09.05.2008 16:02

Vegurinn að heiman er vegurinn heim.



473. Enn og aftur var ég á leiðinni norður á Sigló. Það var strekkingsvindur hér syðra þegar lagt var upp og bíllinn sem ég ók fram hjá á Kjalarnesinu hafði sennilega fokið út af veginum og því var eins og áminning um að fara varlega. Að vísu var ekki mikil hætta á að ég færi of greitt á Micrunni með 1.275 lítra vélinni, en samt...

Utan á bílnum sem var kyrfilega skorðaður af ofan í skurðinum stóð; "ALLT FYRIR GÓÐAN SVEFN OG BETRI HEILSU." Ætli ökumaðurinn hafi kannski dottað undir stýri en fyrir einskæra heppni sloppið við heilsutjón?



Á Almenningunum vestan við Siglufjörð var greinilega nýlega búið að bera ofani í misgengi á veginum. Þetta sem hér sést er þó með allra minnsta móti, en stundum er eins og vegurinn hafi verið klipptur í sundur og hlutarnir standast þá engan vegin á. Hlutar hlíðarinnar í fjallinu síga smátt og smátt neðar og neðar og vegurinn auðvitað með. Fram hefur komið sú kenning að undir jarðveginum sé klöpp og eftir henni seytli vatn sem flytji vatnssósa jarðveginn með sér til sjávar. Stórfellt úrfelli gæti við vissar aðstæður orsakað aurskriðuhlaup úr fjallinu sem myndi þá breyta landslaginu  í einni svipan og hreinsa m.a. veginn í burtu og jafnvel fram í sjó. - Eins gott að vera ekki á ferðinni þann daginn.



Enn og aftur verða leifarnar af bryggjunni út af Hafliðaplaninu myndefni sem dregur að sér athygli mína. Þær eru eins og minnisvarði um liðna tíð þegar allt var í blóma og smjör draup af hverju strái, eða kannski er réttara að segja síld var í hverju bjóði. Ég fæ alltaf svolítið nostalgíukast þegar svona ber fyrir augu.


(Úr ljósmyndasafni Steingríms.)

Sú var tíðin að í "gullgrafarabænum" var meira að gerast á þessum slóðum en .þeir sem ekki þekkja munu nokkru sinni getað ímyndað sér.


(Úr ljósmyndasafni Steingríms.)

Þessi mynd er væntanlega tekin um eða upp úr 1973 því á henni er verið að byggja frystigeymsluna við væntanlegt frystihús Þormóðs Ramma, en Rauðkuverkstæðið þar sem Halli Þór réð ríkjum stendur enn. Hafliðaplanið er greinilega farið að láta verulega á sjá og virðist miðja þess vera fallin að mestu. Enn stendur hluti Rauðkuverksmiðjunnar vestan við Slippinn, en mestur hluti hennar var rifinn árið 1972. Þá stendur enn hús Haraldar Böðvarssonar & co á svipuðum slóðum og Fiskmarkaðurinn er núna, en á þessum vestasta hluta Hafnarbryggjunnar rak það fyrirtæki söltunarstöð. (Leiðrétting óskast ef ég er að villast í sögunni.)



Slippurinn hefur fengið nýtt og annað hlutverk fyrir löngu, löngu síðan og sleðinn hefur líklega ekki runnið mikið til sjávar undanfarinn ár. Karlarnir eru fyrir löngu hættir að kalfatta, teinarnir komnir á kaf í möl og þannig hefur það eflaust verið um langa hríð. Ég man samt að verulegar endurbætur voru gerðar á Dráttarbrautinni sumarið 1976, bæði ofan sjávar og neðan. Ég var nefnilega tíður gestur á staðnum, bæði til að fylgjast með framkvæmdunum og svo þurfti ég líka stundum að hitta á Bjössa Birgis sem vann við verkið en við spiluðum saman hluta af því sumri.



Annar minnisvarði um fortíðina er búinn að hvíla sig lengi á búkkunum við hliðina á sleðanum. Hvað skyldi þessi fleyta eiga eftir að vera þarna lengi og með hvaða hætli ætli hún hverfi á braut þegar hennar tími kemur?


(Ér ljósmyndasafni Steingríms.)

Þarna stendur Gránuverksmiðjan því sem næst á sama stað og frystiklefinn er núna. Sunnan við Gránu eru tankarnir sem Dagný dró fram af Hafnarbryggjunni og var síðan fleytt eitthvað langt í burtu. Norðan við (lengst til hægri á myntinni) Slippinn má svo sjá í Hafliðaplanið sem á þessum tíma hefur líklega verið í ágætri hirðu.



Hér tengjast svo nútíð og fortíð. Hinn eldrauði og endurgerði Roaldsbrakki er að mínu viti hið eiginlega Síldarminjasafn, en nær er svo Síldarbræðslan og þá Báthúsið. Nýju húsin sem byggð voru utan um söguna munu vonandi varðveita hana meðan byggð helst á þessum slóðum.



Þegar ég ók upp Gránugötuna tók ég eftir þessum stórskemmtilega "skúlptúr" og velti fyrir mér hvaða dýpri merkingu hann gæti haft.

En nú var kominn tími til að halda suður á bóginn.



Það var staldrað svolitla stund við Höfðavatn sem virtist vera í þann veginn að losna undan vetrarísnum, en svokallaðir "hungurdiskar" flutu um vatnið þó þeir sjáist ekki mikið á myndinni. En einhvern tíma skal ég klifra upp í fjöllin þarna fyrir ofan og ná betri mynd af Málmey.




Upp kom sú hugmynd að fara svolítinn aukakrók og aka í gegn um Hofsós, en það er orðið fátítt hin síðari ár. Og auðvitað varð Drangey sem er eitt af aðalkennileitum Skagafjarðar eins og alþjóð veit að fá að vera með á myndinni.



Það tekur sig vel út Vesturfarasafnið á Hofsósi þegar horft er yfir það af brekkubrúninni fyrir ofan. Það er eftir því sem ég hef fregnað annað mest sótta safn utan höfuðborgarsvæðisins á eftir Síldarminjasafninu. Þar inni var ekkert lífsmark svo ekki reyndist þetta vera dagurinn til að skoða það.



Í þessu húsi eru bersýnilega tvær íbúðir og sýnilega bendir fátt til þess að íbúar hússins hafi sömu skoðanir á því hvernig hlutirnir eiga að vera.



Nú orðið liggur leiðin milli höfuðborgarsvæðisins og Siglufjarðar oftar en ekki um Þverárfjall í stað Vatnsskarðs og er því enn styttra út á Skagaströnd en áður. Það var lögð önnur lykkja á leiðina og staldrað ögn við í þorpi kúreka norðursins.



Meðan rölt var í fjörunni fyrir sunnan þorpið sigldi þessi litla skekta hjá svo til alveg upp í harða landi eins og sjá má.



Sennilega hefur þetta hótel orðið undir í samkeppninni um gesti.



Sá sem er vanur að leggja í stæðið þarna undir húsveggnum ætti kannski að láta kíkja á bremsurnar á bílnum sínum. Dældin inn í húsvegginn er eiginlega mun meiri en myndin sýnir.



Þessi Tótemsúla stóð úti í garði við eitt húsið. Ætli það séu eitthvað af Indíánum á Skagaströnd?



Út við ysta sæ, blómstrar staður einn,
komdu í Kántrýbæ, komdu og líttu inn,
sæll þar sí og æ, sértu hýr á kinn,
komdu í Kántrýbæ, komdu vinur minn.

Já komdu í Kántrýbæ,
já komdu vinur minn,
komdu og líttu inn,
því þú ert velkominn.

Þegar Skagaströnd var kvödd varð auðvitað að skjóta einu lausu skoti eða svo í átt að Kántrýbæ þar sem nú er allt harðlæst og lokað.

En svo var haldið suður bóginn.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496567
Samtals gestir: 54788
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 03:44:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni