20.07.2008 23:22
Náttúruperlur og salerni.
(Grein sem birtist í Fréttablaðinu þ. 14. júlí.)
487. Mikil og þörf umræða hefur verið í gangi undanfarið um salernisaðstöðu við helstu náttúruperlur okkar Frónbúa og þá heldur á neikvæðu nótunum sem ekki ætti að koma þeim sem þekkja ósómann svo mjög á óvart. Það ber að fagna því að einhver skyldi hefja máls á þessu og fylgja því eftir í ræðu og riti því það er fyrir löngu tímabært, enda hin megnasta skítalykt af öllu málinu í orðsins fyllstu merkingu. Ég á mjög auðvelt með að taka undir umræðuna því ég upplifði ástandið af eigin raun, meira að segja í hinum ýmsu litum eins og sjá má hér að neðan þegar ég fór fyrir Reykjanesið á síðasta ári. Á þeim tíma hélt ég að þarna hefði verið um að kenna óheppilegri tímasetningu á ferðalagin mínu, einstakt og einangrað tilfelli, eða tilkomið vegna nýlegrar hópferðar samtaka magaveikra.
En nú er mér orðið löngu ljóst að þannig var málum ekki háttað. Það virðist bara enginn vilja taka að sér þann þó nauðsynlega þátt að vinna eftirvinnuna sem þó verður með engu móti komist hjá. Það er engu líkara en að einhverjir vanhugsandi og vanhæfir ferðamálamógúlar virðast halda að nóg sé að koma skíthúsunum fyrir á víð og dreif um fjölfarnar slóðir og þar með sé málið endanlega í höfn. En svo virðist sem hugsunin nái bara einfaldlega ekki lengra. Ef þau eru notuð þá fyllast þau auðvitað af kúk og pissi alveg upp undir setu og er á endanum virðist svo eina lausnin vera að skella í lás frekar en að þrífa þau. Enginn vill semsé setja á sig gúmmíhanskana sem ná upp fyrir olnboga fyrir lágmarkslaun plús óþrifaálag og taka til hendinni, hræra, moka og kafa eins og væntanlega þarf að gera til að koma hreyfingu á hlutina.
Börkur Hrólfsson leiðsögumaður kallar þetta "sumar hinna biluðu salerna," en ef heldur fram sem horfir virðist stefna í að þetta verði bara eitt af mörgum slíkum.
Hver á að sjá um að þessir hlutir séu í lagi?
Enginn eða fáir vilja kannast við heitt, menn benda jafnvel hver á annan og upp í hugann kemur gömul speki sem hefur öðlast enn dýpri merkingu en þegar ég las hana fyrst.
Kötturinn sagði ekki ég, hundurinn sagði ekki ég og svínið sagði ekki ég.
Ólöf Ýrr ferðamálastjóri segir að Róm hafi ekki verið byggð á einum degi. Hún virðist því hafa þá hjákátlegu og að mér finnst lítt ígrunduðu skoðun að tilurð eins af voldugustu borgríkjum veraldar á sínum tíma sé á einhvern hátt sambærilegt við að þjónusta nokkra tugi færibandaframleiddra Íslenskra "Saurbæja" þar sem nú á tímum býr ein ríkasta þjóð í heimi.
Menn verða því frá að hverfa ef náttúran kallar á óheppilegum stundum og ganga í hægðum sínum (og einnig annarra) út í guðsgræna náttúruna til að gera stykkin sín á mörgum af fegurstu stöðum landsins.
Kamrarnir við plötuskilin virðast vera ósköp venjulegir á að líta, en þegar betur er að gáð kemur annað í ljós..
Svona var öðrum megin...
Og svona var hinum megin...
Er nokkuð skrýtið þó einhverjum bregði illa við slíka aðkomu, hverfi frá með gubbuna í hálsinum, rölti jafnvel reikulir í spori með sviða í augum og suð fyrir eyrum á bak við næsta hól og setjist þar á hækjur sér.
Skýr ábending til ferðamanna um að ganga snyrtilega um eða hvað? En aðrir hafa greinilega fulla þörf fyrir ábendingar um það sem betur má fara.
Heill þér fagra Ísland með þinn ört vaxandi ferðamannastraum.
Hina nýju stóriðju sem mengar bara allt öðruvísi en t.d. álver, stálver eða olíuhreinsistöð.
Þurfum við ekki að fá Björk og Sigurrós til að endurtaka síðustu tónleika með breyttum formerkjum og nýjum og ferskari áherslum?
"Saurgerlana í rotþrærnar, skíthúsin hrein!" gæti yfirskrift þeirra verið.
Því eins og sagt út úr berginu í Drangey forðum.
"Einhvers staðar verða vondir að vera."