07.05.2008 05:26
Málningarvinna.
472. Meðan Magga dvaldi norður á Sigló, nærðist á skyri og vaskaði upp teskeiðar, fékk ég þá flugu í höfuðið að mála baðherbergið hér syðra sem var alveg komið á tíma. Hér í eina tíð var eiginlega komin hefð á að þegar hún fór í sitt svo til árlega "húsmæðraorlof," var eitt herbergi tekið fyrir á meðan og það málað hátt og lágt. Þessari hefð hefur verið ágætlega við haldið þau ár sem að baki eru, og ekki stóð til að breyta neinu í reglugerðarverkinu að þessu sinni. En þar sem herbergi, aðgreind rými, vistarverur eða hvað við viljum kalla það eru alls átta í íbúðinni að öllu meðtöldu, ætti hún því að vera máluð frá a til ö á u.þ.b. átta ára fresti samkvæmt þessari aðferð. Það hefur nokkurn veginn alveg gengið eftir.
Það hefur komið í minn hlut og fylgt framkvæmdinni að velja og bera alla ábyrgð á litavalinu, en að þessu sinni verður að viðurkennast að á þeim þætti málsins var tekið með nokkurri léttúð. Það var nefnilega hafist handa á fimmtudegi (1.maí og uppstigningadegi í ofanálag) þegar alls staðar var lokað þar sem málningu var að hafa. Ég lagði því leið mína í geymsluna þar sem marga og misgamla afganga var að finna frá liðnum árum í þeirri von að eitthvað hentaði í umrætt verkefni. En þar sem eiginlega ekkert var til af heppilegum litum í nægjanlegu magni, var brugðið á það ráð að fara þá leið sem er vel við hæfi á krepputímum.
Ég hafði í flestum tilfellum merkt lokin með hinum ýmsu nöfnum og rifjuðust upp nokkur gömul handtök og uppákomur við lesturinn. "Baldursgata stofa," "Báru-bleikt," "Bláa herb. við Njálsg.," "Hvst-veggir (Hvst stendur fyrir Hallveigarstíg)" "Stofurautt," "Símahvítt," o.s.frv. Þess má geta að "Síma-hvítt" er ekki beint nafnið á litnum, heldur kom það til vegna þess að ég missti gemsann úr brjóstvasanum ofan í 10 lítra málningarfötu þegar ég laut yfir hana. Ég kafaði strax eftir símanum og þreif hann í skyndi með öllum tiltækum og að talið var skynsamlegum ráðum, en það er annars af honum að segja að hann er enn í fullri notkun og þjónar herra sínum og eiganda með stakri prýði.
Ég byrjaði á loftinu og tíndi til alla þá málningu sem var frá "Kópal," helti henni saman og úr varð liturinn sem fór á loftið. Því næst hrærði ég saman þá afgangana sem eftir stóðu, en sleppti að vísu tveimur að eðlilegri ástæðu að mér fannst. Annar var hárauður, en hinn var dökkgrænn. Eftir heilmikla hrærivinnu með grautarsleif var kominn liturinn sem nota skyldi á veggina og þar sem pensill og rúlla var orðin vel þurr og þrifaleg eftir þvott og hreinsun frá fyrri áfanga var auðvitað ekki eftir neinu að bíða.
Og að lokum þegar litið er yfir verkið verð ég að segja: Alveg ótrúlegt hvað litasamsetningin heppnaðist (að mínu mati) með eindæmum vel miðað við blöndunaraðferðina og ekki varð úr einhver "ólitur."
HEPPINN...
VIÐBÓT: Mynd samkvæmt áskorun (mín millilínalesning) og eindreginni ósk frá Gunnari Th. sem sýnir umrædda litasamsetningu.
Skrifað af LRÓ.