20.07.2008 23:16
Flugan í skálinni.
486. Fyrir nokkru átti ég erindi á Kringlukrána og sá þá það merkilega fyrirbæri sem ég hafði fram að því aðeins heyrt af að væri til. Nokkuð sem ég hafði lengst af haldið að væri í rauninni aðeins skemmtileg skröksaga, kenning sett fram með yfirmáta kómísku hugarfari, skopleg skrumskæling á raunveruleikanum eða jafnvel hið fullkomna rugl í samfélagi sífullra.
Ástæðan fyrir því að ég uppgötvaði stóra sannleikann í þessu búkhreinsunarmáli, var að ég þurfti að skjótast frá og/eða aðeins til hliðar eins og gengur. Á prívatið, heimsækja hið karllæga samfélag sem jafnvel gallharðir fenínistar vilja ekki brjóta upp, skvetta úr skinnsokknum, vinda reiðtygin, eða hvað sem menn vilja kalla það og rifjaði í leiðinni upp valið textabrot úr smiðju Megasar.
"Gulir eru straumar þínir hland mitt í skálinni."
Og þar sem ég stóð við iðju mína á "tvöfaltvaffséinu" tók ég eftir því að ég vandaði mig óvenjulega mikið og miðaði á fluguna af öllum lífs og sálarkröftum, algjörlega ómeðvitað og án nokkurrar hugsunar.
Þetta var þá satt eftir allt saman.
Síðar frétti ég eftir svolitlum krókaleiðum (en rétt er einnig að taka það fram að það mun ekki fást formlega staðfest,) að eftir að flugunni var komið fyrir í skálinni fækkaði gulum pollum á gólfinu verulega og álagið á hreinsitæknum staðarins minnkaði að miklum mun.
Og nú er ég er farinn að trúa því...
...að flugur geti verið hið mesta þarfaþing og vel brúklegar til ólíklegustu nákvæmnisverka.