15.08.2008 08:24
Amma Sóley - 100 ára ártíð.
491. Núna um helgina ætlum við Sæunn systir mín að skreppa á Sigló sem við höfum reyndar gert alloft áður. En að þessu sinni er ferðin farin sérstaklega af því að Sóley amma okkar hefði orðið 100 ára n.k. þriðjudag eða þ. 19. ágúst. Ekki eru líkur á að margt verði um manninn, enda var amma ekki mjög veisluglöð og unndi sér best í hæfilega miklu fámenni og helst þá einhverja úr fjölskyldunni. Við ætlum því að halda okkur í þeim gírnum og hafa þetta á lágstemmdu og notalegu nótunum.
Amma og afi á Hverfisgötunni líklega um 1980
Æskuheimilið Hverfisgata 11, en þar bjuggu þau mest alla sína búskapartíð.
Fyrst á neðri hæðinni, en eftir nokkur ágæt síldarsumur festu þau kaup á efri hæðinni.
Vinstra megin á myndinni sést í tröppurnar og hliðið fyrir framan Aðventistakirkjuna.
Ég rakst á þessa skemmtilegu mynd í myndaalbúmi sem er komið frá móður minni, en hún er tekin í garðinum á Hverfisgötunni rétt erftir 1950.
Á myndinni eru (frá vinstri talið)
Anna Gunnlaugsdóttir systir hennar sem hefur búið alla tíð í Reykjavík, er enn á lífi og verður 98 ára í þessum mánuði.
Gunnlaugur Daníelsson faðir hennar og langafi minn. Hann bjó á Hverfisgötunni síðustu tvö æfiár sín og andaðist þar 12. júlí 1952.
Litla stúlkan á myndinni heitir Margrét Guðmundsdóttir og er dóttir Jóhönnu sem einnig er systir ömmu. Hún býr á Akureyri og er gift Kristni Hólm frá Siglufirði. (Bróðir Hafsteins Hólm.)
Jóhanna Gunnlaugsdóttir systir ömmu bjó á Akureyri alla sína búskapartíð.
Lengst til hægri er svo Sóley amma Gunnlaugsdóttir.
Síðari viðbót: Konan sem sést að er að ganga inn í garðinn mun vera Ingibjörg Jónsdóttir frænka mín, en hún var gift Guðmundi Þorleifssyni sem Guðmundartúnið er kennt við og bjó að Hávegi 12b.
Við systkinin 1962 Ég 6 ára og sæunn 3ja ára.
Sæunn 10 ára og ég 13. Milli okkar situr móðir okkar Minný Leósdóttir sem var eina barn ömmu. Við erum svo einu barnabörn hennar.
Amma dvaldi oft í garðinum á góðum dögum. Á bak við hana má sjá geymsluskúrinn "hans afa" og fjárhúsið hans stóra-Tona á næstu lóð fyrir neðan.
Skrifað af LRÓ.