01.03.2008 04:52

Á Catalinu.



452. Við Axel erum að spila á Catalinu þessa helgina og reyndar þá næstu líka. Í gærkvöldi (föstudag) var fullt út úr dyrum því húsbílafélagið var með einhverja uppákomu. Og eins og svo oft gerist þá þurftu einhverjir órabelgir að klessa sér því sem næst alveg upp að hátölurunum hjá okkur og vildu sitja þar í næði og spjalla. Það var ekki að sökum að spyrja að þegar fyrstu tónarnir liðu út í salinn spruttu viðkomandi snarlega á fætur og heimtuðu að við lækkuðum það mikið að þeir gætu talað saman fyrir framan hátalaraboxið. Ég benti þeim á setustofan hentaði þeim örugglega betur eins og sakir stæðu en orð mín fengu lítinn hljómgrunn hjá þeim.
Við skyldum bara gera eins og okkur væri sagt. En okkur tókst þó að lokum að hrekja þá inn í setustofuna þar sem hefur vonandi farið betur um þá. Þegar nokkuð var liðið á kvöldið kom Portúgali með tvo þrefalda Teqila upp á pallinn. En þar sem ég er bara í kaffinu á slíkum kvöldum og Axel er ekki fyrir sterka drykki, fór það svo að mjöðurinn stóð enn eftir á pallinum ódrukkinn í glösum sínum þegar við fórum heim fljótlega eftir síðasta lag. En sá gjafmildi kom svo til okkar þegar talsvert var liðið á dansleikinn og vildi fá að syngja Portúgalskt þjóðlag fyrir dansgesti sem við áttum að sjálfsögðu að kunna. Hann var ekki sáttur við hvað við færðumst mikið undan sanngjarnri beiðni hans því því hann taldi sig hafa lagt inn fyrir uppákomunni. Óvenju margir komu og báðu um óskalög af ýmsum toga, allt frá gömlum íslenskum singalongslögurum og skátasöngvum til dauðarokks. Það er svo skrýtið að í þeim tilfellum sem við teljum einhver vandkvæði vera á að verða við slíkum óskum, þá fer "beiðarinn" undantekningalítið að kyrja lagið á staðnum og við eigum auðvitað að hlusta andaktugir. Oftar en ekki er viðkomandi bæði sauðdrukkinn og alveg óralangt frá hinum einna sanna tón ef svo mætti segja. Að flutningi loknum er síðan fastlega reiknað með að við höfum lært bæði lag og texta og sé nú fátt að vanbúnaði. En við höfum þróað með okkur varnartækni sem dugar yfirleitt í slíkum tilfellum. Ég beini straumnum sem til mín fellur til Axels sem heyrir síðan ekki neitt í neinum og hristir bara höfuðið í sífellu með uppgerðan vandræðasvip, því ég er þá þegar byrjaður á næsta lagi. Og þegar svo er komið er fátt annað hægt að gera en að halda þræðinum og sá eða sú sem vill fá skrýtna lagið sem við kunnum ekki bíður yfirleitt ekki lengi eftir næsta tækifæri til spjalls. Svo er vissulega vert að geta þess að maður sem er greinilega kominn örlítið yfir miðjan aldur og svolítið frjálslega vaxinn um miðstykkið, var kominn úr að ofan og upp á borð þar sem hann tók virkan þátt í dansinum. En það er nú svo algeng sjón að það tekur því varla að minnast á slíka smámuni. Að vísu var illa hægt að verjast því að brosa lítillega út í annað því að svona atriði hafa jú ótvírætt skemmtanagildi. En fulltrúi Stöðfirðinga sem var eins og alltaf í fantagóðu stuði. var ekki seinn á sér að grípa inn í þegar Axel skrapp frá eftir meira kaffi en ég naut liðsinnis hans á meðan. Eftir þrjú lög þakkaði ég svo listamanninum fyrir framlag hans og Axel komst aftur í stæðið sitt.
En svona eiga skröll að vera eða hvað?





Það heyrir eflaust til undantekninga að menn komi akandi á ball á svona bíl, en þannig var það nú samt. Og í ofanálag kom ökumaðurinn og ballgesturinn alla leið frá Akureyri. Mér þykir þó ekki með öllu útilokað að hann hafi átt einhver fleiri erindi suður yfir heiðar - svona í leiðinni.

(based on a true story.)

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 318
Gestir í dag: 105
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477212
Samtals gestir: 52729
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 05:17:08
clockhere

Tenglar

Eldra efni