulegu mynstur sem koma til greina við stjórn borgarinnar, til að fullnægja vilja sem flestra kjósenda.
Vonandi fer þessi mynd ekki fyrir brjóstið á neinum, en ég veit samt ekki hvort þessi Ráðhúsfarsi er fyndinn mikið lengur.