26.03.2008 11:57
Jepparnir fyrir framan Bónus.
459. Á tímum hraðlækkandi gengis íslensku krónunnar og því mikilla verðhækkana á innfluttum nauðsynjum jafnt sem ónauðsynjum, má sjá að hegðunarmynstur landans virðist lítillega vera að byrja að breytast. En það eru ekki bara brýnustu nauðsynjar sem stíga nú ört í verði, heldur einnig og ekki síður neyslulánin sem tekin hafa verið í erlendri mynt.
Þegar ég kom í bæinn í gær, þurfti auðvitað að skreppa út í búð og versla inn í hálftóman ísskápinn sem heima beið "svangur" og kaldur. Athygli mín var vakin á samsetningu bílaflotans sem breiddi úr sér á stæðinu fyrir framan Bónus á Völlunum í Hafnarfirði. En Bónus sem margur maðurinn í sæmilegum efnum og "holdum" hefur hingað til litið á sem búð "litla mannsins," hefur auðvitað alltaf verið opin báðum þjóðunum sem búa í landinu. Ég held að ég treysti mér til að fullyrða að svona hátt hlutfall jeppa í dýrari kantinum hef ég aldrei séð á þessu tiltekna stæði. Nú hafa sem sagt erlendu myntkörfulánin hækkað upp úr öllu valdi, svo að a.m.k. sums staðar verður eitthvað undan að láta. Þeir sem hafa verið í þykjustuleik sýndarmennskunnar og keypt jeppa á 90 eða 100% láni, verða því margir hverjir að stíga ofan af loftkenndum stalli sínum og drepa eins og öðrum fætinum á jörðina. Þeir hinir sömu verða sem sagt að skera niður og versla eins ódýrt fóður og kostur er til að eiga fyrir afborgunum til SP, Lýsingar eða Glitnis.
Frá Bónus lá leið mín í Krónuna sem er líklega eina búðin sem veitir Bónusfeðgunum einhverja alvöru samkeppni. Þar var líka fullt út úr dyrum og farið að bera lítillega á vöruskorti í hillum því ekki hafðist undan að bera í þær. Þar sá ég hæstvirtan fjármálaráðherra vera að kaupa sér slátur og fleira fóður af þjóðlegra taginu þrátt fyrir að Þorrinn sé búinn og Góan tekin við. Ætli Árni hafi kannski keypt sér jeppa nýverið á vondu bílaláni eða er hann bara skynssamur maður. Ég hallast nú reyndar frekar að hinu síðara.