29.01.2008 21:43
Home alone 2 - fyrri hluti.
441. Eins og kom fram fyrir margt löngu síðan þegar uppi voru aðstæður svipaðar þeim sem nú eru, er ég ekkert sérlega mikil húsmóðir í eðli mínu. Þegar mér er ætlað það krefjandi hlutverk að gæta bús og bara, á að sjá til þess að allir hafi í sig og á og að ganga í hefðbundin heimilisstörf, getur eitt og annað farið öðruvísi en til stóð. Það hefur svo sem gerst áður og það gerðist einnig nú, því miður. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki mjög sterkur á svellinu þegar kemur að eldamennskuþættinum og skyldum störfum, þó að ég hafi við illan leik lært að setja í þvottavél síðast þegar ég var staðgengill húsmóðurinnar vegna tímabundinnar fjarveru hennar. Ég vil samt ekki líta alfarið neikvætt á stöðu mála, af því að í því felast einnig sóknartækifæri ef vel er gáð. Ég fæ auðvitað tækifæri í leiðinni til að sanna mig og sýna fram á að ég er ekki jafn ósjálfbjarga og gefið hefur verið í skyn af ónefndum fjölskyldumeðlimum, þó svo að ég sé skilinn eftir til þess að gera eftirlitslítill í fáeina daga.
Til að afsanna fram komnar kenningar um takmarkaða hæfni mína á þessu sviði, fékk ég þá flugu í höfuðið að gera það sem mér hefur aldrei áður til hugar komið að reyna af framkvæma. Ég ætlaði að baka köku, þrátt fyrir að engar kröfur eða beiðni hafi komið fram um slíkan gjörning nema síður væri. Það er jú alltaf gaman að koma fólki á óvart og hver veit nema óvænt tiltæki eins og það gæti orðið til þess að ég fengi langþráð klapp á bakið.
En þar sem ég hef aldrei bakað köku, veit ég auðvitað mjög lítið um hvernig slíkt er gert. Ég hef þó séð eitt og annað uppi á eldhúsborðinu sem samheitið "bökunarvörur" er oftar en ekki notað um og veit svona nokkurn vegin hvað fellur undir þá skilgreiningu. Ég man að amma mín notaði gjarnan orðasambandið "að slumpa í köku" þegar hún tók til hendinni í þeim efnum. Ég skildi það svo að hún blessunin setti saman eitthvað eftir minni, eða jafnvel bara það sem væri til hverju sinni í stóra skál, hrærði eða hnoðaði síðan vel og vandlega en síðan tæki ofninn við. Út úr honum kæmi svo ilmandi kaka sem var undantekningalaust étin upp til agna á skammri stund. Þetta getur bara ekki verið mjög flókið ferli.
Þar sem ég vissi í hvaða skáp hrærivélin er geymd sem er auðvitað ekkert sjálfgefið, tók það skamma stund að gera hana tilbúna. Þá var komið að hveitinu sem ég veit að undantekningalaust notað þegar bakað er, - held ég.
"Ég er nú ekki svo vitlaus," hugsaði ég með sjálfum mér meðan ég leitaði að hveitinu sem ég gat hvergi fundið.
Ef ekkert slíkt er til verða menn bara að skreppa eftir því hið snarasta. Ég renndi niður í 10-11 og fann strax það sem ég taldi mig vanta.
"Nokkuð fleira?" Hún Anna litla sem á heima í næstu blokk var að afgreiða og brosti sínu blíðasta.
"Nei Anna mín, mig vantaði bara svolítið hveiti."
Andlitið á Önnu breyttist og varð eins hún hefði bitið í mjög súra sítrónu.
"En þetta er ekki hveiti, þetta er kartöflumjöl."
Kona fyrir aftan mig flissaði en Anna bjargaði mér frá frekari vandræðum með því að fara og sækja sjálf það sem mig vantaði.
"En þetta er Kornax hvað sem það nú annars er," sagði ég.
"Já, þetta er Kornax hveiti. Þú ert nú meiri brandarakarlinn."
Konan fyrir aftan mig flissaði aftur.
Þá sá ég að það stóð Kornax lárétt á pakkanum með svörtu letri, en hveiti lóðrétt með rauðu letri og annarri stafagerð.
"Rosalega eru þetta villandi merkingar" sagði ég í nöldurtón.
"Er fólk ekki alltaf að ruglast?"
Konan fyrir aftan mig hreinlega sprakk. Hún hló bæði á innsoginu og útsoginu og mér fannst hún hlægja á afar lítt þokkafullan hátt, en Anna laut höfði og horfði fast niður á fætur sér. Ég borgaði og flýtti mér heim með Kornax hveitið.
Sykur!
Ég veit líka að það á að nota sykur í bakstur, en hvar ætli sykurinn sé geymdur. Ég opnaði stóra skápinn við hliðina á ísskápnum sem stundum er kallaður "búrið." Við mér blasti talsvert magn af Kornax hveiti, en engan sykur var að finna. En þarna var flórsykur, púðursykur og molasykur, en engan strásykur. Sjitt, ég fer sko alls ekki aftur niður í 10-11 til að láta hlægja að mér. Ég velti fyrir mér hvort ég gæti ekki bjargað mér með það sem til væri. Er ekki sykur annars bara sykur eða hvað? Ég hélt leitinni áfram svolítið lengur en varð ekki var við neitt sem hét bara sykur eða strásykur. Ég tók því pakkann með molasykrinum og hellti honum í skál. Ég fann síðan eitthvað apparat í einni eldhússkúffunni og byrjaði að hnoða molasykurinn. Eftir svolítið hnoð höfðu molarnir brotnað í talsvert minni mola og fínan salla, en þar sem þetta var ekki sérlega mikið magn fannst mér það hlyti að vera í lagi að drýgja það með bæði púður og flór.
Smjörlíki!
Það á líka að vera með. Ég fann tæplega hálft smjörlíkisstykki inni í ísskáp, en ætli það sé alveg nóg? Létt & laggott er svipað í sjón svo ég skóf innan úr einni slíkri dollu og bætti við það sem fyrir var.
En það hlýtur að vera eitthvað fleira sem er notað í kökur eða hvað. Ég opnaði stóra skápinn aftur og fór yfir hillurnar.
Nupo-létt, íssósa, Ritzkex, fiskibollur í dós, tómatsósa, vanilludropar, grænar baunir og rúsínur var meðal þess sem þar var. Svolitlu af vanilludropum og vænni lúku af rúsínum sem reyndust vera súkkulaðirúsínur var bætt við í hrærivélarskálina.
En hvort notar maður vatn eða mjólk til að bleyta í öllu draslinu? Þar sem ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvort væri réttara, eðlilegra eða betra, má segja að það hafi kannski verið svolítið diplómatísk lausn að fara bil beggja. Ég bætti því svolitlu vatni og svolítilli mjólk út í skálina.
Ég leit aftur inn í skápinn.
Kaffi, hrísgrjón, gular baunir og rauðkál. Ég hrukkaði ennið. Það er vissulega til t.d. kaffisúkkulaði sem er skrambi gott og það hlýtur af vera notað kaffi í það.
Nú gæti einhverjum dottið í hug að ég hefði sturtað út BKI pakkanum, en það gerði ég ekki. Ég var nú farinn að finna mig í kökugerðinni og smátt og smátt farinn að hafa svolitla trú á sjálfum mér í framtakinu. Ég hellti afganginum af gamla kaffinu síðan í gær út í hið verðandi kökudeig og hugsað með mér að það verði líka að sýna af sér svolitla nýtni og ráðdeildarsemi endrum og sinnum.
En gular baunir?
Ég veit alveg að gular baunir eru notaðar í "saltkjöt & baunir" á Sprengidaginn, en til hvers ætli þær séu notaðar þess á milli. Ég skoðaði þessar gulu baunir svolítið betur og sá að það var búið að kljúfa þær allar í miðju. Þetta voru því bara "hálfbaunir," en til hvers ætli þetta sé gert? Getur verið að það sé til að þær blotni betur upp og linist við hita? Verði jafnvel mjúkar og gefi því sem þær eru notaðar í skemmtilegan keim og/eða fyllingu? Endalausar spurningar um gular hálfbaunir vöknuðu í huga mér, en ég átti engin svör við neinni þeirra. Með hálfum huga og hikandi handarhreyfingum fór þó ein lúka eða svo út í með öllu hinu.
Lyftiduft!
Alveg rétt, en er þetta ekki að verða nóg? Ég hafði auðvitað ekki hugmynd um það en opnaði skápinn í þriðja sinn. Efsta hillan var full af kryddi, en skyldi krydd vera notað í kökur? Jú, það var sungið um það í piparkökusöngnum svo það hlaut að vera gert. Ég mundi líka eftir að hafa séð köku úti í búð sem hét Kryddkaka. Ég fór því létta umferð yfir kryddhilluna og valdi nokkur krydd sem ég taldi að gætu komið að gagni.
Whole black peppercorns, white pepper, piparblanda - fjórar árstíðir, sítrónupipar, garlic pepper og cayennepipar og chilipipar. Ennfremur malað kúmen, en því miður datt lokið af bauknum svo innihaldið fór allt ofan í skálina. En það var reyndar innan við helmingurinn eftir í bauknum svo það hlaut að sleppa auk þess að t.d. kúmenbrauð er mjög gott brauð, en það er nú með alvag bullandi kúmenbragði.
Ég setti hrærivélina nú í gang og hún malaði um stund meðan ég horfði stoltur á innihaldið blandast saman, en útkoman var samt ekki mjög lík neinu kökudeigi eins og ég hef séð það til þessa. Þetta var miklu líkara blautri steypu sem er á leiðinni í mót. En hvað um það, það geta ekki allar kökur verið eins. Ég leitaði nú uppi kökuform sem ég fann að lokum og hellti innihaldinu í það. Þegar það var fullt var samt helmingurinn eftir í hrærivélarskálinni svo ég þurfti greinilega annað form. En til þess að auka á fjölbreytnina fannst mér upplagt að bæta einhverju út í afganginn af deiginu, því þá væri ég að bakstri loknum kominn með tvær sortir en ekki bara eina.
Ég veit ekki af hverju brauðtertur komu upp í hugann, en það varð alla vega til þess að ég opnaði dós af aspas sem ég fann og bætti út í ásamt svolitlu af skinkustrimlum og mayonnaise. Til áhersluauka einnig tveimur matskeiðum að marmelaði til að laða fram mjúkan appelsínukeim.
Ég fann annað form og hellti afganginum í það, kveikti á ofninum og nú var væntanlega ekki langt í veisluna.
Ég fylgdist með í gegn um glerið á ofnhurðinni, en mér fannst lítið gerast þarna inni. Áttu kökurnar að lyftast eða áttu þær kannski ekki að lyftast? Áttu þær ekki að taka á sig einhvern lit og yfirborð þeirra að breytast frá því að virka svona rennblautt og hráslagalegt? Átti ég ekki annars að kveikja á ofninum um leið og kökurnar fóru inn, eða átti að gera það annað hvort skömmu áður eða skömmu síðar?
Það leið heil eilífð áður en ég sá nokkuð fara að breytast, en það gerðist þó á endanum. Kökurnar urðu sællegri að sjá í gegn um glerið, stækkuðu og lyftu sér upp úr formunum. Þær stækkuðu reyndar svo mikið og hratt um tíma að mér var hætt að lítast á blikuna. En svo hættu þær að stækka og þar kom að ég slökkti á ofninum, náði mér í þar til gerða hanska og setti afurðirnar upp á bekk til kælingar.
Tíminn leið og ég átti svolítið erfitt með mig af spenningi, en kökur verða samt að fá að kólna aðeins - held ég. Ég hafði verið einn heima í þessu kökubrasi framan af degi, en nú fór að fjölga á heimilinu.
"Krakkar komiði í nýbakaða köku."
Þau komu bæði í eldhúsdyrnar og horfðu forviða á mig en síðan hvort á annað. Hver kom með þessa köku hingað og hvaða skrýtna lykt er þetta?
Ég svaraði engu en náði í diska og kökuhníf, skar væna sneið af báðum kökunum á hvern disk og rétti þeim.
Þau hikuðu enn, horfðu á mig svolítið hissa á svipinn og síðan aftur hvort á annað.
Minný beit í aðra kökuna, leit síðan snöggt upp og sagði síðan án þess að kyngja.
"Ég ætla að borða þetta inni í herbergi."
Hún var horfin á braut með það sama og ég heyrði dyrnar lokast en gluggann opnast með svolitlum rykk.
"Það hefur líklega verið hitamolla inni hjá henni" hugsaði ég með mér.
Gulli settist við eldhúsborðið, náði sér í mjólkurglas og fékk sér stóran bita, saup vel á mjólkinni og byrjaði að smjatta. Svo hætti hann því skyndilega og kinnarnar urðu eins og tvær litlar blöðrur til beggja hliða. Hann stóð upp og horfði fast á mig, hendur hans lyftust eins og hann ætlaði að blessa mig fyrir vel unnin störf, en settist síðan aftur og byrjaði að kyngja í áföngum.
"Ertu búinn að smakka þetta sjálfur?" Hann stóð upp og gekk út úr eldhúsinu.
"Á ekki að klára?"
"Nei takk, ég treysti mér alls ekki til þess" sagði hann alveg ákveðið og dyrnar á herbergi hans lokuðust.
Ég get ekki neitað því að á þessu augnabliki fylltist ég efasemdum um árangur verka minna og hæfileika á sviði brauð og kökugerðar, en auðvitað varð ég að kanna málið til hlítar. Ég lét mig hafa það að smakka á báðum gerðum og verð að viðurkenna þá nöturlegu staðreynd að önnur var sýnu verri en hin sem verður þó engu að síður að teljast með öllu óæt.
En ég skil bara ekki hvað klikkaði...