11.05.2008 03:50
Saga af vini mínum. - Hártogun.
474. Einn vinur minn á langan og viðburðarríkan tónlistarferil að baki og er reyndar enn að. Hann sagði mér á dögunum frá einu af fjölmörgum skondnum atvikum sem hann hefur upplifað á hljómsveitarpallinum, en hafði engin orð um að þau mættu ekki fara lengra. Og áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að það komi fram að á þeim tíma sem uppákoman átti sér stað, var hann með allt að því óeðlilega mikið sítt ljóst og liðað hár sem hann hirti líka með eindæmum vel. Hann var að spila á sveitaballi austur í Rangárvallasýslu fyrir allmörgum árum með þáverandi félögum sínum og nokkuð var farið að líða á kvöldið. Það var alveg rífandi stemming en óvenju mikið um ölvun. Rétt hjá sviðinu sátu nokkrir ærslabelgir og höfðu hátt. Þeir supu drjúgt á, stungu saman nefjum, ráku upp miklar hlátursrokur og bentu stundum í átt að hljómsveitinni. Enn líður nokkur tími og færast þeir allir í aukana í réttu hlutfalli við magn þess sem þeir innbyrða af eldvatninu sem nóg virtist vera til af. Vinur minn sér þá hvar einn þeirra stendur upp en hinir virðast hvetja hann óspart til dáða. Sá sem upp stóð gengur að pallinum og allur hans svipur ber vott um að hann eigi þangað brýnt erindi. Hann bíður hinn spakasti eftir að lagið klárist en að því loknu gefur hann umræddum vini mínum merki um að hann vilji eiga við hann orð. Sá lýtur þá niður að gestinum og á helst von á að hann hafi einhverjar hugmyndir um óskalag, kveðju fram í sal eða skilaboð af einhverju tagi. En þá bregður svo við að gesturinn rífur af afli í hár hans með báðum höndum og togar fast í. Vinur minn æpir upp skelfingu lostinn eins og stunginn grís og er alveg frávita af sársauka, því hann er og hefur alltaf verið með afbrigðum hársár. Við þessi viðbrögð verður gesturinn engu minna skelfdari og sleppir takinu hið snarasta. Hann stendur grafkyrr svolitla stund og starir uppglenntum augum á hár vinar míns sem er þó enn á sínum stað en komið í hina mestu óreiðu, en tekur síðan á rás fram salinn í átt til dyra. Félagar hans sem sitja við borðið voru búnir að setja sig í einhverjar sérstakar stellingar og virtust vera albúnir að fagna einhverju sem ekki varð, urðu allt í einu lítið annað en augun og skórnir. Eitthvað hafði gerst sem ekki átti að gerast, eða þá að eitthvað hafði ekki gerst sem átti að gerast. Fljótlega eftir atburðinn tíndust þeir einn af öðrum svolítið skömmustulegir úr sætum sínum og fundu sér annað borð eins langt frá hljómsveitinni og mögulegt var. Ekki urðu nein eftirmál af verknaðinum, hljómsveitin hélt áfram að spila eins og lítið sem ekkert hefði gerst og gestirnir héldu áfram að skemmta sér hið besta.
En skýringin á þessu undarlega athæfi barst spilurunum til eyrna síðar um nóttina, um það leyti sem flestallir voru farnir annað hvort í næsta partý eða til síns heima, hljóðfærunum hafði verið pakkað saman og voru á leið út í bíl. Húsvörðurinn gekk glottuleitur til strákanna og sagði þeim söguna, en þeim fannst hún með ólíkindum fyndin svona eftir á og hlógu þeir mikið undir frásögninni, allir nema einn þeirra sem varð eitthvað svo undarlega rjóður í kinnum. Hann sagði fátt og sá alls ekkert fyndið við söguna, en það voru vissulega ástæður sem lágu að baki hinu skerta skopskyni hans hvað þetta einstaka mál varðaði. Hann strauk sér varlega um hárið og klappaði létt ofan á kollinn á sjálfum sér um leið, líklega alveg ómeðvitað rétt eins og hann væri kominn með einhvern alveg splunkunýjan kæk.
Þannig var að það hafði spurst út að alveg áreiðanlegar heimildir væru fyrir því að einhver hljómsveitarmeðlimanna væri með hárkollu. Og það var einmitt það sem strákarnir við áðurnefnt borð voru að gaspra um og reyna í leiðinni að reikna út hver væri nú líklegastur til að vera kolluberinn. Eftir miklar umræður og skoðanaskipti komust þeir að þeirri niðurstöðu að vinur minn með sitt óeðlilega mikla, síða, ljósa og liðaða hár, hlyti að vera rétti maðurinn. Og nú skyldi gera svolítið sprell, rífa upp móralinn og hleypa svolítið meira fjöri í skrallið. Einn var því gerður út af örkinni eða kannski öllu heldur út af borðinu. Átti hann að fara upp að hljómsveitarpallinum, ná meintri hárkollu af höfði vinar míns, hlaupa með hana út í sal og skilja hann eftir á sviðinu með beran skallann fyrir allra augum. Hinir biðu svo alveg yfir sig spenntir eftir að sjá hver viðbrögðin yrðu.
En þau urðu bara ekki í samræmi við væntingar af nokkurn vegin alveg augljósum ástæðum...