21.02.2008 00:38

Gömul mynd að vestan


(Ljósmyndari ókunnur)

447. Fyrir nokkru barst mér svolítil sending frá tengdaföður mínum. Það reyndist vera lítil blaðaúrklippa úr blaðinu Skutli sem hann hafði vandlega geymt síðan á fyrri hluta síðustu aldar.
"Er hægt að prenta hana á betri pappír, stækka svolítið og gera kannski svolítið skýrari?"
Þetta var spurningin sem fylgdi sendingunni suður yfir heiðar og flóa. Þessir þrír merkismenn voru orðnir ansi dauflegir á að líta á upplituðum blaðapappírnum, en ég held mér hafi tekist að hressa aðeins upp á þá, þó svo að ég vildi gjarnan gera betur. En ég er engu að síður búinn að koma þeim fyrir í ramma og liggur því næst fyrir að senda þá aftur til vestur í Dýrafjörð þaðan sem þeir komu.

En áður en ég segði skilið við þessa mynd sem mér finnst um margt merkileg, þurfti ég auðvitað að "gúggla" aðeins betur ofan í söguna á bak við hana, en eins og við vitum er margan fróðleiksmolann að finna á netinu. Ég er að láta mér detta í hug miðað við þær upplýsingar sem ég hef frá sendandanum og af netinu, ásamt því að reyna að ráða í söguna, að myndin hafi verið tekin um aldamótin 1900

Hannes Þórður Hafstein sem er í miðju, er án vafa þekktastur þremenninganna. Hann er fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal 4. des. 1861, lést þ. 13. des. 1922. Hann tók stúdentspróf við Lærða skólann 1880 og lögfræðipróf Hafnarháskóla 1886. Settur sýslumaður í Dalasýslu 1886 og sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887, en sinnti eftir það lögfræðistörfum um hríð. Landshöfðingjaritari frá 1889 en jafnframt að nýju málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1890 - 1893. Sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1896 - 1904. Ráðherra Íslands 1904 - 1909. Bankastjóri við Íslandsbanka 1909 - 1912. Ráðherra Íslands að nýju 1912 - 1914. Varð aftur bankastjóri við Íslandsbanka 1914 - 1917, en þá lét hann af því vegna vanheilsu. Endurskoðandi Landsbankans 1890-1896. Átti sæti í millilandanefndinni 1907, varaformaður hennar og formaður íslenska hlutans. Foringi Heimastjórnarflokksins 1901-1912. Alþingismaður. Ísfirðinga 1900 - 1901. Alþingismaður. Eyfirðinga 1903 - 1915. Landskjörinn alþingismaður. 1916 - 1922 og sat síðast á þingi 1917 (Heimastjfl., Sambfl., Heimastjfl.).
Eins og sjá má er þetta ekki svo lítil afrekaskrá. Hannes var líka eitt af Skólaljóðaskáldunum góðu, en þangað rötuðu tæpast aðrir en þeir sem þangað áttu erindi. Ég rakst á eitt kvæða hans sem hefur þó ekki farið hátt, en það orti hann árið 1881 þegar flattur þorskur með kórónu var eins og segir; merki Íslands í ríkisskildinum.

Heill sé þér, þorskur, vor bjargvættur besti,
blessaða vera, sem gefur þitt líf
til þess að verja oss bjargræðis bresti,
bágstaddra líknarinn, sverð vort og hlíf.

Heyrðu vort þakklæti, heiðraði fiskur,
hertur og saltaður, úldinn og nýr!
Fyrir þinn verðleika fyllist vor diskur,
frelsi og þjóðmengun til vor þú snýr,

því ef þú létir ei lánast þinn blíða
líkam við strendurnar, hringinn í kring,
horaðir, svangir vér hlytum að stríða
og hefðum ei ráð til að ala vort þing.

Þú ert oss einlægust þjóðfrelsishetja,
þú ert sem dreginn úr almennings sál.
Mynd þín og fyrirmynd fögur oss hvetja,
föðurlandsástinni hleypa í bál.

Norski umsvifamaðurinn Hans Ellefsen sem er lengst til hægri á myndinni (1868-1915) reisti hvalveiðistöð við Önundarfjörð árið 1889 og var hún þá eitt stærsta fyrirtæki landsins. Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn.
Hans Ellefsen hvalfangari sem bjó á Sólbakka 1889 - 1906 og Hannes Hafstein voru miklir vinir og kom Hannes oft til Ellefsens. Var jafnvel svo að ef Hannes þurfti að komast fljótt til Reykjavíkur var settur hvalbátur undir hann í slíkar ferðir.
Áður en Ellefsen fluttist brott gaf hann Hannesi Hafstein hið glæsilega íbúðarhús sitt á Sólbakka ofan við Flateyri. Sumir segja að hann hafi selt honum húsið á eina krónu, aðrir segja fimm krónur. Hannes lét taka húsið sundur og flytja til Reykjavíkur. En vegleg þótti vinargjöf Ellefsens til Hannesar er ljóst var að báðir voru að halda brott af Vestfjörðum.

En um Lauritz Berg sem er til vinstri á myndinni, er því miður ekki miklar upplýsingar að hafa. Hann fæddist í Stafangri í Noregi 9. febr. 1834., gerði sjómennsku sem ævistarfi sínu og var meðal annars skipstjóri á skonnortunum Sophie 1864, Saphir 1867 og Freidig 1880. Hann lést í Stafangri 16. febr. 1905.
Á Þjóðskjalasafni Íslands er að finna heimildir um að hinn 30. desember 1891 hafi staðið til hjá Kirkju og kennslumálaráðuneytinu að veita Lauritz Berg hvalveiðiskipstjóra á Dýrafirði opinbera viðurkenningu. Þar eru einnig uppköst og bréf frá sama ráðuneyti og landshöfðingja um málið til íslensku stjórnardeildarinnar.



Hvalveiðistöðin á Sólbakka. Ljósm.: Önfirðingafélagið - Sólbakkamenning.

Eftirfarandi er frásögn Gunnars M. Magnúss. eftir bruna hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka 6. ágúst 1901...
...Nokkrum misserum síðar, þegar Hannes Hafstein var valinn ráðherra hinn fyrsti á Íslandi, hittust þeir vinirnir í Ellefsenshúsi á Sólbakka.
Ellefsen sagði: Ég er að fara héðan alfarinn til Austfjarða, þar sem ég er ákveðinn að reisa hvalverksmiðju. Ég sný ekki hingað aftur. Nú afhendi ég þér þetta hús sem vinargjöf. Það er leikur einn að flytja húsið burt, hvert sem er.
Þetta get ég ekki þegið að gjöf, svaraði Hannes, en mikil og vegleg afhending er þetta.
Ef til vill hefur Hannesi Hafstein komið í hug Steinuður hin gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar. Ingólfur bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir austan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum. Þetta varð síðar lagamál á Alþingi.
Og Ellefsen sagði: Borgaðu mér þá fimm krónur fyrir.
Hannes lagði fimm krónur á borðið.
Ellefsen hripaði nokkur orð á miða, rétti Hannesi og sagði: Hér hefur þú kvittun fyrir því, að ég hef selt þér húsið.
Skömmu seinna var húsið rifið til flutnings. Síðan (1906) var það byggt í brekku vestanverðu við Tjörnina í Reykjavík. Það hefur verið nefnt Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu.



"Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn."

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496670
Samtals gestir: 54802
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:28:03
clockhere

Tenglar

Eldra efni