08.03.2008 13:10

Aftur um ruslabílinn.

455. Þegar ég átti leið um stæðið fyrir framan Laugarásvideó á dögunum rifjaðist upp þessi gamla saga um ruslabílinn og ég endurbirti hana því hér að neðan. Það er reyndar ekki alveg að ástæðulausu því henni var greinilega ekki lokið á sínum tíma þrátt fyrir að ég hefði talið svo vera.

333. Ég er núna búinn að komast yfir nægilega mörg sögubrot, og hef nú raðað þeim saman í svo heilstæða mynd til að tími telst kominn á svolitla sögustund. Ritari tekur sér svolítið skáldaleyfi rétt til að gera aflesturinn "meira líðandi," en við "sögulegum staðreyndum" er ekki hróflað. Heimildamenn mínir eru allnokkrir, auk þess sem ég kom sjálfur lítillega að atburðarásinni. En aðal söguhetjan er eins og svo oft og svo víða, Gunnar Jósefsson, (G.J.) fyrrverandi meðeigandi minn að Laugarásvideó. Hann hefur oft komið mér rækilega á óvart með óvæntum og ólíkindalegum útspilum sínum í áranna rás, en segja má að nú taki steininn alveg úr. Stundum er eitt og annað sagt um menn þegar uppátækjasemi þeirra keyrir um þverbak, svo sem að þeir hafi tekið vitlausa beygju, farið öfugt fram úr rúminu þá um morguninn eða eitthvað í þeim dúr. Í beinu framhaldi af slíkum vangaveltum vil ég segja eftir að hafa áttað mig á atburðarrásinni, að mérvafðist eiginlega tunga um höfuð þegar ég fattaði djókið.
Látum þennan inngang nægja og hefjum nú söguna.



                                        Ruslabíllinn og G.J. hinn nýji og stolti eigandi hans.

Dag einn á leigunni sagði G.J. við afgreiðslumennina tvo nánast upp úr þurru.
"Ég er búinn að finna út úr þessu með ruslið."
Fyrir þá sem ekki vita, þá er forsaga málsins sú að fyrir nokkrum árum hætti Sorpa alveg og endanlega að hirða rusl frá fyrirtækjum jafnt smáum sem stórum. Laugarásvideó var eitt þeirra fjölmörgu smáfyrirtækja sem sömdu þá við Gámaþjónustuna um vikulega tæmingu sorpíláts. Að vísu var farið fram á greiðslu fyrir þjónustuna, og það var eitthvað sem G.J. átti erfitt með að sætta sig við. Hann fór ekki leynt með þá skoðun sína að þessi þjónusta ætti að vera "ókeypis" hér eftir sem hingað til, og hann hélt langar og miklar einræður um ósanngirnina sem hann og hans starfsemi yrði sífelt fyrir. Auðvitað hafði hann alltaf greitt fyrir þjónustuna, en bara aldrei almennilega gert sér grein fyrir greiðslufyrirkomulaginu. Sorphirðugjaldið var innheimt með fasteignagjöldunum sem hann taldi líka afar ósanngjörn. Með þeim var verið að refsa mönnum fyrir að hafa eignast eitthvað um dagana. Holræsagjaldið var að hans mati svívirðilegur skítaskattur, og vatnsskatturinn var hreint rán. Því það var fyrir löngu síðan búið að borga þessi ryðguðu rör sem höfðu verið grafin ofan í jörðina fyrir margt löngu. En hann fékk alltaf þennan leiðinda miða í pósti snemma á árinu, en stakk honum bara ofan í í skúffu án þess að lesa hann og þess vegna vissi hann ekki fyrir víst hvað stóð á blaðinu. Að hans mati var þetta listi yfir skatta sem hétu alls konar nöfnum, og áttu það eitt sameiginlegt að greiðandinn fékk nákvæmlega ekkert fyrir peningana sem hann innti af hendi. En ruslabíllinn kom alltaf eldsnemma á þriðjudagsmorgnum og karlarnir drógu tunnurnar að bílnum. Þær voru tæmdar og þeim síðan skutlað aftur upp að húsveggnum, en reyndar með allt of miklum hávaða. Hann hafði nokkrum sinnum hringt og kvartað yfir látunum í körlunum sem komu "eldsnemma fyrir hádegi" eins og hann orðaði það, en án nokkurs árangurs. Það var svo ekki fyrr en Sýslumaður var farinn að hafa í hótunum og Stefnuvotturinn var búinn að koma í heimsókn, að G.J. greiddi skuld sína við samfélagið en með miklum semingi og eftirsjá.



                                        Afgreiðslumennirnir Steinþór og Hörður.

En nú var hann sem sagt búinn að finna út úr þessu með ruslið. Þessi yfirlýsing hafði komið svo alveg upp úr þurru að nærstaddir afgreiðslumenn litu ósjálfrátt upp. Svipur þeirra lýsti svolítilli undrun og þeir biðu eftir framhaldinu.
"Ég segi bara upp þessum samningi við Gámaþjónustuna og fer með ruslið heim." G.J. leit hróðugur á félagana sem fannst ennþá vanta botninn í frásögnina.
"Er ekki nóg af rusli heima hjá þér?"
"Ég set það náttúrulega bara í ruslatunnuna heima og spara mér þannig tuttuguogfimmþúsundkall á ári."
Og G.J. lét ekki sitja við orðin tóm, heldur sagði samningnum við Gámaþjónustuna upp, því hann var sem sagt alveg búinn að upphugsa hvernig hann gæti sparað sér tuttuguogfimmþúsundkall á ári. Dagarnir liðu og Gámaþjónustan hætti að þjónusta þetta litla fyrirtæki og tók tunnuna sína. En einhver vanhöld urðu á áætluninni um að fara með ruslapokana heim að loknum vinnudegi, og þeim fjölgaði smátt og smátt á myndbandaleigunni Laugarásvideó ehf. Til þess að þeir væru ekki að flækjast fyrir fótum manna, voru þeir stæðaðir á bak við snakkvegginn.
"
Bráðum fæst líka snakk með sorpbragði" sagði annar afgreiðslumannanna glottuleitur á svip, dag einn þegar lofið var farið að þykkna vegna fnyksins frá úrganginum. En hann uppskar ekkert nema augngotur eigandans yfir risastór gleraugun og þrúgandi þögn í dágóða stund.

Dagarnir liðu og anganin varð bæði fyllri og dýpri.
"Þetta er að verða svolítið mettað hérna." Einn af föstu viðskiptavinunum blakaði hendinni fyrir framan vit sér með miklum leikrænum tilburðum og lét eins og það ætlaði að líða yfir hann. Annar afgreiðslumaðurinn leit á hinn, en eigandinn hleypti brúnum og sagði ekki neitt.
Seinna sama dag tók hann annan afgreiðslumanninn tali rétt eins og af tilviljun.
"Heyrðu, þú átt sendibíl er það ekki?"
"Jú, og hann er til sölu."
"Ertu ekki til í að lána mér hann svona rétt hérna á milli húsa. Ég þarf að skjótast aðeins í Sorpu."
Og hann fékk bílinn lánaðan, ók honum upp að dyrum leigunnar og fyllti hann af rusli. Og þegar ég segi fyllti, þá meina ég það því farþegasætið við hlið ökumannsins G.J. var líka svo fullt að ruslapokarnir þrýstust fram í sjálfa framrúðuna.
"Aktu varlega svo rúðan springi ekki út," sagði eigandi bílsins.
Hann fékk ekkert svar við þessari athugasemd aðrar en hinar frægu augngotur yfir risastór gleraugun.
G.J. gaf þær skýringar á gámastöð Sorpu að þetta væri bara heimilissorp, og þrátt fyrir að starfsmenn þar á bæ væru vantrúaðir á þá sögu slapp hann við að borga.
Hann snéri því ánægður til baka að losun lokinni.

Og tímans hjól hélt áfram að snúast, og áður en langt var um liðið var ástandið orðið engu betra en daginn sem ruslaferðin var farin. Viðskiptavinir voru farnir að kvarta yfir ólyktinni, og það hafði jafnvel verið varpað fram þeirri ósvífnu spurningu hvort starfsmenn færu aldrei í bað. G.J. bað því aftur um að fá bílinn lánaðan, en eigandi hans spurði hvort hann vildi ekki bara kaupa hann því það vantaði greinilega fyrirtækisbíl í svona "minni háttar snúninga."
G.J. horfði stutta stund á viðmælanda sinn rannsakandi augnaráði.
"Nei, það er miklu ódýrara fyrir mig að fá hann bara lánaðan hjá þér þegar ég þarf að nota hann."
Það var svo í þriðja skipti sem þurfti að fara með rusl, að sagan tók svolítið nýja og óvænta stefnu.
"Ég er eiginlega búinn að selja hann," svaraði afgreiðslumaðurinn og eigandi bílsins þegar G.J. bað um að fá hann lánaðann.
"Væntanlegur kaupandi er með hann til reynslu, og ég veit ekki hvort ég fæ hann aftur."
Þetta kom svolítið flatt upp á G.J. og "yfir til þín greiðslan" aflagaðist lítillega þegar hann strauk hendinni yfir hátt og gáfulegt ennið.
"Ég skal bara kaupa hann ef þú nærð í hann strax," sagði hann svolítið fljótmæltur.
Það var auðvitað ekki mikið mál að sækja sendibílinn, en eftir að ruslaferðin hafði verið farin, var ekkert minnst frekar á kaupin þann daginn. Eftir að umræðu um bílasölumálið hafði verið komið alloft af stað en eytt jafnoft, fór þó svo að lokum að það var samþykkt með miklum semingi að ganga frá sölunni.

Það var einmitt daginn sem afhending og greiðsla fór fram að ég fékk upphringingu.
"Ertu nokkuð staddur í Reykjavík?"
"Já," svaraði ég því ég var einmitt staddur í Reykjavík.
"Ertu nokkuð á leiðinni til Hafnarfjarðar?"
"Já," svaraði ég aftur því ég var einmitt á leiðinni til Hafnarfjarðar.
"Fæ ég nokkuð far?" Sá sem hringdi sagði mér þá að hann hefði loksins verið að afhenda sendibílinn endanlega sem hann hafði lengi reynt að selja, og vantaði nú far heim.
"Já, já," svaraði ég.
"Og þú veist hvar ég er er það ekki"
"Mig grunar það sterklega. Ég renni bara við og flauta fyrir utan."
"Neeeiii, ertu brjálaður. Þú veist að það er samskiptabann í gangi, það má enginn sem vinnur hérna þekkja þig. Leggðu bara við endann á húsinu og ég kem út þegar ég er búinn að ganga frá mínum málum eftir smástund."
Skömmu síðar var ég búinn að leggja í stæði við enda hússins sem hýsir Laugarásvideó og beið eftir væntanlegum farþega. Eftir nokkra stund sé ég hvar kunnuglegur grænn bíll ekur inn á stæðið. Ökumanninum virðist fastast stjórn ökutækisins þegar hann sér mig og mér sýnist nærvera mín koma honum í svolitla geðshræringu. Hann tekur vinkilbeygju fyrir horn hússins og ég heyri að bílhurð er skellt aftur. Þarna var á ferðinni hinn afgreiðslumaðurinn og sá þeirra sem engan hafði átt sendibílinn. Ekki leið á löngu þar til farþeginn væntanlegi kemur gangandi fyrir húshornið og ég sé að hann er óvenju brosmildur á svipinn og sýndist jafnvel eiga erfitt með að skella ekki upp úr.
"Hörður sá þig og kom inn og klagaði. Húsbóndi minn bannar mér að þiggja far hjá þér og segist sjálfur ætla að keyra mér til Hafnarfjarðar."
"Ókey," svaraði ég og glotti svolítið líka, því þetta var auðvitað alveg bráðfyndið.

Og vissulega þarf hinn framsýni og útsjónasami G.J. ekki lengur að sjá af tuttuguogfimmþúsundkalli á ársgrundvelli til afætufyrirtækisins Gámaþjónustunnar hf. Hann keypti sér nefnilega sinn eigin ruslabíl. Nú getur hann látið hann standa á stæðinu fyrir framan húsið og notað hann sem ruslagám. Á 2 - 4 vikum er hann orðinn svo fullur að ökumaðurinn kemst naumlega fyrir í honum, og þá er skroppið í Sorpuferð og hann losaður. Síðan er ekið aftur á heimaslóðir og sagan endurtekur sig.

Ofanritað birtist á gömlu síðunni í janúar á síðasta ári og  svo mörg voru þau orð í það skiptið, en hverfum aftur til dagsins í dag...



Og svona lítur þá ruslabíllinn út í dag. Hann gegnir núorðið tvíþættu hlutverki sem eigandi hans lítur væntanlega á sem tvöfaldan gróða ef ég þekki hann rétt. Hann er annars vegar eins konar söfnunargámur fyrir sorp frá leigunni, en hins vegar þar sem hann er gjarnan staðsettur á áberandi stað á stæðinu við gatnamót Dalbrautar og Kleppsvegar er hann líka auglýsingaskilti á fjórum hjólum. Og þegar ég átti leið þarna um á dögunum sá ég að engin skráningarnúmer voru lengur á bílnum og ákvað að kanna málið frekar.



Og þegar betur var að gáð kom í ljós að gamlir taktar gleymast ei, eða kannski er réttara að tala um gen í þessu tilfelli. Auðvitað er mun erfiðara að koma hlutunum í verk þegar t.d. opinberar stofnanir, skoðunarstöðvar bifreiða og fjöldi annarra fyrirtækja loka eins snemma og raun ber vitni, eða þegar vinnudagur "sumra" er eiginlega rétt að hefjast. Það er bókstaflega ekkert tillit er tekið til þeirra sem vaka meðan aðrir sofa og öfugt. Það má því segja að það sé vissulega enginn skortur á ósanngirni í þessum heimi.



Samkvæmt mínum heimildum var bíllinn tæmdur um miðjan des 2007, en í febrúarlok er hann löngu orðinn fullur og svo er engu minna magn af tómum pappakössum, mataleifum og ýmsum öðrum úrgangi inni á myndbandaleigunni, bæði á sælgætislagernum og á bak við snakkstæðurnar. Andrúmsloftið er líka farið að þykkna lítillega og torkennilegur keimur fitlar við vit þeirra sem inn koma.



Hér má því sjá bíl sem eigandinn hefur vanrækt að færa til skoðunar og hann þess vegna verið sviptur réttinum til að aka meðal annarra sjálfrennireiða á götum bæjarins. Ennfremur er hann fullur af sorpi sem sumt er aldurs síns vegna í þann veginn að komast leiðar sinnar án þess að því sé ekið. Og spurningin sem vaknar þegar litið er til gulu borðanna sem límdir eru utan á hann og málið er skoðað í heild sinni hlýtur því að vera: Er þetta góð auglýsing?

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480914
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:38:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni