17.06.2008 16:35
Sigló í júní 2008
479. Að kvöldi miðvikudagsins 11. júní var ekið norður yfir heiðar og eins og regluverkið segir til um var myndavélin með í för. Að þessu sinni var gripið til hennar óvenju snemma í ferðinni, enda fullt tilefni til þess. Framan af var himininn heiður og blár eins og hann er oft á góðum degi, en þegar á leið breyttist liturinn og kvöldroðinn varð allsráðandi í norðvestrinu. Það var því staldrað við bæði víða og oft eins og sjá má á meðfylgjandi sýnishornum. Myndin hér að ofan er tekin í Húnavatnssýslunni og sýnir fjöllin norður eftir Strandasýslunni. Segja má að þema þessarar ferðar hafi verið þegar hinar stafrænu afurðir voru skoðaðar, að mestu leyti litrík augnablik sólarlagsins fönguð í kísilflöguna til skammtíma vistunnar en að lokum mátuð við vonandi sem flesta tölvuskjái af ýmsum stærðum og gerðum.
Þegar beygt er norður til Skagastrandar skömmu eftir að ekið er í gegn um Blönduós, er farið fram hjá nokkrum litlum vötnum. Þar staldraði ég við og gekk upp á svolítinn hól til að ná betri yfirsýn yfir hina gulu speglun
Þegar upp á hólinn var komið heyrði ég mikið rophljóð og brá við því stutt var á þekktar ísbjarnarslóðir. En það reyndist vera þessi rjúpa sem framkallaði hljóðin og var hún hin spakasta. Hún hinkraði meira að segja eftir að ég tæki þessa mynd af sér en þurfti síðan að bregða sér eitthvað frá.
Ég rölti því aðeins meira og betur um svæðið í leit að hinu eina rétta sjónarhorni til að fanga speglun "Guluvatna."
Svo var beygt upp á Þverárfjall, en á leiðinni yfir þennan fjallveg sem styttir leiðina til Siglufjarðar um heila 16. km., má sjá þetta skilti sem eftir síðustu bjarnartíðindi virðist vera full innistæða fyrir og það alveg grínlaust.
Á söndunum við ósa Héraðsvatna blasti þessi tilkomumikla litadýrð við. Drangey, Málmey og Þórðarhöfði eru eins og rof eða truflun á hinum kyrrláta og fullkomlega lárétta sjóndeildarhring sem skiptir litum hafs og himins.
Í eina tíð var sungið um "Hofsós city" í sætaferðunum á leið í Höfðaborg þegar sveitaböllin voru einu mannamótin sem voru "inn."
Þegar ekið var fram hjá Suðanesi og Sauðanesvita er stutt eftir á heimaslóðir. En þó ég hafi farið þarna um oftar en ég hef tölu á, hef ég aldrei séð Sauðanesið í þessum litum.
Meira að segja sjórinn tók í sig lit kvöldsólarinnar og ég beindi linsunni í áttina út að Skagagrunni.
Þegar komið var á sigló var alls ekki hægt að fara til húss og sængur, heldur varð að skjóta meira á dýrðina.
Kvöldsólin var núna næstum því í hánorðri, en samt nokkuð vel yfir haffletinum.
Ég ók spölkorn upp eftir Saurbæjarásnum og sólin hækkaði sig að sama skapi.
Þetta er eitt af mínum uppáhaldssjónarhornum sem ég hef sterklega á tilfinningunni að sé verulega vanmetið af myndavélaeigendum og notendum. - Horft er út fjörðinn frá eða vestan við brúna yfir Hólsá og Álfhóll er í forgrunni.
Ég fór síðan svolítin rúnt um göturnar á eyrinni. - Húsin austan megin við Vetrarbrautina voru vel upplýst.
Einnig þau við utanverða Túngötuna út við Hvanneyrarkrók.
Húsin úti í Bakka og aðdráttarlinsan á fullu.
Sorp er yfirleitt ekki mikið notað sem myndefni nema þá á frekar neikvæðan hátt. Það er engu líkara en að eldur sé laus á gámasvæðinu. (Og Ámundi ekki mættur...)
Klukkan var nú orðin rúmlega hálf þrjú þegar dimmur og drungalegur þokubakki læddist yfir nesið. Skömmu síðar var grái liturinn orðinn allsráðandi, það kólnaði lítillega og mér fannst nóg komið að sinni.
Daginn eftir fylgdist ég með Hauk Þór reyna sig á sæþotunni sem nú er búið að taka fram eftir hvíldina í vetrarhýðinu.
Hann lék listir sínar á innri höfninni og ég velti fyrir mér hvernig væri hægt að sitja þennan óða sæfák án þess að kastast af baki.
Eins og sjá má ristir hann ekki mjög djúpt.
En eftir tvo daga á Sigló var svo stefnan sett á Akureyri...
Skrifað af LRÓ.