30.04.2008 20:55

Fyrsta fjallganga ársins.



471. Þegar degi tók að halla föstudaginn 18.apríl  s.l., var lagt af stað norður á Sigló. Fyrir mig átti þetta að vera helgarferð á heimaslóðuim en Magga ætlaði að verða eftir um óákveðinn tíma í húsmæðraorlofi eins og hún kallaði það. Hún gaf út þá yfirlýsingu að nú yrði skyr í alla mata a.m.k. fyrstu vikuna og hún myndi vaska upp að hámarki tvær teskeiðar á dag. - Rétt er að láta þess getið að ágætt bókasafn er á staðnum.



Myndirnar tvær hér að ofan eru teknar af brúnni yfir Blöndu, eða nánast af hlaðinu hjá Blönduóslöggunni stórvarasömu. Vel má sjá fjöllin á Ströndunum þar sem þau standa upp úr haffletinum hægra megin.



Hér má sjá Drangey standa aðeins upp fyrir gömlu aflögðu og einbreiðu brúna á Héraðsvötnum vestari. "Kvöldroðinn bætir, morgunroðinn vætir" stendur einhvers staðar og víst er að sá fyrrnefndi bætti útsýnið norðan heiða svo um munaði þetta kvöld.



Daginn eftir voru teknar margar myndir af Síldarbænum, enda veðrið til þess eins og sjá má. 



Það var ekki fyrir nokkurn mun hægt að loka sig inni á slíkum degi. Óhætt er að segja að sjórinn hafi verið spegilsléttur í víðtækustu merkingu þess orðs.



Það fjaraði á Leirunum og nokkrir fiðraðir trítlarar og svamlarar ýmist flutu þar um eða spígsporuðu um í leit að æti. Ef vel er að gáð sjást "hús" sandmaðkanna standa lítillega upp úr yfirborðinu.



Ég komst samt ekki hjá því að gjóa augunum annað slagið upp eftir Stórabola og hlíðum Hafnarfjalls. Það var nú líklega allt of mikill snjór til að fara að príla í fjöll ennþá, en samt var nú melurinn fyrir sunnan Strengsgilið auður alla leið upp á brún.



Og svo er þessi gríðarlega breyting á landslaginu fyrir ofan bæinn sem ég á svolítið erfitt með að venjast.



Og líklega væri engu logið upp á himinninn ef sagt væri að hann væri frekar blár þennan frábæra dag.



Eitt af betri skotstæðunum (fyrir myndavélar) er fyrir ofan Jóhannslund í skógræktinni.



Ef það er snjór, gott veður og Ríkið er lokað, verða að teljast yfirgnæfandi líkur á að Ómar Möller sé úti að moka snjó.



Ég skrapp upp á Skarð og undraðist mjög hve þar var fámennt miðað við að aðstæður til skíðaiðkunnar voru tvímælalaust með allra besta móti. Ég hallast því að þeirri skoðun sem fram hefur komið að skíðasvæðið á Siglufirði sé undarlega vel varðveitt leyndarmál sem full ástæða væri til að láta vita betur af.



Á brúnni yfir Skútuá sat hann þessi og var hinn rólegasti meðan ég mundaði myndavélina.



Ég lagði bílnum við rætur Stórabola og rölti upp í fjallið sunnan við Strengsgilið. Ég var þar með lagður af stað í fyrstu fjallgöngu ársins, en þó án þess að gera mér fyllilega grein fyrir því til að byrja með. Ég ætlaði í fyrstu aðeins að rölta svolítið upp í hlíðina til að ná nokkrum góðum skotum í blíðunni og það lá auðvitað beint við að byrja á Hólshyrnunni.



Útsýnið yfir fjöllin austan fjarðarins og inn af honum varð betra eftir því sem ofar dró



Fyrir miðjum Hólsdalnum rís Blekkill (776 m.), tignarlegt fjall sem ég hef oft litið vonaraugum til. Einhvern tíma verður það gengið, en líklega er skynsamlegt að bíða eftir að snjóa leysi. Ég man óljóst eftir að hafa heyrt einhverjar gamlar sagnir um mannskaða í fjallinu og ef einhver veit meira um það væru frekari upplýsingar vel þegnar.



En lítið sást til bæjar því Stóriboli byrgði sýn. Það var því ekki um annað að ræða en halda aðeins ofar. Það var einhvers staðar þarna sem ég velti fyrir mér hvort þetta væri rétti dagurinn til að fara alla leið upp á Hafnarhyrnuna, en hún er búin að vera ofarlega í huga undanfarið. Ég fann að ég var ekki í sérlega góðu formi, en skítt með það. Alla vega 20 - 30 metrar í viðbót.



Þarna var orðið mjög bratt og mér fannst eiginlega vera nóg komið í bili. Þetta var líklega ekki mjög skynsamlegt og ég búinn að vera full slakur til hreyfings mánuðum saman. En ég afréð að bæta við 20 - 30 metrum og sjá svo til. Ég var líka kominn upp fyrir Stórabola og fyrir ofan mig mátti sjá klettana sem kallaðir voru Tröllakirkja a.m.k. á Brekkunni hér í eina tíð.



Þarna fyrir sunnan eru líka klettar. Gaman væri að skoða þá aðeins betur við tækifæri, en það yrði þó ekki gert í þessari ferð. Ég var í raun alveg búinn að fá nóg en bætti samt við öðrum 20 - 30 metrum.



Ég var nú kominn jafnhátt Tröllakirkju og það var orðið mjög stutt upp á brúnina. Svo stutt að það var auðvitað með engu móti hægt að snúa við úr þessu. Áfram skyldi þá haldið.



Af brúninni var nú hægt að sjá Eyrina og bæinn að mestu.



Þegar ég segi "af brúninni" er ég að tala um brún Leirdala sem eru fyrir ofan Fífladali.



Nú blasti Hafnarhyrnan við í öllu sínu veldi, en hún er nyrsti hluti Hafnarfjalls.



Skuggarnir voru farnir að lengjast niðri í firðinum en hérna uppi var enn glampandi sól.



Þessi kassi varð á vegi mínum þarna uppi á reginfjalli, rétt eins og hluturinn "sem stingur í stúf" í einhverju súrrealísku verki.



Ég varð auðvitað að gá hvað væri í honum. Og viti menn, þarna var fullt af einhverju torkennilegu dóti sem sumt var merkt Veðurstofu Íslands.



Það var allt á kafi í Leirdölunum og byrjað að myndast þunnt hjarn ofan á snjónum. Samt var ágætt að ganga og ég sökk sáralítið ofan í snjóinn sem var alveg passlega þéttur í sér.



Hnjúkarnir austan fjarðarins teygðu sig í mikilfengleika sínum upp fyrir brúnina.



Í suðri kom Illviðrishnjúkur betur og betur í ljós eftir því sem ofar dró.



Lítilsháttar klettapríl framundan.



Og áfram gakk.



Illviðrishnjúkur var nú orðinn allvel sýnilegur og það rifjaðist upp að þangað kom ég ásamt nokkrum samferðungum fyrir u.þ.b. 40 árum. Það fer líklega að verða fljótlega kominn tími á hann aftur.



Ég var nú kominn langleiðina upp og sá nú vel ofan í Hvanneyrarskálina. Fyrir norðan hana er svo fjallið Strákar sem ég heyrði fyrir stuttu að hefðu í eina tíð heitið Strókar. Það var freistandi að ganga brúnirnar í kring um Hvanneyrarskálina og á Strákafjall, en ég vissi að tíminn myndi líklega hlaupa frá mér einhvers staðar á leiðinni og það yrði orðið dimmt áður en þeirri göngu lyki.



Út á Siglunes



Ysta hluta snjóflóðavarnargarðanna og Ströndina.



Húsin í bænum voru eins og kubbahús og ökutækin eins og litlir leikfangabílar.



Ég var nú kominn upp fyrir svolítð klettabelti í Hafnarhyrnunni.



Og framundan var svo hæsti tindurinn, - og þangað hélt ég auðvitað.



Takmarkinu var náð. Fyrir vestan mig eru lág fjöll upp af Leirdölum sem erui ekki sýnileg neðan úr bæ. En af toppnum er því sem næst þverhnípi niður í botn Hvanneyrarskálar. Ég gægðist fram af brúninni en var fljótur að bakka því ég var ekki viss nema ég stæði á snjóhengju.



Illviðrishnjúkur (895 m.) enn og aftur. Lengi vel hélt ég að hann væri hæsta fjall við Siglufjörð og því halda enn margir fram, eða þar til ég vissi að Almenningshnakki væri 915 m. En hnjúkurinn er miklu flottari...



Það er ekki oft sem maður getur litið niður á kollinn á Hólshyrnunni (683 m.), en það er alveg hægt frá Hafnarhyrnunni. (687 m.)



Fjöllin austan Héðinsfjarðar gægjast upp fyrir Kálfsdalinn og nágrenni. 



Og það skín enn sól úti á Siglunesi.



Það er komið kvöld og tímabært að fara að hugsa til heimferðar. Þarna niður frá er Norðurtún, en hún er syðsta gatan á Siglufirði svo öfugsnúið sem það er. Hverjum datt þessi nafngift í hug?



Héðan sést líka ágætlega út á Skagafjörð. Vegurinn á myndinni er beygjan undir Mánárskriðum.



Og rétt er að leggja fram óræka sönnun þess að ég fór þarna um í raun og veru en fékk ekki myndirnar lánaðar hjá einhverjum sem ekki vildi láta narns síns getið. En það má hins vegar glögglega sjá að það er orðin full þörf fyrir meiri hreyfingu eftir súkkulaðitímabilið mikla.



Leiðin niður af toppnum til vesturs.



Og svo til suðurs niður að Blýkerlingamel.



Og aftur er slóðin mynduð, en í þetta sinn fékk skugginn ekki að vera með á myndinni.



Ég kvaddi með svolítilli eftirsjá því ég hefði viljað vera þarna miklu lengur.



Hér hallar annars vegar niður til Siglufjarðar en hins vegar til Úlfsdala.



Það gerðist kvöldsettara og ég stillti myndavélina á "sunset" og tók nokkrar myndir á móti sól.



Mánárhyrna - Mánárskriður.



Hvergi sá á dökkan díl í Leirdölunum og ég fór einu sinni hálfur á kaf á leiðinni. Líklega hefur einhver gjóta verið undir snjóskaflinum, en ég kraflaði mig upp á hélt áfram.



Hér var ég kominn á svipaðar slóðir og fyrir ári síðan þegar ég lenti í sjálfheldu þarna við snjóflóðavarnirnar fyrir ofan Fífladal og nokkrir hrafnar voru farnir að krunka í kring um mig og virða mig fyrir sér.



Ég fór að þessu sinni niður norðan Strengsgils og eftir Stórabola.



Ég var eiginlega búinn að fá alveg nóg í dag, klukkan var að verða 10 þegar ég kom í hús og ég gerðist sjónvarps og sófadýr þá stuttu stund sem eftir lifði kvölds.



Klukkan hálftíu á sunnudagsmorgni skrapp ég niður á bensínstöð og hitti þar fyrir vin minn Steingrím (Lífið á Sigló). Ég sagði honum frá ferðalaginu frá því deginum áður og við sátum á tali (og mali) fram undir hádegi.



Og eitt skot í viðbót af Hólshyrnunni og því sem enn stendur af Hafliðaplaninu frá fjörunni við bensínstöðina.



Það var kominn mánudagur og ég var á leiðinni úr bænum. Það er sennilega ekki algengt að skólabörnin fjölmenni á pöbbinn í hádeginu, en í þessu tilfelli er það fullkomlega eðlilegt. - Þau eru nefnilega svöng.

Ég rakst áðan á línurnar hér að neðan þegar ég var að leita að gömlum myndum í möppu frá síðasta ári, en þær hef ég sett í ploggpistil þ. 11. maí í fyrra.

Ég var á dögunum að gera svolítinn óskalista yfir þá staði sem mig langar að heimsækja í sumar, og eftir nokkrar vangaveltur varð til eins konar topp-tíu listi.

Hólshyrnan (hressilegur labbitúr með Steingrími og myndavélunum okkar.)
Héðinsfjörður yfir Hestsskarð (en þangað hef ég aldrei komið.)
Illviðrishnjúkur (því ég átti enga myndavél síðast þegar ég fór)
Selvík og Kálfsdalur (sem þangað kom ég síðast fyrir 40 árum.)
Hafnarfjall (til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Esjan (til að geta sagt að ég hafi farið þangað upp, og til að ná góðri mynd af Reykjavík.)
Reykjaneshringurinn (því það er fulllangt síðan síðast.)
Virkjanaleiðin upp eftir Þjórsá (til að telja hvað virkjanirnar eru margar, eða til að reyna að átta sig á hvað þær gætu hugsanlega orðið margar.)
Vík og Mýrdalurinn ásamt næsta nágrenni (því þar er bæði landið fagurt og fólkið gott.)

 Eins og gengur rætast ekki allar spár, óskir eða villtustu draumar og í þessu tilfelli væri e.t.v. hægt að tala um 40 - 50% "rætingu" með því að búa sér til sértæka reiknireglu að aðlaga hana síðan sinni hugmyndafræði.

Hólshyrnan var gengin, en að vísu án Steingríms sem fylgdist vel með okkur Magga af svölunum hjá sér og náði ótrúlegri mynd af okkur á toppnum úr 7 km. fjarlægð.
Héðinsfjörður var að vísu sigldur en ekki genginn, en nóg var nú gengið samt þegar þangað var komið. Frábær ferð daginn eftir Hólshyrnuna í fylgd góðra manna.
Illviðrishnjúkur varð ekki klifinn að sinni, en það komu í leitirnar myndir sem teknar voru í ferðinni fyrir 40 árum. Ég mun nálgast þær innan tíðar og flagga þeim hér á síðunni.
Selvík og Kálfsdalur (ásamt Reyðarárdal og Siglunesi) átti að gangast í ferðinni með Önnu Maríu þegar hún varð fimmtug, en þar sem ég hafði þá nýlega snúið undir mér löpp við fjallapríl í Hrómundartindum varð ég að taka það rólega í nokkrar vikur.
Framtaks og tímaleysi urðu til þess að ég gekk ekki á Hafnarfjall og Akrafjall.
En Esjan var farin tvisvar og þá sitt hvor gönguleiðin í hvort skiptið. Fyrst svokallaðar Smáþúfur, en síðan Þverfellshornið sem er langmest gengin.
Reykjaneshringurinn var farinn tvisvar, en aðeins að hluta í hvort skipti og enn vantar nokkra kílómetra upp á að honum hafi verið alveg lokað.
Virkjanaleiðin gleymdist hins vegar alveg og hefur ekki komið upp í hugann fyrr en nú þegar ég las þessar línur aftur ári síðar.
Heill dagur var tekinn í skoðun á Vík og Mýrdalnum, en það dugði hvergi til. Reyndar fór talsverður tími í skoðun ýmissa merkra staða á leiðinni en ljóst er að fara þarf aftur í sumar til að komast lengra áleiðis í því verki.

En nýr topptíu listi fyrir árið í ár gæti litið einhvern vegin svona út...

Frá Hestskarði upp á Hestskarðshnjúk, þaðan niður eftir fjallsbrúninni til norðurs og upp á Staðarhólshnjúk. Síðan áfram til "norðurs og niður" og upp á Hinrikshnjúk, en þaðan niður í Kálfsdal, Selvík og bakkana og fjöruna inn að Ráeyri..
Siglufjarðarskarð - Hólsskarð. Ekið upp í Skarð og gengið þaðan yfir Afglapaskarð, Hákamba, Leyningssúlur, Selfjall, Blekkilshorn, Blekkil, Fiskihrygg, Almenningshnakka og loks niður í Hólsdal við Hólsskarð.
Hestsskarð - Hólsskarð. Gengið upp í Hestsskarð síðan til suðurs á Pallahnjúk, Dísuna, Móskógarhnjúk, Presthnjúk og komið niður úr Hólsskarði Hólsdalsmegin.
Siglufjarðarskarð - Illviðrishnjúkur - Hafnarfjall - Hvanneyrarskálahringurinn - Strákafjall.
Hafnarfjall (Önnur tilraun til að ná góðri mynd af Borgarnesi.)
Akrafjall (Líka önnur tilraun til að ná góðri mynd af Akranesi.)
Aftur í Mýrdalinn, en að þessu sinni m.a. til að skoða Heiðardalinn og Þakgil.
Keilir. Ljúka við göngu á Keilir, en á síðasta ári hreinlega fukum við niður af honum þegar við vorum u.þ.b. hálfnaðir upp.
Kaldbakur sem er milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, en það er hæsta fjall á Vestfjörðum.
Virkjanaleiðin má gjarnan rata aftur á listann, en líklega er hún ekki mjög krefjandi þegar kemur að líkamlegri áreynslu. - En hún er flott...

Og svo er bara að sjá...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 448
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495825
Samtals gestir: 54720
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 14:42:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni