04.02.2008 02:54
Harðan eða mjúkan.
444. Það skal skýrt tekið fram að myndin hér að ofan á að sjálfsögðu ekkert skylt við umfjöllunina hér að neðan. Hún er aðeins látin fylgja vegna sterkrar skírskotunnar sinnar til kvikmynda yfirleitt og þá um leið til myndbandaleigna þar sem eftirfarandi atburðir áttu sér stað.
Fyrir nokkrum árum vann ég við afgreiðslustörf á ónefndri myndbandaleigu, en þar var einnig rekinn söluturn. Einn af föstu kúnnunum var ung og hress stelpa sem kom nánast daglega, leigði sér mynd og verslaði sér eitt og annað smálegt í leiðinni. Einu sinni sem oftar kom hún og eftir að hafa gefið sér góðan tíma til að velja myndefni, gekk hún að afgreiðsluborðinu þar sem ég stóð, lagði kók og snakk á borðið ásamt myndinni sem hún ætlaði að sjá í það skiptið.
"Láttu mig svo hafa einn Winston," sagði hún og brosti sínu breiðasta.
En eins og flestir vita er hægt að fá flestar algengustu tegundir tóbaks bæði í hörðu boxi og mjúkum pakkningum.
"Harðan eða mjúkan?"
"Auðvitað vil ég fá hann harðan," svaraði hún af bragði og hló tröllahlátri.
Ég áttaði mig þá á hinni tvíræðu túlkun hennar á spurningunni og er ekki frá því að ég hafi roðnað pínulítið, en það varð auðvitað til þess að hún hló enn hærra.
Með mér vann maður nokkuð við aldur sem sóttist mjög í að afgreiða þá viðskiptavini sem voru af hinu fegurra kyni og því meira sem þeir, eða öllu heldur þær voru yngri að árum.
Ég vissi svo sem alveg að honum þótti mjög miður að hafa ekki "náð" þessari tilteknu afgreiðslu, en þegar stúlkan var farin spurði hann mig hvað hefði verið svona fyndið. Ég reyndi að útskýra fyrir honum á einfaldan hátt hvernig umbúðum Winstonpakkans hefði verið snúið upp í hæfilega tvíræðni með passlega fíngerðri og frjálslegri túlkun og farið í svolítinn orðaleik í leiðinni. Eftir svolitla stund og allnokkrar endurtekningar kviknaði á perunni hjá þeim gamla og það var engu líkara en hann hefði koksins uppgötvað leyndardóminn á bak við tilgang lífsins. Það mátti greina blik í auga, neðri vörin titraði svolítið og andardrátturinn varð eilítið örari.
Ég fór nú að fylla á goskælinn og var í óða önn við þá iðju þegar næsti viðskiptavinur gengur inn. Það var kona sem greinilega var komin af léttasta skeiði og gat tæplega talist til hins veikara kyns. Hún líktist einna helst fyrrverandi Austur-Þýskum kúluvarpara frá Kaldastríðsárunum sem hætt hefur keppni fyrir aldurs sakir, án þess að gera tilheyrandi ráðstafanir vegna breyttra aðstæðna og lífsmáta.
Ég heyrði hana nefna Winston og síðan svar afgreiðslumannsins.
"Viltu kannski fá´ann harðann?"
Ég ætla ekki að reyna að lýsa viðbrögðum "kúluvarparns" sem hafði greinilega engan húmor fyrir spurningunni. Það var ekki aðeins að krepptur hnefi hennar næmi fast við andlit gamla mannsins meðan hún lét dæluna ganga, heldur virtist orðaforði hennar af skammar og fúkyrðum vera því sem næst ótakmarkaður. Þegar hún var farin minnti aldraði maðurinn sem stóð eftir stjarfur á bak við afgreiðsluborðið mig einna helst á gamla hænu sem búið er að reyta allar fjaðrirnar af. Ég reyndi að láta sem minnst bera á því sem ískraði og sauð ofan í mér, en ég neita því ekki að mér þótti þessi uppákoma ekki gera daginn neitt leiðinlegri. Auðvitað lét ég sem ég hefði hvorki heyrt eða séð nokkurn skapaðan hlut og minntist ég ekki einu orði á atburðinn, en daginn eftir fékk ég svo óvænta spurningu.
"Hvernig sagðirðu þetta annars með Winstonið?"
(Based on a true story.)