25.08.2008 00:25

Um stórgítarleikarann Gest Guðnason



494. Einn af þeim efnilegri tónlistarmönnum sem Siglufjörður hefur alið er án efa Gestur Guðnason. Ekki veit ég hvað kveikti áhuga Gests á tónlist í upphafi, hvenær hann lærði fyrstu gripin eða byrjaði að spila í hljómsveitum. En ég man fyrst eftir honum árið 1969 þegar ég ásamt Þórhalli Ben, Vidda Jóhanns, Guðna Sveins og Óttari Bjarna höfðum stofnað unglingahljómsveitina Hendrix og æfðum í Vökuhúsinu að Gránugötu 14. Þá átti Gestur það til að birtast upp úr þurru, setjast niður með okkur litlu guttunum og kenna okkur nokkur ný grip eða jafnvel heilt lag sem við gátum þá bætt við prógrammið eftir að hafa hamrað svolítið á því. Á þessum árum þekkti ég Gest sem hreint ótrúlega ljúfan dreng og mikið prúðmenni í alla staði. Svo hvarf hann á braut, ákveðinn í að freista gæfunnar sunnan heiða með gítarinn og aðra mannkosti sína að vopni, en ég hef því miður lítið séð hann eða heyrt síðan þá. Fyrir nokkru datt mér í hug að "gúggla" feril hans af netinu, en fann minna en ég hefði kosið. Ég vil samt reyna að fara lauslega yfir það sem ég veit af, eða hef fundið út með ýmsum ráðum þegar skoða skal hvað þessi ágæti drengur hefur drepið niður fæti.
(LRÓ.)



Stormar - Ljósmynd úr safni Steingríms.

Hljómsveitin Stormar var án efa ein af vinsælustu unglingahljómsveit á Norðurlandi, um þær mundir er myndin var tekin árið 1966. Þarna eru Hallvarður Óskarsson - trommur, Theódór Júlíusson - söngur, Gestur Guðnason - gítar, Ómar Hauksson - bassi og Árni Jörgensen - gítar. Síðar komu við sögunnar Rafn Erlendsson - trommur, Jósep Blöndal - piano, og Friðbjörn Björnsson - gítar.
Sagt er að hljómsveitrir hætti aldrei, heldur hvíli sig bara mislengi. Á það líklega betur við um þessa hljómsveit ef eitthvað er en flestar aðrar, því fyrir nokkrum árum hrukku Stormar aftur í gírinn og hafa verið að síðan með mislöngum hléum. Núna síðast spiluðu þeir á Ketilási þ. 26. júlí sl. fyrir fullu húsi þar sem aldurstakmarkið var sagt vera 45 ár nema í fylgd með fullorðnum.
Hljómsveitin rekur líka menningarfélagið Storma sem fær í sinn hlut allar þær greiðslur sem koma til vegna tónlistarflutnings hin síðari ár. Fé þessu er síðan ráðstafað til ýmissa velferðarmála og annarra góðra málefna í Fjallabyggð skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni.
(LRÓ.)



Hljómsveitin Hrím. - Ljósmynd fengin að láni hjá Kristjáni Jóhannssyni.

Kristján Jóhannsson myndlistarkennari kom eitt sinn í heimsókn til mín á Aðalgötuna þegar ég var á Siglufirði og sagði mér sögu hljómsveitarinnar Hrím.

Við vorum miklir vinir Gestur og ég, og einu sinni spurði hann mig hvort ég vildi ekki reyna að spila á bassa. Það var sennilega árið 1967 en ég var ekkert allt of viss, því í fyrsta lagi lá það í sjálfu sér ekkert fyrir að ég myndi geta spilað yfirleitt á hljóðfæri. Í öðru lagi átti ég alls engar græjur, en fékk samt lánaðan bassa og prófaði. Þetta lukkaðist merkilega vel og ég var þar með kominn í hljómsveit. Gestur Guðna og Árni Jör komu úr hljómsveitinni Stormum og voru alveg þrælsjóaðir. Rúnar Egils var svo trommarinn, en ég man ekki til þess að hann hafi mikið spilað fyrir þennan tíma. Maggi Þormar bróðir Jómba í Gautum var með fyrsta árið og spilaði á orgel, en síðan hætti hann og enginn var ráðinn í stað hans.

Við æfðum fyrst í stað í húsnæði verkalýðsfélagsins Vöku við Gránugötu, en síðar meir í Allanum þar sem við spiluðum oftast enda stóðu hljóðfærin yfirleitt þar. Æfingarnar voru nokkuð skipulagðar, t.d. æfðu gítararnir fyrst saman sér, trommur og bassi sér og síðan söngur og raddir sér. Eftir þetta var allt æft saman, og þessi aðferð reyndist okkur ágætlega.
Við spiluðum áfram fjórir og það gekk bara vel. Við höfðum merkilega mikið að gera og þetta var mjög skemmtilegur tími. Gestur fór vestur um haf seint á árinu 1967 í heimsókn til föðurbróður síns, en hann kom til baka með fullt af forvitnilegri tónlist á splunkunýjum vinyl. Þar á meðal var fyrsta plata hljómsveitarinnar "The Doors" sem enginn á Íslandi hafði þá heyrt getið um.
Ég var ballöðukarlinn í bandinu og söng m.a. bítlalagið Hey Jude svo og nokkur Bee Gees lög.

Árið 1969 ákvað ég að reyna að komast inn í "Mynd og hand," og fór í inntökupróf um vorið ásamt Örlygi núverandi safnverði.Við komumst báðir inn og stefndum því að hefja skólagönguna þá um haustið. Ég þurfti því að huga að fjármögnun námsins því engin fékk ég námslánin, og þegar leið á sumarið seldi ég hljóðfærin og varð því að hætta að spila.
Um verslunarmannahelgina ákvað ég að skella mér í Húsafell og það gerðu hinir Hrímararnir líka. Þetta átti í upphafi bara að vera til skemmtunar, en það fór svolítið á annan veg. Þeir spurðu mig hvort ég væri ekki til í að vera með þó svo að ég væri eiginleg hættur, því það væri hljómsveitarkeppni í Húsafelli. Auðvitað var það í góðu lagi, en ég átti bara engan bassa lengur. Þeir fullvissuðu mig um það væri ekkert mál að fá lánaðan bassa, og svo var unglingahljómsveitin Hrím frá Siglufirði skráð til þátttöku. Það var ákaflega vænn og prúður piltur sem lánaði mér bassann sinn. Hann hét Pétur Kristjánsson, síðar m.a. í Pops, Svanfríði, Pelican, Paradís og Póker. Blessuð sé minning hans. Við spiluðum þrjú eða fjögur lög og það var mjög gaman og ég hugsaði síðan eiginlega ekki mikið meira út í það. Það var síðan Rúnar Egils sem kom og tilkynnti mér að við hefðum verið kosnir "Besta unglingahljómsveitin ´69." Þessu fylgdi ýmislegt sem ég átti ekki von á þegar lagt var upp í ferðina, en gerði hana vissulega að meira ævintýri. Við urðum núna að spila á stóra sviðinu, og þá var komið upp sama vandamálið og áður þ.e. bassaleysið. Í þetta skiptið var mér bjargað af Rúnari Júlíussyni, en hin nýstofnaða Trúbrot var aðalhljómsveitin í Húsafelli 1969. Við fengum þarna nýjan og virðulegan titil, einhver peningaverðlaun og hljómplötuverðlaun frá SG.
"Hrím er fyrsta og eina hljómsveitin sem ég hef verið í og reyndar hef ég aldrei snert bassa síðan þarna á stóra sviðinu í Húsafelli," bætti Kristján við.

Guðmundur Ragnarsson tók svo við bassanum í stuttan tíma, eða þar til Gestur sem var næstur til að yfirgefa þetta eðalband hélt suður á vit ævintýranna ef svo mætti segja. Gummi sem er að mínu mati mjög liðtækur á tónlistarsviðinu varð svolítið fórnarlamb aðstæðna.
Um framhaldið er svo það að segja að við Ölli vorum í bekk með Áskeli Mássyni sem síðar varð m.a. slagverksleikari í Náttúru. Hann spurði mig hvort ég vissi um einhvern góðan gítarleikara, því það vantaði þá svoleiðis mann í hljómsveitina Tatara. Sú sveit hafði þá nýverið gefið út smáskífu með lögunum "Sandkastalar" og "Dimmar rósir" sem hafði fengið talsverða spilun. Ég benti honum á Gest Guðnason og það varð líklega til þess að Gestur fór suður, því Tatarar höfðu samband við hann og hann gekk síðan til liðs við þá.

Um Kristján er það að segja að eftir að hafa lokið námi í Myndlista og handíðaskólanum, kenndi hann í sjö ár við Garðaskóla. Hann flutti til Akureyrar 1982 og kenndi síðan þar þangað til hann flutti aftur til Siglufjarðar fyrir tæpum tveimur árum og lokaði þar með hringnum ef svo mætti segja. Eplið fellur heldur ekki alltaf svo langt frá eikinni, því að dóttir hans Alma Rut er ein þeirra sem mynda söngflokkinn Heitar lummur. Það gerir hún ásamt Arndísi Ólöfu Víkingsdóttir, Helga Þór Arasyndi og Kalla Bjarna, en þau hafa öll komið við sögu í Idol stjörnuleitinni.

Því er svo við að bæta að hljómsveitin Hrím var ekki alveg öll, því hún var endurreist snemma árs 1970. Þá flutti Magnús Guðbrandsson aftur til Siglufjarðar, en hann hafði þá nýverið lokið námi í bifvélavirkjun í Heklu en einnig keypt sér forláta Yamaha orgel. Sverrir Elefsen var kominn á bassann, en hann hafði spilað með danshljómsveitinni Max hinni eldri í nokkur ár, ásamt þeim Óla Ægis, Rabba Erlends, Sjána Hauks og um tíma Hjálmari Jóns. Þeir Magnús og Sverrir ásamt Árna Jör og Rúnari Egils sem hafði þá vaxið mjög sem söngvari, æfðu stíft fyrir vorið og spiluðu síðan nánast um hverja helgi fram á vetur. Þessi síðari útgáfa af bandinu lagði mikla áherslu á vandaðar og vel unnar raddsetningar ekki síður en sú fyrri. En í árslok 1970 leystist hópurinn endanlega upp og hefur ekki verið endurreistur enn sem komið er. En minningin um þessa frábæru hljómsveit lifir í hugum margra þeirra sem í dag eru komnir af því allra léttasta.
(LRÓ.)



Tatarar.

Músiklífið í Gagnfræðaskólanum í Kópavogi var í góðum gír á bítlatímanum. Strákarnir í Ríó tríó göntuðust og bræddu hjörtu með léttri þjóðlagatónlist en hljómsveitin Tacton sá um bítlið. Meðal meðlima var riþma-gítarleikarinn Árni Blandon. Tacton vann sér það helst til frægðar að spila í Kópavogsbíói og var m.a. með Dúmbó-lagið "Angelina" á efnisskránni.
Eftir landspróf fóru flestir úr Kópavoginum í MH og þar var Árni í nokkrum böndum, m.a. í Bláa bandinu og Dýrlingunum, en trommari þeirrar sveitar var á tímabili Árni blaðamaður Þórarinsson. Eftir allskyns mannabreytingar og endurskýringar varð hljómsveitin Tatarar til um vorið 1968. Með Árna Blandon voru Magnús Magnússon trommari, Þorsteinn Hauksson á gítar og 200 kílóa Hammond-orgel og Stefán Eggertsson söngvari, en Jón Ólafsson bassaleikari úr Zoo kom síðastur og var yngstur, 16 ára.

SG finnur nýjan gullkálf.
Strákarnir voru með á nótunum og tóku sér Jimi Hendrix og hans menn sér til fyrirmyndar. Fyrsta giggið var í hljómsveitarkeppninni í Húsafelli '68. Flutningur Tatara á "Manic Depression" eftir Hendrix var nóg til að fleyta þeim í 2. sæti, á eftir Mods. Næsta gigg var í Breiðfirðingabúð, sem þá hét reyndar Club de Paris eftir að Jörmundur Ingi Hansen hafði tekið við rekstri staðarins. Það hafði spurst út að Tatararnir væru þéttir og margir þungaviktarpælarar mættu því til að sjá þá, m.a. Óttar Felix Hauksson. Magnús þótti ná Mitch Mitchell trommara í Hendrix-bandinu fyrnavel, en enn nær þótti Þorsteinn komast snilldinni; gítarleikur hans þótti nánast alveg eins og hjá Jimi sjálfum. 
Á þessum árum var málið að "herma" sem best. "Þegar við spiluðum "Lady Madonna" einu sinni í Casa Nova get ég svarið að mér fannst sjálfur Paul McCartney vera að syngja," segir Árni Blandon um Stefán söngvara. 
Svavar Gests tók Töturum vel þegar þeir mættu á fund hjá honum. SG hafði misst gullkálfinn Hljóma og reyndi að fylla tómið með Töturum. Ákveðið var að gefa út 2 lög. Strákarnir höfðu nýlega byrjað að fíla hljómsveitina Family, svo Svavar fékk vin sinn Matthías Jóhannesson til að búa til texta við lag þeirrar sveitar og úr varð "Sandkastalar". Mogga-ritstjórinn vildi þó ekki hafa hátt um rokkævintýri sitt og bað Svavar um að segja strákunum að þeir mættu ekki segja neinum hver þessi "m" væri.
Það vantaði lag á hina hliðina og Árni, sem ekki hafði samið lag áður, samdi lag yfir nótt í æfingarhúsnæðinu.
"Ég byrjaði á E-moll, því það er auðveldast," segir hann hæverskur um frumraun sína. "Ég hafði lært smá á nikku hjá Karli Jónatanssyni og kunni fimmunda hringinn, vissi því að G-dúr væri fínn þarna líka."
Um morguninn var Árni tilbúinn með lag sem hinum strákunum leist vel á. Næstu nótt stóðu Jón og Magnús vaktina og sömdu sitt hvorn textann við nýja lagið. 
Árni: "Jón samdi texta um krakka að leika sér í sandkassa og við völdum það því það var ekki eins væmið og það sem Magnús hafði samið. Þá reis hann upp á afturlappirnar og heimtaði að við notuðum hans texta."
Úr varð "Dimmar rósir", sem varð vinsælasta íslenska lagið árið 1969. SG lagði mikið undir, setti mikla peninga í auglýsingar og otaði sínum Tatara-tota hvar sem færi gafst. Plötuumslagið var fullt af myndum af hinum hlédrægu liðsmönnum og stofnaður var sérstakur Tatara-klúbbur, sem "nokkrar stelpur" skráðu sig í.

Hvers vegna? Hvers vegna?
Þrátt fyrir auglýsingaherferðina voru Tatarar skynsemdar strákar og byggðu sér enga sandkastala um rokkaða framtíð. Í byrjun árs 1970 ákváðu aðalmennirnir, Árni, Magnús og Þorsteinn, að leggja bandið niður til að einbeita sér að lærdómi fyrir yfirvofandi stúdentspróf. Magnús sá þó einhvern neista í rokkinu, hætti við stúdentinn og endurvakti Tatara með nýjum mannskap, Árna ekki alveg að sársaukalausu. Hann hafði reyndar lýst því yfir sjálfur í viðtali að veikasti hlekkur bandsins yrði alltaf að víkja. Á þessum tíma voru riþma-gítarleikarar í mikilli útrýmingarhættu svo viðtalið sem Svavar Gests tók við hann 1969 var með spádómslegri fyrirsögn -- "Kannski verð ég bara rekinn næst".
Magnús fékk Þorstein og Jón aftur til liðs við sig og tók Jón að sér að syngja. Siglfirðingur nýfluttur í bæinn kom inn á gítar. Þetta var Gestur Guðnason, sem hafði m.a. verið í bítlaböndunum Stormum og Hrím fyrir norðan. Hrím hafði helst unnið sér til frægðar að vera kosin "táningahljómsveit árið 1969" á bindindismóti í Húsafelli. Tatarar lögðust nú í enn þyngri pælingar og sömdu lög í samvinnu á æfingum að undangengnum miklum og löngum "djömmum". Bandið var á samningi hjá SG, sem gaf út aðra smáskífu í sumarbyrjun 1970. Þyngra og tormeltara stöff hafði varla heyrst á plötu áður. Lögin hétu "Gljúfrabarn" og "Fimmta boðorðið", sem var með miklum friðarboðskap og viðeigandi vélbyssuskothríð, sprengingum og söngli 11 ára stelpu, Valgerðar Jónsdóttur, sem spurði sorgmædd, "Ég ligg hér ein, í kaldri gröf. Hvers vegna? Hvers vegna?"
Ómar á Vikunni hitti í mark í gagnrýni sinni. Lokaorðin voru: "Þessi plata er það góð, að hún slær örugglega ekki í gegn og selst áreiðanlega lítið."

Raddbandabólga.
Þrátt fyrir slakt gengi plötunnar var hugur í Töturum. Ingibergur Þorkelsson tók að sér umboðsmennsku og brugðið var á það ráð að fá "hina íslensku Shandie Shaw", Janis Carol í bandið, því söngur Jóns þótti veikasti hlekkurinn. Tatarar með Janis innanborðs þótti ákaflega efnilegt band. Janis þótti fylli gatið sem Shady Owens skyldi eftir sig, var með túberað hár og söng berfætt -- "Það hefur liðið langur tími síðan maður sat jafn dolfallinn og það kvöld," skrifaði Ómar eftir að hafa farið á æfingu. 
Sælan stóð stutt því eftir mánuð þurfti Janis að hætta samkvæmt læknisráði. "Þetta hafa sennilega verið of snögg viðbrigði fyrir mig," sagði Janis með hvínandi raddbandabólgu, "enda er þetta viðfangsefni það erfiðasta sem ég hef glímt við".
Þegar Óðmenn hættu í söngleiknum Óla komu Tararar í staðinn og Jóhann G söng með þeim á sýningunni. Hljómsveitin var í dauðakippunum fram eftir vori 1972, kom m.a. fram í Sjónvarpinu og "impróvíséraði": "Ég heyrði ýmsar raddir sem voru lítt hagstæðar okkur, en það var yfirleitt frá fólki sem ekkert er inn í þessari músik," sagði Þorsteinn í viðtali 1972, sem bar fyrirsögnina "Hvað varð um Tatara" -- "Maggi ætlaði að fara að hella sér í stúdentsprófið og var hættur, og eftir að við höfðum prófað nokkra trommuleikara gáfumst við alveg upp".
Af Töturum er það að frétta að Gestur og Jón héldu áfram í rokkinu; Gestur stofnaði Eik og var m.a. í Orghestunum, en Jón fór í Pelican og þaðan í ótal sveitir. Aðrar Tatarar snéru sér að öðru. 
Lagið "Dimmar rósir" reis upp á ný þegar tónlist hippanna gekk aftur í byrjun 10. áratugarins. Þá sigraði Þóranna Jónbjörnsdóttir með laginu í Söngvakeppni framhaldsskólanna og lagið hefur lifað ágætu lífi síðan, Árna Blandon til lúmskrar ánægju -- "Það er vandi að semja góð lög, en ekkert mál að semja fullt af vondum," segir hann. 
Árni Blandon yrði fyrir valinu ef gera ætti einhvern einn einstakling ábyrgan fyrir stofnun Tatara. Um tilurð sveitarinnar segir hann sjálfur: "Við byrjuðum saman tveir kunningjar, sem báðir vorum að læra á gítar, bættum síðan við bassa og komun fram á skóladansæfingum. Upp úr því bættist við trommuleikari og við skírðum hópinn Tacton, ég man ekki hvort við fengum nafnið úr erlendri auglýsingu um þvottaduft eða magabelti. Engin okkar söng, svo við fengum okkur fljótelga söngvara. Við héldur hópin lengi, eða þar til að tveir okkar fóru í Menntaskóla, bassaleikarinn og ég. Þar stofnuðum við hljómsveit sem við skírðum Bláa bandið, og þar með leið Tacton útaf. Vegna nafnsins Bláa bandið fengum við lítið að gera og skiptum þá um nafn og kölluðum okkur Dýrlingana og nú var Stefán byrjaður með okkur. Síðan breyttist hljómsveitin smá saman". Þorsteinn bættist við "og síðan Maggi á trommurnar og nýjasta breytingin var svo þegar Jón kom á bassann. Hafði hljómsveitin reyndar fengið heitið Tatarar nokkrum mánuðum áður"
Það var sumarið 1968 sem þeir tóku upp Tatara nafnið. Þeir sem þá skipuðu sveitina voru Árni Blandon, gítar, Stefán Eggertsson, söngur, Þorsteinn Hauksson, orgel, Magnús S. Magnússon, trommur bættist síðan í hópinn og fullskipuð var sveitin þegar Jón Ólafsson, söngvari og bassaleikari úr Zoo gekk til liðs við þá félaga árið 1968.
Þetta voru metnaðarfullir piltar sem æfðu stíft, en komu sjaldan fram opinberlega  og ári síðar eða 1969, um svipað leyti og fyrsta Trúbrots platan kom út sendu Tatarar frá sér sína fyrstu smáskífu sem kom út á merki SG hljómplatna sem eins og kunnugt er var í eigu Svavars Gests. Skífan þótti gefa góð fyrirheit um framhaldið og fékk sveitin nóg að gera og vinsældir hennar jukust til muna. Það var ekki síst fyrir þær vinsældir að sveitin var fengin til að taka við af Óðmönnum haustið 1970 við tónlistarflutningi í Poppleiknum Óla, en Óðmenn héldu þá til Danmerkur til upptöku á tvöfalda albúminu sínu sem m.a. innihélt efni úr poppleiknum.
Danmerkurdvölin olli því að Óðmenn hættu störfum skömmu seinna. Jóhann G. Jóhannsson, bassi og söngur, gekk þá í Tatara og starfaði með þeim þar til sýningum poppleiksins lauk. Á sama tíma hættu Stefán og Árni til að stunda háskólanám og gítarleikarinn Gestur Guðnason tók við af Árna. Hljómsveitin þótti enn framsæknari en áður og hljóðritaði um þessar mundir tvö lög sem komu út á smáskífu 1970. Ekki féll platan í frjóan jarðveg hjá plötukaupendum. Var því brugðið á það ráð að kalla á söngkonuna Janis Carol og hún fengin til starfa í þeirri von að endurheimta fyrri vinsældir og var hljómsveitinni enn á ný spáð miklum frama en fljótlega dró að endalokum Tatara sem hættu áður en árið leið í aldanna skaut.
(Bárður Örn Bárðarson - Tónlist.is)

Til gamans má alveg láta það fljóta með að söngvarinn Stefán Eggertsson sem söng Dimmar rósir með Töturum forðum daga, starfar í dag sem háls, nef og eyrnalæknir í Glæsibæ. Og hann er faðir Ólafs Stefánssonar fyrirliða íslenska landsliðsins í handbolta.
(LRÓ.)

Um vor árið 1972 var hljómsveitin Eik stofnuð og hóf æfingar. Í upphafi voru meðlimir aðeins þrír. Gestur Guðnason - Gítar, Haraldur Þorsteinsson - Bassi, og Ólafur Sigurðsson - trommusett.
Siglfirska gítarhetjan Gestur Guðnason hafði áður leikið með hljómsveitunum Ecco, Stormum og Hrím heima á Siglufirði. Ecco og Stormar voru dæmigerðar "beat" hljómsveitir og léku mikið á dansleikjum þar nyrðra, Stormar áttu góða og eftirminnilega senu í Ríkissjónvarpinu þegar sjónvarpsmenn hljóðrituðu og kvikmynduðu hljómsveitina í góðri sveiflu á bryggjudansleik á Siglufirði og sýnt var að sjálfsögðu í svart/hvítu. Stormar fóru hamförum, söngvari Storma, Theódór Júlíusson sýndi mikil tilþrif í sviðsframkomu og söng af mjög mikilli innlifum. Hrím var meira "heavi" hljómsveit og vann sér það til frægðar að vera kosin "bjartasta vonin" á útihátíð í Húsafellsskógi um Verslunarmannahelgina árið 1969. Hrím var skammlíf hljómsveit og hætti nokkuru síðar.
Þegar Gestur flutti búferlum til Reykjavíkur, þá gekk hann til liðs við hljómsveitina Tatara og tók við gítarleik af Árna Blandon. Í Töturum var bassaleikarinn og söngvarinn Jón "Klettur" Ólafsson. Einnig lék Gestur með Kombói Þórðar Hall. Tatarar með Gest innanborðs leystu hljómsveitina Óðmenn 2 af í Poppleiknum Óla sem sýndur var í Tjarnarbíói, vegna þess að Óðmenn 2 héldu til Danmerkur, nánar tiltekið til Kaupmannahafnar og hljóðrituðu "stóra tvöfalda albúmið" árið 1970, sem var allra fyrsta stóra tvöfalda hljómplata/albúm hljómsveitar hér á landi. Albúmið hét einfaldlega Óðmenn, útgefandi var Fálkinn h.f. Óðmenn 2 hættu starfsemi stuttu síðar. Tatarar ásamt Jóhanni Georg Jóhannssyni úr Óðmönnum 2, kláruðu þær sýningar sem eftir voru af Poppleiknum Óla í Tjarnarbíói.
Tatarar með Gest Guðnason gítarleikara innanborðs, sendu frá sér sína seinni litlu tveggja laga hljómplötu árið 1970. Hljómplatan innihélt lögin Gljúfurbarn og Fimmta boðorðið. Lögin voru mjög þungar og þróaðar lagasmíðar með innihaldsríkum textum, auk mikilla áhrifahljóða. Hljómplatan hlaut misjafnar undirtektir á meðal almennings og þótti ekki mjög hlustunarvæn í Ríkisútvarpinu, en margir tóku hljómplötunni fegins hendi. Útgefandi var S.G hljómplötur h.f. 
Og Gestur lék einnig með Kombói Þórðar Hall. Í Kombói Þórðar Hall voru: Áskell Másson, Egill Eðvarðsson, Ómar Skúlason og Þórður Hall. Gestur Guðnason kom nokkuru síðar til liðs við kombóið. Kombó Þórðar Hall var órafmögnuð spunahljómsveit sem lék á allt sem hægt var að leika á. Kombóið byggði uppákomur sínar upp á frjálsum tónlistarspuna sem gat tekið óvænta stefnu, bæði tónlistarlega og leikrænt séð, engin uppákoma var nákvæmlega eins. Kombó Þórðar Hall var mjög sérstök hljómsveit sem fór óhefðbundnar eigin leiðir í einu og öllu, ferskleiki og frelsi var aðalatriðið í þann stutta tíma sem Kombó Þórðar Hall starfaði. Hljómsveit á borð við Kombó Þórðar Hall hafði aldrei áður heyrst eða sést sem atriði eða upphitun á dansleikjum hér á landi á þessum árum. Þannig að Kombó Þórðar Hall markaði ákveðin tímamót og var tímamótahljómsveit hér á landi, eftir að Kombó Þórðar Hall hætti starfsemi var langt í það að svipuð hljómsveit ætti eftir að koma fram á sviði hér á landi.
(Steinn Skaptason.)

Og þess má geta að Steinn Skaptason er sonur söngvarans og trommuleikarans góðkunna Skapta Ólafssonar og hann heldur úti stórskemmtilegri síðu þar sem hann fer yfir feril margra þekktra Íslendskra hljómsveita.
Slóðin þangað er 
http://steinnskaptason.blog.is/blog/steinnskaptason/ og þar er mikill og góður fróðleikur samankominn fyrir þá sem vilja kynna sér Íslenska rokksögu.
(LRÓ.)


Eik 1972-1978
Haraldur Þorsteinsson - Bassi 1972-1978
Ólafur Sigurðsson - Trommur 1972-1976
Lárus Halldór Grímsson - Hljómborð og flauta 1972-1978
Gestur Guðnason - Gítar 1972-1973
Þorsteinn Magnússon - Gítar 1972-1978
Árni Jónsson Sigurðsson - Söngur 1973-1974
Herbert Guðmundsson - Söngur 1974-1975
Sigurður Kristmann Sigurðsson (Siggi Píka) - Söngur 1975-1976
Ólafur Kolbeinsson - Trommur 1976-1977
Magnús Finnur Jóhannsson - Söngur 1976-1978
Tryggvi Júlíus Hübner - Gítar 1976-1978
Ásgeir Óskarsson - Trommur 1977-1978
Pétur Hjaltested - Hljómborð 1977-1978

Hljómsveitin Eik varð til skömmu fyrir páska árið 1972. Gestur Guðnason sem áður hafði leikið með Töturum, Haraldur Þorsteinsson bassaleikari sem spilað hafði með ýmsum sveitum m.a. Pops, og trommuleikarinn Ólafur Sigurðsson sem komið hafði við í Zoo, Pops og Tilveru, teljast frumstofnendur Eikarinnar. Þeir hófu að æfa saman undir bílaþvottastöðinni í Sigtúni. Um það bil hálfu ári síðar bættist gítarleikarinn Þorsteinn Magnússon í hópinn en hann hafði áður spila með nokkrum líttþekktum bílskúrshljómsveitum. Ári eftir stofnun Eikarinnar kom Lárus Grímsson til leiks með flautuna sína og síðar hljómborðið. Hann hafði áður spilað með Haraldi í hljómsveit sem nefndi sig Litli matjurtargarðurinn.
Þessi liðskipan sat á löngum og þungum djammsessionum og samdi eigið efni og gaf sköpunargleðinni að öllu lausan tauminn. Um tíma æfðu tveir blökkumenn með bandinu og komu þeir meðal annars fram með hljómsveitinni á tónleikum í Klúbbnum sem var veitingastaður við Borgartún. Þar vöktu þeir athygli, voru reyndar púaðir niður ef tveim hálfdrukknum kynþáttafordómabolum og var reyndar vísað úr landi í nokkru síðar. Gestur hætti með Eikinni í kjölfarið en nokkru síðar gekk söngvarinn Árni Sigurðsson í hljómsveitina. Með þessa skipan lék Eikin fram á árið 1974 en aðalvígstöðvar bandsins voru í Tjarnarbúð. Það háði sveitinni verulega að vera aðeins með frumsamið efni á þessum tíma og gerði það Eikinni erfitt um vik hvað peninga fyrir ballspilamennsku varðaði.
Nokkru fyrir áramótin urðu söngvaraskipti þegar Herbert Guðmundsson kom í stað Árna, en dvaldi þó ekki lengi því honum var boðin staða Péturs Kristjánssonar í framlínu rokkhljómsveitarinnar Pelican, þegar sú sveit rak söngvarann og hugði á frægð og frama í útlöndum. Vinsældir sveitarinnar jukust talsvert við þessar mannabreytingar og enn frekar þegar Sigurður Kristmann Sigurðsson bættist í hópinn, áður hafði hann verið með líttþekktum sveitum. Eftir þessar mannabreytingar og liðsflutninga héldu þeir Eikarmenn í hljóðver og tóku upp efni á litla plötu sem gefin var út af Demant útgáfunni. Axel Einarsson, þekktur tónlistarmaður og síðar útgefandi tók að sér umboðsmennsku fyrir Eikina.
Á þessum tíma hafði Eikin sakapað sér orð fyrir frumsamdar lagasmíðar í þungum fönktakti og þótti ein vandaðasta sveitin á markaðnum. Axel bókaði sveitina um land allt. En Eikin gekk ekki sem ballhljómsveit þar sem coverstuðlögin voru ekki fyrir hendi. Því tóku þeir, að áeggjan umboðsmannsins, upp á því að búa til hljómsveitina Deildarbungubræður. Þar rugluðu menn hljóðfærum og var allur mannskapurinn, nema sumir úr sveitinni, nýttur. Bílstjóri Eikarinnar; Bragi var fenginn á bassa,  Þorsteinn trommaði, Lárus og umboðsmaðurinn Axel spiluðu á gítar. Þessi hópur kom fram í pásum hjá Eikinni og gerði þvílíka lukku að Eikin varð aufúsugestur í félagsheimilum landsins ef Deildarbungubræður kæmu með þeim.
Enn urðu mannabreytingar þegar Ólafur trommari lét nafna sínum Kolbeins eftir trommukjuðana. Axel hafði hug á að fá sveitina í að gera LP plötu. Vorið 1976 var Hljóðriti í Hafnarfirði tekinn herskildi af sveitarmeðlimum og aðstandendum. Fyrst var ráðist í að taka upp sólóplötu Axels sem fékk heitið Acting like fool, þá tóku Deildarbungubræður upp fyrri plötu sína Saga til næsta bæjar og loks var plata Eikarinnar, Speglun, sett á band. Plata Deildarbungubræðra fékk ekki háa einkunnir hjá poppskríbentum sem töldu plötuna eina þá lélegustu sem komið hefði út þrátt fyrir stuðið. Plata Eikarinnar innihélt þann anda sem sveitin hafði skapað sér allt frá fyrstu tíð, löng ósungin og þung danstónlist, og virtist hún ganga í tónlistarspegulerantana og varð til þess að Eik var valin hljómsveit ársins af lesendum Dagblaðsins. Þessi niðurstaða kom öllum nokkuð á óvart því flestir höfðu búist við að sjá hljómsveitir eins og Stuðmenn, Ðe lónlý blú bojs eða Paradís með þennan titil. Að auki var svo hljómsveitin valin næst bjartasta vonin, en hljómsveitin Celsíus hreppti þann titil.
Sem Deildarbungubræður seldu þeir fleiri plötur en Eikin sem leiddi til þess að Axel hætti sem umboðsmaður og snéri sér að Deildarbungubræðrum. Í kjölfar þess urðu miklar mannabreytingar á Eikinni. Trommarinn Ásgeir Óskarsson og hljómborðsleikarinn Pétur Hjaltested munstruðu sig inn en báðir höfðu áður verið í Paradís Péturs Kristjánssonar, auk þess sem fyrrum meðlimir Cabaret þeir Tryggvi Hübner á gítar og söngvarinn Finnur Jóhannsson komu inn. Þessir fjórir meðlimir auk Haralds, Lárusar og Þorsteins voru síðar kallaðir stóra Eikin, til aðgreiningar frá upphaflegri liðskipan. Saman tóku þeir félagar upp seinni LP plötu hljómsveitarinnar, Hríslan og straumurinn, ólíkt fyrri plötum sveitarinnar voru lögin nú með íslensku heiti. En að öðru leiti var svipuð uppbygging á plötunni og þeirri fyrri þar sem helmingur laganna var ósunginn. Steinar gaf plötuna út níu mánuðum eftir að fyrri platan hafði komið og bauð árs ábyrgð á plötunni sem þó fáir nýttu sér að gagnrýnendum undanskildum sem hentu gaman að uppátækinu.
Fyrir jólin 1977 var ljóst að áhugi fyrir sveitinni var þverrandi meðal hljómsveitarmeðlima, sem flestir voru komnir til annarra starfa þar sem þessi sjö manna sveit náði ekki að skila þeim tekjum sem þurfti til þess að lifa á spilamennskunni, og var því ákveðið að bera Eikina til grafar.
Í lok aldarinnar blómgaðist hún þó eitt andartak á ný með breyttri liðskipan en markaði þó engin ný spor, hvorki í sögu sveitarinnar né tónlistarsöguna.
(
Bárður Örn Bárðarson - Tónlist.is)

-

Árið 1981 var Birgir Ingimarsson trommari með meiru við nám í Reykjavík. Það var að líða að helgi og Biggi ætlaði sér norður að spila á Hótel Höfn með hljómsveitinni  Miðaldamönnum, en við spiluðum þá saman í þeirri sveit. Hann hitti Gest á röltinu fyrir sunnan skömmu áður en hann lagði af stað og þeir tóku tal saman. Áður en samtalinu lauk spurði Biggi Gest hvort hann væri ekki til í að skreppa norður í heimahagana um helgina og taka með okkur eins og eitt gigg á Höfninni svona til gamans og Gestur var alveg til í það. Þegar Biggi kom norður sagði hann okkur frá samtali sínu við stórgítarleikarann en við tókum fréttunum um það bil hæfilega alvarlega. Á laugardagskvöldinu byrjuðum við að spila á tilsettum tíma og vorum eiginlega búnir að gleyma því sem hafði verið til umræðu, en laust upp úr miðnætti birtist Gestur í andyrinu með gítarinn á bakinu. Það var troðfullt hús og Gestur þurfti að heilsa mörgum og gekk hægt að komast í gegn um salinn áleiðis að senunni. Við fylgdumst með honum mjakast áfram í gegn um salinn, en alltaf þurftu einhverjir sem á vegi hans urðu að eiga við hann orð og hann tók öllum vel. Það leið á dansleikinn og Gestur nálgaðist okkur hægt og hægt, eða eiginlega skref fyrir skref. Þegar komið var að lokalaginu átti Gestur enn fáeina metra ófarna upp að pallinum, en löggan var komin í dyrnar til að gæta þess að allt færi vel fram, ýtrustu reglum væri fylgt í hvívetna og einnig að hætt yrði á tilsettum tíma. Það var ekki fyrr en um það bil stundarfjórðungi eftir að dansleik lauk að Gestur var loksins kominn alla leið til okkar og tilbúinn að tengja hljóðfærið. Það var ekki laust við að við yrðum svolítið vandræðalegir og vissum ekki alveg hvernig bæri að bregðast við, en Gestur hafði fullan skilning á málinu og fannst þetta ekkert stórmál.
(LRÓ.)

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 919
Gestir í dag: 151
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496296
Samtals gestir: 54769
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:24:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni