13.07.2008 03:59
Tómas Brjánn Margrétarson allur.
483. Laust eftir miðnætti og þegar lítilega var liðið á aðfararnótt hins 11. júlí s.l. var Tómas Brjánn Margrétarson borinn til grafar. Jarðarförin fór fram í kyrrþey og voru aðeins hans "nánustu ættingjar" viðstaddir. Hann var ekki nema fárra vikna gamall þegar hann gerðist fjölskyldumeðlimur fyrir fullt og fast fyrir rúmum fimmtán árum síðan. Hann var einn af þeim sem kom í þennan heim án þess að óskað væri eftir því af þeim húsráðendum sem fóðruðu móður hans. Ég segi ekki eigendum því að þeir sem vita eitthvað um ketti eru meðvitaðir um að enginn getur slegið eign sinni á þá og þeir fara gjarnan sínar eigin leiðir eins og sagt er. Ótrulega oft er að þeir velja sér frekar "húsbónda" en láta gjarnan þann hinn sama standa í þeirri trú að það sé hann sem ráði öllu þó önnur sé raunin. Algengt er að kettir taki t.d. upp á því að hafa vistaskipti án nokkurs samráðs við einhverja þá sem telja sig málið varða, en svo var ekki raunin með T.B.M.
Hann var á sínum kettlingsárum á leið til dýralæknis aðeins átta vkna gamall þar sem átti að svæfa hann svefninum langa þegar leiðir okkar lágu óvart saman og segja má að hann hafi hreinlega rekið á fjörur okkar. Eftir stutta en skemmtilega viðkynningu á stofugólfinu og næsta nágrenni þess, höfðu framtíðarhorfur hans tekið eins konar vinkilbeygju frá því sem útlit hafði verið fyrir stundu áður. Örlög hans voru þarna ráðin og hann bjó með okkur og hjá okkur alla sína kattartíð, nánast frá upphafi eins og áður segir og allt þar til yfir lauk.
Ég held að við höfum stundum fundið til einhvers konar undarlegrar samkenndar því við vorum ótrúlega líkir ef vel var að gáð og grannt skoðað. Við vorum í senn uppivöðslusamir óróabelgir en samt róleg og afslöppuð letidýr þess á milli. Sprelligosar og spraðbassar á góðum stundum, en ótrúlega þreytandi, verulega pirraðir og óþolandi fúllyndir í annan tíma.
Saman vorum við því köttur og maður andstæðna og öfga en samt djúprar einlægni og þrá eftir hinum eina sanna vin sem við fundum í hvorum öðrum. Ófá eru þau skipti sem við skriðum saman til sófa og dormuðum samanfléttaðir og að því er virtist í ógreiðanlegri bendu eða flækju yfir fréttunum og Kastljósinu.
Á síðasta ári fékk hann Hjartaáfall en náði sér smám saman aftur eftir að hafa fengið viðeigandi lyfjameðferð hjá dýralækni. Fyrir nokkru fór svo aftur að bera á krankleika hjá honum og hann fór aftur til læknis. Að þessu sinni kom í ljós að lungun voru full af vatni sem talið var að orsakaðist af hjartveikinni, en því var tappað af honum og hann var settur á hjartalyf og vatnslosandi lyf til frambúðar. Það nægði til að hægja á ferlinu en ekki að stöðva það, svo aftur varð hann að fara í aftöppun og svo enn og aftur hið þriðja sinni. En að lokum fór svo að baráttan tapaðist og ekkert var til ráða annað en svefninn langi.
Ég sló saman lítilli kistu úr óhefluðum borðviði og málaði hana hvíta. Þar var hann lagður til ásamt svolitlu nesti til landsins hinum megin, einni dós af ORA túnfiski sem alla tíð var í miklu uppáhaldi hjá honum. Það var breidd yfir hann þunn sæng en eftir það var lokið neglt á. Hann var síðan grafinn undir fallegu grenitré á friðsælum staðskammt frá Hvaleyrarvatni.
En við sem stöndum eftir þurfum að huga að sorginni sem býr í hjarta okkar allra, gefa okkur tíma fyrir hana og finna svolítið til þegar slíkar stundir verða til. En jafnframt horfa fram eftir veginum, þeirri lífsins leið sem okkur er öllum gert að feta skref fyrir skref allt þar til ferðinni lýkur.
Þó að ljós augna þinna hafi nú slokknað mun minningin lifa.
Skrifað af LRÓ.